11.12.1958
Efri deild: 36. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í C-deild Alþingistíðinda. (1392)

9. mál, biskupskosning

Frsm. minni hl. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um þetta mál, en nm. ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði fellt, en minni hl., hv. þm. V-Sk. og ég, leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það kom frá hv. Nd.

Mál þetta hefur verið nokkuð lengi á leiðinni, frá því að það var lagt fram í fyrstu í hv. Nd. Hefur allmikið verið um það rætt og ritað. Ættu því rök þess að liggja nokkuð ljós fyrir hv. þm. Ed. Ég mun þó leitast við að rifja þau helztu upp í örstuttu máli.

Svo sem kunnugt er, hafa hugmyndir manna verið nokkuð á reiki um það, hvort biskup Íslands mætti sitja lengur í embætti, en til sjötugs vegna ákvæða í l. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og l. um aldurshámark opinberra starfsmanna. Hin síðarnefndu lög gengu í gildi á árinu 1935. Þau voru því í gildi, þegar þáverandi biskup Íslands., dr. Jón Helgason, varð sjötugur. Hann var þó ekki látinn hætta störfum þá, heldur mun hann hafa setið áfram í þessu virðulega embætti á þriðja ár eftir sjötugt, og hefur ekki annað heyrzt en vel hafi þótt á því fara.

Þegar núverandi biskup yfir Íslandi, herra Ásmundur Guðmundsson, varð sjötugur, þóttu ákvæði laga ekki skýrari en svo, að fengnir voru tveir af lærðustu lögfræðingum þjóðarinnar til að segja sitt álit á því, hvort biskup mætti sitja lengur í embætti en til sjötugs. Þessir mætu fræðimenn komust að þeirri niðurstöðu, að þetta væri óheimilt að óbreyttum lögum. Það datt engum í hug að vefengja þennan úrskurð út af fyrir sig. Á hinn bóginn þótti ýmsum full ástæða til að breyta l. að þessu leyti, gera þau skýr og ótvíræð, þannig að biskup hefði tvímælalausan rétt til þess að sitja í embætti fram yfir sjötugt, svo sem látið hefur verið viðgangast.

Um sóknarpresta og aðra þá, sem til starfs eru kosnir almennri kosningu, gildir sú regla, að þeir megi gegna störfum til 75 ára aldurs, ef vissum skilyrðum er fullnægt. Sú hefur og raunin orðið um ýmsa sóknarpresta, að þeir sitja í embættum eftir sjötugt, og þykir sjálfsagt. Þessi staðreynd hefur án efa mótað þá skoðun margra, að biskupi væri lögheimilt að gegna embætti sínu fram yfir sjötugt, enda verður að telja það mjög eðlilegt, að svipuð ákvæði gildi um biskupa og presta þjóðkirkjunnar að þessu leyti.

Frv. þetta, ef að lögum verður, veitir aðeins heimild til þess, að biskup megi halda embætti sínu til 75 ára aldurs. Þetta er þó því aðeins heimilt, að aðrar ástæður hindri ekki, að hann fái haldið embættinu. Enn fremur er þessi heimild bundin því skilyrði, að 3/5 þeirra, sem atkvæðisrétt hafa við biskupskjör, beri fram ósk um það. Það virðist því búið svo um hnútana, að ólíklegt má telja, að hrapað yrði að því að nota þessa lagaheimild, nema full ástæða þætti til.

Frv. þetta hefur verið sent nokkrum aðilum til umsagnar, m.a. kirkjuþingi, kirkjuráði og biskupi. Enginn þeirra hefur andmælt frv., heldur þvert á móti verið því fylgjandi. Ég leyfi mér sérstaklega að vekja athygli á umsögn kirkjuþings, sem saman kom nú í haust og starfar eftir nýjum lögum, sem hæstv. Alþ. hefur gert úr garði. Ég man ekki betur, en því hafi einmitt verið mikið á loft haldið við setningu þeirra laga, að kirkjuþing ætti að vera ráðgefandi aðili um öll meiri háttar málefni, er snerta kristni og kirkju, og sjálfu Alþingi bæri að vísa þangað slíkum málum til umsagnar, enda var svo gert með þetta frv. Núv. hv. alþm. geta vart látið ráð og till. þessarar stofnunar algerlega sem vind um eyru þjóta.

Ýmsum rökum, fremur léttvægum þó, hefur verið beitt gegn þessu frv., svo sem þeim, að allt undirskriftafargan væri hvimleitt. Satt er það, að sumum gengur illa að taka ákveðna afstöðu, nema þeir séu hjúpaðir leynd kjörklefans. Ég tel þó engan of góðan til þess að segja til um, hvort hann vilji undirrita ákveðið skjal eða ekki. Auk þess mætti framkvæma ákvæði frv. þannig, að ekki yrði um neinar undirskriftir að ræða, eins og hv. frsm. meiri hl. benti á.

Bent hefur verið á, að óheppilegt sé, að aldraðir menn sitji á biskupsstóli. Þetta er þó algerlega undir atvikum komið. Og hv. fjvn. mætti a.m.k. minnast þess, hversu fyrrv. yfirmaður hinnar kaþólsku kirkju hélt vel virðingu sinni í embætti, þótt kominn væri á níræðisaldur. Hefur mér heyrzt á hv. nm., að þeim hafi þótt nokkurs um vert að ná fundi hins aldna kirkjuhöfðingja.

Það mætti telja ýmis fleiri rök með þessu frv., en þau eru þegar meira og minna kunn. Ég vil þó að lokum benda á það, að þegar áður en núv. biskup Íslands varð sjötugur, höfðu kirkjumrn. borizt undirskriftir mikils hluta þeirra sóknarpresta og annarra, er atkvæðisrétt hafa við biskupskjör, þess efnis, að biskup fengi að halda embætti enn um sinn. En þar sem fyrrnefnd álitsgerð lögfræðinganna er nú fyrir hendi, er ómögulegt fyrir rn. að koma til móts við þessar ákveðnu óskir kirkjunnar þjóna, nema þetta frv. verði samþykkt eða önnur heimild svipaðs efnis. Það er því síður en svo, að frv. þetta sé flutt til þess að gera hlut kirkjunnar lítinn, heldur miklu fremur til þess, að unnt sé að ganga til móts við stóran hóp af mætustu mönnum, sem starfa að málum íslenzkrar kirkju í dag.