16.04.1959
Efri deild: 102. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1691 í B-deild Alþingistíðinda. (1255)

146. mál, sýsluvegasjóðir

Beraharð Stefánsson:

Herra forseti. Mér þykir nú þetta allt töluvert vafasamt, sem hér hefur komið fram, og ætti e.t.v. að taka það til nánari meðferðar frá öðrum stað, en þessum ræðustóli.

Hefur þetta mál verið löglega flutt hér í þessari hv. d.? Það væri mjög til athugunar, ef miða á við orð hv. þm. Barð. (SE), sem enginn veit, hvort er frsm. n. eða ekki.

Það er nefnilega þannig, að samvn. samgm. beggja d. hefur engan rétt til að flytja frv. í þessari d. eða í hvorugri þd. Er þetta frv. flutt af henni? Eða er það flutt af samgmn. Ed.? Það veltur töluvert á því, því að ef það er flutt af samvn. samgm. í báðum d., þá ber að vísa málinu frá tvímælalaust, því að sú n. hefur engan rétt til að flytja frv. hér í hv. deild. Svo er það um það, hvort nægilegar skýringar hafi komið fram í þessu máli, — og hv. þm. Barð. segir, að það sé óþarfi að gefa þær, því að frv. fylgi ýtarleg grg., sem þm. geti lesið.

Hér hefur oft verið kvartað um það við 1. umr. mála, þegar stjórnarfrv. hafa verið til umr., þótt þeim hafi fylgt grg., ef ráðh. er ekki við til þess að innleiða málið og gefa á því skýringar. Mér finnst, að þær aðfinningar, sem um þetta hafa komið fram, eigi alveg eins við um þetta, þó að grg. fylgi málinu. Það er svo með öll frv., að þeim fylgir grg., að vísu mismunandi ýtarleg, en það þykir þó hæfa, að flm. eða þeir, sem standa að flutningi máls, geri grein fyrir málinu þegar við 1. umr.

Að svo miklu leyti sem komu nokkrar skýringar fram hjá hv. þm. Barð., þá var það þessi, að það yrði að breyta ákvæðunum um framlag ríkissjóðs til sýsluvega vegna breytts fasteignamats. Og skiljanlegt er það, að í samræmi við hækkað fasteignamat er réttmætt sennilega að lækka framlag ríkissjóðs, þ.e.a.s. að hundraðshluta. En hvers vegna þarf að beita öðrum reglum við úthlutun þessa fjár en áður hefur verið, þó að fasteignamatið hafi hækkað? (Gripið fram í: Það hefur hækkað svo misjafnt í sýslunum.) Því hefur engin skýring komið á.

Hv. þm. Barð. grípur fram í og segir: af því að það hefur hækkað svo misjafnt í sýslunum. Vitanlega er það engin tilviljun eða einhver dómur æðri máttarvalda, að það hefur hækkað misjafnt í sýslunum. Það er sjálfsagt fyrir það, að fasteignirnar í sýslunum hafa sums staðar tekið miklum umbótum og annars staðar minni. Og ég ætla, að það sé þannig, að einmitt í þeim sýslum, þar sem fasteignamatið hefur hækkað, sé mest þörf á daglegum bifreiðasamgöngum um héruðin og mest þörf að nota vegina, svo að ég er alls ekki viss um, að þetta sé réttur mælikvarði að breyta hlutfallinu á milli sýslnanna vegna þess, þó að fasteignamat hafi hækkað meira í einni sýslu en annarri, — alls ekki viss um það.

En ég vil gjarnan, og það raunar frekar sem forseti d. heldur en þm., fá að vita það, af hverjum þetta frv. er flutt.