11.05.1959
Neðri deild: 124. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í C-deild Alþingistíðinda. (1437)

93. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Frsm. 2. minni hl. (Gísli Guðmundason):

Herra forseti. Með reglugerð frá 30. júní 1958, sem fjallar um stækkun fiskveiðilandhelginnar úr 4 í 12 sjómílur, og viðbótarreglugerð frá 29. ágúst sama ár, er dragnótaveiði bönnuð í fiskveiðilandhelginni á sömu svæðum og botnvörpuveiðar. Áður var það svo, að dragnótaveiði var bönnuð innan fiskveiðilandhelgi þeirrar, sem gilti samkvæmt reglugerð frá 1952, og þannig var einnig um reglugerðina frá 1950, sem fjallaði um fiskveiðilandhelgi fyrir Norðurlandi, að þá var einnig dragnótaveiði bönnuð á því svæði, sem sú reglugerð gilti um. Með ákvæðum þessara reglugerða voru þannig gerð óvirk ákvæði laga frá 1937 með síðari breytingum um dragnótaveiðar, þó að þau lög hafi ekki formlega verið afnumin.

Nú er með þessu frv. á þskj. 208, sem fyrir liggur til 2. umr., lagt til, að slakað verði á þessum ákvæðum reglugerðanna, þannig að dragnótaveiðar skuli heimilar í fiskveiðilandhelginni íslenzkum fiskiskipum, sem minni eru, en 35 rúmlestir brúttó, þó með þeim takmörkunum, sem ráðuneytið kann að setja að fengnum till. fiskideildar atvinnudeildar háskólans og Fiskifélags Íslands. Gert er ráð fyrir því, að rn. geti að fengnum till. þessara stofnana gert frekari takmarkanir á veiðunum. Það er orðað þannig, að það sé að fengnum till. þessara stofnana, þannig að í raun og veru er það á valdi rn. sjálfs eða ríkisstj., hvort hún notar heimildina til þess að setja frekari takmarkanir á dragnótaveiðar, en frv. sjálft gerir ráð fyrir.

Samkvæmt 1. gr. frv. er sýslunefndum og bæjarstjórnum heimilt með samþykkt að banna dragnótaveiðar innan afmarkaðra löggiltra hafnarsvæða í viðkomandi héraði.

Í 10. gr. frv. eru ákvæði um, að ráðuneytið geti með reglugerð ákveðið um möskvastærð dragnóta og lengd dráttarlína svo og um lágmarksstærð þess fisks, sem veiddur er í dragnót og fluttur í land eða haldið um borð í skipi.

Þetta frv. er að mjög verulegu leyti sniðið eftir lögunum, sem ég nefndi áðan, frá 1937, með síðari breytingum, enda er gert ráð fyrir því í 13. gr. frv., að þau lög verði afnumin.

Þessu frv. fylgja ásamt grg. tvö fskj., sem prentuð eru á þskj. 208, á bls. 4–11. Það kemur fram í þessum fskj., að sjútvmrn. hefur þann 27. sept. 1958 snúið sér til Árna Friðrikssonar fiskifræðings, sem nú er búsettur í Danmörku og starfar þar á vegum alþjóðafiskirannsókna, og fiskideildar atvinnudeildar háskólans og óskað eftir umsögnum þessara aðila um þessi mál, og fylgiskjölin eru þessar umsagnir, umsögn eða grg. Árna Friðrikssonar fiskifræðings og grg. fiskideildar atvinnudeildar háskólans.

Þessar grg. hafa borizt ráðuneytinu á sinum tíma, að því er virðist í nóv., en ráðuneytið hefur ekki hafzt neitt að í málinu, að ég hygg, og ekki óskað þess, að það væri flutt á Alþingi, ekki óskað þess við sjútvn., að hún tæki það til meðferðar og flutnings á Alþingi, þannig að það virðist enn þá vera til athugunar í ráðuneytinu, en hv. 2. landsk. hefur tekið frv. upp til flutnings og birtir hér þessar greinargerðir.

