29.04.1959
Neðri deild: 119. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1522 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér enn einu sinni að vekja athygli á því, hversu framkoma þeirra, sem standa að þessu máli hér á hv. Alþ., er undarleg. Það hefur komið í ljós undanfarið, á meðan málið hefur verið til meðferðar, að þeir vilja alls staðar annars staðar fremur vera en þar, sem þetta mál er til meðferðar. Og yfir höfuð er það þannig um aðalforustumenn málsins, að þegar þeir hafa sézt hér á þessum slóðum, þá hafa þeir farið óðfluga um þingsalinn og ekki verið í rónni, fyrr en þeir voru komnir út.

Á laugardaginn var fór fram umr. talsverð um þetta mál hér í hv. d. Þá átti ég að taka til máls kl. 5 í upphafi fundarins. Þá var enginn staddur hér í d. af forráðamönnum málsins, alls enginn. Og það var ætlunin að halda þannig áfram með málið. Þá óskaði ég eftir því, að hæstv. forseti ætti hlut að því, að forráðamenn málsins yrðu sóttir, og það gerði hann af miklum skörungsskap, gerði hlé, á meðan þeir voru sóttir og halaðir hér inn í þingsalinn, þar sem þeir þó tolldu misjafnlega lengi, að ekki sé meira sagt.

Þegar svo málið var tekið hér aftur fyrir á s.l. mánudag, mun hv. forráðamönnum málsins hafa þótt sem þessi undanbrögð væru orðin nokkuð áberandi og vildu draga af sér slenið nokkuð og komu þá hér þrír í röð og helltu sér yfir okkur, sem höfðum andmælt þessu máli, allt mánudagskvöldið. Eftir það fóru þeir niður og fengu sér kaffi og með því og fóru síðan heim að sofa. En hæstv. forseta var ætlað að halda hér áfram fundi um nóttina með andmælendum málsins einum, og þeim var ætlað að tala hér, án þess að nokkur af stuðningsliði málsins væri viðstaddur nema hæstv. forseti.

Ég fór þess á leit við hæstv. forseta, að hann tæki í taumana um þessa málsmeðferð og frestaði fundinum, þar sem hér væri verið að fara fram á óþinglega aðferð og óhæfu, og varð hæstv. forseti góðfúslega við þeirri ósk og frestaði fundinum og tók málið út af dagskrá, eins og auðvitað sjálfsagt var, þegar svo óvirðulega átti að búa að málinu af hendi þeirra, sem fyrir því standa. — Ég vildi bara benda á þessa meðferð alla saman með fáeinum orðum í upphafi þess, sem ég nú ætla að segja.

Ég hef ekki ástæðu til þess að tala hér langt mál um þetta nú, þar sem ég hef tekið fram flest af því, sem ég hef viljað taka fram til þess að andmæla því, sem hér á að gera. En ég kemst ekki hjá því að svara aðeins örfáum atriðum af því mikla máli, sem formælendur málsins tóku sig til og fluttu á mánudagskvöldið, og mun ég þó fátt eitt rekja af því.

Aðallega var það 1. hv. þm. Reykv. (BBen), sem hafði orð fyrir þessu liði. Raunar færði hann ekki miklar ástæður fyrir réttmæti málsins, en deildi þeim mun meira eða reyndi þeim mun meira, skulum við segja, að deila á andstæðinga þess. Hv. þm. reyndi enn að halda því fram, að stefna Framsfl. í málinu væri óljós. Ég endurtek enn, að ég mótmæli þessu algerlega. Stefna Framsfl. í kjördæmamálinu er sú, eins og flokksþing þess mótaði hana, að byggja á héraðaskipuninni sem aðalatriði í sambandi við kjördæmaskipun landsins, að byggja á einmenningskjördæmum sem aðalreglu, en þó þannig, að þar sem kaupstaðir væru svo stórir, að þeir ættu rétt á fleiri, en einum þm., þá væru þeir ekki bútaðir niður af handahófi í smáhólf, heldur væru þar viðhafðar hlutfallskosningar sem undantekning, — að engin uppbótarsæti væru viðhöfð. Þetta er sú stefna í kjördæmamálinu, sem flokksþing framsóknarmanna mótaði.

