19.12.1958
Efri deild: 41. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í C-deild Alþingistíðinda. (1407)

68. mál, fræðsla barna

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 8. landsk. þm. leyft mér að flytja á þskj. 132 frv. til breyt. á l. um fræðslu barna. Efni þessa frv. er einfalt og auðskilið. Það er um, að lögleitt verði, að skipa megi til barnakennara fólk, sem hefur verið ráðið eða sett í þá stöðu samfleytt í tíu ár eða lengur. Sams konar till. í frv.-formi flutti ég á þinginu 1955. Þar var að vísu miðað við 15 ár, en það finnst okkur, hv. 8. þm. landsk. og mér, óþarflega langur tími, eins og sakir standa nú. Frv. var vísað til hv. þáv. ríkisstj. og síðan ekki söguna meir um það, enda má víst ganga út frá því sem vísu, að slík atkvgr. sé að jafnaði miðuð við mildan dauða.

Allt frá upphafl skólaskyldunnar hefur vantað menn með kennarapróf til þess að skipa öll sæti við barnaskóla landsins. Af því hefur leitt, að til kennslunnar hefur verið ráðið fólk, sem ekki hefur haft kennararéttindi. Margt þetta fólk hefur aðeins um stundarsakir gefið sig í störfin. Það hefur hlaupið í skörðin ár og ár, en horfið fyrr eða seinna að öðru, enda jafnan orðið að víkja, ef einhver réttindahafi hefur gefið sig fram til þess að taka við. Aftur á móti hafa nokkrir ílengzt við störfin og helgað sig störfunum. Hefur þá jafnan hvort tveggja verið, að þessu fólki hafa fallið kennslustörfin vel og enginn úr hópi þeirra, sem lokið hafa kennaraprófi, hefur sótt um embættið. Þetta fólk hefur því alls ekki tekið atvinnu af nokkrum manni. Það hefur þvert á móti tekið að sér verk, sem þjóðfélaginu bar nauðsyn og skylda til að láta vinna, en hafði ekki neinn réttindamann til að gegna.

Þjóðfélagið á þess vegna þessu fólki þakkir að gjalda. Og það má ekki minna vera en að fólkinu sé goldin þakkarskuldin með réttindum, svo að það þurfi ekki að rýma sæti fyrir þeim, er hafa lokið kennaraprófi, þegar það hefur gegnt störfum lengi eða samtals í 10 ár minnst, eins og við flm. leggjum hér til, og ef það fær meðmæli yfirboðara sinna.

Barnakennarar í þjónustu ríkisins veturinn 1957–58 voru alls 760 talsins. Meðal þeirra var 101 kennari próflaus eða nálega sjöundi hver maður. Af þessum 101 réttindasnauðra kennara voru 34, sem höfðu verið ráðnir eða settir kennarar tíu ár eða lengur. Ég hef ekki upplýsingar um sams konar tölur fyrir veturinn í vetur. En á næstliðnum árum virðist alls ekki hafa úr því dregið, að leita hafi þurft til kennaraprófslausra manna við að halda uppi fræðslu í barnaskólum landsins. Þörfin fyrir þá virðist viðvarandi, þegar á heildina er litið. Hins vegar eiga hinir próflausu það skv. núgildandi l. alla tíð yfir höfði sér hver um sig, að einhver prófmaður komi í skólahéraðið og segi í nafni réttinda sinna: „Sit þú ekki í sæti mínu“ — og þá verður hinn próflausi að víkja, þótt hann hafi öll sín beztu ár kennt þarna, þjálfað sig í starfinu, unnið sér vinsældir og virðingu sem kennari og nemendur hans hafi staðizt próf sín vel.

Þetta er harkalegt óréttlæti. Þessir starfsmenn ríkisins búa við svipað öryggisleysi fyrir sig og sína eins og fjölskylda, sem getur átt von á því að verða borin út úr leiguíbúð sinni, þótt hún standi alltaf í skilum, eða sjómaður, sem á það yfir höfði sér að verða að víkja úr skiprúmi hvenær sem er fyrir öðrum, þótt hann hafi reynzt hið bezta og útgerðin eigi það honum að þakka, að hægt hefur verið að gera skipið út.

Ríkið getur ekki látið sér sæma að búa þannig að kennurum, sem hafa verið í þjónustu þess lengi. Ég ræði í þessu sambandi eingöngu um þá kennara, sem leyst hafa vandræði, sem stafað hafa af vöntun á réttindakennurum í áratug eða lengur, og staðið svo vel í stöðu sinni, að skólanefnd, námsstjóri og fræðslumálastjóri telja rétt, að þeir verði festir í starfinu. Til annarra nær sem sé frv. ekki.

Ég leyfi mér að fullyrða, að hér er um fyllsta sanngirnismál að ræða. Mér virðist þjóðfélagið alls ekki mega lengur draga að bæta úr því, hvað þessir umræddu þjónustumenn þess hafa lítið atvinnuöryggi. Mér er næst að halda, að ekki sé hægt að benda á neinn mann í opinberri þjónustu, sem telja megi að búi í þessum efnum við sams konar öryggisleysi.

