03.03.1959
Efri deild: 78. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í C-deild Alþingistíðinda. (1415)

68. mál, fræðsla barna

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. sagðist vilja mótmæla því, að illa væri búið að kennurum. Ég hef ekki heyrt það sagt hér, að illa væri búið að þeim. Ég hef ekki heyrt það sagt hér, og ég hef alls ekki látið mér það um munn fara. Hins vegar viðurkenndi hæstv. menntmrh., að full sanngirnisrök mæltu með því, að sá, sem væri búinn að vera kennari lengi, þyrfti ekki að standa upp fyrir réttindamanni, og það hefði verið reynt að stuðla að því, að þetta ætti sér ekki stað, á undanförnum árum.

Það, sem okkur þá ber á milli, mér og hæstv. menntmrh., er það, að það, sem hann telur sanngirnisrök og ég tel líka sanngirnisrök, vill hann láta fullnægja með framkvæmdinni, en ég vil láta lögleiða, að þessi sanngirnisrök eigi að gilda, svo að þeir, sem þau hafa með sér, þurfi ekki að eiga neitt á hættu að því er framkvæmdavaldið í skólamálunum snertir. Það er því aðeins stigmunur á því, hvað við viljum gera þessi sanngirnisrök gild.

Hv. þm. Barð. minntist á það, að ég hefði talað um kaldar útskýringar hjá honum, eða það, sem hann vildi frekar kalla kaldar kveðjur til þess manns, sem yrði að rísa upp, ef honum væri sagt, að hann gæti fengið kennarastöðu annars staðar. Hann viðurkenndi, að þetta gæti náttúrlega verið óþægilegt, en hann vildi helzt svara því með samanburði á því, hvað aðrar stéttir í þjóðfélaginu, sem réttindi hefðu, þyrftu við að búa.

Ég vil hins vegar segja það, að þó að svona regla, sem mér þykir ekki hlý, gildi t.d. meðal iðnaðarmanna, — ég nefni bara þá sem dæmi, sem hafa réttindaregluna, — þá sé ég reginmun á því, að þjóðfélagið sjálft láti hana fara að gilda gagnvart þeim mönnum, sem inna þegnskaparskyldur af hendi fyrir það, — það er allt annað mál, — og það að óþörfu.

Einhver vanskilningur var hjá hv. þm. Barð. að því er snertir samanburðinn — hjá okkur báðum, held ég — á kennaranum, sem búinn er t.d. að starfa í tíu ár, og nemanum útskrifaða, sem kemur og vill fá sæti hans. (SE: Hann er nú ekki alltaf nemi.) Sem er útskrifaður, sagði ég, nemanum, sem er útskrifaður. Í raun og veru hefur hann ekki áður verið annað en nemi, og hann hefur að vísu fengið nokkra hæfni með hjálp kennaranna, það er satt. En hann hefur ekki sannað þá hæfni á sama hátt í starfi sínu eins og hinn, sem búinn er að vinna í tíu ár og ég vil, að fái réttindi og hafi ekki minni réttindi, en nýliðinn, af því að hann er búinn í starfi að sanna hæfni sína. Ég vil alls ekki, að óhæfir menn fái réttindin. En ég treysti því, að skólanefnd biðji ekki um réttindi handa öðrum en þeim, sem hún vill hafa í þjónustu sinni, að námsstjóri mæli ekki með öðrum og að fræðslumálastjóri geri það enn síður. Og það ætla ég að sé nokkur trygging fyrir því, að þeir menn, sem frv. ætlast til að öðlist réttindi, séu raunverulega hæfir. Ég geri ekki lítið úr menntun og ber virðingu fyrir henni. En enn þá meira þykir mér um það vert og meiri trygging finnst mér í því, ef maður hefur sýnt það, að hann hafi gáfur og kunnáttu, þó að hann hafi fengið hana með starfi sínu, heldur en í hinu, að einhver sýnir mér prófskírteini sitt. Það eru nefnilega til menn, — við vitum það, — sem eru svo vel gerðir og sérstaklega vel til þess fallnir að sinna margvíslegum störfum, m.a. kennslustörfum, að telja má, að þeir séu kennarar af guðs náð. Þessi orð, „af guðs náð“, eru hámark íslenzkunnar í einkunn handa mönnum, sem hafa sýnt hæfni sína í verki. Og það eru einmitt menn með slíkri einkunn eða upp undir það, sem ég hef talið að væri skylt af þjóðfélaginu að gefa réttindin.