11.05.1959
Efri deild: 116. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1724 í B-deild Alþingistíðinda. (1307)

135. mál, ítala

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég gat þess í framsöguræðu minni í fyrradag, að þetta mál þyrfti ákaflega miklu meiri athugunar við en það hefði fengið. Þó hafa verið í því ágætir menn eins og 2. þm, Skagf. (JS) bæði á búnaðarþingi og í n. í Nd. En það er mikið rétt., mér er það alveg ljóst, að það vantar alveg sérstakan kafla í frv., til þess að það sé hægt að gera ítölu í afrétti, sem Reykjavík t.d. á ein út af fyrir sig, en er komið of margt fé í. Það er ekki hægt eftir þessu frv. og ekki heldur eftir því, sem til er, enda eru í Reykjavík rétt að segja 4.000 fjár á fóðri í vetur, í Kópavogi rétt að segja 2.000 og í Hafnarfirði dálitið á fjórða. Það er á tíunda þúsund fjár, sem þessir kaupstaðir, sem liggja allir saman, eiga. Afréttir þeirra liggja saman, og þurfi að ákveða, hvað hver megi hafa margt fé á afréttinum og hvaða einstaklingar, þá vantar ákvæði um það í frumvarpið. Það er alveg rétt, það vantar alveg kafla í frv. um það. En það er alveg sama, það mundu ekki koma að neinu gagni heldur gömlu lögin, ítölulögin, sem gilda núna, í þessu tilfelli. Það er alveg sérstakt atriði, sem þarna er um að ræða, bæði um, hvernig á að taka málið upp, og einhvern leiðarvísi um það, hvernig bæirnir ættu að skipta í landið til beitar, ef það er ekki nóg fyrir alla, bæði milli bæjanna og einstaklinga í bæjunum. Ég treysti mér ekki á þeim tíma, sem við höfum hérna, til að fara út í þetta, en taldi hins vegar og tel, að með þessu frv., samanborið við það eldra, sé leyst úr tveimur mikilsverðum atriðum, sem vantaði í frv. frá 1943 og gera þó mögulegt víða á landinu, t.d. í þeim hreppi, sem núna heimtar ítölu, Hvammshreppi í Mýrdal, að framkvæma hana. Og þess vegna vil ég mælast til þess, að þessi deild láti frv. ná fram að ganga eins og það er, en biðji hæstv. stjórn og stjórnir, að það verði endurskoðað sem fyrst, svo að það geti náð til kaupstaðanna líka alveg fullkomlega. Tilvikin eru svo mörg, að það þarf ákaflega mikla nákvæmni og athugun á, hvernig það verður gert, svo að réttlátt sé, og miklu lengri tíma, en á þeim fáu dögum, sem það er hér til umr.