Þegar flokksþingið mótaði skýrt þessa stefnu, kom upp óp mikið hjá forráðamönnum þríflokkanna, sem standa að þessu máli, og töldu þessa stefnu óhæfu og bjuggu sig strax undir að segja þjóðinni það, að þeir væru löglega afsakaðir, þó að þeir réðust á héraðakjördæmin og legðu þau niður, þar sem Framsfl. væri ekki til viðtals um neitt, sem nálgaðist nokkurt sjónarmið hinna flokkanna. Þetta sáu framsóknarmenn fyrir fram, og þess vegna var einnig í flokksþingsályktun framsóknarmanna gert ráð fyrir, að miðlunarvegur gæti orðið boðinn fram af flokksins hendi, og það hefur verið gert á hv. Alþ. með brtt. flokksins. En þær eru um það, sem flokkurinn vill til miðlunar. Og hann flytur einmitt fram miðlunartillögur sínar hér á Alþ. í fyrsta lagi vegna þess, að hann veit, hvernig undirtektirnar eru undir hinar tillögurnar, í öðru lagi til þess að sýna, að hann vill allt gera til þess að bjarga héraðakjördæmunum og koma í veg fyrir, að þau verði lögð niður. Þess vegna leggur flokkurinn hér fram miðlunartillögur, réttir út höndina til hinna flokkanna um að gera leiðréttingar í kjördæmamálinu, en að héraðakjördæmin haldist. Og leiðréttingarnar eru fólgnar í því að fjölga kjördæmakjörnum þm., þar sem fólkinu hefur fjölgað mest, eins og tillögurnar greina, en halda þá til samkomulags uppbótarsætunum. Þetta teljum við Framsfl.-menn fullkomlega sanngjarnt samningatilboð eða miðlunartillögu af okkar hendi. En þessu hefur verið illa tekið, sumpart vegna þess, að þeir, sem fyrir þessu máli standa, vilja ekkert annað heyra, en að leggja kjördæmin niður, og sumpart vegna þess, að þeim er illa við það, sem standa fyrir kjördæmamálinu, að það komi svona greinilega fram, að Framsfl. er reiðubúinn til þess að ganga inn á eðlilega málamiðlun, og að þeir hefðu þess vegna enga afsökun í því að ráðast á héraðakjördæmin.

Það er þetta tvennt, sem gerir það að verkum, að hv. 1. þm. Reykv. og aðrir eru sífellt að reyna að stagast á því hér, að það sé ósamræmi í afstöðu Framsfl. í málinu, þótt hún sé hverjum skynsamlega hugsandi manni algerlega augljós, bæði meginstefnan og hvernig unnið er að miðluninni til þess að reyna að fá komið í veg fyrir það versta. — Þetta vil ég aðeins rifja upp hér í lok þessarar umræðu vegna þess, hvað hinir hafa sagt.

Þá sagði hv. 1. þm. Reykv. hér á mánudagskvöldið, að ég hefði sagt, að Sjálfstfl. hefði aldrei átt samtal við Framsfl. um kjördæmamálið. Það er ósatt, að ég hafi nokkurn tíma þetta sagt, en er á hinn bóginn ekkert verri málflutningur af hendi hv. 1. þm. Reykv. en vanalegt er að heyra hér af hans munni, og er sorglegt að þurfa að segja slíkt um jafnmikinn forráðamann í þingflokki og hann er. Þetta sagði ég aldrei, datt ekki í hug að segja það. Það rétta er, að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn áttu samtal um stjórnmálaástandið, eftir að Ólafi Thors hafði verið falið að reyna stjórnarmyndun, og í þeim viðtölum bar kjördæmamálið á góma, og framsóknarmenn sögðu þá í þeim viðtölum, að þeir væru reiðubúnir til samninga um kjördæmamálið til samkomulags á þeim grundvelli að halda héraðakjördæmunum, að þau fengju að standa, en fjölgað yrði kjördæmakjörnum þm. í þéttbýlishéruðunum, og vildu líka vinna það til samkomulags, að uppbótarsætin stæðu.

