06.11.1958
Neðri deild: 16. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í C-deild Alþingistíðinda. (1365)

9. mál, biskupskosning

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Bæði sem þm. og þjónn kirkjunnar finn ég nokkra hvöt hjá mér til að fara nokkrum orðum um þetta einstæða og sérstaka frv., sem hefur verið lagt hér til afgreiðslu fyrir hv. Alþ. Ég harma það, að til þessara átaka hefur leitt um virðulegasta og vandasamasta embætti íslenzku þjóðkirkjunnar, þessara átaka, sem eru bæði á Alþ. og viðar hafa orðið vegna þess, að biskup vor hefur átt að láta af embætti samkv. lögum landsins um það. Og þegar ég segi þessi orð, að ég harmi það, að til þessa hefur komið, veit ég, að ég mæli ekki aðeins fyrir minn munn, heldur fyrir munn margra kirkjunnar manna og einnig margra þeirra, sem hafa skrifað undir áskorun um, að núv. biskup fái að sitja „enn um sinn“, og hef ég það af samtölum við þá sjálfa á síðustu dögum. Það mun a.m.k. engan veginn hafa verið ætlun þeirra margra, sem undir þetta skrifuðu, að til þessara átaka leiddi, og þeir hafa ekki óskað eftir nýrri almennri löggjöf um þessi efni og mundu, að því er ég hygg, að miklum meiri hluta ekki óska þess. Og mundi vera hægt að færa rök að því nánar. Og ekkert segir í undirskriftaskjali þeirra heldur um framlengingu á starfi biskups í embættinu til fimm ára, eins og hér er farið fram á að lögfest verði. Þar er orðalagið aðeins, að þetta verði framlengt „enn um sinn“. Það yrði því að hefja undirskriftasmölun enn á ný, ef frv. þetta yrði að lögum, þar sem þær undirskriftir færu fram undir allt öðrum forsendum, en áður var, og eftir að búið er að tilkynna, að biskupskjör eigi að fara fram. Prestafélagið hefur fyrirskipað samkvæmt því og látið fram fara prófkosningu til biskupsembættisins, og hefur þegar mikið af atkvæðum borizt.

Allt er þetta undirskriftafargan harla hvimleitt, vægast sagt, og það á hvergi heima við lýðræðíslega stjórnarhætti, þar sem það jafngildir kosningu í heyranda hljóði, sem allar lýðræðisþjóðir hafa löngu afnumið og jafnvel hin afturhaldssama kaþólska kirkja um páfakjör. Eru undirskriftirnar þó jafnvel enn þá nærgöngulli, en kosningar í heyranda hljóði, þar sem menn skjalfesta atkvæði sitt um ókomna tíð, og er þessi aðferð löngu fordæmd. Ekki vil ég draga það í efa, að hv. flm. þessa frv. gangi gott til með flutningi þess, en ég hygg, að nokkur fljótfærni hafi þar um ráðið og jafnvel tillit til eins manns um of, þótt hann sé sjálfsagt frá kirkjunnar manna sjónarmiði margra, eins og þeirra, alls góðs maklegur og hafi gert verk sín vel. En varhugavert virðist mér það að setja almenna löggjöf út frá slíkum sjónarmiðum, ef hv. Alþ. ætlar að taka upp þá hætti að fara að setja almenna löggjöf út frá svo skammsýnum sjónarmiðum, eins og hér er um að ræða, og gildir þá vitanlega eins og endranær, að í upphafi skyldi hver endinn skoða, og gildir það sannarlega ekki síður fyrir hv. alþingismenn, en fyrir aðra, nema fremur sé.

