09.05.1959
Efri deild: 115. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1671 í B-deild Alþingistíðinda. (1243)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Björgvin Jónsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr. um breyt. á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, hefur verið rækilega rætt í hv. Nd. og í þessari hv. d. Það má því segja, að það sé að bera í bakkafullan lækinn að hafa um það öllu frekari umr., þar sem það er og jafnframt fyrir fram ákveðið, að málið skal keyrt í gegnum þingið breytingalaust. Þrátt fyrir þetta get ég ekki stillt mig um að fara um málið nokkrum orðum.

Frv. þetta er nánast bylting á skipan Alþingis og kjördæmaskipan landsins. Hér skal með einu pennastriki afnema sjálfstæði héraðanna og færa valdið til áhrifa á löggjafarsamkomuna úr höndum þeirra í hendur flokka.

Frv. þetta væri réttnefnt frv. til laga um alræði íslenzkra stjórnmálaflokka. Með aukinni tækni og auknum hraða hafa stjórnmálaflokkarnir breytzt úr því að vera hagsmunasamtök manna með svipaðar skoðanir í það að verða það ægivald, er öllu vill stjórna. Í dag er það einn versti glæpur, er um getur, að vera ekki á sama máli og flokkurinn. Dæmin eru nærtæk, ef á þarf að halda. Hin alvitra flokksforusta vill hafa vit fyrir hinum almenna kjósanda. Fram til þessa hefur hin forna og hefðbundna kjördæmaskipan vegið nokkuð upp á móti þessari óheillaþróun. Ekki er langur tími liðinn síðan fólkið í landinu tók fram fyrir hendur tveggja stærstu þingflokkanna og fór sínu fram þrátt fyrir ákvörðun þeirra um annað, m.a. til að koma í veg fyrir slíkt, og fyrst og fremst þess vegna er þetta frv. fram borið.

Enginn af flm. þessa frv. hefur minnstu áhyggjur vegna þess, að með samþykkt þess, ef að lögum verður, koma Norður-Ísfirðingar, Vestur-Húnvetningar, Seyðfirðingar, Austur-Skaftfellingar og Vestur-Skaftfellingar, svo að aðeins fáir séu nefndir, til með að tapa fulltrúum sínum af löggjafarsamkomum. Ég veit, að hv. þm. N-Ísf. (SB) og hv. þm. V-Sk. (JK) munu svara þessu þannig, að ekki séu þeir nú minni þm. fyrir sín héruð, þó að þeir séu kosnir í stórum kjördæmum. En það má um þessa menn segja, að þeir eru ekki eilífir frekar öðrum dauðlegum mönnum. Og hverjum dettur í hug að velja fulltrúa úr fámennustu byggðarlögum áttunganna, eftir að frv. þetta verður endanlega samþykkt? Mér kemur það a.m.k. ekki til hugar, að nokkur hinna íslenzku stjórnmálaflokka geri slíkt, og þori að fullyrða, að innan fárra ára eiga hin harðbýlli og strjálbýlli héruð engan málsvara hér á löggjafarsamkomu.

Björn Jónsson, hv. landsk. þm., hélt hér langa ræðu í gær. Um hann má það segja, að hann var allvígalegur og hjó þar títt til beggja handa. Hann hélt því fram sem bjargfastri skoðun sinni, að þetta frv. væri sá Kínalífselexír, er mundi bæta öll þjóðlísmein. Af ræðu hans varð ekki annað ráðið en það, að frv. þetta væri fyrst og fremst sigur fyrir hann og hans flokksmenn: íhaldið, eins og hann orðaði það, fylgdi þessu frv. af heimsku, kratarnir af ótta og við framsóknarmenn værum á móti því af þröngsýni. Atkvæðin eiga alls staðar að vera jöfn, sagði Björn. Rétt á eftir sagði þessi hv. þm. þó: Persónulega er ég þeirrar skoðunar, að Norðausturlandskjördæmi hefði sökum fjölmennis og fjarlægðar frá höfuðstaðnum átt að fá einum þm. fleira, en vegna þess að þá koma upp kröfur frá öðrum, vildi ég ekki stofna afgreiðslu málsins í voða með því að halda þessari skoðun minni til streitu.

Þessi hv. þm. telur þá þrátt fyrir allt, að t.d. fjarlægð frá höfuðstaðnum hafi eitthvað að segja í sambandi við þingfulltrúafjölda. Fús er hann þó til þess að fórna skoðun sinni, ef aðrir ættu þar einnig af að njóta, fleiri en kjördæmi hans.

