12.05.1959
Neðri deild: 125. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í C-deild Alþingistíðinda. (1439)

93. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það hefur komið fram, að það eru nokkuð skiptar skoðanir um þetta mál. Er það raunar ekki nýtt, því að ég minnist þess frá fyrri árum, að þegar rætt var um dragnótaveiðar í landhelgi, þá var oft mikill ágreiningur um það mál.

Sjútvn., sem hefur fjallað um þetta frv., hefur sent það til umsagnar nokkrum aðilum, og svörin, sem n. hefur fengið, eru mjög ósamhljóða. Afgreiðsla n. á málinu er þannig, að hér liggur fyrir nál. frá minni hl. sjútvn., tveimur nm., og annað álit frá 2. minni hl. n., einnig undirritað af tveimur nm., en hins vegar liggur ekki fyrir álit frá fimmta nm. Sá minni hl., sem fyrst skilaði áliti, mælir með frv., en 2. minni hl. ber fram till. til rökst. dagskrár. Þar fylgir með álit frá Fiskifélagi Íslands, sem telur, að frv. hafi ekki fengið nægilegan undirbúning og ætti að athuga málið betur, áður en ákvörðun verður um það tekin.

Mér sýnist nú; að þess gæti verið full þörf, að málið fengi meiri athugun. En verði rökst. dagskráin felld, þannig að frv. sjálft komi til atkv. og einstakar. greinar þess, þá vildi ég fá á því nokkra breyt. og hef leyft mér að flytja um það till. á þskj. 518. Þessi brtt, mín er við 1. gr. frv. Í 3. mgr. þeirrar gr. segir, að sýslunefnd eða bæjarstjórn sé heimilt að gera samþykkt og birta í Lögbirtingablaði um að banna með öllu dragnótaveiðar innan afmarkaðra, löggiltra hafnarsvæða í viðkomandi héraði. Mér finnst þessi heimild, sem þarna er ætlað að veita sýslunefndum og bæjarstjórnum, of takmörkuð og till. mín er um það, að í stað þessara orða, sem ég nú hef lesið 1 3. mgr., komi, að sýslunefnd eða bæjarstjórn sé heimilt að banna dragnótaveiðar innan fiskveiðilandhelginnar fyrir landi hlutaðeigandi héraðs á miðum, sem fiskibátar skrásettir í hlutaðeigandi lögsagnarumdæmi sækja á að staðaldri, þó ekki á þeim svæðum, þar sem slíkar veiðar eru leyfðar skv. 1. gr. reglugerðar nr. 87 frá 29. ágúst 1958. En sú reglugerð, sem þarna er vitnað til, er um viðauka við reglugerð frá 30. júní 1958, um fiskveiðilandhelgi Íslands, og er þarna ákveðið, á hvaða svæðum botnvörpu-, flotvörpu- og dragnótaveiðar eru bannaðar. Eru í þessari reglugerð ákvæði um bannsvæðin á hinum ýmsu stöðum umhverfis landið. Mér finnst eðlilegt, að bæjarstjórnir eða sýslunefndir hafi slíka heimild til þess að banna dragnótaveiðar á veiðisvæðum fyrir landi hlutaðeigandi héraða, sem fiskibátar skrásettir í viðkomandi lögsagnarumdæmi sækja á að staðaldri, og ég vænti þess, að hv. þdm. geti á þessa breyt. fallizt.