20.01.1959
Neðri deild: 59. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1730 í B-deild Alþingistíðinda. (1317)

83. mál, húsnæði fyrir félagsstarfssemi

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Ekki er ég sammála hv. 5. þm. Reykv. um, að neitt óeðlilegt sé við það, að það sé fyrst og fremst í höndum bæjarstjórnar viðkomandi bæjarfélags, hvort þessar hömlur séu á um notkun íbúðarhúsnæðis eða ekki. Það er venjulega svo, að þegar húsnæðisskortur sverfur að, skortur á íbúðarhúsnæði verður tilfinnanlegur, þá ber þau mál mjög fljótlega að bæjarstjórninni. Og bæjarstjórnin verður þá oft og tíðum að ráða fram úr miklum vanda, að svo miklu leyti sem henni reynist það þá fært. Ég held, að það sé því mjög eðlilegt að láta það í vald bæjarstjórnanna, hvort þær vilji hafa hömlur á þessu eða telji ástæðu til þess í viðkomandi bæjarfélagi eða ekki.

Það hefur nú farið þannig, þótt þetta stæði opið bæjarfélögunum, að mér er ekki kunnugt um, að umsókn hafi borizt, nema þá frá einu bæjarfélagi, um það, að lögin skyldu þar ekki hafa gildi. Það var frá bæjarstjórn Akureyrar, sem slík beiðni barst út af ákveðnu tilfelli, einu húsi, sem bæjarstjórnin þá á tímabili hafði hug á að taka til annarra nota, en að nánar athuguðu máli hvarf bæjarstjórnin frá því að vilja fá þessa heimild á hendur, og er mér því ekki kunnugt um, að neitt bæjarfélag hafi notfært sér það að vera laust við þessa lágaheimild.

Annað atriði, sem ég ætlaði að segja örfá orð um viðvíkjandi andspyrnu við þetta frv., er það, að það var vefengt af hv. 5. þm. Reykv., að það hefðu verið nokkrir tugir eða nokkur hundruð íbúða á ári hverju, sem hér í höfuðborginni hefðu verið hrifsuð til annarra nota en íbúðar. Hygg ég, að það styðji nokkuð mitt mál, að einmitt á þeim dögum, sem lögin voru sett, kom í ljós, að það voru margir tugir íbúða, sem fólk var þá á flugstig með að taka frá íbúðarhúsnæðisnotkun til annarra nota. Það voru nokkur stórhýsi hér í borginni með tugi íbúða hvert um sig, sem þá var verið að taka frá því að vera íbúðarhúsnæði, eins og þau höfðu verið teiknuð til þess að verða, og átti að taka þau til skrifstofuhalds og verzlunarrekstrar, sem er að vísu nytsamleg notkun á húsnæði. Það höfðu verið fengnar lagalegar heimildir til þess, að þetta húsnæði yrði íbúðarhúsnæði, en var sýnilegt, að taka átti það til annars, og reyndist svo. Það voru tugir íbúða í einu, tveimur eða þremur stórhýsum, sem löggjöfin hindraði í því að halda fram þeirri stefnu, nema þá með því að komast undir allþung viðurlög. Á þessum sömu dögum var Vinnuveltendasamband Íslands líka að taka íbúðarhúsnæði og Múrarafélagið og rafvirkjafélagið og margir fleiri aðilar, og nægir þetta eitt til þess að sýna, að þarna voru margir tugir íbúða bara þessa dagana, þegar lögin voru sett, á leiðinni að hverfa úr notkun íbúðarhúsnæðis og til annarra nota. Ég held, að það geti enginn með góðri samvizku, sem þekkir til hér í Reykjavík, neitað því, að þetta var óþolandi. Það var verið að taka íbúðarhúsnæði, sem var mikill skortur á, til margvíslegra annarra nota, og það réðst engin bót á húsnæðisskortinum, hvernig sem byggt var.

Eg játa, að það getur vel komið svo, að viðhorf breytist á þann veg, að ekki sé ástæða til að hafa slíkar hömlur á eignarrétti manna um íbúðarhús, og er æskilegt, að það ástand skapist. En ég álít, að það sé ekki öruggt enn. Þeir, sem hafa áhyggjur af húsnæðisskorti fólks hér í Reykjavík, ættu ekki að flýta sér um of til þess að taka lokur frá og gera það auðveldara, að hið fyrra ástand komist á, á ný. Mér er vel kunnugt um það, að meðan ég gegndi störfum félmrh., þá dundu á mér einmitt fyrstu vikurnar og mánuðina, eftir að þessi lög voru sett, tugum saman alls konar beiðnir um að fá undanþágu frá l., og það var min bezta hlíf, að það var engin undanþáguheimild til í l. önnur, en í því formi, að ef engin húsnæðisþröng væri í bæjarfélagi, þá gæti bæjarstjórn viðkomandi bæjarfélags tekið á sig ábyrgðina, á því að hleypa lokum, algerlega frá. Og það hefur enginn notað.