Hann fjölyrti einnig nokkuð um Flateyjarverzlun hv. þm. S-Þ. (KK), eins og hann orðaði það, og sagði, að þetta brall til þess að koma fram hagsmunamálum einstakra héraða væri ein höfuðástæðan til þess, að frv. þetta ætti að ná fram að ganga. Mikið er minn ágæti vinur nú gleyminn. Það er sárastutt síðan fjárl. voru afgreidd, og þá minnir mig, að hv. þm. hafi ekki verið sem ánægðastur með fjárveitingar til Akureyrarkaupstaðar og viðhaft þar um stór orð.

Núverandi kjördæmaskipun hefur haldið verkalýðsflokkunum í skrúfstykki. Framsfl. vill einmenningskjördæmi og vill þvinga fylgismenn verkamannaflokkanna inn í sínar raðir sem áhrifalausa fylgismenn, sagði hv. þm. Hinir áhrifalausu verkalýðsflokkar, eins og þm. orðaði það, eru nú í dag í slíku skrúfstykki, að þeir hafa þó skipt sér í tvennt og eiga báðir fulltrúa hér á löggjafarsamkomunni, og annar þessara flokka, sem er í skrúfstykkinu, fer í dag með stjórn landsins.

Svona rekst hvað á annars horn, og mikið álit hlýtur hv. þm. að hafa á Framsfl., þar sem hann slær því fyrir fram föstu, að ef einmenningskjördæmaskipulag yrði upp tekið hér á landi, þá hlytu stuðningsmenn Alþb. og Alþfl. skilyrðislaust að ganga inn í raðir framsóknarmanna án þess að hafa þar nokkur áhrif. Ég skal fúslega viðurkenna, þrátt fyrir það þótt ég sé framsóknarmaður, að ég er hv. þm. þarna alls ekki sammála. Ég held, að ef tveggja flokka kerfi yrði upp tekið hér á landi, mundi flokkaskipunin riðlast, og ég tel ekki, að það væri skeður neinn höfuðglæpur, þótt þjóðin væri ekki neydd til að flísast í ótal smáflokksbrot.

Þrátt fyrir fögur litklæði og stór slagorð máli þessu til réttlætingar skín þó alls staðar í gegn hinn eiginlegi tilgangur frv. Flutningsog stuðningsmenn frv. endurtaka og undirstrika æ ofan í æ það, er við framsóknarmenn höfum mest varað við: Það verður að efla flokksvaldið. Við, sem skipum þessa hv. d., þurfum ekki að vera í neinum vafa. Hv. 6. þm. Reykv. (GTh), borgarstjórinn í Reykjavík, hélt hér í hv. d. þriggja tíma fyrirlestur um stjórnskipan ýmissa Evrópulanda. Inn í þennan fyrirlestur var ofið af hans alþekktu snilld vel orðuðum bröndurum um þriðju síðu Tímans, bókmenningu bæjarbúa og gleðikonur. Þá sjaldan hv. 6, þm. Reykv. gerði íslenzka staðhætti að umræðuefni, varð hann að hafa eitthvað af þessu þrennu til að krydda með mál sitt.

Ég er einn af þeim, sem hafa mikið álit og að mörgu leyti dálæti á hv. 6. þm. Reykv. Það var mér þess vegna sérstakt ánægjuefni að heyra hann nú loksins skila hæstv. Alþingi skýrslu um utanferð sína hér um árið til þess að leita að stjórnarskrá handa lýðveldinu. Vona ég, að með þessu sé endanlega af honum rekið slyðruorðið, og þó að borgarstjórinn hafi í leiðinni kynnt sér ýmsar aðrar hliðar á menningu Evrópuþjóða, þá tel ég, að það sé fyrst og fremst hans persónulegt mál, en ekki okkar.

Ég ætla ekki að svo komnu máli að bera brigður á neitt af því, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði um stjórnskipunarlög annarra þjóða, enda hef ég ekki haft tækifæri til þess að kynnast því sem skyldi. Hitt vildi ég undirstrika, að þrátt fyrir það, að sjálfsagt sé að hafa stjórnskipan annarra landa til hliðsjónar, þegar stjórnskipunarlög vor eru endurskoðuð, þá verðum vér fyrst og fremst að miða stjórnskipunarlög vor við Íslendinga og íslenzka staðhætti.

