06.11.1958
Neðri deild: 16. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í C-deild Alþingistíðinda. (1363)

9. mál, biskupskosning

Frsm. meiri hl. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft frv. það, sem hér er til umr., til athugunar, og meiri hluti hennar, fjórir af fimm, hefur lagt til, að frv. yrði samþykkt. Einstakir nm. áskilja sér þó rétt til að flytja brtt. eða fylgja þeim, er fram koma, eftir því sem atvik standa til.

Frv. var af n. sent til umsagnar kirkjuþings, sem þá sat að störfum, kirkjuráðs og biskups og félags starfsmanna ríkisins eða þeirra samtaka, og loks var ákveðið að senda stjórn Prestafélagsins málið til meðferðar eða umsagnar. Kirkjuþing, kirkjuráð og biskup hafa allir mælt með samþykkt frv., biskup þó vitanlega með því fororði, að hann vilji ekki láta uppi neitt um málið, að því er varðar hann sjálfan persónulega, en fellst að meginstefnu til á frv. Prestafélagsstjórnin hefur aftur á móti ekki talið sig hafa umboð frá prestum til þess að taka afstöðu til málsins og segir því ekkert um frv. Samtök starfsmannanna hafa ekki enn sent neina álitsgerð.

Um þetta mál er í raun og veru ekki mikið að segja af hálfu stuðningsmanna þess umfram það, sem kom fram við 1. umr. Við, sem styðjum frv., gerum það ekki vegna þess, að við teljum tímabært að breyta almennt ákvæðunum um aldurshámark opinberra starfsmanna, heldur erum við samþykkir þessu frv. vegna þess, að við teljum eðlilegt, að sérákvæði gildi um biskup, og við bendum þá sérstaklega á það, að allt frá því að lögin um aldurshámark opinberra starfsmanna voru sett 1935, hefur það verið almenn skoðun, að biskup mætti sitja í embætti sínu þrátt fyrir ákvæði þeirra laga til 75 ára aldurs. Þessi skilningur fékk þegar í stað stoð í því, hvernig farið var að um þann fyrsta og eina biskup, sem hingað til hefur reynt á um, að yrði sjötugur, eftir að þessi lög voru sett. En það var Jón biskup Helgason, sem að áskorun kirkjumrh. sat í embætti, þangað til hann var kominn nokkuð á 73. ár.

Vafalaust hefur þá verið litið þannig á, að vegna heimildarinnar, sem er í þessum lögum um það, að þeir mættu sitja til 75 ára aldurs með vissum skilyrðum, sem kosnir eru almennri kosningu; þá gilti þetta einnig um biskup. Reynslan hefur og verið sú, að þetta ákvæði hefur verið talið gilda um alla presta þjóðkirkjunnar. Það hefur ætíð verið talið, að þeir mættu sitja til 75 ára aldurs, og það hefur ekki verið farið eftir bókstaf laganna um það, að kosning þyrfti að fara fram að nýju, heldur hefur áskorun eða eftir atvikum vitað samþykki sóknarbarna verið látið nægja og raunar þar stundum farið enn lengra, vegna þess að til munu vera dæmi fleiri en eitt, að prestar hafa setið allt fram undir eða fram til þess, að þeir urðu áttræðir, og styðst það raunar ekki einu sinni við neinn jafnvel hæpinn bókstaf í lögunum um aldurshámark embættismanna. En það sýnir, að sérákvæði hafa ætið verið talin gilda um prestastéttina í þessum efnum og menn talið það nokkurn veginn vist eða öruggt, að þau sérákvæði tækju einnig til biskups, og eins og ég segi, þannig var farið að í hið eina skipti, sem á reyndi, þangað til nú. Prestastéttin taldi, að eins mundi verða farið að nú og áður, og skoraði því svo til einum rómi á kirkjumálastjórnina að hlutast til um það, að núv. biskup héldi embætti sínu, þó að hann væri orðinn sjötugur. Kirkjumrh. treysti sér hins vegar ekki til þess að verða við þessari beiðni eða áskorun, þrátt fyrir það að hann væri hinn sami sem hafði beint skorað á Jón Helgason á sínum tíma að sitja, eftir að hann var orðinn sjötugur. Nú taldi hann lagaboðið vera svo óljóst, að hann leitaði álits tveggja lögfræðikennara, og þeir komust að þeirri niðurstöðu, að ákvæðin bæri að skilja svo, að engin heimild væri til þess, að biskup sæti, eftir að hann væri orðinn sjötugur.

