06.11.1958
Neðri deild: 16. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í C-deild Alþingistíðinda. (1366)

9. mál, biskupskosning

Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til þess að koma í veg fyrir misskilning. Ég heyrði áðan, að hv. frsm. meiri hl. hafði misskilið það, sem ég sagði um eitt atriði, og ég vil gjarnan segja það á þá leið, að ekki verði misskilið. Það var í sambandi við þá breyt., sem gerð hefur verið á ákvæðum l. frá 1935.

Ég gat þess í ræðu minni, að í þeim l. hefði verið ákvæði um það, að ákveða mætti, að embættismaður mætti sitja áfram. Og það fólst í þessu ákvæði, að það var ráðh., einmitt ráðh., sem átti að meta það áfram í fimm ár. Nú benti hv. frsm. meiri hl. á það, að þá hefðu gilt önnur ákvæði um hámark, þ.e.a.s. 65 ár, en ekki 70, eins og nú er. Það er rétt, að aldurshámarkið var þá 65 ár, en það skiptir ekki máli í sambandi við það, sem ég var að segja. Það, sem ég á við, er þetta, sem ég vildi að kæmi alveg skýrt fram, að ég tel, að það sé ákaflega erfitt að meta starfshæfni manna, hver sem það á að gera, hvort sem það er ráðherra eða annar., það er erfitt að meta það, hvort aldurhniginn maður sé vegna aldurs fær um að gegna starfi sínu áfram eða ekki. Í l. 1935 var þetta orðað á þá leið, sem hér segir, með leyfi hæstv. for;seta: „Heimilt er þó, að þeir opinberir embættis- og starfsmenn, sem þykja til þess nógu ernir til líkams og sálar, séu látnir halda störfum sínum, þar til þeir eru fullra 70 ára.“ En enginn eldri, en þetta, mátti vera í opinberu embætti eða stöðu. Það, sem í þessu fólst, var það, að heimilað var, þegar aldurshámarkinu var náð, að meta það, hvort hlutaðeigandi embættismaður væri nógu ern til líkams og sálar til þess að halda sínu starfi áfram. Það skiptir í raun og veru ekki máli, hvort um 65 eða 70 ár var að ræða. En þetta er það, sem löggjafanum hefur seinna sýnzt að ekki ætti að vera undir mati komið. Þetta vildi ég aðeins láta koma fram. Það var þetta sem ég átti við í ræðu minni áðan og ég vildi nú taka skýrar fram, ef það skyldi hafa misskilizt.

Það er svo ekki annað, sem ég sé ástæðu til að taka fram, því að það, sem fram er komið síðan, gefur mér ekki tilefni til frekari umræðna.