Tilhneigingin til að drottna er jafngömul mannkyninu. Eftir því sem hraðinn og tæknin hafa vaxið, hefur sú krafa orðið æ háværari, að nauðsyn beri til þess að skipuleggja alla hluti og hefta þá í fjötra skriffinnsku og skipulags. Í þeim ríkjum, er kommúnistar hafa náð völdum í, er það þeirra fyrsta verk að leggja niður sem allra mest af sjálfstæðum atvinnurekstri og taka upp ríkis- og samyrkjurekstur. Þetta er byggt á þeirri höfuðkenningu, að allt of mikið vinnuafl og fjármunir fari forgörðum, ef leyfður sé rekstur sjálfstæðra fyrirtækja. Með því að skipuleggja þetta allt eftir kúnstarinnar reglum og nýta vinnuafl og fjármagn til fulls sé unnt á stuttum tíma að ná hinu setta marki. Morgunblaðið, höfuðmálgagn stjórnlagabyltingarinnar, hefur oft í vetur verið að skýra frá grundvallarbyltingu, sem hinn kommúnistíska stjórn Kína sé að gera á landbúnaði Kínverja. Blaðið á ekki nógsamlega sterk orð til að lýsa því, hvaða ofbeldis- og gerræðisbreyting þar sé á ferðinni. Rök hinna kínversku komma eru önnur. Þeir telja sig vera að lyfta Kínverjum á hærra stig með þessum aðgerðum sínum. Þeir segjast vera að rétta litla bróður hjálparhönd. Smábúskapur er of dýr, segja þeir. Með skipulagi og aftur skipulagi er hægt að ná til fullkomnunar. Vafalaust finnast margir Íslendingar, er hafa þá grunnmúruðu sannfæringu, að leiðin til aukinnar velmegunar fyrir íslenzku þjóðina liggi í gegnum aukin flokka- og ríkisafskipti. Þeir hinir sömu menn geta fylgt þessu frv. af sannfæringu. Fyrir þá er þetta kerfi mikilvægur áfangi að lokamarkinu.

Hin eiginlegu rök formælenda þessa frv. eru öll hin sömu og rök kínversku kommanna. Þrátt fyrir það, þótt frv. sé klætt í litklæði og viðhöfð um það skjall og faguryrði, eins og fólkið í þéttbýlinu rétti fámenninu bróðurhönd til einlægrar samvinnu um heill allra byggða Íslands, þá skín þó alls staðar í gegn hinn eiginlegi tilgangur.

Einar Olgeirsson, hv. 3. þm. Reykv., hefur einurð til þess að segja þetta umbúðalaust. Hann telur, að óhófleg fjárfesting í dreifbýlinu sé höfuðorsök erfiðleikanna í efnahagslífinu, og hann telur, að breytt kjördæmaskipun sé ein þess megnug að snúa þessari þróun við.

Prófessor Ólafur Björnsson, hv. landsk. þm., skilgreinir þetta á svipaðan hátt og nefnir uppbygginguna í dreifbýlinu pólitíska fjárfestingu.

Það er allt of almenn skoðun hér í höfuðborginni og næsta nágrenni, að það sé firra að stuðla að því, að byggð haldist á afskekktum stöðum. Hversu oft heyrir maður ekki: Hvaða vit er í því að vera að brúa þessa eða hina ána? Það eru aðeins örfáar hræður, er af því njóta gagns. Það er langtum betra að flytja þessar hræður hingað suður. Hér er nægilegt fyrir þær að gera. — Eða hve oft heyri ég ekki: Hvaða vit er í því að vera að fjárfesta svona mikið á Seyðisfirði? Það er ódýrara að byggja yfir alla Seyðfirðinga hér í Reykjavík. — Og þessir sömu menn segja eins og Einar Olgeirsson: Það er ekki unnt að stöðva þessa brjáluðu fjárfestingu með öðru móti en því að steypa kjördæmunum saman í stórar einingar, þar sem flokksvaldið yfirgnæfir algerlega byggðavaldið.