Um þessar grg. er það að segja, að bæði Árni Friðriksson fiskifræðingur og fiskideild atvinnudeildarinnar eru því hlynnt, að dragnótaveiðar verði leyfðar. Er það reyndar kunnugt um Árna Friðriksson, að hann hefur lengi verið þessarar skoðunar.

Í grg. Árna Friðrikssonar er mælt með því, að dragnótaveiði sé leyfð innan fiskveiðilandhelginnar, og talið, að rétt sé, að veiðitíminn sé frá 1. júní til 30. nóv. við Suðvestur- og Norðausturlandið, en frá 15. júní eða 1. júlí til 30. nóv. við Norður- og Austurland. Hann telur eðlilegt, að veiðarnar séu miðaðar við leyfi, sem væri tímabundið og staðbundið fyrir hvern bát, og að takmörkuð sé stærð bátanna, og gerir till. um, að miðunum sé skipt í sex veiðisvæði, sem hv. þm. geta kynnt sér nánar í þessari grg. Í grg. fiskideildarinnar er einnig mælt með því, eins og þar segir, að ýsu- og skarkolastofnarnir verði betur nýttir af Íslendinga hálfu, en gert hefur verið undanfarin ár, og segir þar, að þessir fiskstofnar hafi rétt svo við, að skynsamleg nýting þeirra sé orðin aðkallandi. Hins vegar er vakin athygli á því, að það þurfi að takmarka veiðina og sé æskilegt að hún væri fyrst um sinn takmörkuð við eitthvert ákveðið magn, sem veitt væri árlega, t.d. 5.000 tonn. Er talið skynsamlegt, að ekki yrði leyfð meiri veiði, a.m.k. á skarkolanum, heldur en sem svarar 5.000 tonnum á ári fyrst um sinn, því að það er markmiðið, eins og tekið er upp í frv., að veiðileyfin séu miðuð við ákveðna stærð skipa, t.d. 35 tonn, og einnig, að miða beri veiðarnar við leyfi, sem bæði eru tímabundin og staðbundin fyrir hvern bát, en atvinnudeildin telur, að um slíkt ætti að hafa samráð við Fiskifélag Íslands.

Nú er það svo, eins og kunnugt er, að þó að þessir aðilar séu því hlynntir, að fiskveiðilandhelgin sé opnuð fyrir dragnótaveiðum íslenzkra skipa, a.m.k. að einhverju leyti, þá eru þar ekki allir á einu máli, og er þar skemmst frá að segja, að eins og hv. þm. er kunnugt, þá hefur þetta mál, dragnótaveiði í landhelgi, hvort hana skuli leyfa og þá hvernig, verið mikið deilumál hér í landi, og Alþingi og ríkisstj. hafa haft af því meiri og minni afskipti undanfarna þrjá áratugi.

Lög, sem fjalla um bann við þessum veiðum, voru fyrst sett hér á Alþingi árið 1923. Það voru heimildarlög, og með þeim var ríkisstj. heimilað að banna dragnótaveiði í landhelgi, ef þurfa þætti. Þessi lagaheimild frá 1923 var upphaf hinna svonefndu héraðabanna, en héraðabönnin voru þannig til komin yfirleitt, að sýslunefndir eða bæjarstjórnir gerðu till. um það til ríkisstj., að dragnótaveiði skyldi bönnuð á ákveðnum svæðum fyrir landi héraða, og í samræmi við þessar till. voru svo reglugerðir gefnar út af ríkisstj.

Samkvæmt lögunum frá 1923 var t.d. það sama ár gefin út reglugerð um bann við dragnótaveiði við sunnanverðan Faxaflóa, en þetta bann gilti fyrir strandlengju Vatnsleysustrandar, Keflavíkur og Gerðahrepps í Gullbringusýslu.

Árið 1927 var samkvæmt sömu lögum gefin út önnur reglugerð um bann við dragnótaveiði fyrir landi Hafnahrepps í Gullbringusýslu. Héraðabönnin byrja því við Faxaflóa.

