07.04.1959
Neðri deild: 102. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1716 í B-deild Alþingistíðinda. (1290)

135. mál, ítala

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt samkv. ósk stjórnar Búnaðarfélags Íslands og er breyt. á l. um ítölu, sem voru sett á árinu 1943. Þau lög eru heimildarlög og komu ekki til framkvæmda fyrr, en á s.l. ári, en þá kom fram beiðni um ítölu í einum hreppi. En þegar átti að fara að hefjast handa um ítölumatið, kom í ljós, að lögin voru að nokkru leyti orðin úrelt vegna breyt., sem hér hafa orðið, síðan lögin voru sett, og að í þau vantaði nauðsynleg ákvæði miðað við núverandi aðstæður. Þeir, sem áttu að framkvæma ítölumatið, treystu sér þess vegna ekki til þess af þessum ástæðum, og liggur þannig það verk enn þá fyrir. Af þessu leiddi, að hinu umbeðna ítölumati var frestað, þar til áðurgreind vansmíði á gildandi lögum fengjust lagfærð. Búnaðarfélag Íslands lét því endurskoða gildandi lagaákvæði um ítölu með það fyrir augum að ráða bót á þessum ágöllum. Sú endurskoðun var lögð fyrir síðasta búnaðarþing, sem gekk frá frv. ágreiningslaust í þeirri mynd, sem landbn. hefur nú lagt það fyrir Alþingi.

Hér er um nauðsynlega ráðstöfun að ræða, lagfæringu, sem þarf að gera á þessu þingi, svo að löggjöfin um þetta efni verði nothæf og geti komið til framkvæmda.

Þar sem frv. er flutt af n., þarf að sjálfsögðu ekki að vísa því til n., en landbn. mun athuga frv. gaumgæfilega að lokinni þessari umræðu.