Ég ferðaðist lítið eitt um Jótland í vetur, keyrði m.a. um þau svæði, þar sem hagspekingar Danakonungs ætluðu íslenzku þjóðinni bólfestu, þegar þeir voru búnir að dæma Ísland óbyggilegt. Þá ætluðu Danir að rétta litla bróður sína hjálparhönd og bjarga okkur frá algerri tortímingu. Vart hygg ég, að hagspekingum þríflokkanna þættu þau skipti nú fýsileg. Mörg hin harðbýlli og fólksfærri héruð eru nú í dag í svipaðri aðstöðu gagnvart þeim, er miða þjóðlífið við útkomu á reiknistokk. Ekki eru margir áratugir liðnir, síðan sunnlenzkt verkafólk sótti í hundraðatali bjargræði á sumrum til Austurlands. Þá voru þar allir firðir fullir af síld og öðrum nytjafiski. Oft var sumarkaup þessa fólks á Austfjörðum einu peningarnir, sem það sá yfir árið. Þá var talið, að ýmsir bæir austur þar væru vel á vegi með að skáka Reykjavík. Síldin hvarf um stundarsakir. Erlendir veiðiþjófar urðu upp fiskimiðin. Erfitt árferði og illvígir sauðfjársjúkdómar herjuðu landbúnaðinn. Allt þetta samvirkt er þess valdandi, að fólksfjölgun hefur ekki verið ör á Austurlandi á síðustu árum. Íbúar Austurlands hafa nú vonandi yfirstigið mestu örðugleikana. Mikilvirk framleiðslutæki hafa verið byggð í landi. Fiskiskipastóll er nú þar orðinn bæði mikill og góður. Stórri vatnsvirkjun er nýlokið. Byggingum í sveitum og ræktun hefur fleygt fram. Hin nýja tólf mílna landhelgislína tryggir fiskimiðunum friðun fyrir erlendum ránsmönnum. Allar skynsamlegar líkur benda til, að einmitt þarna verði á næstu árum stórfelld fólksfjölgun. Austfirðingar hafa með miklum dugnaði yfirunnið erfiðleikana. Hvernig líta svo hagspekingar þríflokkanna á þessa viðleitni? Þar kemur enn fram snilld þeirra með reiknistokkinn. Hlutfallið er í augnablikinu óhagstætt hvað fólksfjölda viðkemur. Þá er bara að fækka um einn þm.

Einn af mestu valda- og virðingarmönnum hinnar heilögu þrenningar, hæstv. forseti sameinaðs Alþingis, Jón Pálmason, orðaði þetta þannig í útvarpsræðu sinni nú nýlega, að ekkert kjördæmi yrði lagt niður nema Seyðisfjörður, hin yrðu aðeins sameinuð. Nú hef ég ekki tekið eftir því enn þá í frv., að inn sé komið ákvæði um það að svipta Seyðfirðinga kosningarrétti, en vel getur verið, að það þyki heppilegra að setja það ekki inn, fyrr en á sumarþingi.

Öðruvísi mér áður brá. Seyðfirzkir kjósendur kusu lengi gagnmerka sjálfstæðisþm. til setu hér á hv. Alþingi. Þá heyrðist aldrei á það minnzt, að sérstök þörf væri á því að gerbylta allri kjördæmaskipan landsins aðeins til þess að leggja niður þetta eina kjördæmi. Það hefði þótt tíðindum sæta árið 1953, ef þá hefði verið prédikað af frambjóðanda Sjálfstfl., að hin nauðsynlegasta breytingin á íslenzkum stjórnlögum væri sú að leggja einmitt þetta kjördæmi niður.

Það hafa orðið nú á síðustu árum þær breytingar á íslenzkum þjóðarhögum, að nauðsyn hefur verið endurskoðunar stjórnarskrárinnar, þ. á m. endurskoðunar kjördæmaskipanarinnar. Um þetta hafa allir flokkar verið sammála. Greint hefur á um leiðir, en enginn ágreiningur verið um, að leiðrétting væri nauðsynleg.

Framsfl. telur eðlilegast, að stjórnarskrármálið í heild sé tekið til endurskoðunar af þar til kjörnu sérstöku stjórnlagaþingi. Vitað er, að þessi till. á miklu fylgi að fagna hjá fólki úr öllum stjórnmálaflokkum víðs vegar um landið. Það hafa verið notuð sem höfuðrök gegn þessari till., að Alþingi setti niður við, að kosið yrði sérstakt stjórnlagaþing til að setja lýðveldinu stjórnarskrá. Vart munu finnanleg meiri falsrök, en þessi. Ekkert er eðlilegra og æskilegra en það, að sérstakt þing setjist á rökstóla og setji lýðveldinu grundvallarstarfsreglur. Ætla mætti, að slíkt stjórnlagaþing yrði ekki eins rígskorðað af pólitískum flokkshagsmunum og Alþingi því miður er, og væri þá vel farið.

