02.05.1959
Efri deild: 111. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1545 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Kjördæmabreyting sú, sem andstöðuflokkar Framsfl. hafa nú stofnað til, hefur vakið meiri ólgu í landinu, en átt hefur sér stað um nokkurt annað mál í langatíð. Mótmæli gegn þessu tilræði við rétt héraðanna hafa borizt hvaðanæva af landinu, eins og mönnum er kunnugt. En á vörum flutningsmanna þessa máls heitir þessi kjördæmabylting samt réttlætismál, og einn flokkur, Sjálfstfl., hefur mikla tilburði í frammi til þess að eigna sér sérstaklega réttlætið í málinu. Það er í þriðja sinn á 26 árum, sem Sjálfstfl. tekur sér fyrir hendur með aðstoð annarra flokka að koma fram réttlætismáli í kjördæmaskipun landsins. Og í öll skiptin hefur hann andstæðinga Framsfl. með sér til að móta og framkvæma réttlætið. 1933 er Alþfl. með Sjálfstfl. í þessu fyrirtæki, 1942 eru bæði Alþfl. og kommúnistar með honum og að þessu sinni Alþfl. og Alþb. Þetta er orðið nokkurs konar hlutafélag á Alþingi, ef um kjördæmabreytingu á að ræða, og þar hefur forustuna og ræður mestu stærsti hluthafinn, Sjálfstfl.

En hvernig stendur á því, að fyrst þessir flokkar komu fram réttlætismáli sínu 1942, þá þurfi þeir að gerbreyta öllu því réttlæti með nýju réttlætismáli nú? Var réttlætismálið 1942 ekkert nema blekking? Eða er réttlætið í kjördæmabyltingunni núna blekking? Það er ekki hægt að flytja tvö réttlætismál um sama efni, sem hvort stríðir gegn öðru, nema annaðhvort þeirra sé blekking, ef þau eru það þá ekki bæði.

Þeir kunna að segja það, forsvarsmenn þessa máls, að vegna fólksflutninga í landinu síðan 1942 sé þessi kjördæmabylting réttlætismál nú. Þeim verður þó ekkert hald í þessari röksemdafærslu, því að hér á hæstv. Alþ. er enginn ágreiningur um fjölgun þingmanna í þéttbýli. Flutningsmenn þessa frv. gera ekki till. um fleiri þm. í þéttbýli, en framsóknarmenn gera í sínum till. Ef þeir ætla að sýna fram á réttlætið í till. sínum vegna fólksflutninganna, þá verða þeir að leita einhverra annarra ráða. Þegar menn berjast fyrir réttlæti, þá hljóta þeir um leið að vera að útrýma einhverju ranglæti. Hvaða ranglæti sögðust sjálfstæðismenn vera að útrýma 1942? Þeir sögðu, að Framsfl. hefði of marga þm., en Sjálfstfl. of fáa, og því væri réttlætismál að taka upp hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum, fjölga um tvo þm. í Reykjavík og gera Siglufjörð að sérstöku kjördæmi. Þarna ætlaði Sjálfstfl. að vinna sex þingsæti af Framsfl. í tvímenningskjördæmunum. Það voru steiktu gæsirnar, sem þeir töluðu um. Og þeir ætluðu sér að vinna tvö þingsætin af þeim þremur, sem bætt var við með þessari stjórnarskrárbreytingu. Hver varð svo árangurinn? Fjölgaði þm. Sjálfstfl. um þessa 8 þá? Nei, það varð ekki. Þeim fjölgaði aðeins um 3, en þm. kommúnista fjölgaði um 67%. Þannig fór um réttlætismálið að því sinni.

Hvernig má það vera, að þannig skuli takast til fyrir flokki, er flytur réttlætismál, mótar það frá byrjun og kemur því heilu í höfn að eigin ósk? Getur það viljað til í annað sinn, að réttlætismál sjálfstæðismanna leiði til andstæðrar niðurstöðu við það, sem þeir segja sjálfir, að það eigi að gera? Getur svo farið, að kjördæmabylting þeirra nú, reynist jafnmikil blekking og hún var 1942? Fer ekki að verða full þörf á því fyrir þjóðina að vara sig á réttlætismálum þeirra sjálfstæðismanna af þessu tagi?

Það var einu sinni maður vestur á fjörðum, sem hafði jafnan frá mörgu að segja, en þótti ekki sem áreiðanlegust heimild. Hann varð þess var, að menn treystu ekki sögusögnum hans, svo að hann tók upp þann hátt að enda allar sögur sínar á þessum orðum: „Þetta er sannleikur.“ Eftir það vöruðu sig allir á honum. Þegar sjálfstæðismenn urðu þess varir 1942, að þjóðin tortryggði röksemdir þeirra í kjördæmamálinu, tóku þeir upp sama hátt og maðurinn fyrir vestan. Þeir hömruðu á slagorðinu „réttlætismál“. Í þessu máli veltur mest á því fyrir þjóðina, að hún geri sér grein fyrir því, svo sem kostur er, hvort hér er réttlætismál á ferðinni eða hvort hér eru hliðstæðar blekkingar viðhafðar og 1942. Til þess verður þjóðin að gera sér ljóst: Í fyrsta lagi, í hverju ágreiningurinn liggur milli flutningsmanna þessa máls annars vegar og framsóknarmanna hins vegar. Í öðru lagi, með hvaða hætti þeir flokkar, sem þetta mál hafa nú tekið upp, hafa fylgt réttlæti og lýðræði hingað til í þessu máli. Í þriðja lagi, hvort þessir sömu flokkar vilja virða meir sjálfsákvörðunarrétt fólksins í kjördæmunum eða flokksræði þeirra sjálfra. Og í fjórða lagi, hvort núverandi kjördæmi og einstakir kjósendur þeirra hafa betri eða verri aðstöðu um gang mála á Alþingi, eftir að búið er að leggja niður núverandi kjördæmi.