Hv. þm. sagði hér, að við hefðum ekki haft um þetta skriflegar tillögur, og fjargviðraðist mikið út af því. Slíkt kemur þessu máli ekkert við. Við sögðum þetta alveg ljóst og skýrt. En svörin, sem við fengum frá hv. sjálfstæðismönnum á þessum fundi eða samtali, voru þau, að þeir gætu ekki gengið inn á neina lausn, sem væri byggð á því, að héraðakjördæmin héldu sér, því að þeir teldu þau svo óeðlileg og hættuleg stjórnskipuninni. Það var afstaða mannanna, sem þykjast nú, að því er mér skilst, jafnvel af einhverri slysni hafa lent inn á þessari lausn, sem nú er fyrirhuguð, og fyrir það að framsóknarmenn hafi ekki verið nægilega samningaliðugir um þetta mál.

Þetta vil ég að sé alveg skýrt, og ég mótmæli þeim óhæfilega málflutningi og þeim óhæfilegu frásögnum, sem um þetta eru viðhafðar af hv. sjálfstæðismönnum.

Hv. 1. þm. Reykv. vill ekki viðurkenna trúnaðarbrot sitt gagnvart Alþ. og þjóðinni, sem felst í því, að hann vanrækti að kalla saman stjórnarskrárnefndina, til þess að þar gæti orðið gert út um það, hvað upp skyldi taka í kjördæmamálinu. Honum er þó ómögulegt að finna nokkrar frambærilegar afsakanir fyrir þessu trúnaðarbroti, og það hefur á hann sannazt. Hann er að reyna að halda því fram, að nefndin hafi í raun og veru verið dauð, af því að það hafi vantað í hana einn mann. En jafnframt hefur hv. 1. þm. Reykv. orðið að játa það, að þegar nm. skildu, hafi þeir ákveðið að koma saman, ef einhver nm. óskaði þess. Og hverjum bar fyrst og fremst skylda til þess að óska þess, að nefndin kæmi saman, þegar skriður var sýnilega kominn á stjórnarskrármálið ?

Það ætla ég að hafi verið fyrst og fremst skylda formanns nefndarinnar, hv. 1. þm. Reykv., ef hann vildi meta einhvers trúnaðarstarf það, sem honum hafði verið falið af Alþ. og þjóðinni. Það ætla ég að hafi verið fyrst og fremst hans skylda. En í stað þess að kalla saman stjskrn., lét hann sér sæma að ganga frá samningum um einn meginþáttinn í stjórnskipunarmálinu á leynifundum á bak við nefndina einhvers staðar úti í borginni. Þessi framkoma verður ekki afsökuð með einhverjum hlægilegum tylliástæðum, eins og þeim, að annar eins ákafamaður og hv. 1. þm. Reykv. hefði látið það í vegi standa, að hann kveddi saman nefndina, að í hana vantaði einn mann, þegar hann þá auðvitað vissi, að í það sæti mundi verða fyllt, jafnskjótt og nefndin yrði kölluð saman.

Þá sagði hv. 1. þm. Reykv. á mánudagskvöldið — og gerði sig byrstan í því sambandi, að ég hefði gert mig sekan um þá ósvinnu að byggja málflutning minn á ósannindum og gott, ef hann ekki sagði líka blekkingum, með því að fullyrða, að sjálfstæðismenn hefðu haft engan eða lítinn áhuga fyrir lausn kjördæmamálsins árið 1953, sagði, að þetta væri algerlega rangt, að nokkuð væri til í þessu, og vitnaði til ályktunar landsfundarins í því sambandi. En ég hélt þessu fram vegna þess, að árið 1953 keppti Sjálfstfl. að því fyrir opnum tjöldum að fá hreinan meiri hluta í þinginu á grundvelli þáverandi kjördæmaskipunar og taldi sig hafa miklar líkur til þess. Og til þess að taka af öll tvímæli um þetta, hvort ég hefði farið hér með einhverjar blekkingar eða ósannindi, vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér upp enn málsgr., sem lesin hefur verið upp áður í þessum umr. og er úr forustugrein í blaði hv. 1. þm. Reykv. 23. júní 1953, og þar segir þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„344 atkv. standa í vegi fyrir heilbrigðu, ábyrgu“ — menn taki eftir orðunum — „heilbrigðu, ábyrgu meirihlutastjórnarfari á Íslandi í stað pólitískra hrossakaupa samsteypustjórnanna.“