Næst gerist það svo í þessu máli á Alþingi, að árið 1928 voru sett ný lög í stað hinna eldri heimildarlaga um bann gegn dragnótaveiði í landhelgi. Með þessum lögum var dragnótaveiði bönnuð hvarvetna í landhelginni níu mánuði ársins, en heimiluð í þrjá mánuði, þ.e.a.s. haustmánuðina, september, október og nóvember, þó þannig, að ríkisstj. skyldi heimilt að setja ákvæði um frekari takmörkun eða bann að fengnum till. hlutaðeigandi sveitarstjórna og Fiskifélags Íslands.

Samkvæmt þessum lögum voru enn gefnar út nokkrar reglugerðir um héraðabönn á árunum 1932–34. Þessar reglugerðir voru reglugerð frá 1932 um bann við dragnótaveiði í Þingeyjarsýslum, reglugerð frá 1933 um bann við dragnótaveiði í landhelgi í Ólafsfirði, reglugerð frá 1934 um bann við dragnótaveiði í landhelgi í Dýrafirði, reglugerð sama ár um bann við dragnótaveiði í landhelgi fyrir Skeggjastaðahreppi í Norður-Múlasýslu, reglugerð sama ár um bann við dragnótaveiði í landhelgi það ár á svæðinu frá Gerpisflös að Vattarnestanga í Suður-Múlasýslu og enn reglugerð sama ár um bann við dragnótaveiði á Axarfirði.

Þessi héraðabönn, sem ég nú hef nefnt og sett voru eftir till. héraðsstjórna, voru í gildi um nokkurn tíma.

Á árunum eftir 1930 gerist það svo, að farið er að sækja á um frekari opnun landhelginnar fyrir dragnótaveiðinni, og er þess að geta m.a., að ríkisstj. gaf einu sinni út bráðabirgðalög um slíka rýmkun, sem Alþingi síðar felldi. Síðar voru svo sett l. um rýmkun að minnsta kosti um nokkurn tíma. Þá gilti sú aðalregla, að dragnótaveiði skyldi heimil í sex mánuði, þ.e.a.s. mánuðina júní til nóvember, á ári hverju sunnanlands og vestan, milli Hjörleifshöfða og Látrabjargs, þó þannig, að á Faxaflóa og Breiðafirði máttu ekki önnur skip veiða en þau, sem skrásett voru innan lögsagnarumdæma, er að þessum fjörðum liggja, öðrum eða báðum, en annars staðar við land gilti þá þriggja mánaða reglan ásamt héraðabönnunum.

Næst gerist það í þessu máli, að samþykkt eru ný lög 1937, sem síðar var breytt nokkuð á árinu 1940, og eins og ég sagði áðan, eru þau lög svipuð því frv., sem hér liggur fyrir. Með þeim lögum var heimiluð dragnótaveiði skipum allt að 35 rúmlestum sex mánaða tíma árlega. Þó var í þessum lögum heimild fyrir ráðuneytið til þess að leyfa stærri bátum veiðina um hausttímann, ef ég man rétt.

Árið 1945 samþykkir svo Alþingi enn eina löggjöfina um þetta mál, viðaukalög við lögin frá 1937 þess efnis, að ríkisstj. var þá heimilað að banna dragnótaveiði á afmörkuðum svæðum samkvæmt till. Fiskifélags Íslands og atvinnudeildarinnar um algert bann við dragnótaveiði á vissum svæðum, þ.e. í Hamarsfirði í Suður-Múlasýslu, í Aðalvík í Norður-Ísafjarðarsýslu og á svæðinu frá Sandgerðisvita að Hraunsnesi á Reykjanesi. Það var þá talið, að nauðsynlegt væri að setja slík bönn, vegna þess að þarna væri um uppeldisstöðvar að ræða.

Þetta, sem ég nú hef sagt um meðferð þessa máls hjá Alþingi og ríkisstj. í sambandi við útgáfu reglugerða, er rakið nokkuð í nál. 2. minni hl. á þskj. 488. En ég hef talið rétt að rifja það upp, vegna þess að það sýnir ýmsa erfiðleika, sem við er að stríða í sambandi við þetta mál, og minnir á ýmsar aðferðir, sem Alþ. hefur tekið upp á ýmsum tímum til þess að leysa þetta mikla ágreiningsmál þannig, að sem flestir mættu við una.

