20.01.1959
Neðri deild: 59. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1731 í B-deild Alþingistíðinda. (1318)

83. mál, húsnæði fyrir félagsstarfssemi

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég vil aðeins bæta hér litlu við það, sem ég áður hef sagt.

Ég lagði áherzlu á, að það mundi hafa verið gert allt of mikið úr því af hv. 7. þm. Reykv., að þessi lög hefðu komið í veg fyrir, að íbúðarhúsnæði, sem áður hafði verið þannig notað, væri notað til annars. Hann dregur nokkuð úr núna, og það, sem í fyrri ræðunni var talið í hundraðatali, er að vísu talið í tugum núna. En þó eru dæmin, sem við höfum fyrir okkur, sárafá. Sannast að segja geri ég rá0 fyrir og er kunnugt um það, að þetta hefur oft verið í þeim tilfellum, sem menn hafa haft hug á þessu, þar sem íbúðarhúsnæði er orðið gamalt og óhentugt, og það má m.a. segja um það húsnæði, sem nú er verið að ræða um í þessu frv., þar sem eru mjög stórar íbúðir og ekki sem hentugastar til íbúðar. Og þegar við höfum það í huga, að á þessum árum, frá því að þessi lög voru sett, hefur verið lokið við 8-9 hundruð íbúðir í Reykjavík, sjáum við, hvað þetta hefur sáralitla þýðingu. Og ég endurtek það sem ég sagði áðan: að mínum dómi er þetta algerlega óraunhæft í sambandi við það, hvort með þessu sé stuðlað að því að koma í veg fyrir húsnæðisskort eða ekki eða draga úr húsnæðiseklunni í bænum. Þetta er í svo fáum tilfellum og oft og tíðum þannig, að einmitt íbúðarhúsnæði, sem leitað er eftir að breyta, liggur miðsvæðis í miðjum bænum og er orðið miklu síður hentugt, en áður var af þeim sökum og öðrum til þess að notast til slíks, en miklu fremur og eðlilegra, að það væri notað til skrifstofustarfa eða til félagsstarfsemi einstakra samtaka, eins og hér er um að ræða.

Hins vegar vil ég leiðrétta það, að það hefur ekki verið, hvorki af minni hálfu né 2. þm. Reykv., andspyrna gegn þessu frv., því að báðir tókum við það fram, að við mundum ekki spilla fyrir því á nokkurn hátt, að það næði fram að ganga, en vildum hreyfa þessum sjónarmiðum, og það má segja, að það hafi hver þingmaður í hendi sinni að athuga þau mál nánar. En ég held, að það væri farsælla fyrir alla, að það yrði fundinn nýr háttur á meðferð þessara mála, miðað við það, sem verið hefur að undanförnu.