Hvers gjalda svo þessir menn? Þeir gjalda þess, að þeir hafa ekki próf út úr kennaraskóla.

Ekki vil ég gera litið úr prófi þaðan eða námi þar. Hins vegar er jafnvel gott kennarapróf manns úr skólanum ekki óyggjandi, ég segi ekki óyggjandi trygging fyrir því, að maðurinn verði æskilegur kennari. Hann kann að skorta þá skapgerð, sem kennarar þurfa að hafa, ef þeim á að farnast vel, þótt hann hafi aflað sér þekkingarforða til þess að taka gott próf. Aftur á móti er fyllilega í ljós komið eftir tíu ára starf, hvernig kennari maðurinn er.

Hygg ég þess vegna betur séð fyrir því, að þeir, sem kennararéttindi fá, séu til þess hæfir að kenna, ef þeir hafa sýnt og sannað hæfileika sína með tíu ára starfi við kennslu, en þó að þeir standist próf við lok skólagöngu sinnar. Ég geri ekki lítið úr kennaraskólagöngu, það er langt frá því, en sjálfsnám og önnur skólaganga getur líka að haldi komið, ef upplagið er vel fallið til kennslustarfa. Og þess eru ákaflega mörg dæmi.

Frv. felur aðeins í sér, að heimild sé til þess að veita barnakennarastöður mönnum, sem hafa verið kennarar í tíu ár eða lengur, ef hlutaðeigandi skólanefnd, námsstjóri og fræðslumálastjóri leggja það til. Þessir aðilar, skólanefndin, námsstjórinn og fræðslumálastjóri, meta hæfni mannsins eftir árangri af störfum hans í tíu ár eða lengur. Þeim ætti sannarlega að vera treystandi til að meta rétt, þegar grundvöllurinn er reynsla af mönnum. Ég get ekki betur séð en að í engu sé slakað á kröfum um starfshæfni, nema síður sé, þótt þessi heimild sé í lög leidd, enda væri það alls ekki rétt. Á hlut þeirra, sem njóta eiga kennslunnar, er því alls ekki gengið.

En þá kemur spurningin: Er gengið á hlut réttindafólksins? Fráleitt er, að svo sé, meðan vantar kennara með fullum réttindum í nálega sjöunda hvert kennaraembætti til barnaskólanna.

Auðvitað verður ekki lagaheimildin notuð, nema meðan ekki er nægilegt framboð af réttindafólki. Óhætt mun að treysta því, að skólanefndir, námsstjórar og fræðslumálastjóri gæta þess ásamt sjálfu æðsta veitingarvaldinu.

Loks minnist ég þess, að ég hef heyrt kennara hafa það á móti málinu, að verið geti, að fólk hætti að afla sér menntunar til að stunda kennarastörf, ef hægt sé að öðlast kennararéttindi með því einu að kenna. Þetta tel ég augljósa fjarstæðu. Svo mikil óvissa er um, að fólk fái setið að stöðu í tíu ár og hlotið síðan meðmæli, að enginn mun treysta slíku fyrir fram, enda eru eftirsóttustu kennarastöður við barnaskólana umsóttar af réttindamönnum, og þar kemur jafnan aðeins kennaraskólagengið fólk til greina. Það verður því eftir sem áður áhugamál fyrir það fólk, sem vill gera barnakennslu að lífsstarfi og auðvitað í sem beztum kennarastöðum, að afla sér menntunar og réttinda strax. Ég sé ekki betur, en það þurfi hugarfar réttindaeinokunar til þess að vera á móti því, eins og sakirnar standa, að kennarar, sem hafa starfað við barnakennslu í tíu ár eða lengur, verði skipaðir, þótt þeir hafi ekki prófskírteini að sýna, ef þeir á annað borð þykja hafa sannað það, að þeir séu verki sínu vaxnir.

Að endingu vil ég svo benda á það, sem í grg. er fram tekið, að í l. um gagnfræðanám segir:

„Nú sækir enginn, sem fullnægir þessum skilyrðum“ — en það er skilyrðum um próf m.a. „um lausa kennarastöðu, og skal þá skólanefnd og fræðslumálastjórn leitast við að fá til hæfan mann, og má að tveim árum liðnum gera hann að föstum kennara, enda komi meðmæli hlutaðeigandi skólastjóra til.“ Þarna eru ólíkt minni kröfur gerðar en til barnaskólakennara. Til gagnfræðaskóla má ráða skv. þessum ákvæðum mann sem fastan kennara eftir 2 ára reynslutíma, þótt hann hafi ekki fullnægt ákvæðum um próf. Þarna blasir ósamræmið við augum manns. Má vera að vísu, að þarna séu kröfurnar helzt til lágar um tveggja ára reynslutíma eingöngu. En útilokun barnakennaranna við barnaskólana verður, hvað sem þessu líður, með engu móti réttlætt samhliða.

Þegar á þetta er litið til viðbótar öðru, sem ég hef áður tekið fram, þá vona ég, að hv. þdm. geti fallizt á, að frv. þetta sé af fullu tilefni flutt, og vilji ljá því stuðning sinn.

Að lokinni þessari umr. legg ég til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.