Þegar sjútvn. fékk þetta frv. til meðferðar, ákvað hún að senda það til umsagnar ýmsum aðilum. Þeir aðilar, sem fengið hafa frv. til umsagnar, voru, eins og getið er um í nál. á þskj. 488, Fiskifélag Íslands og sambandsdeildir þess í ýmsum landshlutum, sem eru 7 talsins, enn fremur atvinnudeildin og Landssamband ísl. útvegsmanna.

Ég hef áður, þar sem ég ræddi um grg. frv., rakið nokkuð umsögn atvinnudeildarinnar, sem er jákvæð gagnvart frv., og mun ekki gera það aftur.

Af þeim aðilum, sem fengið hafa málið til umsagnar, hafa að telja má þrír aðrir mælt með frv. Það er fyrst og fremst fiskideildin í Vestmannaeyjum, sem mælir eindregið með frv., og ég skal jafnframt geta þess, að nefndinni hafa borizt frá þeim stað, frá Vestmannaeyjum, erindi frá ýmsum öðrum aðilum, sem eru þess fýsandi, að dragnótaveiði verði leyfð í landhelginni. Hins vegar vil ég ekki leggja dóm á það, hvort það er rétt, sem segir í nál. l. minni hl. á þskj. 436, að þeir, sem meðmæltir eru frv., séu í miklum meiri hluta meðal þeirra, sem sent hafa Alþingi erindi sín, enda er mér ekki alveg ljóst, við hvað er átt með þessum orðum.

Frá fiskideildinni á Vestfjörðum hefur enn fremur borizt umsögn, sem telja má í aðalatriðum jákvæða sem meðmæli, og eru þar þó ýmsar athugasemdir gerðar við frv.

Sömuleiðis er það svo, að fiskifélagsdeildin á Austfjörðum hefur einnig mælt með frv. með bréfi 4. marz. En þó er þess getið þar, að stjórninni hafi ekki tekizt að koma saman fundi til þess að ræða málið, en þeir stjórnarmenn, sem hafi náð saman, hafi orðið ásáttir um að mæla með frv.

Hins vegar er það svo um aðra aðila, að þeir hafa ýmist mælt gegn frv. eða ekki sent umsögn. Þannig hefur stjórn fiskifélagsdeildarinnar í Norðlendingafjórðungi látið þess getið, að ágreiningur sé þar svo mikill manna á milli um þetta mál, að stjórnin hafi ekki treyst sér til þess að gefa umsögn um það til nefndarinnar.

Fiskifélagsdeildin á Snæfellsnesi hefur heldur ekki sent umsögn til nefndarinnar.

Um hina aðilana er það að segja, að Fiskifélag Íslands hefur með bréfi 14. marz sent umsögn, og er niðurstaðan þessi, með leyfi hæstv. forseta, eftir að rök hafa verið færð fyrir þeirri niðurstöðu :

„Vér getum því ekki fallizt á frv. þetta, eins og það liggur fyrir, en leggjum til, að ríkisstj. láti fara fram gagngerða athugun á málinu í heild, áður en tekin yrði ákvörðun um að leyfa dragnótaveiðarnar. En sem einn lið í þeirri athugun teljum vér, að æskilegt væri, að gerðar yrðu viðtækar tilraunir um dragnótaveiðar sem víðast við landið og á ýmsum tímum svo að fá megi sem gleggstar upplýsingar um ástandið, eins og það nú er.“

Einn stjórnarnefndarmaður í Fiskifélaginu tekur fram, að hann sé andvigur dragnótaveiði í landhelgi.

Þetta álit Fiskifélags Íslands er prentað sem fylgiskjal með nál. 2. minni hl. á þskj. 488.