Það er ekki neinum vanda bundið fyrir hvern sem er að gera sér grein fyrir, hvað á milli ber í till. þríflokkanna og till. framsóknarmanna í þessu máli. Ég nefni þá fyrst Reykjavík. Þríflokkarnir ætlast til, að þar verði 12 þm. Framsóknarmenn leggja líka til, að Reykjavík hafi 12 þm. Ekki er ágreiningur þarna um tölu þingmanna. Í hinu fyrirhugaða Vesturlandskjördæmi: Borgarfjarðarsýslu, Akranesi, Mýrasýslu, Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu og Dalasýslu — ætlast flm. þessa máls til að verði 5 þm. Framsóknarmenn leggja líka til, að 5 þm. verði á þessu landssvæði. Ekki er heldur ágreiningur þarna um tölu þingmanna. Alveg eins er þessu háttað í fyrirhuguðu kjördæmunum, Vestfjarðakjördæmi, Norðurlandskjördæmi vestra, Norðurlandskjördæmi eystra og Suðurlandskjördæmi, að á hverju þessu landssvæði fyrir sig er sami fjöldi þm. fyrirhugaður í tillögum þríflokkanna og tillögum framsóknarmanna. Það er hið fyrirhugaða Austurlandskjördæmi eitt, sem á að hafa færri þm. en framsóknarmenn leggja til að verði á því landssvæði. Þar eru þríflokkarnir með 5 þm., en framsóknarmenn með 6 í till. sínum. Samkv. þessu vilja flutningsmenn þessa frv., að kjördæmakosnir þingmenn í landinu öllu verði 49, en Framsfl. leggur til, að þeir verði 50. Þetta er þá allur munurinn á tillögum þríflokkanna og framsóknarmanna um tölu kjördæmakosinna þingmanna í landinu. Það munar einum manni. Um uppbótarþingmennina er það að segja, að flm. frv. vilja hafa þá 11, hvort sem nokkur þörf er á uppbótarþm. til jöfnunar milli þingflokka eða ekki. En framsóknarmenn leggja til, að þeir skuli vera allt að 10, og fer þá tala þeirra eftir því, hvort þörf er á þeim til jöfnunar, eins og verið hefur. Flutningsmenn kjördæmafrv. nú vilja því, að 60 þm. verði fyrir landið allt, framsóknarmenn hafa lagt til, að þeir verði allt að 60. Fyrst nokkur munur var á annað borð á þessum tvenns konar till. um þingmannafjölda, gat hann varla verið minni en þetta, enda er það ekki þessi munur, sem veldur þeim átökum, sem nú eru um þetta mál.

En hvað er það þá, sem veldur átökunum? Það er sjálf byltingin í till. þríflokkanna. Það er réttindasviptingin, sem framkvæmd er með því að leggja niður öll hin fornu kjördæmi utan Reykjavíkur. Það er þetta, sem Sjálfstfl. og hjálparflokkum hans er svo mikið hjartans mál, að þeir virða ekki viðlits samkomulagstillögur framsóknarmanna. Og þegar þeir heyra andmælin utan úr kjördæmunum gegn þessu tilræði, þá hrópa þeir bara hærra: „réttlætismál“. Það er eitthvað meira, en lítið innifalið í þessu fyrirkomulagi, stóru hlutfallskjördæmunum, sem þríflokkunum geðjast svo vel að, að þeir skuli leggja þetta ofurkapp á að koma því fram. Það er ekki þingmannafjöldinn í landinu. Um hann má heita samkomulag. Það er ekki þingmannafjöldinn í þéttbýlinu. Um hann er fullt samkomulag. Það er ekki þingmannafjöldinn í hverjum landshluta út af fyrir sig. Um hann má heita samkomulag. Það eru ekki uppbótarsætin, þar munar mjög litlu. En það er afnám kjördæmanna. Það er kjarninn. Það er réttlætismálið. Með hverju rökstyðja þríflokkarnir það, að þessa byltingu þurfi að gera? Þeir rökstyðja það ekki allir á sama veg. En þó er það einna helzt, að Framsfl. hafi fengið svo marga þm. kjörna í einmenningskjördæmum, að það sé í ósamræmi við kjörfylgi hans í landinu.

Hvers vegna hefur Framsfl. unnið sigur í einmenningskjördæmum, fremur en aðrir flokkar? Hvers vegna hefur t.d. Sjálfstfl. ekki unnið sigur í þessum kjördæmum? Hver hefur bannað honum það? Hefur hann ekki sömu aðstöðu til að afla sér fylgis í þessum kjördæmum eins og hver annar flokkur? Á að svipta einmenningskjördæmin tilverurétti sínum af því, að sum þeirra kusu ekki sjálfstæðismann á þing? Það er til önnur aðferð fyrir Sjálfstfl. til að jafna þetta misrétti, sem hann kallar svo. Það er að vinna af meiri heilindum að hagsmunamálum héraðanna á Alþingi, svo að hann hljóti kjörfylgi í þessum kjördæmum og sigrist þannig á framsóknarmönnum. Nei, þetta telja þeir sig ekki geta. Að eiga að vinna þessum kjördæmum meira gagn á Alþingi, en framsóknarmenn gera, það telja þeir sér um megn. Þá velja þeir heldur hina leiðina: að leggja kjördæmin hreinlega niður. Þessi kjördæmabylting er því ótvíræð uppgjöf Sjálfstfl. í því að geta aflað sér viðunandi kjörfylgis í einmenningskjördæmunum á móts við Framsfl.