Þegar þessi leið reyndist lokuð, lýsti Framsfl. sig reiðubúinn til þess að hafa fullt samstarf um sanngjarna lausn kjördæmamálsins. Framsfl. hefur í þessari viðleitni sinni til að ná einingu um þetta mál borið fram till., sem í öllum meginatriðum tryggja hinum almenna kjósanda í þéttbýlinu svipaðan rétt og hann fær með því frv., sem hér er til umræðu. Framsfl. hefur hins vegar verið algerlega ófáanlegur til þess að fórna sjálfstæði og sjálfræði héraðanna á altari flokksræðisins. Þar greinir á milli. Við teljum, að hin sögulega þróun kjördæmanna og sjálfstæði héraðanna sé svo rótfastur hluti af hinum íslenzka þjóðlífsmeiði, að þar megi ekki við hrófla. Flokksvaldið er of mikið þegar í dag, það þyrfti að minnka, en ekki að aukast. „Framsfl. hefur allt of marga fulltrúa miðað við fylgi flokksins meðal þjóðarinnar, þetta verður að breytast,“ er eitt af aðalkjörorðum forsvarsmanna þessarar stjórnlagabyltingar. Jafnvel Alþýðublaðið, blað bandalagsflokks okkar framsóknarmanna úr síðustu alþingiskosningum, notar þetta sem rök og birtir þeim til stuðnings tölur úr síðustu alþingiskosningum. Já, þetta mál þarf á undarlegustu röksemdafærslum að halda.

Önnur aðalrökin eru þau, að Framsfl. verði stórlega veiktur með þessu frv. og sé það höfuðástæðan til andstöðu flokksins. Þegar umbúðirnar eru teknar utan af þessu, hvað kemur þá í ljós? Í hinum smærri kjördæmum hafa allir stjórnmálaflokkar nákvæmlega sama rétt til að afla sér fylgis. Framsfl. hefur þar enga sérstöðu, enda á Sjálfstfl. marga merka alþingismenn á þingi nú úr fámennum kjördæmum. Við getum tekið sem dæmi gagnmerkan þingmann eins og hv. þm. V-Sk. (JK), er verður nú að lúta þeim örlögum, að forusta flokks hans hefur ákveðið að svipta umbjóðendur hans, Vestur-Skaftfellinga, þm. sínum.

Og hver er svo sannleikurinn um það, að Framsfl. verði stórlega veiktur með þessari breytingu? Jú, ef notuð er rökfræði flm. málsins, þá gæti leynzt í þessu svolítið sannleikskorn. Með því að hnitmiða þingmannatölu hinna einstöku kjördæma við það, að sem flest atkv. Framsfl. verði óvirk í kjördæmunum, ætla mennirnir með reiknistokkinn að gera tilraun til þess að hnekkja eitthvað þingmannatölu Framsfl. Af þeim rótum er runnin fækkun þm. á Austurlandi, og af sömu ástæðum er Norðlendingum og Sunnlendingum neitað um eðlilega fulltrúatölu, miðað við höfðatöluregluna. Hér gleymist aðeins það, að hvað sem mennirnir með reiknistokkinn reikna og reikna og hvaða útkomu sem þeir fá, þá er það kjósandinn sjálfur, sem setur krossinn á kjörseðilinn, en ekki reiknivélin. Hitt gleymist einnig, að Framsfl. hefur nú um árabil ekki átt þm. úr höfuðstaðnum og aldrei á Reykjanesi. Nú getur ekki einu sinni reiknistokkurinn breytt því, ef þetta frv. verður samþ., að þá fær Framsfl. kjörna þm. úr báðum þessum kjördæmum. Framsfl. veikist ekki við þessa breytingu, heldur þvert á móti. Hann, eins og allir hinir flokkarnir, styrkist og eflist. Það er alveg sama, hvernig þessu dæmi er velt fyrir sér, útkoman verður ávallt sú sama. Stjórnmálaflokkarnir eflast allir vegna þessara breytinga, flokksvaldið kemst í algleymi, réttur hins almenna kjósanda hverfur í skugga flokksvaldsins, og það verður þjóðin ein, sem tapar.