Það er ekkert verið að skafa utan af því. Þeir gátu í mesta lagi gert sér vonir um 39% atkv., en það stóð bara á þessum 344, það þurfti ekki meiri hluta þjóðarinnar þá að baki meiri hl. á þinginu til þess að gera hann bæði heilbrigðan og ábyrgan. Þetta ætla ég að sýni svo glöggt, að ekki þurfi um að deila, að hv. forustumenn Sjálfstfl. klígjaði ekkert við því að hugsa til þess að fá hreinan meiri hl. á Alþingi, þótt þeir hefðu ekki meiri hl. kjósenda í landinu að baki sér, og voru ákveðnir í því að notfæra sér þann meiri hluta og töldu það bæði heilbrigt og ábyrgt.

Svo kemur hv. 1. þm. Reykv. hér og segir, að það sé ósvinna af mér að halda því fram, að nokkuð slíkt hafi yfir höfuð að þeim hvarflað. Og varðandi áhugann um þessar mundir á því að leysa kjördæmamálið, sem honum finnst líka ósvinna að efast um, þá vil ég vitna líka til þessarar sömu ályktunar, sem hann vitnaði til frá landsfundinum, þar sem ályktuninni er hagað þannig, að Sjálfstfl. vilji annaðhvort einmenningskjördæmi eða fá stór hlutfallskjördæmi. Sem sagt, ályktunin er beinlínis búin þannig út, að flokkurinn hafi enga stefnu í kjördæmamálinu, og hreinlega við það miðuð, að flokkurinn geti farið undan í flæmingi, elns og honum sýnist, hann hafi alls staðar útgöngudyr. Það var hreinlega gert vegna þess, að flokkurinn hafði þá engan áhuga fyrir því að ganga inn á neina hreinlega eða ákveðna lausn í kjördæmamálinu, því að hann ætlaði að reyna til þrautar, hvort það væri ekki hægt að fá hreinan meiri hluta í landinu að óbreyttri kjördæmaskipan.

Ég þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það, hver var áhugi sjálfstæðismanna um þessar mundir. Við vorum þá með þeim í ríkisstjórn og vissum vel, að það hvarflaði aldrei að þeim að minnast á kjördæmamálið, að það væri nokkurt vandamál. En þetta, sem ég er nú að segja og ég sagði með öðrum orðum s.l. mánudag, telur hv. þm. ósannindi og ósvinnu að halda fram.

Þá vil ég þessu næst minna á atriði, sem hér hefur borið á góma og er talsvert þýðingarmikið í þessu máli öllu, og það er þetta, sem menn hafa borið sér í munn, að með þessari nýju skipan kjördæmanna mundi verða minni hætta á því, að beitt yrð í kosningum fyrirtækjavaldi, fjármálavaldi og atvinnuvaldi eða atvinnukúgun. Ég hef haldið því fram, að þetta væri fullkomið öfugmæli, því að reynslan sýndi, að einmitt slíku valdi eins og þessu væri beitt með ótrúlegum árangri mest í stærsta kjördæmi landsins og eina stóra hlutfallskjördæminu, sem við höfum nú, í Reykjavík. Og ég leyfi mér að halda því fram, að Sjálfstfl. skipuleggi þetta starf með vísindalegri nákvæmni á sínum vegum og styðjist í því efni við stórfellt fjármagn og mörg og stór fyrirtæki í höfuðborginni og að á þessum grundvelli sé allur meginþróttur flokksstarfsins byggður. Á þessum grundvelli er sett upp slíkt net í höfuðborginni pólitískra áróðursmanna og gæzlumanna, launaðra og ólaunaðra, að hliðstæða við það er hvergi til í nokkru einasta byggðarlagi á Íslandi, og ég fullyrði, að margir af þeim mönnum, sem núna standa með Sjálfstfl. í því að reka fram þetta kjördæmamál, vita eins vel og betur en ég, að þetta er svona vaxið. Á hinn bóginn er það einn þáttur — ég vil segja nærri því í þeirri vísindalegu nákvæmni, sem svona löguð nýtízku starfsemi er rekin eftir, að saka aðra um að hafa eitthvað hliðstætt eða svipað í frammi, enda sjáum við, að það er ekki sparað af hendi hv. forráðamanna Sjálfstfl. og var óspart á það minnzt hér s.l. mánudagskvöld, og það er liður í þessu starfi að halda því fram, að aðrir flokkar beiti þessum aðferðum. Og í því sambandi eru Framsfl. og kaupfélögin nefnd sí og æ af hendi forráðamanna Sjálfstfl.

