26.01.1959
Efri deild: 53. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í C-deild Alþingistíðinda. (1419)

86. mál, kirkjugarðar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal fyrst viðurkenna það, að ég hef ekki lesið þetta frv. fyrr, en núna rétt fyrir fundinn, svo að þótt ég fari að benda n. á nokkur atriði í því, þá er áreiðanlegt, að þau verða ekki tæmandi, því að mér sýnist þar vera margt, sem þurfi mjög mikla athugun við og umhugsun um, hvort eigi að gera að lögum eða ekki. Ég skal samt benda á einstök atriði, sem ég hef rekið mig á við ákaflega lauslegan yfirlestur og ég vildi gjarnan biðja n. að athuga.

Það er í 2. gr. svo ákveðið, að sóknarnefndin megi láta menn, sem ekki eru í þeirri íslenzku þjóðkirkju, borga sérstakt legkaup. Ég veit nú ekki, hvort þessum mönnum, sem voru í nefndinni, sem eru biskupinn, skrifstofustjóri hans og ráðuneytisstjóri, finnst það ákaflega víst, að þeir menn, sem eru í þjóðkirkjunni, séu þeir einu sönnu, rétttrúuðu, sem eiga að fá leg í kirkjugarðinum án þess að borga sérstakt fyrir það og þar með sæta einhverjum öðrum sérstökum kjörum en þeir, sem utan þjóðkirkjunnar eru. Ég veit það ekki. Mér finnst það ekki réttlátt og ekki lýsa réttum bróðurkærleika.

Í 4. gr., 1. mgr., er ætlazt til þess, að sveitarstjórnir í þeirri sveit, sem kirkjugarðurinn er í, láti í té ókeypis hæfilegt kirkjugarðsstæði. Nú hagar víðast svo til, að sveitarstjórnin er ekki sú sama og kirkjustjórnin. Kirkjusókninni er skipt stundum eftir miðjum hreppnum, og hvaða sveitarstjórn á þá að leggja til kirkjugarðsstæðið? Á þá sú sveitarstjórn að gera það, sem kirkjan stendur í og kirkjugarðurinn, þó að það séu kannske ekki nema tveir, þrír bæir úr því sveitarfélagi í sókninni, heldur séu bæirnir í öðru eða öðrum hreppsfélögum? Kirkjusóknir og hreppsfélög skiptast alls ekki eins um landið og er það ákaflega misjafnt, hvernig þessu er háttað. Mér finnst, að hér sé ekki hægt að leggja þessa skyldu skilyrðislaust á allar sveitarstjórnir, sem kirkjugarður er í, að þær eigi að leggja til svæði undir garðinn, ef það eru kannske sárfáir bæir úr þeim hreppi í sókninni, heldur aðalsóknin í öðrum hreppi. Það þarf eitthvað skýrara um þetta, en hér er. Það er áreiðanlegt.

Þar sem kirkja er ekki í kirkjugarði, leggur sveitarfélagið veg frá henni til kirkjugarðs og heldur honum akfærum. Þarna er alveg sama, fyrst og fremst það, að það er náttúrlega ekki hægt að leggja þá kvöð á það sveitarfélagið eitt, sem kirkjugarðurinn er í, þó að þar séu ekki nema sárfáir bæir, er eiga aðild að þeim kirkjugarði, heldur bæir í allt öðru sveitarfélagi, sem þarna eiga hlut að máli. Og svo er það ákaflega mikil spurning, hvort hægt er að leggja þessa kvöð á hreppinn, sérstaklega þegar kirkjugarðar eru langt frá vegna aðstæðna, eins og sums staðar er. Það eru sums staðar nokkrir kílómetrar frá kirkjustaðnum og að kirkjugarðinum, og á sveitarfélagið þá að leggja hann og halda honum við? Ég skal ekki segja, hvort það er réttlátt, en mér finnst — (Gripið fram í.) Ja, það getur vel verið, að einhverjir vilji gera það þjóðveg, sbr. heimreiðir á bæi. En hvað sem því líður, þá er það rangt, þar sem meiri hluti af kirkjusókninni eða kirkjugarðssókninni er ekki í þeim hreppi. Það er alveg gefinn hlutur, að þá á það ekki við, þótt kannske megi segja, að það eigi við undir hinum kringumstæðunum, og er það þó alveg spurning, hvort það á að blanda því nokkuð saman við hreppsreikninga og teljast útgjöld fyrir hreppinn að sjá um þessa vegagerð.

Mér er ekki alveg skiljanlegt, — ég vil bara benda n. á það án þess að fara að fara út í greinar, — hvernig það er með yfirstjórn kirkjugarðanna. Það er ætlazt til, að settur sé nýr embættismaður af ríkinu, borgaður, sem á að vera, — ja, hvað á hann að vera? Hann á að vera nokkurs konar leiðbeinandi og umsjónarmaður allra kirkjugarða landsins. Hann á að vera það. Þó er sums staðar í frv. gert ráð fyrir því, að formaður kirkjugarðsstjórnar sjái um ákveðin mál. Í öðru lagi og á öðrum stöðum í því er ákveðið að skjóta til sóknarprests ákveðnum málum, og enn til héraðsprófasts og svo til þessa landskirkjugarðsvarðar og enn má skjóta sumum málum til kirkjugarða- og kirkjustjórnar, en í henni eiga að vera þrír menn, sem líka eru nýir, biskupinn sjálfkjörinn og einhverjir með honum.