Ég skal ekki deila um þá túlkun l. Fyrir henni má færa rök, eins og þessir ágætu lagakennarar gera. En ég bendi einungis á það, að þeirra túlkun er alveg gagnstætt því, sem bæði stjórnarvöld og allur almenningur hingað til hefur gert ráð fyrir að væri í lögum. Og úr því að lagaákvæðið er a.m.k. hæpið eða e.t.v. beinlínis gagnstætt því, sem menn hafa talið að gilti, þá er auðvitað miklu eðlilegra í stað þess að hætta á hæpna lagaskýringu að gera ákvæðin ótvíræð og breyta l. til samræmis við það, sem eðlilegt má telja, og það er einmitt, að hliðstæðar reglur í þessu gildi um hinn andlega leiðtoga prestastéttarinnar, biskup, eins og gilda í framkvæmd um presta yfirleitt. Það má segja, að það skipti ekki öllu máli í þessu sambandi, en er þó rétt á það að drepa, að núv. biskup er enn í fullu fjöri, og væri illa varið miklum og alveg óvenjulegum starfskröftum, ef hann væri látinn hverfa úr embætti að ástæðulausu. Ég játa þó, að slíkt tillit til eins manns getur ekki ráðið úrslitum. En ekki skaðar að hafa það í huga, að það mundi beinlínis verða til þess að varðveita starfskrafta góðs embættismanns í þjónustu alþjóðar, ef þetta lagafrv. næði nú fram að ganga.

Því hefur verið haldið fram, að með því að óska eftir því, að annað aldurshámark gilti um biskup en aðra embættismenn, væri í raun og veru verið að gera lítið úr þýðingu biskupsdæmisins, láta eins og það væri vandaminna og léttara, en önnur embætti. Það er síður en svo, að það vaki fyrir stuðningsmönnum þessa frv. Hitt er annað mál, að daglegt amstur biskups, snúningar og annað slíkt, er óneitanlega minna en t.d. dómkirkjuprests í Reykjavík eða prests á öðrum hinum fjölmennari stöðum, sem verða fyrir stöðugu persónulegu kvabbi og ónæði. Þeirra daglega verk er að ýmsu leyti erfiðara, þó að játa verði, að biskupsembættið sjálft sé mikilsverðara og að ýmsu leyti vandasamara. En einmitt hin elzta stofnun kristninnar, sem hefur bezta reynslu af því, á hvaða reki menn séu hæfastir til þess að veita slíkri andlegri stofnun hina æðstu forustu, kaþólska kirkjan, hefur nú fyrir fáum dögum sýnt, að það er síður en svo, að hún telji háan aldur vera því til fyrirstöðu að kveðja menn til sinnar yfirstjórnar. Páfinn, sem einmitt var krýndur til síns veglega starfs í gær, er eins og kunnugt er 77 ára, þegar hann er valinn til starfsins. Að sjálfsögðu mundi hann ekki á þeim aldri þykja sérstaklega vel til þess fær að vera sóknarprestur í stórri borg, þar sem mjög þarf að eiga í snúningum, en það er talið, að þrátt fyrir sinn háa aldur eða e.t.v. meðfram einnig vegna hans sé hann búinn að fá þann þroska og þá yfirsýn, sem geri hann öðrum hæfari til þess, úr því að hann á annað borð heldur fullum andlegum kröftum, að vera andlegur leiðtogi. Þó að ólíku sé að ýmsu leyti saman að jafna, gilda að þessu leyti hin sömu sjónarmið með biskupinn, að það er síður en svo, að verið sé að gera lítið úr hans mikla starfi, þó að þessi sérregla sé látin gilda um hann, og er þó, eins og ég segi, alls ekki um að ræða sérreglu innan prestastéttarinnar, heldur að láta sömu reglu gilda eða hliðstæða um biskup og gildir um prestastéttina í heild. Ef nú á að láta það, sem talið er vera bókstafur laganna frá 1935, gilda, er þar beinlínis verið að efna til undantekningar frá því, sem gildir um prestastéttina óumdeilanlega enn í dag, og til undantekninga og breyt. frá því, sem verið hefur um þetta embætti allt frá því að l. voru sett.

Hitt er svo annað mál, að vel mætti taka til athugunar, ef svo sýnist, hvort finna mætti einhverja aðra skipan á því, hvernig ákvörðun væri tekin um það, hvort biskup ætti að halda áfram eða ekki. Hér er stungið upp á því, sem er hliðstæðast því, sem gilt mun hafa um presta í framkvæmd, og í samræmi við það, sem prestastéttin gerði á s.l. sumri, þegar hún beindi því til réttra aðila, að núv. biskup fengi að vera áfram í sinni stöðu. Ef það þætti hentara í framtíðinni að láta greiða atkv. um þetta með leynilegri kosningu innan prestastéttarinnar, þá finnst mér það vel takandi til athugunar. Mér virðist, að það geti ekki komið til greina um núv. biskup vegna þess, að það er þegar búið að skora á hann með svo yfirgnæfandi meiri hluta, að það væri í raun og veru verið að gera gabb að prestastéttinni og gera lítið úr gildi hennar undirskrifta, ef sagt væri, að þeir ættu eftir að greiða atkv. um það, sem þeir þegar eru búnir að staðfesta með sinni undirskrift að er þeirra ósk. En um framtíðarskipun virðist mér að annað gæti komið til greina, ef mönnum þykir hentara, og mætti þá athuga það til 3. umr., ef frv. á annað borð að meginstefnu hlýtur stuðning þessarar hv. deildar.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál frekar eins og er, heldur legg til, að frv. að umr. lokinni verði samþykkt og gangi til 3. umr.