Þegar hv. 1. þm. Reykv. minntist á kaupfélögin og Framsfl. og mig sérstaklega í þessu sambandi, þá sagði hann, og það var dæmi, sem hann fann ferlegast um þessar misnotkunar- og kúgunartilraunir, að ég hefði ferðazt víðs vegar um landið og haldið því fram, að það væru svik við samvinnustefnuna, ef menn kysu ekki Framsfl. Þetta væri, sagði hann, eitthvert ferlegasta dæmið, sem til væri, um misnotkun fyrirtækja og þetta væri eins konar kúgunartilraun af minni hendi, að ég hefði látið mér þetta um munn fara. En hvað ætli þessi hv. 1. þm. Reykv. hafi oft og lengi prédikað, að það væru svik við kaupmangsstefnuna, ef menn kysu ekki Sjálfstfl.? Það þætti mér fróðlegt að vita, hversu margar hringferðir um landið hann hefur farið til þess að halda slíku fram.

Hv. 1. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) héldu því fram líka hér í þessum umr., að það væri til vitnis um það, hversu þessar kenningar mínar eða þessi skoðun mín væri mikil fjarstæða, að í stórum kjördæmum reyndi miklu minna á úrslitaatkvæðin, en í héraðakjördæmunum, og líka, að það væru engin tök á því að fylgjast með neinni nákvæmni með alþingiskosningum í stóru kjördæmunum, þess vegna yrðu menn þar miklu lausari við öll afskipti og alla eftirgangsmuni í þessu sambandi. Enginn maður, sem þekkir nokkurn skapaðan hlut til t.d. hér í höfuðborginni, tekur þessar fullyrðingar hv. þm. alvarlega, því að allir vita, að hvergi nokkurs staðar á Íslandi er gengið með eins mikilli hörku og eins mikilli ófyrirleitni í það að fylgjast nákvæmlega með kosningum eins og einmitt í Reykjavík. Og hvergi á landinu er til önnur eins maskína til þess að fylgjast með slíku eins og kosningavél sjálfstæðismanna í Reykjavík, skipuð hundruðum og raunar þúsundum launaðra og ólaunaðra manna, þar sem vörður er haldinn um svo að segja hvert einasta hús, eins og ég sagði hér um daginn og eins og allir vita að er rétt. Og svo koma þessir menn og ætla að fara að segja okkur, að það sé ekki hægt yfir höfuð að fylgjast með neinni nákvæmni eða leggja á neina pressu eða áróður í stórum kjördæmum, það sé ekki hægt að hafa nein slík afskipti. Hvergi þekkist annar eins atgangur og einmitt í þessu stærsta kjördæmi landsins við það að draga alls konar fólk á kjörstaðinn með ólíklegustu aðferðum. Ég upplýsti það hér um daginn, og ég upplýsi það enn, að mér er af sérstökum ástæðum kunnugt um, að hér í borginni voru nú ekki fyrir löngu við kosningar lögð fimm dagsverk í að reyna að fá eina konu til þess að kjósa eins og sjálfstæðismenn vildu. En við mikla leit í einu fyrirtæki fannst bilbugur á þessari konu, og afleiðingarnar urðu þessar.

Svo koma þessir menn og segja, að það sé ekki hægt að vinna með neinni nákvæmni að kosningum í fjölbýlinu, og ef menn bara hætti við héraðakjördæmin, verði þetta allt látið vigta sig, menn verði algerlega frjálsir og geti afskiptalausir myndað sér skoðun.

