25.11.1958
Efri deild: 26. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í B-deild Alþingistíðinda. (123)

55. mál, útflutningssjóður o. fl.

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Þegar frv. til l. um breyt. á l. nr. 33 frá 1958, um útflutningssjóð o.fl., var til 2. umr, í þessari hv. d. á s.l. vori, eftir að frv. hafði farið í gegnum Nd., gaf ég svo hljóðandi yfirlýsingu hér í deildinni:

„Ég hef verið að því spurður utan funda af hv. 1. minni hl. fjhn., hvort ekki sé nauðsynlegt að taka fram í 53. gr. frv., að slysadagpeningar skv. 36. gr. tryggingalaga skuli hljóta álag á sama hátt og lífeyrisbætur. Vegna þessa vil ég taka fram, að ef svo kann að reynast, en það er ekki fullrannsakað, þá lýsi ég því yfir, að það verður leiðrétt á tiltækilegan hátt.“

Nú hefur þetta mál verið rannsakað og niðurstaðan er sú, að til þess að álagið geti tekið til slysadagpeninga og dánarbóta, þegar um er að ræða dauðaslys lögskráðra sjómanna, svo og sjúkradagpeninga og fæðingarstyrks, er nauðsynlegt að taka það fram í l. sjálfum. Það frv., sem hér liggur fyrir, er borið fram í því skyni að fullnægja þeirri yfirlýsingu, sem ég gaf í þessari hv. d. á s.l. vori og ég þegar hef lesið upp.

Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.