Þetta er nú í þriðja sinn á tæpum þremur áratugum, sem gripið er til þessa sama leiks. Ávallt er ranglætið orðið því meira að fáum árum liðnum og þörfin brýnni til breytinga. Nú er þó skeiðið nær á enda runnið, næsta skrefið hlýtur að verða landið eitt kjördæmi. Annars er nógu merkilegt, að virða það fyrir sér, að alltaf er gripið til þessa ráðs, þegar mestir örðugleikar steðja að þjóðinni. Árið 1933, þegar mesta kreppa, sem yfir þjóðina hefur gengið, var í algleymi, var gripið til kjördæmabreytingar. Árið 1942, í umróti síðari heimsstyrjaldarinnar, þegar svo mikil nauðsyn var talin á þjóðareiningu, að alþingismenn höfðu þá nýlega framlengt sín eigin kjörbréf, þá var einnig gripið til þessa ráðs. Og nú, þegar nær óyfirstíganlegir örðugleikar steðja að íslenzku fjármálalífi og lífsnauðsyn var einingar þjóðarinnar um lausn þeirra vandamála, þá er einnig gripið til þessa ráðs. Þjóðarskútunni er fleytt á fyrningum og tilbúnum tölum yfir tvennar kosningar og strikið haldið beint út í fjárhagslega ófæru. Þjóðin er vitandi vits leynd staðreyndum um ástand efnahagsmálanna. Efnt er til tvennra kosninga, og að þeim loknum er meiningin að leysa efnahagsmálin a.m.k. að verulegu leyti á kostnað dreifbýlisins. Jafnvel nú er ekki til fulls hægt að leyna tilganginum. Verklegar framkvæmdir eru lækkaðar, raforkuáætlun dreifbýlisins er pörtuð í sundur og gerð að óskapnaði. Hvað mun þá á eftir fara, þegar vald héraðanna hefur verið afnumið, flokksvaldið er komið í algleyming og þeir menn, sem ráða mestu í þríflokkunum, geta þjónað þeirri hagspeki sinni, að öll fjárfesting utan Faxaflóa sé óarðbær og pólitísk fjárfesting, sem sé efnahagslífinu hættuleg, og þess vegna beri að stöðva hana?

Enginn vafi er á því, að ef frv. þetta nær endanlegu samþykki, þá verður ekki unnt að stöðva þá öfugþróun, sem nú er hafin. Þá munu aftur hefjast í stórum stíl flutningar fólks utan af landi hingað til Faxaflóasvæðisins. Heil landssvæði munu leggjast í auðn og fólkið þyrpast hingað suður. Allir sjá, hve geysihættuleg þessi þróun verður, ekki síður fyrir íbúa Faxaflóasvæðisins, en aðra landsmenn. Þegar vinstri stjórnin tók við völdum árið 1956, var það eitt af aðalstefnumálum hennar að stöðva fólksflóttann utan af landi. Þetta tókst til mikillar blessunar fyrir alla aðila. Þessi stöðvun vannst ekki með neinu pennastriki eða töfraaðgerðum. Nei, stöðvunin náðist aðeins vegna þess, að vinstri stjórnin skildi þarfir fólksins úti um hinar dreifðu byggðir. Vinstri stjórnin veitti miklu fjármagni út á land til uppbyggingar framleiðsluatvinnuveganna. Þessi þróun sagði fljótt til sín í efnahagslífinu. Framleiðslan úti um landsbyggðina tók stór stökk fram á við. Stöðvun fólksflutninganna hingað suður til Reykjavíkur varð þess þegar valdandi, að atvinna í Reykjavík varð tryggari, en verið hafði um stund og meiri, vegna þess að óeðlileg fjölgun varð ekki á vinnumarkaðnum. Þessi stefna vinstri stjórnarinnar mun lengst halda merki hennar á lofti. Uppbyggingunni á atvinnulífinu úti um landið er nú komið vel á veg. Þó er hægt með einu pennastriki að þurrka út eða lama mikið af því, sem áunnizt hefur. Sterk öfl hafa ávallt unnið á móti þessari stefnu. Því miður eru þessi öfl ofan á nú um stund. Ég trúi því þó ekki, fyrr en ég tek á, að fólkið, er byggir landsbyggðina, láti það viðgangast, að allt vald verði tekið úr þess hendi og verði flutt yfir á flokkshendur. Ég trúi því ekki heldur, að fólkið í þéttbýlinu skilji ekki þann voða, er að því steðjar, ef fólksflutningar utan af landi hefjast á nýjan leik. Eina ráðið til þess að koma í veg fyrir þetta hvort tveggja er, að kjósendur í landinu leysi í þessum kosningum af sér flokksviðjarnar og kjósi eingöngu með tilliti til skoðana sinna á þessu mikla máli. Ef svo verður, þá þarf ekki að efa úrslitin.

