27.02.1959
Efri deild: 76. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í C-deild Alþingistíðinda. (1400)

43. mál, póstlög

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég hafði nú einmitt ætlað að leyfa mér að fara fram á það, að þessari umr. yrði frestað, en að ég fengi tækifæri til að beina örfáum fsp. til hv. samgmn., sem hún fengi þá tækifæri til að kynna sér og gefa svör við, áður en 2. umr. yrði lokið.

Hv. samgmn. hefur haft þetta mál lengi til athugunar, bæði nú í vetur og í fyrra. Þó lítur meiri hl. hennar svo á, að málið þurfi enn nánari athugunar við, og leggur til, að því verði vísað til ríkisstj. Mér finnst þetta heldur vandræðaleg afgreiðsla í ekki flóknara máli.

Eiga allir viðtakendur póstsendinga að njóta sama réttar, eða ber að mismuna þeim? Þetta er spurningin, sem um er að ræða, og mér a.m.k. finnst svarið liggja beint við. Hagsmunir sterkari aðilans, í þessu tilfelli póststjórnarinnar, eiga ekki einir að fá að ráða því, hvað séu lög og hvað ekki.

Hv. samgmn. treystir sér ekki til að skera úr um þetta mál, og máske er henni nokkur vorkunn. Ég er ekki viss um, en ég er hræddur um, að reynt hafi verið að blekkja hana af þeim, sem hún eðlilega leitaði ráða hjá, sjálfri póststjórninni og samtökum póstmanna. Það mál er vissulega ástæða til að athuga nánar, og það á sjálf hv. n. að gera. Þeirri athugun á hún ekki að vísa til ríkisstj.

Með nál. hv. meiri hl. eru prentuð 3 fskj., og eru tvö þeirra umsagnir póst- og símamálastjórnarinnar um frv., en hið þriðja er umsögn póstmannafélags og póstmannasjóðs. Þessar umsagnir eru býsna athyglisverðar. Fyrri umsögn póststjórnarinnar virðist mér á köflum bæði óljós og loðin hvað meginatriði snertir og einkar vel fallin til að villa um fyrir fólki. Þar er að vísu rækilega greint frá eyðublöðum, mikilvægi þeirra og þeim alþjóðareglum, sem um þau gilda. Þau eru geymd í þrjú ár vegna endurskoðunar og vegna kæra og umkvartana, er berast kunna. Allt er þetta gott og blessað, svo langt sem það nær. Það á við eyðublöðin og annað ekki. Álímdu frímerkin hafa ekki sama gildi fyrir starfsemi póststjórnarinnar og sjálf eyðublöðin, eins og þó er reynt að láta skína í, í umsögninni. Frímerkin og eyðublöðin eru ekki óaðskiljanleg. Það eru frímerkin, sem viðtakendur ætlast til að fá rétt á, en ekki eyðublöðin, eins og þau leggja sig.

Í báðum grg. póststjórnarinnar er gefið í skyn, að ákvæðið í 17. gr. póstlaga um eignarrétt hennar á notuðum frímerkjum sé í samræmi við fyrirmæli alþjóðapóstsamninga, og höfundar þriðju umsagnarinnar telja breyt. þá, sem felst í frv. þessu, gagnstæða alþjóðalögum. Er það furða, þótt hv. n. hiki, þegar slíkt er staðhæft? Hér er um að ræða alþjóðapóstsamninga, sem forseti Íslands undirritaði 22. apríl 1953, segir póststjórnin í síðari umsögn sinni. Það væri ljótt til afspurnar, ef sjálf póststjórnin vegna ofurkapps leyfði sér að gefa hinu háa Alþingi villandi upplýsingar, en ég get ekki neitað því, að ég finn ástæðu til að rengja þessar staðhæfingar. Ég hef farið sjálfur lauslega yfir alþjóðapóstsamninga, sem til eru hér í bókarformi, og einn af starfsmönnum þingsins hefur gaumgæfilega pælt í gegnum þá, en hvorugur okkar hefur fundið þetta fyrirmæli þar.