Í þessu þarf að vera eitthvert samræmi. Það er það ekki núna. Það er alveg „hippsum-happs“, hver þessara manna er látinn hafa tillögur um þetta eða hitt. Ef það er meiningin að setja ákveðinn kirkjugarðsstjóra eða hvað hann er nú kallaður, launaðan af ríkinu, sem á að gera till. um kirkjugarða og sjá um þá, þá er náttúrlega eðlilegast að skjóta sem flestu til hans. Ef þarf að færa til minnismerki í garði, þá er það ekki hann, sem á að segja til um það, hvar það skuli sett, ekki sóknarpresturinn, ekki heldur kirkjugarðsstjórnin. Nei, þá verður það að vera héraðsprófastur, sem á að segja til um það. Í öðrum tilfellum, þegar líkt stendur á, á það að vera einhver annar en maðurinn, sem gerður er yfirstjórnandi yfir kirkjugörðunum, sem á að koma til. Það er sitt á hvað og alveg hending, hvort ágreiningsatriði, sem kann að koma upp, er skotið til þessa eða hins. Það þarf að vera samræmi og „system“ í því, og ég held nú sjálfur, að það sé engin þörf á sérstökum, nýjum embættismanni til þess arna. Það er ekkert ofvaxið biskupi og hans skrifstofu að hafa eftirlit og yfirumsjón með þessu, um leið og hann vísiterar, líta eftir með kirkjugörðunum, og þarf ekki neinn sérstakan embættismann til þess. Ég álit það, en það er nú út af fyrir sig, það er náttúrlega mín skoðun. En hitt vildi ég benda n. á, að samræma þetta, til hvers beri að skjóta ágreiningi og hver eigi að ráða. T.d. bara í 15. gr. einni saman er þetta sitt á hvað: Vanræki hlutaðeigandi að hirða sómasamlega um gróður á leiði, þá skal kirkjustjórnin láta þekja og hreinsa leiðið á kostnað þeirra eða kirkjugarðsins: Ætli það vildu þá ekki sem flestir láta það vera á kostnað kirkjugarðsins, fyrst það á að vera annaðhvort eða? „Með sama hætti er heimilt að fjarlægja af leiðum ónýtar og óviðeigandi girðingar og minnismerki, en gera skal þá aðstandendum viðvart, ef kostur er, og jafnan haft samráð við sóknarprest. Það er sóknarpresturinn. „En minnismerkjum, sem fjarlægð eru, skal að jafnaði komið fyrir á vissum stað í garðinum, þar sem bezt þykir fara að dómi héraðsprófasts.“ Þá er það héraðsprófasturinn, sem á að koma til þar. Svona er þetta alveg sitt á hvað og þótt í sömu greininni sé, hver það er, sem á að skera úr um þetta eða hitt í þessu sambandi.

Þá vil ég benda á, — ja, ég veit ekki, hvað átt er við. Kirkjugarðsstjórnin á að sjá um, að garðurinn sé sleginn árlega, en með mestu varúð. Hvað er átt við með því? Ég veit það ekki. Er það varúð um, að sláttumaðurinn skeri sig ekki í fingurna, meðan hann er að slá hann, eða hvað er átt við með því, að það sé varúð, að hann skeri ekki neinar ljámýs, þegar hann slær, eða lendi ekki í grjóti? (Gripið fram í: Skemmi ekki gróður, trjágróður eða blóm.) Kann að vera, en því þá ekki að nefna það?

Þá vil ég benda á það í 20. gr., að ég held, að það sé algerlega útilokað með öllu að leggja þá kvöð á skógrækt ríkisins, að hún sjái um blóm á leiði ókeypis fyrir þá, sem vilja, í kirkjugörðum landsins, — stofnun, sem enga blómarækt hefur og aldrei selur né elur upp eina einustu blómplöntu, heldur bara skógarplöntur. Ég veit ekki, hvað þessir menn hafa haldið, sem hafa samið þetta. Einnig segir, að starfsmönnum skógræktar ríkisins sé „skylt að veita kirkjugarðsstjórnum leiðbeiningar um val og hirðingu blómjurta og trjáa, er vel hæfa kirkjugörðum, og að láta kirkjugarðsstjórnum slíkar plöntur í té við vægu verði“. Það verður að snúa sér eitthvert annað, en til skógræktarinnar, því að skógræktin hefur enga blómasölu, hefur aldrei haft neina og því ekki hægt að ætlast til þess, að hún fari að setja hana upp í þessu skyni. En það er nú ekki talað um það þarna., enda hæpið, að það eigi heima í þessum lögum.

Það er þó nokkuð fleira, sem ég rak mig á við þennan fljótlega yfirlestur. En ég vildi biðja n. að athuga þetta, sem ég hef nefnt, og jafnframt líka margt annað, allt frv., því að það er ákaflega mikil fljótaskrift á því og það allt lítt hugsað.