Afleiðing slíkrar lagasetningar sem þessarar mundi mjög stuðla að því, stuðla að því, segi ég, að í þýðingarmesta embætti kirkjunnar íslenzku sætu að jafnaði aldraðir menn og það jafnvel þeir menn, sem þjóðfélagið með almennri löggjöf annarri teldi ekki æskilegt að sætu áfram í embættum, sem eru bæði veiga- og ábyrgðarminni. Ég vil þar aðeins benda á t.d. prófessora í guðfræði við háskólann, sem eiga að fara frá samkvæmt almennum lögum við sjötíu ára aldur og gera það umyrðalaust eins og aðrir þegnar þjóðfélagsins, sem þeim lögum eiga að hlíta að þegar þeir væru komnir að því ákveðna aldurstakmarki í háskólanum, er ákaflega sennilegt, að þeir gætu komið til greina við að verða í biskupskjöri, þar sem þeir eiga orðið nemendur í embættum um allt land, þekkja prestastéttina og hafa umgengizt hana langmest allra manna, standa þar af leiðandi vitanlega langbezt að vígi að fá fylgi prestanna til að kjósa sig til embættis. Og væri vissulega fyrir þá, sem langar að sitja lengur, en til lögskipaðs aldurs, óneitanlega nokkur freisting að sækja á, í þessum efnum, þar sem þeir mundu þá bæði fá viðurkenningu fyrir því, að þeir væru starfhæfir áfram, jafnvel í vandasömu embætti, og einnig hækkuð eftirlaun, ef þeir hafa gegnt þessu starfi um nokkurt skeið, eins og sjáanlegt er, og er þó frá mínu sjónarmiði ólíku saman að jafna, að maður sitji áfram í fræðistarfi og fræðirannsóknum með lítils háttar kennslu eða tiltölulega lítilli kennslu til áreynslu ellegar sitji í embætti, sem á að ná yfir landið allt að stjórna þeirri stofnun, sem kirkjan er og vitanlega þarf á mjög starfhæfum manni að halda og tryggja sér það, að hann sé sem starfhæfastur og á sem beztum aldri. Um það er ekkert að deila, ef það er öðrum stofnunum hollt og nauðsynlegt, og það sjónarmið gildir vitanlega við lagasetningu um aldurshámark opinberra starfsmanna, að þar er verið að reyna að tryggja, að það sitji sem hæfastir menn í embættunum og á sem starfhæfustum aldri.

Ég hygg líka, að það séu flestir sjötugir menn, sem telja sig starfhæfa áfram, ef ekki er um einhver sérstök veikindi að ræða, og ég lái þeim það ekki, því að þeir finna ekkert til þess sjálfir, og það yrði jafnvel hvað mest eftirsóknin um að fá framlengingu hjá þeim mönnum, sem eitthvað væru farnir að slævast fyrir aldurs sakir að dómgreind til. Og heldur finnst mér það óviðfelldið, að rúmum einum þriðja presta sé falið eða hann hafi möguleika til að setja biskup sinn frá embætti ef hann óskar að halda áfram, eins og er eftir þessu frv. Hann á að fá 2/3. Þar af leiðandi, ef hann óskar að sitja og fer undir kosningu, þá er það 1/3 hluti prestastéttarinnar, sem kannske hefði í einhverjum árekstrum við hann lent, sem hefur heimild til þess að setja hann frá, en þeir, sem vinsælli hafa verið, mundu vitanlega jafnan fá þetta umbeðna umboð, ef þeir færu þess á leit, hvort sem þeir væru fyllilega starfhæfir eða ekki. Ég hygg, að prestar almennt óski ekki eftir þessum rétti, og ég segi fyrir mitt leyti, ég frábið hann mér, meðan ég starfa í kirkjunni.

Ef hv. Alþ. telur það rétt og að þörf sé á því að hafa aldurshámark um öll önnur embætti og störf hins opinbera, eins og nú er ákveðið í lögum, er það einnig til bóta fyrir kirkjuna, og ég tel það henni ekki til hagsbóta eða til virðingarauka, að æðsta embætti hennar sæti þar öðrum lögum og sé sett skör lægra, og ég kann ekkí við það. Ég segi það eins og er, ég kann ekki við það, að þeir, sem ég veit að eru kirkjunni jafnvel hlynntir og vilja henni vel, séu hér að reyna að draga biskupsembættið niður og niðra því, að það sé ekki eins ábyrgðarmikið og ekki eins þýðingarmikið og það er, það sé jafnvel miklu umsvifameira að vera prestur hér í Reykjavik og því um líkt. Þessu er til að svara, að varðandi hvert einasta embætti í landinu, þá er amstur þess undir því komið, hversu maðurinn er duglegur. Það er vitanlega hægt — og er gert af mörgum embættismönnum — að gera sér embætti sín hæg með því að hafa sem minnst umsvif og minnst amstur. Þetta er hægt að gera með mörg embætti. En það er varla til svo lélegt embætti í landinu, að það sé ekki hægt að hafa þar nóg amstur og nóg umsvif, ef maðurinn er umsvifamikill og vill gegna sínu embætti sem bezt og það finnur hver maður, sem farinn er að eldast, meðal annars við, sem eitthvað erum farnir að eldast, við erum ekki sömu menn til átaka eins og á bezta aldri.