En er það ekki ósanngirni hjá mér eða öðrum að viðurkenna ekki þetta réttlætismál Sjálfstfl. og hjálparflokka hans? Hefur það nokkurn tíma verið annað, en heilög réttlætiskennd hjá Sjálfstfl., að minni hl. kjósenda fái ekki meiri hl. fulltrúa? Hafa þeir sjálfstæðismenn ekki alltaf og alls staðar reynt að fylgja þessari réttlætisreglu? Hafa þeir nokkurn tíma látið afstöðu til flokka ráða gerðum sínum í þessu réttlætismáli?

1937 myndaði Sjálfstfl. hræðslubandalag með Bændaflokknum til þess að ná meiri hluta á Alþingi í kosningunum þá. Engin von var til þess, að þetta bandalag fengi meiri hl. atkv. í landinu. En þeir ætluðu sér samt að reyna að fá meiri hl. þm. á Alþingi. Í bæjarstjórnarkosningum, bæði í Reykjavík og öðrum bæjarfélögum, hefur Sjálfstfl. þráfaldlega fengið meiri hl. bæjarfulltrúa, en verið í minni hl. meðal kjósenda. Ekki hefur þess orðið vart, að flokkurinn hafi kunnað þessu „réttlæti“ neitt illa. En gleggsta dæmið um afstöðu Sjálfstfl. til réttlætismálsins er frá alþingiskosningunum 1953. Þá fékk Sjálfstfl. 37% af atkvæðamagninu í landinu, en hann fékk kosinn 21 þingmann eða 42.3% af þingmönnum. Nú hafði flokkurinn lengi haldið því fram í áróðri sínum fyrir breyttri kjördæmaskipun, að flokkum bæri þingmannafjöldi í samræmi við atkvæðamagn þeirra við kosningar. En í kosningunum 1953 gerðist það fyrirbæri, að Sjálfstfl. fékk tveimur þm. fleira en honum hefði borið samkvæmt þessari höfðatölureglu flokksins sjálfs. Ekki kvartaði samt flokkurinn undan því, að hann hefði fengið of marga þm. Hins vegar kvartaði hann undan öðru. Hann kvartaði undan því, að hann skyldi ekki hafa fengið 344 atkvæðum fleira í víssum kjördæmum, því að þá hefði hann fengið meiri hl. á Alþingi. Og þeir töldu, sjálfstæðismenn þá, að þjóðinni hefði varla getað hlotnazt meiri hamingja, en ef svo hefði farið. Það var því að dómi sjálfstæðismanna hámark réttlætis í alþingiskosningum, ef þeirra flokkur hefði fengið yfir 50% af þingmönnum út á 37% af atkvæðamagni í landinu.

Þegar þeir sjálfstæðismenn þóttust sjá fram á það 1953, að þeir gætu e.t.v. náð þessari tegund „réttlætis“ í kosningum að óbreyttri kjördæmaskipun með örfárra atkv. viðbót í víssum kjördæmum, þá var það, sem formaður stjórnarskrárnefndar, hv. 1. þm. Reykv., Bjarni Benediktsson, var ekki lengi að snúa við blaðinu. Hann lét stjskrn. hætta störfum, en hóf undirbúning að þessu marki. Þar með var fengin skýringin á því, hvers vegna stjskrn. hætti störfum einmitt á árinu 1953.

Enginn íslenzkur stjórnmálaflokkur hefur eins oft talað um lýðræði og Sjálfstfl., enginn flokkur talað eins oft um réttlæti og jafnrétti og hann. En þegar hefur átt að framkvæma þetta lýðræði, þetta réttlæti og jafnrétti, þá hefur útkoman viljað verða hjá þessum flokki lík því, sem hún varð í málflutningnum eftir kosningarnar 1953.

Þegar þessi flokkur talar um réttlætismál og jafnrétti kjósenda, þá meinar hann 37% réttlætið frá 1953 og bæjarstjórnarjafnréttið, bæði í Reykjavík og annars staðar, sem ríkt hefur stundum áratugum saman, ef það hefur verið honum í hag. Forsvarsmenn þessarar kjördæmabyltingar leggja sig mjög fram um að sýna réttlætið í hlutfallskosningum í stórum kjördæmum. Þeir hafa verið minntir á, að ekki eru hlutfallskosningar í ýmsum almennum félagssamtökum manna, bæði innanlands og utan, ekki í verkalýðsfélögum, ekki í kosningum til sýslunefnda, meira að segja eru ekki hlutfallskosningar til Sameinuðu þjóðanna. Það hefur orðið lítið um svör við þessu, en þó hefur aðalritstjóri Morgunblaðsins, hv. 1. þm. Reykv., reynt að svara þessu um Sameinuðu þjóðirnar í Mbl. 12. apríl. Þar segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Tal um styrkleika Sameinuðu þjóðanna minnir á þessa fjarstæðu um fornhelgi kjördæmanna. Fundir Sameinuðu þjóðanna eru að vísu góðra gjalda verðir, en styrkleikanum hefur þar ekki verið fyrir að fara, sbr. örlög Ungverja og Tíbetbúa nú.“

Á þessu er auðséð, að Sameinuðu þjóðirnar eiga ekki sérstaklega upp á pallborðið hjá þessum hv. þm. Þær hafa ekki einu sinni vit á að koma á hjá sér hlutfallskosningu! Þær hafa ekki enn þá komið auga á réttlætismálið. Hitt er svo annað mál, sem helzt má skilja á þessum orðum hv. þm., að því leyti sem hægt er að skilja þau, hvort hlutfallskosningar á fulltrúum til Sameinuðu þjóðanna hefðu komið í veg fyrir atburðina í Ungverjalandi og Tíbet.

