07.11.1958
Neðri deild: 17. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í C-deild Alþingistíðinda. (1374)

9. mál, biskupskosning

Frsm. meiri hl. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta mál liggur auðvitað til úrskurðar forseta, og skal ég ekkí frekar blanda mér í það, hvernig hann verður, en einungis benda á, að enn hefur ekki af hálfu neinna þeirra, sem greiddu atkv. með frv. til 3. umr., komið fram ósk um að fresta. En aðalatriðið er þó það, að hv. 2. þm. Rang. gerði mjög mikið úr því í málflutningi sínum í gær, að þetta mál væri nokkuð seint á ferðinni, vegna þess að nú þegar væri hafin prófkosning hjá prestastéttinni um nýtt biskupsefni, og eðli málsins er þannig, að það getur beinlínis verið óheppilegt, svo að vægt sé til orða tekið, að láta það dragast mjög lengi, að skorið sé úr því á einn eða annan veg, hvort þetta frv. nær fram að ganga. Ég skal taka það fram, að mér er gersamlega ókunnugt um, hvaða fylgi málið hefur á þingi. Það má vel vera, að það sé dæmt til þess að falla, eins og það getur verið, að það geti orðið samþykkt. En ég hygg þó, að allir séu sammála um þá meginhugsun, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Rang., að ef málið á að ná fram að ganga, þá er það þannig vaxið, að það er ekki heppilegt, úr því sem komið er, að það dragist mjög lengi.