Þá hefur borizt umsögn frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, þar sem tekin er upp till. aðalfundar landssambandsins, sem beinir því til sjútvmrn. að láta fara fram ýtarlega rannsókn á því, hvort tímabært sé að veita undanþágu til dragnótaveiða innan fiskveiðitakmarkanna takmarkaðan tíma ár hvert á ákveðnum svæðum með takmörkuðum bátafjölda. Landssambandið telur sem sé enn rannsóknar þörf, áður en ákvörðun sé tekin í þessu máli.

Þá er umsögn stjórnar fiskifélagsdeildar Reykjavíkur, sem segist ekki geta mælt með frv. óbreyttu, en telur tímabært að leyfa nokkrum bátum að stunda slíkar veiðar í tilraunaskyni. Deildin telur nauðsynlegt, að slíkar tilraunir og athuganir fari fram, áður en ákvörðun sé tekin um það, hvort leyfa eigi dragnótaveiði almennt í landhelgi, hvort sem það leyfi yrði takmarkað við vissa bátastærð eða tiltekin svæði, svo sem frv. það, sem hér um ræðir, gerir ráð fyrir.

Þá er umsögn frá fiskifélagsdeild Sunnlendingafjórðungs, þar sem segir á þessa leið í bréfi 16. apríl. með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn sambandsins getur ekki mælt með frv., eins og það liggur fyrir, en skorar hins vegar á sjútvmrh. að hlutast til um, að gerð verði viðtæk athugun með dragnótaveiðar í rannsóknarskyni sem víðast við landið á tímabilinu frá 15. júní til 15. ágúst undir eftirliti fiskifræðinga til þess að fá úr því skorið, hvaða áhrif friðunin hefur haft á flatfiskstofninn, og að þeirri rannsókn lokinni ætti að vera fengin nokkur reynsla, sem byggja mætti á frekari ákvarðanir.”

Eins og fram kemur í þessum umsögnum, sem ég nú hef reynt að gera grein fyrir og talið eðlilegt að hv. þm. verði kunnar, þá er mikill ágreiningur um þetta mál, og m.a. er Fiskifélag Íslands því andvígt, að ákvörðun um þetta mál verði tekin að svo stöddu, og telur rannsókn æskilega.

Það hefur orðið niðurstaða okkar í 2. minni hl., okkar hv. þm. Borgf., að leggja það til, að málið verði að þessu sinni afgreitt með rökstuddri dagskrá, sem prentuð er með nál. okkar á þskj. 488. Tillagan er byggð á þeirri skoðun, að ágreiningur sé svo mikill um þetta mál nú og svo margt, sem þurfi athugunar við í sambandi við það, að mjög æskilegt sé, að það hljóti athugun á milli þinga. Við teljum æskilegt, að þm. gefist kostur á að ræða við menn, sem að sjávarútvegi standa víðs vegar um landið, og kynnast viðhorfum til málsins, eins og þau eru nú eða kunna að verða, eftir að það hefur legið fyrir Alþ., eins og það nú hefur gert. Einnig verður að teljast æskilegt, að n., þar sem fulltrúar frá stofnunum sjávarútvegsins ættu sæti, gæti fjallað um þetta mál. Einnig að öðru leyti má telja, að ekki sé tímahært, eins og sakir standa, að taka um þetta ákvörðun.

Annar minnihlutamaðurinn, hv. þm. Borgf., hefur óskað að taka fram, að hann sé því mótfallinn, að leyfi séu veitt til dragnótaveiða innan fiskveiðilandhelginnar, og fyrirvari sá, sem hann skrifar undir álitið með, veit að þessu. Hins vegar er hann því eftir atvikum fylgjandi, að málið sé afgreitt á þennan hátt með dagskrá, en mun sennilega sjálfur gera grein fyrir fyrirvaranum að öðru leyti, ef hann telur þess þörf.

Ég vil mega vænta þess, að hv. alþm. geti á það fallizt, að þetta mjög svo vandasama mál, og mikla deilumál, verði að þessu sinni afgreitt á þennan hátt, enda er nú svo áliðið orðið þingsins, að þess er varla að vænta, að frv. það, sem hér liggur fyrir, geti orðið að lögum, jafnvel þó að fylgi væri fyrir því í Alþingi, sem raunar má telja vafasamt að sé, eins og nú standa sakir.