En þessi forustumaður Sjálfstfl. í kjördæmamálinu nú, hv. 1. þm. Reykv., hefur ekki alltaf verið samkvæmur sjálfum sér í rökstuðningi sínum fyrir réttlæti hlutfallskosninga í stórum kjördæmum. Í stjórnarskrárn. lagði hann fram till. um, að landinu skyldi skipt upp í einmenningskjördæmi. Það hefði óneitanlega verið nokkur búhnykkur fyrir Sjálfstfl. að skipta Reykjavík upp í einmenningskjördæmi, t.d. 17, eins og þá var orðað, því að þá hefði þessi flokkur getað fengið alla þm. og það jafnvel, þótt hann hefði verið í minni hl. meðal kjósendanna í bænum. Þetta var stór hugsjón! Þetta var mikið réttlætismál þá! Nú er það hins vegar réttlætismál þessa sama flokks og forustumanna hans að afnema öll einmenningskjördæmi, af því að þau séu svo ranglát.

Hv. 2. þm. Skagf. var einn af ræðumönnum Sjálfstfl. við útvarpsumr. í Nd. um þetta mál. Ræða hans var málefnaleg. Hann var sá eini ræðumanna Sjálfstfl. í útvarpsumr., er leitaðist við að rökstyðja kjördæmamálið. Hann hefur að sjálfsögðu verið til þess kjörinn af flokknum. Málflutningur hans er því málflutningur Sjálfstfl., enda var ræða hans birt í Morgunbl. Það er því skylt að athuga sérstaklega ræðu hv. 2. þm. Skagf., og mun ég drepa á nokkur helztu atriðin, sem mér finnst vera þar athyglisverð.

Hv. 2. þm. Skagf. kvartar mjög undan því, að Framsfl. hafi ekki fyrir löngu gengið til samninga við fulltrúa þéttbýlisins til þess að tryggja rétt sveitanna, meðan þar bjó fleira fólk og samningsaðstaðan var því sterkari. Um þetta sagði þessi hv. þm. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er engu líkara en að forustumenn Framsfl. hafi stöðugt verið að bíða eftir, að samningsaðstaðan við fulltrúa þéttbýlisins yrði sem allra verst fyrir sveitirnar, og nú vilja þeir bíða enn til 1960 eða hver veit hvað.“

Hverjir voru þessir fulltrúar þéttbýlisins, er þurfti að ná samningum við fyrir sveitirnar? Hverjir eru það, sem nú eru orðnir hálfu verri í samningum við sveitirnar, af því að sveitafólki hefur fækkað? Eru það ekki fyrst og fremst sjálfstæðismenn, flokksfélagar hv. 2. þm. Skagf., og þar á meðal hann sjálfur, þessir fulltrúar þéttbýlisins? Og hann telur, að samningsaðstaðan sé nú orðin sú versta, sem hún hefur orðið. Þegar komin er ríkisstj., sem Sjálfstfl. styður og ber ábyrgð á og hefur það aðalhlutverk að leysa kjördæmamálið samkv. kröfu Sjálfstfl., þá er samningsaðstaðan orðin sú versta fyrir sveitirnar. Þetta er ekki lítilsverð játning.

Hv. 2. þm. Skagf. gerir mjög mikið úr þeirri hörku, er eigi sér stað í kosningum í einmenningskjördæmum, gagnstætt því, er sé í stórum kjördæmum með hlutfallskosningum. Í hvaða einmenningskjördæmum ætli það hafi átt sér stað, að komið hafi verið níu sinnum yfir kjördaginn heim á heimili kjósanda, sem ætlaði sér ekki að kjósa, til þess að fá hann á kjörstað? Þetta hefur gerzt í Reykjavík. Í hvaða einmenningskjördæmi hefur sjúklingur verið fluttur í sjúkrarúmi á kjörstað? Þetta hefur oft gerzt í Reykjavík. Í hvaða einmenningskjördæmi hefur vanheill kjósandi hreinlega dáið við dyr kjörklefans? Þetta hefur gerzt í Reykjavík. Og má nærri geta, hvort slíkt getur ekki stafað af því, hversu hart er gengið að fólki að sækja kjörfund. Þessi sýnishorn af því, sem gerist á kjördegi í stóru kjördæmi, benda til þess, að kosningahitinn og harkan á undan kjördegi muni vera nokkur. Þó segir þessi aðalmálsvari Sjálfstfl. í þessu máli í hv. Nd. við útvarpsumræðurnar, að harkan muni vera minni í stóru kjördæmi en litlu.

