08.05.1959
Neðri deild: 123. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í C-deild Alþingistíðinda. (1435)

93. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Frsm. 1. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Frv. þetta fjallar um, að leyfð verði með tilteknum takmörkunum veiði með dragnót innan íslenzkrar landhelgi og undir vísindalegu eftirliti.

Það er kunnara en hér þurfi að rekja, að víðs vegar við strendur landsins eru mikil og ágæt flatfisksmið, sem Íslendingar nýta að litlu sem engu sjálfir, en á hinn bóginn hafa erlendir aðilar allt frá 1952 setið svo að segja einir að þessari veiði. Þannig hafa t.d. Bretar veitt venjulega 9/10 parta af þeirri veiði, sem um hefur verið að ræða á þessum miðum. Það er álit okkar færustu fiskifræðinga, að fiskistofnar þeir, sem hér um ræðir, þoli þá veiði, sem á síðastliðnum og undanförnum árum hefur verið tekin af þessum miðum. Með stækkun landhelginnar í 12 mílur er hins vegar sýnilegt, að til þessara veiða kemur ekki, nema því aðeins að Íslendingar hefji þær veiðar sjálfir, en til þess þyrftu þeir þá að hafa leyfi, því að með þeim veiðarfærum, sem nú eru leyfð á þessum veiðisvæðum, er vonlaust, að tekinn verði nema sáralítill hluti af því fiskimagni, sem eðlilegt má teljast að tekið sé á þessum slóðum.

Flatfiskur sá, sem hér um ræðir, er ein dýrasta framleiðsluvara, sem þjóðin á kost á, og má ætla, að ef hóflegar veiðar yrðu leyfðar með dragnót, þá mundu þær nýtast þjóðinni alveg sérstaklega vel, þar sem bátafloti er fyrir hendi til þess að stunda veiðarnar, sá floti, sem einmitt er verkefnislaus um þær mundir, sem eðlilegt væri að veiðarnar færu fram. Þá eru einnig fyrir hendi í landinu verkunarstöðvar, þ.e.a.s. frystihús, til að verka þennan fisk og gera hann að verðmætri vöru. Það er ekki auðvelt að áætla, hversu mikinn arð þær veiðar, sem frv. fjallar um og leggur til að leyfðar verði, gætu fært þjóðarbúinu, en ég hygg þó, að milli 50–70 millj. kr. í erlendum gjaldeyri sé nokkurn veginn lágmark þess, sem ætla mætti að þetta mundi færa íslenzka þjóðarbúinu.

Þetta mál er þess vegna ekki hvað veigaminnsta efnahagsmálið, sem fyrir þessu þingi liggur, og sem slíkt væri Alþ. ákaflega miklu meiri sómi að því að samþ. þetta frv. og greiða þannig úr efnahagsflækjum þjóðarinnar heldur, en svo sem Alþ. hefur átt vanda til að undanförnu að telja sig ekki geta leyst vandamál íslenzks þjóðarbús með öðru, en því að ganga á umsamið kaup hins vinnandi fólks í landinu.

Það hafa heyrzt nokkrar mótbárur gegn frv. þessu. Þær eru einna helzt byggðar á því, að með samþykkt þess værum við að veikja málstað okkar gagnvart þeirri yfirgangsþjóð, sem vaðið hefur inn í okkar landhelgi að undanförnu og komið fram með þeim hætti, sem við öll könnumst við, að þeir hafa stundað hér ránskap á okkar fiskimiðum og verndað sína veiðiþjófa með herskipum, þannig að við höfum ekki fengið við ráðið. Ég fyrir mitt leyti skal taka það fram, að ég álít, að viðhorf þeirra manna, sem telja, að við værum að veikja okkar málstað með samþykkt á þessu frv., sé alrangt og gagnstætt því, sem að réttum rökum má telja.

Okkar fiskifræðingar viðurkenna, að hér sé um að ræða fiskistofna, sem þoli tiltekna veiði. Það er vitað mál, að sú veiði verður ekki framkvæmd, ef við samþ. ekki þetta frv., og það er vitað mál, að þá verður heimsmarkaðurinn þeim mun snauðari að matvælum, en sá fiskur, sem þannig verður eftir skilinn og látinn óveiddur, mun samkvæmt mati okkar fiskifræðinga bíða ellidauða án þess að verða að nokkru gagni. Ég tel, að það væri líka mikill ábyrgðarhlutur í okkar landhelgismáli að láta ógert að gera ráðstafanir til þess, að eðlileg veiði á þessum fiski færi fram. Það eitt gæti orðið rök gegn okkur í málinu, ef við höguðum okkar landhelgisstækkun þannig, að við værum þar að bægja öllum aðilum, bæði okkur sjálfum og erlendum þjóðum, frá veiðum á þeim svæðum, sem okkar eigin sérfræðingar telja eðlileg veiðisvæði, og bægja íslenzku þjóðinni frá veiðum, sem eru henni efnahagslega ákaflega hagkvæmar. Við framkvæmum okkar landhelgisstækkun, og okkur er jafnannt um okkar fiskimið og raun ber vitni vegna þess, að afkoma íslenzku þjóðarinnar byggist á því, að við nýtum þær auðlindir, sem þar eru fólgnar, þ.e.a.s., að við nýtum fiskistofnana. Og hlutverk okkar hlýtur að vera að reyna að ná sem fullkomnustum arði af fiskistofnunum, án þess að á þá sé gengið, þannig að þeir geti jafnaðarlega, bæði í nútíð og framtíð, skilað okkur hámarksarði. Með frv. þessu er að því stefnt, að svo megi verða.