Þá tel ég það líka, að menn kirkjunnar og þjónar og ekki sízt æðstu embættismenn hennar ættu að telja sér skylt að hlíta almennum landslögum eins og aðrir. Það má vei vera, að stundum væri æskilegt, að 70 ára embættismenn sætu eitthvað lengur áfram í embætti, en um það á þá að gilda almenn regla, ekki um biskupsembættið eitt, heldur um önnur embætti líka. Og sannast mála mun það, að biskupar í kirkju Íslands, ef við lítum yfir sögu okkar, hafa ósjaldan reynzt því ötulli og athafnameiri, því yngri og fyllri starfsorku og getu sem þeir höfðu, þegar þeir tóku við embætti, og nægir þar að benda til eins athafnamesta biskups okkar, Guðbrands Hólabiskups, sem tók embætti aðeins 29 ára gamall. Og þetta er með öllu eðlilegt, ákaflega eðlilegt. Stofnunum, sem hafa jafnmikil umsvif og eiga að vera jafnvel skipulagðar og kirkjan til að flytja sín sannindi, ríður sannarlega á því, að það sé einhver trygging fyrir því, að menn verði ekki allt of þaulsætnir í embættum. Og að bera þetta saman við kjör páfa, sem nú hefur verið kosinn, 77 ára, þá er það upplýst um leið, að sá páfi, sem lézt og var hinn athafnasamasti, meðan hann hafði krafta til, áður en hann varð sjúkur, og stóð í blóma lífsins, þá skýra þeir frá um leið, að margt af embættisstörfum hams hafi verið trassað og m.a. hafi hann gleymt að skipa í embætti, jafnvel upp undir 20 kardinálaembætti, sem hefur orðið til þess að Ítalarnir hafa orðið í minni hluta í kardinálasamkundunni og kjósa þar af leiðandi gamlan mann ítalskan — reyna að fá það — til að láta skipa í embættin og verða þar aftur í meiri hluta. Þetta er öllum mönnum ljóst, að þessu er þannig háttað, til þess að þeir geti aftur fljótlega fengið að skipa í embættið. Og kunnugt er það, að einn áhrifamesti kardinálinn í þessari samkundu hvatti samstarfsbræður sina til þess að kjósa tiltölulega ungan mann í embætti páfa, áður en til kosninga kom, og kom það hér í blöðum einnig.

Í grg. frv. er gefið í skyn, að Jón biskup Helgason hafi setið í embætti tvö ár fram yfir sjötugt á svipuðum forsendum og nú voru eða eru fyrir hendi með undirskriftum prestanna, sem safnað hefur verið. Þetta er ekki rétt, og er því rétt að skýra frá því eins og það var. Prestarnir túlkuðu lögin ekki heldur á þá leið, að heimilt væri að framlengja setu biskups í biskupsstóli þá. Þegar Jón biskup Helgason varð sjötugur, eða á því ári, sem hann varð sjötugur, kom prestastefna Íslands saman og biskup varð sjötugur nokkrum dögum síðar, ef ég man rétt, 30. júní. Þá lét stjórn Prestafélags Íslands, sem núv. biskup átti þá sæti í, fara fram prófkjör um nýja biskupskosningu, og vegna hvers? Vegna þess, að þeir töldu víst vitanlega, að þegar hann væri sjötugur, færi hann frá. Og það er ekki rétt, að það færu fram neinar undirskriftir eða áskoranir um, að Jón biskup Helgason sæti áfram í embætti, enda þekkti ég manninn svo vel, að hann hefði ekki óskað eftir því að fara að leita einhverra vinsælda eða fylgis hjá prestunum til þess að sitja nokkur ár lengur í embætti, enda var það ekki hans siður. En það, sem olli því, að Jón biskup Helgason sat nokkur ár lengur í embætti, en til lögskipaðs aldurshámarks, var það, að hann var skipaður í embættið á allt annan veg, en nú er, eða skipaður eingöngu af ráðherra og löngu áður, en lög um nokkurt aldurshámark voru til. Það kemur aðeins til árið 1935, eða einu ári áður, en séra Jón Helgason biskup á að hætta sem biskup. Og þar sem það var ekki talið með öllu víst, hvort þessi nýju aldurshámarkslög næðu til hans, var honum skrifað bréf af þáv. kirkjumrh. um að sitja enn fyrst um sinn, á meðan þetta væri athugað. Og þegar það hafði verið athugað nánar, sem dróst þó alllengi, um tvö ár, — og það er í lögum, að það má draga þetta að öllum líkindum, eftir því sem menn segja mér, allt að ári, — þá, þegar honum var tilkynnt, að lögin næðu til hans, sagði hann af sér orðalaust og safnaði engum undirskriftum og safnaði þeim aldrei.