Hv. 2. þm. Skagf. segir í þessari ræðu sinni, að hætt sé við, að harkan í einmenningskjördæmi verði svo mikil, að öllum vopnum sé beitt til þess að ná síðustu vafaatkvæðunum. Hann telur hins vegar ekki hættu á þessu í stórum kjördæmum með hlutfallskosningum. Ég hef nefnt hér dæmi. Hvernig má það vera, að síðustu atkv. í einmenningskjördæmi séu eftirsóknarverðar,en síðustu atkv. í stórum kjördæmum með hlutfallskosningum? Er ekki öllum það ljóst, að úrslit kosninga geta oltið á einu atkvæði, jafnt í stóru kjördæmi sem litlu? Það er því merkilegra að heyra þetta frá þessum hv. þm., að ætla mætti, að hann myndi, hvað gerðist í Skagafirði einu sinni. Þá urðu jöfn atkv. þar hjá tveimur frambjóðendum, svo að hlutkesti skar úr. Þetta var ekki sérstaklega lítið kjördæmi, þvert á móti eitt af þeim stærstu þá í landinu, og þetta var ekki einmenningskjördæmi. Og hvað hefur gerzt í Reykjavík? Hefur ekki fólkið verið rifið upp úr svefni og keyrt á kjörstað til þess að ná síðustu vafaatkvæðunum, eins og þessi hv. þm. orðar það? Hvenær hefur það gerzt í einmenningskjördæmunum?

Hv. 2. þm. Skagf. segir í þessari ræðu sinni, að í stórum kjördæmum hafi héruðin miklu sterkari aðstöðu til að koma fram áhugamálum sínum, þetta sé vegna þess, að þar verði þingmenn úr fleiri, en einum flokki, en ef þingmaður sé einn fyrir kjördæmið og lendi í stjórnarandstöðu, séu dæmi til þess, að kjördæmi hans sé látið gjalda þess hjá stjórnarflokknum, svo að þm. komi engu máli fram á Alþingi fyrir sitt kjördæmi. Þessi hv. þm. talar um refsingar af þessu tagi, sem hann þekki af 17 ára þingmannsreynslu.

Mér þykja þessar staðhæfingar hinar furðulegustu. Ég get að vísu ekki dæmt um, hvort slíkum refsiaðgerðum hefur nokkurn tíma verið beitt eða ekki. En þau ár, sem ég hef setið á þingi, hef ég ekki séð örla á slíkum vinnubrögðum, og hef ég þó verið í stjórnaraðstöðu og stjórnarandstöðu. Eða hvaða dæmi ætli sé hægt að nefna um það hér á landi, að þm. í einmenningskjördæmi hafi engu máli komið fram á Alþingi af þessum ástæðum? Er það trúleg saga, að nokkrum stjórnarflokki þætti sér henta það að ætla að svelta þannig kjósendur í einhverju kjördæmi til fylgis við sig, eða hvaða líkur eru til þess, að kjósendur mundu snúast til fylgis við slíkan flokk, því að allir flokkar vilja ávinna sér traust kjósenda? Mér finnst þessi fullyrðing hv. 2. þm. Skagf. eitt hið fjarstæðukenndasta í ræðu hans.

Ég vil minna á störf hv. fjvn. Alþingis. Sú n. fer með einhver hin allra þýðingarmestu mál og þá ekki sízt hin viðkvæmustu hagsmunamál hinna einstöku kjördæma. Þessi n. fær til meðferðar óskir og margs konar erindi frá hverjum einasta alþm. og meira og minna brennandi hagsmunamál hvers einasta kjördæmis. Ef stjórnarflokkur hugsar sér að beita eitthvert kjördæmi þeim fantabrögðum, er hv. 2. þm. Skagf. talar um, þá er sannarlega tækifæri til þess innan fjvn. Ég vil því spyrja: Hvenær hefur það komið fyrir, að þm. einmenningskjördæmis hafi ekki komið fram einu einasta máli í þessari n. eða á Alþ. yfirleitt? Hver vill taka að sér að nefna dæmi um það?

Þá segir hv. 2. þm. Skagf. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Því er mjög haldið á lofti af framsóknarmönnum, að með hlutfallskosningum í stórum kjördæmum rofni núverandi persónutengsl milli kjósenda og þingmanna þeirra, þ.e. samflokksmanna þingmannsins í kjördæminu. En hvað um þann fjölda kjósenda, sem telur sig ekki eiga neinn þm. í sínu kjördæmi, heldur andstæðing, sem hann væntir einskis af og sízt til góðs fyrir sig og sín málefni?“

Ég vil benda á, að þessi klausa úr ræðu hv. 2. þm. Skagf. lýsir ekki aðeins hugsunarhætti hans, heldur talar hann hér fyrir flokk sinn, Sjálfstfl., og túlkar þann hugsunarhátt, sem þar ræður ríkjum.

Ætli einhverjum ofbjóði ekki það hyldýpi flokksofstækis, sem lýsir sér í þessum orðum hv. 2. þm. Skagf.? Samkv. þessu ættu framsóknarmenn t.d. á Snæfellsnesi að líta svo á, að þeir eigi engan þm., heldur andstæðing, sem þeir vænti einskis af nema ills eins fyrir sig og sín málefni. Þannig ættu þá framsóknarmenn að líta á hv. þm. N-Ísf., hv. þm. V-Sk. og hv. þm. Vestm., svo að ég nefni dæmi. Þetta gefur til kynna, hvernig Sjálfstfl. ætlast til, að flokksmenn hans líti á þá framsóknarþingmenn, sem sæti eiga á Alþ. fyrir einmenningskjördæmi. Þótt þessi kenning sé forustuliði sjálfstæðismanna í Morgunblaðshöllinni lögmál, er þeir heimta að liðsmenn þeirra brjóti ekki, þá hafa þeir ekki enn þá fengið liðsmenn sína úti um land til að trúa á þessa kenningu, hvað þá fylgismenn annarra flokka. Ég hef aldrei haft spurnir af alþm., sem hefur ekki reynt að beita sér fyrir hagsmunamálum síns kjördæmis, hverjir sem nytu góðs af framgangi þeirra mála innan kjördæmisins. Hitt er svo aftur á móti nokkurs konar gestaþraut, hvernig t.d. sjálfstæðisþm. í einmenningskjördæmi getur komið fram hagsmunamáli kjördæmisins á Alþingi án þess, að nokkrir andstæðingar hans í kjördæminu njóti góðs af því. En þetta yrði hann að gera, ef nokkur heil brú væri í þessum málflutningi þeirra sjálfstæðismanna. Það er furðulegt, að gamall og reyndur hv. þm. skuli halda því fram fyrir hönd síns flokks, að andstæðingar þm. í einmenningskjördæmi telji sig engan þm. eiga, heldur andstæðing, sem þeir vænti einskis af og sízt til góðs fyrir sig og sín málefni. Svo á þetta að vera rökstuðningur fyrir því, að leggja verði niður öll einmenningskjördæmi í landinu.