Sjútvn., sem lengi hefur haft þetta frv. til athugunar, hefur borið efni þess undir fjölmarga aðila í landinu. Ekki hafa svör þeirra þó verið öll á einn veg. En langflestir þeir, sem látið hafa Alþ. og sjútvn. þessarar hv. d. í té álit sitt um málið, mæla með því, að leyfðar verði dragnótaveiðar innan íslenzku fiskveiðilandhelginnar undir vísindalegu eftirliti, eins og hér er lagt til. Þá greinir að vísu í nokkru á um það, sem er raunar hin smærri atriði málsins, t.d. hverja bátastærð eigi að miða við. Í frv. er gert ráð fyrir því, að leyfi til dragnótaveiða geti einungis fallið í skaut þeim vélbátum, sem eru 35 brúttólestir eða minni. Þetta er nokkuð umdeilt stærðarhámark, og hafa hvorir til síns máls nokkuð, sem vilja leyfa þetta stærri bátum, og einnig þeir, sem telja, að hér sé of stórum bátum ætlað leyfi til dragnótaveiða.

Allt er frv. byggt upp á því, að í engu atriði sé rýmkað á því leyfi, sem skv. eldri l. var til dragnótaveiða fyrir árið 1952, en í nokkrum atriðum er hér bundið meiri skilyrðum, en þar var leyfi til veiðanna. Þá er hér gert ráð fyrir því, að atvinnudeild Háskóla Íslands fylgist stöðugt með veiðimagni og þeim fiskistofnum, sem þessar veiðar munu koma til með að verða á, og atvinnudeildin geri sjútvmrn. þegar í stað viðvart, ef hún telur, að til ofveiði gæti komið. Er í lagafrv. gert ráð fyrir því, að ríkisstj. hafi hinar tiltækustu lagaheimildir til þess að koma í veg fyrir, að til nokkurs slíks geti komið.

En það er önnur ástæða fyrir því, að skotið hefur upp nokkrum mótbárum gegn samþykkt þessa frv., að á vissu tímabili, á meðan erlendir togarar veiddu hér allt upp að 3 mílna mörkunum gömlu, allt upp að 3 mílna landhelginni, sem þá var í gildi, og raunar allmikið fyrir innan þau mörk, á meðan íslenzka landhelgisgæzlan mátti sin minna, en nú er, og einnig stór floti íslenzkra veiðiskipa stundaði veiðar með botnvörpuveiðarfærum, þá var vissulega á tímabili um að ræða nokkra ofveiði. Þá fengu ýmsir menn þá hugmynd, að sú ofveiði væri dragnótinni og dragnótinni einni að kenna og það væri bót allra meina, ef hún væri bönnuð. Á sínum tíma átti þetta sjónarmið rétt á sér. En alveg á sama hátt og sjálfsagt er að banna veiðar, sem eyðileggja okkar framtíðarmöguleika, þá tel ég einnig vera sjálfsagt að leyfa þær veiðar, sem framtíðinni að skaðlausu og samtíðinni til hinna mestu hagsbóta geta lyft lífskjörum íslenzku þjóðarinnar á annað og hærra stig.

Ég hef áður getið þess, að langmestur hluti þeirra umsagna, sem til Alþ. hafa borizt, mælir með samþykkt þessa frv. í einhverri mynd. Við, sem að því nál. stöndum, sem ég hér tala fyrir, hv. þingmaður Snæfellinga (SÁ) og ég, teljum, að það sé almennt vilji fjölda þeirra manna, sem búa í sjávarþorpum og útræðisstöðvum landsins, að þessar veiðar verði leyfðar. Og við teljum einnig, að hér sé um þess háttar hagsmunamál að ræða fyrir fólkið á þeim stöðum, að það þyrftu að liggja þung rök fyrir um það, að veiðar þessar væru íslenzkum þjóðarbúskap óhollar, til þess að daufheyrast ætti við þeim skoðunum. Þar á móti tel ég, að það liggi engin rök fyrir um það, að þessar veiðar geti á nokkurn hátt skaðað okkar þjóðarbúskap, ekki í nútíð og ekki heldur í framtíð, ef fylgt væri fram þeim reglum, sem settar eru í frv. þessu. Við hv. þm. Snæf. sem minni hl. í sjútvn. þessarar d. mælum að athuguðu máli með því, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.