Þetta tel ég sjálfsagt að komi hér fram, vegna þess að menn virðast hafa allmikla tilhneigingu til, eins og hendir, að færa fram hæpin rök í því, sem flutt er. Hann sagði því af sér. En það, að prófkjörið var látið fara fram af stjórn Prestafélags Íslands og þessi úrskurður féll síðan um dr. Jón Helgason biskup, sýnir, að prestastéttin taldi ekki, að það væri hægt að framlengja embættið um fimm ár, heldur mundi verða að fara fram kosning, sem síðan var haldið leyndri, þegar ekki kom til kosninga strax, og hefur ekki verið birt. Þetta er það sanna í málinu, enda sjáum við það, að í undirskriftaskjali prestanna, sem sent er til Alþingis, vitna þeir ekki til nokkurra laga, heldur biðja um framlengingu „enn um sinn“, og hafa margir sagt, að það hafi verið aðeins um stund, vegna þess að þeir hafi haldið, að það væri hægt, sem sennilega er hægt eftir lögunum, að það geti dregizt allt að ári, — hefur mér verið sagt, ég skal ekki um það segja, — á meðan biskupskjör fer fram, eins og verið hefur. En það sýnir, að það er ekki heldur rétt rökfærsla, að prestar, þegar þeir skrifa undir, hafi staðið í þeirri meiningu, að sama gilti um biskup eins og prestana. Hefðu þeir þá vitanlega vitnað til þessara laga og óskað eftir framlengingu samkvæmt þeim, sem ekki er.

Það gat því engum blandazt hugur um, að almennu lagaákvæðin næðu til embættis biskups, þegar þessar undirskriftir fóru fram, og allra sízt prestunum, enda vitna undirskriftirnar sjálfar til þess. Hitt hafa þeir máske haldið, að ráðh. gæti, eins og með Jón biskup Helgason, framlengt embættið eitthvað um sinn, „enn um sinn“, eins og þeir segja í þeim undirskriftaskjölum, sem þeir senda.

Hv. frsm. meiri hl. taldi, að það væri eðlilegt, að það væru sérákvæði um biskupsembættið í þessum efnum. Ekki get ég nú komið auga á það, að biskupsembættið sé svo veigalítið, að það sé áhættuminnst af öllu að hafa þar mann sem elztan í embætti, og vil ég mótmæla því mati á þessu virðulega og mikilvæga embætti.

Þá er ein röksemdafærslan sú, að við munum eitthvað spara fé fyrir ríkissjóð með því að láta þann, sem nú situr, biskup landsins, sitja eitthvað lengur, því að hann komi þá seinna á eftirlaun. En er ekki rétt að skoða málið frá því sjónarmiði, að í upphafi skyldi hver endinn skoða, að því eldri sem menn koma í embættið, því fleiri verða á eftirlaunum innan stundar, ef svo heldur fram eins og nú er, að menn yfirleitt eru að eldast betur? Það er því mjög vafasöm röksemdafærsla.

Ég skal svo ekki þreyta hv. deild um of á þessu, hef aðeins viljað koma fram með það eins og það horfir frá mínu sjónarmiði og eins og ég hef látið mig málið skipta frá upphafi, að líta á það sem mál kirkjunnar fyrir ókomna tíð, en ekki fyrir einstakan mann, og horft þá til þeirra orða Hallgríms: „Vinn þú það ei fyrir vinskap manns“. Ég hef ekkert nema allt gott til að segja þess manns, sem nú situr í biskupsstóli. En ég álít, að ofar því, sem hann máske vill eða snertir hann persónulega, séu hagsmunir kirkjunnar og starfsaðstaða hennar um ókomin ár. Og samkvæmt því hef ég hegðað mér frá fyrstu tíð, frá því að farið var að hreyfa þessu máli. Vona ég líka að svo geri hv. alþm., þegar þeir hafa litið á þá málavexti, sem fyrir liggja.

Ég veit, að kirkjan á enn sem fyrr nóg af hæfum mönnum til að taka að sér biskupsstarf, og ég vona, að prestastéttinni takist að velja þar vel, eins og henni hefur tekizt undanfarið og viðurkennt er. En þá vil ég umfram alla muni biðja um, að það megi vera án afskipta hins pólitíska valds og hv. Alþ., og mun þá bezt fara.