En svo slær í baksegl, sem kallað er, hjá þessum hv. málflutningsmanni Sjálfstfl., og það var varla við öðru að búast. Í ræðu sinni segir hann m.a. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Vafalaust þykir ýmsum kjósendum Sjálfstfl. og fleirum í einmenningskjördæmum, sem lengi hafa haft samflokksmann fyrir þm., súrt í broti að geta ekki haft þm. áfram einir út af fyrir sig.“Ósjálfrátt hrekkur það úr penna þessa hv. þm., þegar hann semur þessa ræðu, að kjósendum í einmenningskjördæmi muni vafalaust þykja súrt í broti að geta ekki haft þm. út af fyrir sig, og það er einn af forvígismönnum þeirra sjálfstæðismanna í því að leggja niður öll einmenningskjördæmin, sem segir þetta. Hann segir blátt áfram, að sjálfstæðismönnum muni vafalaust þykja súrt í broti hans eigið athæfi og flokksmanna hans. Hann hefur hins vegar minni áhyggjur af því, þótt öðrum en sjálfstæðismönnum þyki súrt í broti, en hann nefnir það þó, að svo muni fleirum þykja. En hv. þm. hefur sín huggunarorð að mæla til þessara óánægðu kjósenda. Hann segir: Þeir, sem þannig hugsa, hafa ekki komizt í þá raun að hafa andstæðing fyrir þm., t.d. mann, sem þeir hafa ekki getað trúað, sem þeir hafa ekki getað snúið sér til og hefur af ráðnum hug unnið gegn pólitískum hagsmunamálum þeirra. Skyldi þessi hugleiðing vera ætluð íhaldsandstæðingum í þeim kjördæmum, sem ég nefndi áðan?

En ef þetta er rétt hjá þessum hv. þm., þessum forustumanni Sjálfstfl. í kjördæmamálinu, að þingmenn í einmenningskjördæmi séu allir þessir fantar, eins og hann lýsir þeim, geta þeir þá ekki þjónað þessu innræti sínu alveg eins, þótt þeir séu kosnir í stóru kjördæmi með hlutfallskosningum? Hv. þm. vikur að því í þessari sömu ræðu, að hann hafi orðið þess var, að menn búist við, að afskekktar sveitir og sýslur verði útundan og afræktar, þegar stóru kjördæmin eru komin til. Var það furða, þótt hv. þm. yrði þessarar skoðunar var? En hann hefur svar við þessu. Ef einhver einn af hinum 5–6 þm. stóra kjördæmisins verður þess var, að hinir 4–5 ætli að vanrækja einhverja sveit eða sýslu í kjördæminu, þá hlýtur hann að nota tækifærið og leggja rækt við þetta fólk til að afla sér kjörfylgis. Það er eins og hv. þm. hugsi sér þetta líkt og kindur við jötu. Ef ein kindin afézt, þá kannske hún vilji það, sem hinar skildu eftir. Ef einn þm. af 5 í stóru kjördæmi nýtur sín ekki á Alþingi fyrir ofríki þeirra, er aðalfylgið hafa innan þéttbýlisins í kjördæminu, þá kannske hann vilji fara að sinna málum hinna afskekktari sveita eða sýsluhéraða, sem hinir hirtu ekki um. Ef einhver þm. flyti inn á þing þannig á kjörfylgi í afskekktustu byggðarlögum kjördæmisins, gæti þá ekki komið til framkvæmda þessi flokksregla, sem hv. 2. þm. Skagf. hefur túlkað svo mjög í ræðu sinni, að slíkur maður kæmi ekki máli fram á Alþingi fyrir ofríki hinna, er höfðu aðalfylgið þar, sem flest var fólkið í þéttbýlinu? Hitt hleypur svo þessi hv. þm. alveg yfir, að allir frambjóðendur í stóru kjördæmi leggi höfuðáherzlu á að afla sér kjörfylgis þar, sem flest fólkið býr innan kjördæmisins, af því að þar er mest að vinna, og þess vegna verði dreifbýlið útundan. Það er ekki sízt þetta, sem fólkið í einmenningskjördæmunum sér og skilur að verður afleiðing kjördæmabyltingarinnar. Og þetta skilur hv. 2. þm. Skagf., það getur ekki farið hjá því, enda er hann ekki alveg áhyggjulaus í þessu efni. Ef út af kann að bera með umhyggju þm. í stóru kjördæmi fyrir áhugamálum afskekktari byggða eða sýslufélaga, þá hefur hann ráð að kenna mönnum. Hann segir orðrétt í ræðu sinni, með leyfi hæstv. forseta:

„Loks hafa jafnvel lítil byggðarlög handhægt og áhrifamikið ráð, sem ég veit til, að hefur verið beitt til að koma fram áhugamáli, sem fulltrúum byggðarlags þótti hafa dregizt um of. En það var að mynda almenn samtök og tilkynna þeim frambjóðendum, er mest áttu í hættu, að enginn kæmi þaðan á kjörstað, nema þeir skuldbyndu sig til að koma því fram, er þeir kröfðust.“

Hvað er það, sem raunverulega felst í þessari ráðleggingu hv. 2. þm. Skagf.? Það er einfaldlega þetta: Það er viðbúið, að afskekktari byggðarlög í stóru kjördæmi verði vanrækt, en þá skuluð þið, kjósendur góðir, hafa mín ráð, tilkynnið þið frambjóðendum, að þið ætlið ekki að kjósa, nema þið fáið ykkar mál fram. Farið þið bara í verkfall. Notfærið ykkur kosti einmenningskjördæmisins að standa sér til þess að reyna að knýja fram ykkar mál, þegar þið eruð orðnir aðeins brot úr stóru kjördæmi. Og ef svo kynni að fara, að ykkar mál stríði gegn hagsmunum annars héraðs í kjördæminu, svo að engir frambjóðendur þori að lofa ykkur fylgi í málum, þá sitjið þið bara heima, kjósið ekkert, gerið verkfall.

Þetta var ráðið, að afsala sér kosningarréttinum, þessum þýðingarmikla rétti í lýðfrjálsu landi, sem er grundvöllur lýðræðis og þingræðis. Og hv. 2. þm. Skagf. gerir ráð fyrir því, að til slíkra örþrifaráða þurfi menn að grípa í afskekktari héruðum, því að annars væri hann ekki að kenna mönnum þetta ráð.

Þá talar hv. 2. þm. Skagf. um það í þessari ræðu, að til framboðs í einmenningskjördæmin séu menn iðulega sóttir til Reykjavíkur, en með hlutfallskosningu í stórum kjördæmum muni þetta breytast, þá verði hægt að hafa frambjóðendur úr héraðinu neðar á framboðslistanum. Eftir þessu að dæma telur hv. þm. mjög hæpið fyrir heimamann í einmenningskjördæmi að vera þar í framboði, sennilega af því, að hann verði að standa einn fyrir sínu máli, og í stóru kjördæmi með hlutfallskosningum verði líka þaulvanur stjórnmálamaður að verða efstur á lista, þó að hann sé úr Reykjavík, en heimamenn geti komið neðar á listunum. Ekki veit ég, hvort á að taka þetta sem einhverja vísbendingu um það, hvernig Sjálfstfl. muni raða mönnum á framboðslista sína í hinum væntanlegu stóru kjördæmum. En hitt verð ég að segja, að þarna er heimamönnunum ekki ætlaður of stór hluturinn.

Eins og ég hef drepið á, telur hv. 2. þm. Skagf. ekki mikils virði hin persónulegu tengsl milli þm. og kjósenda í einmenningskjördæmum. En aðrir hv. þm. Sjálfstfl. hafa hins vegar talað um, að samgöngur séu nú orðnar svo góðar í landinu, að þessi tengsl geti haldizt, þótt stóru kjördæmin komi til. Í þessu efni vil ég nefna Barðastrandarsýslu, því að þar er ég kunnugastur. Um 20–30 ára skeið hafa þingmenn þessa kjördæmis haft sérstaklega náin tengsl við kjósendurna þar. Þó er þessi sýsla einhver hin erfiðasta yfirferðar í landinu. Hún er meira og minna sundurskorin af 15 fjörðum. Til þess að komast í allar byggðir sýslunnar er yfir 11 fjallgarða að fara, en þar að auki er eitt sveitarfélagið í eyjum á Breiðafirði. Allir þjóðvegir sýslunnar milli héraða eru lokaðir frá hausti til vors. Þrátt fyrir allt þetta hafa þm. þessa kjördæmis lagt á sig að hafa samband við kjósendur með því að halda landsmálafundi í hverju einasta sveitarfélagi á hverju ári. Þeir hafa auk þess lagt leið sína á svo að segja hvert sveitarheimili sýslunnar einu sinni til tvisvar á hverju kjörtímabili. Hvernig verður svo aðstaðan fyrir þingmenn hins væntanlega Vestfjarðakjördæmis að halda uppi svona nánum tengslum við kjósendur í hinu stóra kjördæmi? Auðvitað er það með öllu útilokað. Svipaða sögu er að segja um önnur sýslufélög á Vestfjörðum. Tengslin milli kjósenda og þingmanna eru að miklu leyti úr sögunni með þessari kjördæmabreytingu. Og þetta hlýtur líka að vera einn megintilgangurinn með kjördæmabyltingunni, að draga sem mest úr áhrifum einstakra byggðarlaga á gang mála á Alþingi, að minnka áhrif dreifbýlis til hagsbóta fyrir þéttbýlið, að koma sem mest í veg fyrir það, sem forsvarsmenn þessa máls kalla hreppapólitík, þ.e. að einstakir kjósendur, einstök byggðarlög og jafnvel einstök sýslufélög geti beitt áhrifum sínum á gang mála með beinum og nánum tengslum við þingmann sinn. Þessu á að ná með nógu stórum kjördæmum, sem enginn einstakur þm. nær yfir til náinna kynna við kjósendurna. Fyrir 17 árum sóru þeir flokkar fyrir það, sem nú beita sér fyrir þessari byltingu, að slíkt tilræði yrði framið við byggðir þessa lands, en nú eru þeir samt að framkvæma það og kalla það réttlætismál. Eftir hæfilegan tíma er þessum flokkum, fyllilega til þess trúandi að segja sem svo: Þessi átta stóru kjördæmi hafa ekki náð tilgangi sínum. Þau eru svo misstór, að ekki er við það unandi. Það eru svo miklu færri kjósendur á bak við hvern þm. í einu þeirra á móts við annað, að þessu verður að breyta. Það er réttlætismál að gera landið allt að einu kjördæmi. Það er líka svo mikill munur á því fyrir kjósendurna í landinu að geta snúið sér til 60 þm. með erindi sín, í staðinn fyrir 5–6. Þeir, sem ekki vilja fylgja því réttlætismáli að gera landið allt að einu kjördæmi, eru að halda í ranglætið. Þessi þróun málanna er beint og eðlilegt áframhald af því, sem nú er verið að gera.