Þm. Framsfl. hafa nú í báðum hv. þd. lagt fram ýtarleg nál. í stjórnarskrármálinu og í ræðum greint greinilega frá skoðunum flokksins. Ég hef reynt að lýsa einum þeim þætti þessa máls, er ég tel mjög mikilsverðan, látið öðrum eftir að lýsa hinum sögulegu rökum, er einnig mæla öll á móti frv.

Hv. 6. þm. Reykv. (GTh), borgarstjórinn í Reykjavík, hélt, eins og ég sagði áðan, mjög langan fyrirlestur um stjórnskipunarlög almennt. Nokkuð miklu af tíma sínum varði þessi hv. þm. til þess að sýna og sanna þá höfuðkenningu sína, að án undantekninga eigi atkvæði að vera jöfn, eitt atkv. eigi að vera jafngilt, hvort sem það er norður á Hornströndum eða hér suður í Reykjavík. Hann tók skýrt fram, að þetta frv., er hér er til umr., væri meingallað að þessu leyti, þar sem mun meira atkvæðamagn væri á bak við hvern fulltrúa þéttbýlisins, en þingfulltrúa utan af landi. Hann lýsti þeirri skoðun sinni, að þetta yrði að leiðrétta. Hann tók fram, að sín skoðun væri sú, að þetta ætti að leiðrétta á grundvelli þess skipulags, er hér væri lagt til. Á sama hátt lýsti þessi hv. þm. áhuga sínum og aðdáun á því, er hann kallaði þýzka kerfið, þar sem uppbótarsætum væri úthlutað, þar til fullum jöfnuði væri náð á milli þingflokka.

Yfirlýsingar 6. þm. Reykv. í þessu máli undirstrika allt það, sem við framsóknarmenn höfum sagt. Tilgangur frv. er að gera vald hinna strjálbýlli landshluta að engu. Hitt væri svo ákaflega fróðlegt að fá að vita, á hvern hátt hv. 6. þm. Reykv. ætlar að þjóna hinu fullkomna réttlæti. Eftir því sem hann lýsti skoðunum sínum, þá getur það ekki verið með því að leggja niður uppbótarsætin, heldur þvert á móti, að sú tala á að vera óbundin, þar til fullum jöfnuði er náð á milli þingflokka. Og þá er aðeins tvennt eftir: annaðhvort er að fækka stórlega þm. utan mesta þéttbýlisins frá því, sem lagt er til í því frv., sem hér er til umræðu, eða þá að fjölga stórlega þm. frá því, sem nú er ákveðið. Mér finnst, að þjóðin eigi kröfu á því að fá svör við því, hvernig þetta er hugsað, þar sem svona hlut er skilyrðislaust lýst yfir af jafnmikilsvirtum stjórnmálaleiðtoga og hv. 6. þm. Reykv. er.

Ég vil svo aðeins að lokum endurtaka það, að frv. þetta er fyrst og fremst fram borið til að eyða hinu forna byggðavaldi og færa allt vald í hendur misviturrar flokksforustu. Við framsóknarmenn höfum til sátta borið fram miðlunartillögur í málinu, sem í öllum aðalatriðum gátu tryggt fólkinu í þéttbýlinu sama áhrifavald og það, sem er í stjórnlagabyltingarfrv. Það, sem þar greinir á milli, er aðeins eitt, og það er að, við viljum ekki auka flokksvaldið á kostnað byggðavaldsins. Við viðurkennum, að til staðar eru fullkomnar ástæður til þess, að fólkið í þéttbýlinu fái meiri rétt til áhrifa á löggjafarsamkomuna, en það hefur í dag. Við viljum láta það fá þennan rétt án þess að fótumtroða hina fornu héraðaskipun eða brjóta á bak aftur vald héraðanna. Við höfum varað við því gerræði, sem hér er verið að fremja, og berjumst gegn því eftir mætti. Fyrirsjáanlegt er, að málið verður keyrt í gegnum þingið. Þjóðin sjálf á næsta leik, og það er hún, er segja mun síðasta orðið.