13.05.1959
Neðri deild: 127. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1739 í B-deild Alþingistíðinda. (1351)

92. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Frsm. ( Gísli Guðmundsson ):

Herra forsetl. Ég skal aðeins bæta fáum orðum við það, sem ég sagði áðan um þetta mál.

Það er sjónarmið nefndarinnar eða meiri hluta hennar, að ekki sé ástæða til þess að fara langt í því að gera breytingar á hafnarlögunum, á meðan þau eru í endurskoðun, sérstaklega með tilliti til þess, að þess er skammt að bíða, að þeirri endurskoðun ljúki. Nú er það svo, að ef allar þær breytingar væru samþykktar, sem stungið hefur verið upp á, þá eru þær töluverðar og miða yfirleitt í þá átt að auka útgjöld ríkisins til hafnargerða. Nú er ekki nema gott um það að segja, ef ríkið treystist til þess að leggja ríflega fram fé til hafnargerða, og sízt mundi ég vera þess letjandi, að þau framlög væru aukin, en á meðan svo er ekki, þá þýða breytingar af því tagi, sem hér er um að ræða, annaðhvort það, að þær verða bókstafur einn, eða þá, að fé dregst frá öðrum framkvæmdum, hafnargörðum, bryggjum, dýpkunum og öðrum þeim framkvæmdum, sem taldar hafa verið nauðsynlegastar. Ef á annað borð er bætt við einhverjum framkvæmdum og þær gerðar framlagshæfar, getur auðvitað verið um ýmislegt að ræða, og það er ákaflega eðlilegt, að þeir, sem hafa með höndum endurskoðun þessa máls, geri sér þá grein fyrir því, hvað þar eigi helzt upp að taka.

Nú var það þess vegna niðurstaðan að gera sem minnstar breytingar, að tillögurnar væru miðaðar við það, að sem minnstar breytingar væru gerðar. Nefndin vildi ekki með öllu fyrir það synja að samþykkja einhverjar breytingar og þá með sérstöku tilliti til þess, að frv., sem hér liggur fyrir, hafði hlotið samþykki í annarri deild þingsins, og sýndist þá eðlilegt að láta það ráða, hverju vitamálastjóri mælti með: að mæla með þeim till. við þingið, sem vitamálastjóri mælti með við nefndina. Þessar breytingar allar hafa verið undir hann bornar, eins og venja er að bera breytingar á lögum undir forstöðumenn stofnana, sem lögin snerta, og að sjálfsögðu er þessarar umsagnar leitað vegna þess, að talið er, að stofnanirnar hafi sérþekkingu á málunum, þó að umsagnir þeirra geti hins vegar ekki bundið Alþingi. En jafnhyggilegt getur það verið fyrir alþm. sem eru ekki sérfróðir, að fara eftir ráðum þeirra.

Þessar tvær breytingar, sem hér er um að ræða og í frv. felast og í brtt. n., eru þær breytingar, sem vitamálastjóri virtist telja svo aðkallandi, að ekki væri ástæða til þess að láta þær bíða, og þar sem vitamálastjóri er mikið við endurskoðun laganna riðinn, þá er ekki heldur ólíklegt, að niðurstaðan verði sú, að þær verði till. þeirra, sem við endurskoðunina fást, þó að um það sé auðvitað engu hægt að spá með vissu.

Um hinar breytingarnar, brtt. á þskj. 523, ætla ég ekki að ræða efnislega, vegna þess að meiri hl. nm. mælir gegn þeim af þeim ástæðum, sem ég nefndi áðan. Vel má vera, að einhverjar af þeim þyki þess eðlis við endurskoðunina, að ástæða sé til þess að taka þær upp í lög, og það, að nefndin leggur á móti þeim till., þýðir því ekki endilega það, að hún sé og verði mótfallin efni þeirra allra. Að mínum dómi má gera nokkuð upp á milli til.

Eins og hv. flm. tók fram, er fyrri till. þess efnis að taka upp í upptalningu laganna sjómannastofur. Ætlazt er til þess, að ríkið greiði styrk til þess að koma upp sjómannastofum. Enn fremur er gert ráð fyrir því, að framlag sé yfirleitt greitt til verbúða, hvar sem er á landinu, í stað þess að nú er eingöngu heimild til að greiða til verbúða í viðleguhöfnum. Þetta eru hvort tveggja till., sem kalla á ný útgjöld úr ríkissjóði, ef eftir þeim lagaákvæðum væri farið, ef til kæmi. Ég ætla ekki að leggja dóm á efni þeirra út af fyrir sig að þessu sinni, enda ekki ástæða til þess. Enn fremur er till. þess efnis, að hafnarsjóður geti innheimt hafnargjöld, þó að ekki hafi verið ráðizt í neinar framkvæmdir á staðnum. Þetta atriði telur vitamálastjóri út af fyrir sig mjög vafasamt, en ég tel, að það sé um það eins og hin atriðin, sem nefndin treysti sér ekki til að mæla með nú, að það eigi að koma til athugunar við endurskoðunina, og þó að Alþingi felli þessa brtt. nú, þá eigi það ekki að hafa nein áhrif á endurskoðunina, hún eigi að taka það til vinsamlegrar og gagngerðrar athugunar eigi að síður, eins og annað, sem til mála kemur að breyta í hafnarlögunum.