Þess hefur gætt hjá þeim flokkum, sem flytja þetta mál, að ein af ástæðunum fyrir því, að breyta þurfi kjördæmaskipuninni, sé kosningabandalag það, sem Framsfl. og Alþfl. höfðu í síðustu kosningum. Sjálfstfl. og Alþb. hafa lagt nokkra áherzlu á þetta atriði. Alþfl. hefur hins vegar haldið þessu minna á lofti. Ekki hefur hann þó mér vitanlega mótmælt þessum málflutningi félaga sinna. Það er því vel hugsanlegt, að hann sé sama sinnis og þeir í þessu efni, en hafi bara ekki talið sig hafa efni á að vera að hafa hátt um það, því að þá væri svo nærri höggvið honum sjálfum. Eitt er þó a.m.k. víst í þessu máli, að þeir forustumenn Alþfl., sem beittu sér fyrir þeirri byltingu í kjördæmamálinu í fyrrasumar með blaðaskrifum og á mannfundum, sem nú er verið að framkvæma, það eru sömu forustumennirnir er mynduðu bandalagið með Sjálfstfl. í verkalýðsfélögunum í Reykjavík til þess að grafa undan ríkisstjórn vinstri flokkanna. Einn höfuðforingi Alþfl. í þessu fyrirtæki var herra Jón P. Emils lögfræðingur, er skrifaði greinar í Alþýðublaðið í fyrra um fá og stór kjördæmi með hlutfallskosningum og hélt svo stóra ræðu um málið á stúdentafundi í vetur, er síðan var útvarpað. Í þessari ræðu fléttar hann saman tvö höfuðviðfangsefni Alþfl., er flokknum beri að leggja megináherzlu á. Annað þeirra er kjördæmabyltingin, sem nú er verið að koma á. Hitt er það, að Alþfl. og Sjálfstfl. hafi með sér varanlegt bandalag.

Að þessum tveimur stefnumálum Alþfl. hefur þessi foringi flokksins unnið árum saman ásamt mörgum öðrum flokksforingjum í Reykjavík utan þings. Og herra Jón P. Emils fór ekki í neina launkofa með skoðanir sínar í stóru ræðunni á stúdentafundinum. Hann vissi sig vera að bera merki flokksins hátt og glæsilega frammi fyrir þjóðinni í ræðu, sem fyrir fram var ákveðið að útvarpa. Um samstarf Alþfl. og Sjálfstfl. fórust honum m.a. þannig orð í þessari ræðu:

„Hygg ég, að fylgismenn annarra flokka eigi ekki betri samstöðu, en Alþfl. og Sjálfstfl. Þeir hafa haft samstöðu í verkalýðsfélögunum, og það er annars reikningsdæmi, hver áhrif Alþfl. væru í þessum félögum, ef ekki hefði notið við hins heilladrjúga samstarfs við Sjálfstfl. Samvinna þessara flokka hefur verið hin ákjósanlegasta. Þar mætast heilbrigðustu öfl þjóðfélagsins.“

Þetta voru orð þessa foringja Alþfl. Nú virðast allar vonir herra Jóns P. Emils og félaga hans í þessum málum vera að rætast. Hið heilladrjúga samstarf við Sjálfstfl. í verkalýðsfélögunum virðist hafa borið þann árangur, er til var ætlazt. Samvinna þessara flokka um lausn kjördæmamálsins hefur reynzt hin ákjósanlegasta. Heilbrigðustu öfl þjóðfélagsins hafa náð að vinna saman. Það er eitt og aðeins eitt, sem ekki er fengin full víssa um enn þá. Það er það, hvort hin heilladrjúga samvinna Alþfl. og Sjálfstfl. getur orðið nógu langvarandi, hvort þessi heilbrigðustu öfl þjóðfélagsins bera gæfu til að vinna saman í framtíðinni með jafnmiklum árangri og í fyrrasumar í verkalýðsfélögunum. Það eru óneitanlega nokkrar líkur til, að þetta geti orðið, ef Alþfl. reynist trúr í samstarfinu og stendur heill og óskiptur við gerða samninga, ef hann ætlar samstarfsflokknum áhrifavald innan verkalýðshreyfingarinnar, eins og hann nú vill tryggja honum með hlutfallskosningum í stórum kjördæmum á móts við Alþfl., og ef hann heldur yfirleitt ekki allt of fast við kennisetningar verkalýðsflokks, heldur tekur fullt tillit til hagsmuna atvinnurekenda og fésýslumanna og skilur þýðingu hins heilladrjúga samstarfs þessara heilbrigðustu afla þjóðfélagsins, eins og þessi forustumaður orðar það.