Þá benti ég á eitt líka, sem er ákaflega stórt atriði í þessu máli og stærra atriði, en ég held nú satt að segja að ýmsir af forráðamönnum málsins, aðrir en sjálfstæðismenn, hafi gert sér fyllilega ljóst. Ég hef rætt um þessar nýju aðfarir allar, varðandi fyrirtæki, fjármagn og atvinnu. En það er fleira, sem er nýtízkulegt um þessar mundir í þessari þjóðmálabaráttu og kosningabaráttu, og það er m.a. sú nýtízkuaðferð að láta sig einu gilda, hvort það, sem haldið er fram, er satt eða logið, bara í trausti þess, að með ógnarlegum blaðakosti og gífurlegum áróðri sé hægt að gera lygina að sannleika. Það sé í raun og veru bara spursmál um vinnu, eins og ég sagði um daginn, það sé í raun og veru bara spursmál um vinnu, hverju hægt sé að fá menn til þess að trúa.

Þetta er sú skoðun, sem liggur að baki þessum málflutningi, og hann er prófaður með svokölluðum gulu sögum, sem eru farnar að verða í tízku, þar sem öllu er hreinlega snúið öfugt. Eitt gleggsta dæmið um þetta eru gulu sögurnar um húsnæðismálin frá síðustu bæjarstjórnarkosningum, þar sem þannig var á málum haldið, að því var haldið fram, að það væri afstaða stjórnarflokkanna þá í húsnæðismálunum, sem þeir nýlega höfðu allir hafnað. Það höfðu komið fram vissar uppástungur innan a.m.k. sumra flokkanna, sem hafði verið algerlega hafnað í flokkunum. En þá var bara sú afstaða búin til fyrir flokkana, að þetta væri það, sem þeir raunverulega vildu og ætluðu að gera. Og þessa lygi var reynt að gera að sannleika með margra vikna rekstri þessarar þokkalegu maskínu. Og það er ekki nokkur einasti vafi á því, að það er traustið á þessi vinnubrögð, sem að verulegu leyti liggur til grundvallar því, að Sjálfstfl. er svona hrifinn allt í einu orðinn af stórum kjördæmum og fáum og mannmörgum, þar sem erfitt er að leiðrétta svona löguð vinnubrögð. Það er ekkert þægilegt að koma svona löguðu við í tiltölulega fámennu byggðarlagi, þar sem menn þekkja frambjóðendurna persónulega og trúa ekki upp á þá slíkum stórlygum. En það er á hinn bóginn e.t.v. hægt að koma slíku til vegar, þegar búið er að setja þetta allt í örfá og stór hólf. Þá njóta þessi vinnubrögð sín fyrst til fulls, svo þokkaleg sem þau eru.

Og hugsið ykkur svo, hvað við heyrum hérna í þingsölunum í þessa sömu átt. Í ræðu sinni á mánudagskvöldið segir hv. 1. þm. Reykv. ykkur það, að ég hafi verið að útbýta hér úr skjóðu minni, þ.e.a.s. tösku minni, sem ég kalla oft í gamni skjóðu, — það tók ég eftir Sveini heitnum í Firði, því að hann kallaði skjalatöskuna sína alltaf skjóðu, — þá segir hann ykkur það hér í þingsalnum, að ég hafi verið að útbýta ræðum um kjördæmamálið úr þessari skjóðu, sem þm. Framsfl. eigi svo að flytja. Þetta segir hv. 1. þm. Reykv. í ræðu hér á þingi. Það getur náttúrlega alltaf komið fyrir, að mönnum verði á svona stráksskapur óviljandi, í einhverju hálfgerðu glensi, og þá er náttúrlega ekki svo mikið við því að segja. Auðvitað veit hv. 1. þm. Reykv., að þetta er hreinn uppspuni frá rótum, sem hann bara býr til á stundinni. Ég rétti einum eða tveimur mönnum blað úr „skjóðunni“, og ég hygg, að það hafi verið afrit af svikaáætlun stjórnarflokkanna í raforkumálinu, sem ég rétti tveimur þm. Framsfl.

Auðvitað veit hv. 1. þm. Reykv. það ákaflega vel, að þetta er allt uppspuni frá rótum. Samt sem áður, eins og ég segi, svona stráksskapur getur hent menn í glensi, jafnvel á hv. Alþingi. En hv. þm. lætur sig hafa það að setja þetta síðan í blaðið sitt. Í hvaða skyni er þetta gert? Jú, það er í sömu stefnu og önnur vinnubrögð í þessu sama húsi. Það er gert í trausti þess, að það kunni kannske að vera eitthvað af fólki til, sem ekkert þekki til þm. Framsfl. og kunni að leggja trúnað á, að þeir séu þannig menn, að það þurfi að búa til fyrir þá ræður og útbýta til þeirra úr skjóðum á Alþingi.