Enn fremur hafa fróðir menn tjáð mér, að í Bandaríkjunum og fleiri löndum tíðkist það ekki að svipta viðtakendur eignarrétti á notuðum frímerkjum, svo sem hér er gert og raunar viðar. Líklega eru Bandaríkin þó í alþjóðapóstsambandinu. Hér er sannarlega athugunarefni fyrir hv. samgmn. frekar en ríkisstj., svo þungvæg sem ákvæði alþjóðalaga hljóta að vera í þessu máli.

Í greinargerðunum er látið í það skína, að umrædd frímerki séu póststjórninni ómissandi vegna endurskoðunar. Hér er aftur verið að þyrla upp ryki. Það eru ekki frímerkin, sem eru ómissandi að þessu leyti, heldur sjálf eyðublöðin, og þau eru jafngóð sem gögn, þótt merkin séu fjarlægð. Ég hef heyrt ýmsa menn, sem þessum málum eru kunnugir, halda því fram, að frímerkin á eyðublöðum póststjórnarinnar séu engan veginn henni nauðsynleg vegna endurskoðunar póstreikninga, slíkt sé hreinn fyrirsláttur. Ég skal nefna eitt dæmi um þessa skoðun. Í forsendum hæstaréttardóms um eignarrétt á umræddum frímerkjum segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Gegn þessu bendir stefnandi á, að sá háttur sé hafður á hjá póstafgreiðslum landsins, að frímerkin séu tekin af póstávísunum, jafnskjótt og þær hafa verið innleystar og komnar að nýju í vörzlu póstsins. Að því er frímerkin snertir, sé ákvæðið ekki heldur sett vegna væntanlegrar endurskoðunar, heldur eingöngu í því skyni að afla póststjórninni tekna, sem að nokkru leyti renna síðan til póstmannasjóðs samkv. reglugerð nr. 19 1923.“

Af þessum ummælum má ráða, að póstþjónustan sjálf muni ekki í reyndinni líta stórt á þýðingu þessara frímerkja fyrir endurskoðunina.

Vegna þeirra efasemda, sem hjá mér hafa vaknað um sanngildi nokkurra mikilvægustu atriðanna í fyrrgreindum umsögnum og ég nú hef skýrt frá, vil ég leyfa mér að beina örfáum fsp. til hv. samgmn., og vænti ég þess að fá við þeim skýr og ótvíræð svör.

Spurningarnar eru þessar:

1. Hvernig hljóðar ákvæði alþjóðapóstsamninga um eignarrétt póststjórnar á notuðum frímerkjum, álímdum á eyðublöð þeirra, og hvar er það að finna í alþjóðapóstsamningum þeim, er forseti Íslands undirritaði 22. apríl 1953?

2. Hvenær komst ákvæðið um eignarrétt póststjórnarinnar á notuðum frímerkjum, sbr. 17. gr. póstlaga, fyrst í lög á Íslandi, og hvaða reglur giltu um þann eignarrétt áður?

3. Hve mikið er hæft í þeirri fullyrðingu, að sá háttur sé hafður á hjá póstafgreiðslum landsins, að frímerkin séu tekin af póstávísununum jafnskjótt og þær hafa verið innleystar og komnar að nýju í vörzlu póstsins?

4. Eru nokkur teljandi vandkvæði á því að gera endurskoðun póstreikninga með öllu óháða því, hvort frímerkin fylgja eyðublöðunum í geymslu eða ekki?

5. Ef ákvæðið um eignarrétt póststjórnarinnar á notuðum frímerkjum yrði numið úr gildi, mætti þá ekki bæta póstmannasjóði tapið með því móti t.d. að koma á árlegum póstmannadegi, er seld væru sérstök yfirprentuð frímerki sjóðnum til ágóða?

Síðustu spurninguna set ég fram vegna þess, að í hópi póstmanna hefur þeirrar skoðunar gætt, að frv. jafngilti árás á hagsmuni póstmannastéttarinnar. Ég tel þá skoðun fráleita og er viss um, að finna má aðra leið til fjáröflunar póstmálasjóði en nú er farin, smekklegri leið og vinsælli.

Ég treysti því, að hv. samgmn. taki fsp. Mínum vinsamlega og veiti mér svör við þeim. Að sjálfsögðu þarf hún tíma til að athuga þær, og því vil ég endurtaka tilmæli mín til hæstv. forseta, að hann fresti þessari umr., þar til svör hv. n. liggja fyrir.