Þetta er bara ofur lítill vottur, í fyrsta lagi um sannleiksást og málflutning þess manns, sem oftast talar hér á Alþingi um getsakir og jafnvel ósannan málflutning annarra manna, enn fremur er þetta líka ofur lítill vottur um það, hvað sami hv. þm. telur sér sæmandi að láta hafa eftir sér sjálfum í blaði sínu. Og þetta er líka ofur lítill vottur um það, upp á hvað mönnum er boðið í trausti þess, að menn þekki ekkert þá menn, sem verið er að tala um. Og það er einmitt einn liður í öllu þessu, sem keppt er að, það er að skapa jarðveg fyrir gulu sögurnar með því að rjúfa kunningsskapartengslin, með því að rjúfa persónutengslin, þannig að það sé auðveldara að fá menn til þess að trúa því, að það, sem er lygi, sé satt.

Ég skal svo ekki þreyta þolinmæði hv. þm. með miklu lengri ræðu, enda hef ég nú svarað þeim atriðum, sem mér fundust vera þýðingarmest í þessari útrás, ef svo mætti kalla það, af hendi hv. forráðamanna málsins. Og ég vil ekki þreyta heldur þolinmæði hæstv. forseta í þessu sambandi á nokkurn hátt, þar sem hann hefur sýnt í þessu máli fulla tillitssemi í garð andmælenda þessa máls á allan hátt. En að lokum vil ég aðeins segja þetta:

Mér sýnist það eftirtektarverðast í þessum umr., hvers oft hefur verið að því vikið, að hér sé aðeins um áfanga að ræða, og ég vil draga athygli að því í lokin.

Loks finnst mér, ekki sízt þegar það er tengt við þetta áfangatal, mjög ískyggilegt, hversu talað er af mikilli fyrirlitningu og jafnvel andúð um héraðaskipunina og sýsluskiptinguna sjálfa í landinu, eins og mýmörg dæmi eru til úr þessum umr., og sýnist mér það alveg eindregið benda í þá átt, hvert halda skal. Sami fyrirlitningar- og andúðartónninn kemur fram í garð allra kenninga um, að það þurfi að taka nokkurt tillit til landsins eða staðhátta í sambandi við kjördæmaskipun þess. Og loks sýnist mér mjög rík ástæða til þess að benda á, hversu mikið hefur borið á þeirri kenningu í þessum umr. öllum saman, að ekkert væri til, sem lítandi væri við, sem endanlegu marki í kjördæmaskipuninni, annað en það, sem tryggði fullan jöfnuð á milli flokka á Alþ, annars vegar og heildarkjósendatölu í landinu hins vegar. En þessi kenning þýðir það hreinlega og ósminkað, að sá aukni réttur, sem fólkinu, sem býr langt í burtu og í strjálbýlinu, er ætlaður núna í þessum áfanga umfram aðra, með því að þar standi færri á bak við hvern þm. en í fjölbýlinu, þetta þýðir, að þessi réttur á að afnemast, þegar þar að kemur. Það má líka orða þetta öðruvísi. Það má orða það þannig, að þeir, sem standa fyrir þessu máli, vilji leyfa mönnum að hafa þennan rétt, ef fólkið úti um landið kýs flokkinn í nákvæmlega sömu hlutföllum og það fólk, sem býr í höfuðborginni. En ef fólkið úti um landsbyggðina leyfir sér að kjósa flokkana í eitthvað öðruvísi hlutföllum en fólkið, sem býr í höfuðborginni, og það í þeim mæli, að uppbótarsætin geti ekki jafnað til fulls á milli flokka, þá er yfir lýst, að það á að taka af þeim það, sem eftir er af þeirri sérstöðu, sem þetta fólk hefur haft í stjórnskipuninni og í bili er látið standa að nokkru leyti í þeirri stjskrbreyt., sem nú á að gera. En ég held því fram, að það, sem hér á að gera, sé jafnóheppilegt og jafnhættulegt fyrir það fólk, sem í þéttbýlinu býr, eins og hitt, sem býr úti um byggðir landsins.