04.11.1958
Neðri deild: 15. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í C-deild Alþingistíðinda. (1445)

33. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Aðallögin um höfundarétt, sem nú gilda, eru frá 1905. En 1943 var gerð breyt. á þeim l. eða viðauki, sem er byggður á nokkru viðtækari grundvelli, en lögin frá 1905, því að þau eru nánast eingöngu um réttindi rithöfunda, en með breyt. frá 1943 eru lög þessi gerð almennari og ná þá yfirleitt til allra hugverka. Er skv. þeim l. gert ráð fyrir því, að verði stofnað stéttarsamband höfunda, annaðhvort í sambandi við ritverk eða tónsmíðar, þá skuli þessi samtök hafa rétt til þess að innheimta gjald af notkun þeirra hugverka, sem undir þessi samtök eða höfunda þá, sem innan þessara samtaka eru, falla. Er með l. þessum gert ráð fyrir því, að bæði tónskáld og rithöfundar og skáld og aðrir listamenn, hvort sem þeir eru framleiðendur höggmynda, málverka eða annarra slíkra verka, njóti þessarar lögverndar varðandi verk sín. Á grundvelli þessara l. hafa verið stofnuð hér sérstök samtök varðandi eina grein þeirra, þ.e.a.s. tónverkin, en samtök þessi eru nefnd Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar og kunnust undir skammstöfuninni STEF.

STEF hefur sett ákveðna gjaldskrá í sambandi við flutning tónverka og hefur útfært starfsemi sina, eftir því sem árin hafa líðið, æ meir og gripið inn á fleiri svið í sambandi við flutning tónverka.

Rithöfundarnir hafa að sínu leyti ekki haft eins viðtæka starfsemi uppi í sambandi við innheimtu höfundarlauna, en munu þó hafa gert samning við ríkisútvarpið um flutning verka sinna og þar fengið sérstaka greiðslu fyrir.

STEF hefur starfað um nokkurra ára bil og hefur, eins og ég áðan sagði, útfært æ meir innheimtukerfi sitt, og nær það nú til sífellt fleiri liða í sambandi við flutning tónverka. Er þannig, auk þess sem útvarpið greiðir STEFI hátt gjald, innheimt gjald af yfirleitt öllum tónleikum, sem haldnir eru, og samkomum, þó að enn muni ekki hafa tekizt að gera það varðandi ýmsar samkomur úti um land.

Á s.l. ári birti STEF tilkynningu í blöðum, þar sem gerð er krafa um það, að eigendur segulbandstækja eða annarra hljóðritunartækja skuli skyldir til að greiða til STEFS ákveðið árgjald, sem er ákveðið fyrir árið í ár 200 kr., og verði það ekki gert, þá muni eigendur slíkra tækja geta búizt við því að verða látnir sæta ábyrgð skv. 17. og 18. gr. l. nr. 13 1905, sem eru hin almennu höfundarréttarlög, m.a. þannig, að þessi áhöld verði gerð upptæk.

Það mun almennt hafa verið tilfinning manna, að með þessari ákvörðun STEFS væri gengið skrefi of langt. Ég skal ekki fara út í að ræða einstök atriði þessarar auglýsingar frá lögfræðilegu sjónarmiði, enda þótt á því leiki allverulegur vafi, hvort þau viðurlög, sem þar er greint frá, geti talizt heimil að gildandi lögum.

En það, sem er kjarni þessa máls, og það, sem frv. það felur í sér, sem ég hef ásamt tveimur öðrum hv. þm. flutt á þskj. 55, er, að okkur sýnist, að með þessari gjaldheimtu STEFS sé gengið lengra, en góðu hófi gegnir. Skv. l. frá 1943 um breyt. á l. frá 1905, um rithöfundarétt og prentrétt, er það tvímælalaust meginkjarni þeirra l., að gjaldskyldan skuli takmarkast við það, að verk séu flutt opinberlega og að það sé gert í ábataskyni. Skal í því sambandi vitnað í seinni hluta 2. gr. þeirra l., með leyfi hæstv. forseta, en þar segir svo:

„Einstök kvæði, sögur, ritgerðir og kafla úr ritum svo og einstök lög og kafla úr tónverkum, sem út hafa verið gefin, má hafa um hönd án allra kvaða á samkomum, sem haldnar eru í góðgerðaskyni eða til þess eingöngu að kynna menntir þjóðarinnar eða til mannfagnaðar aðeins, enda komi þá engin greiðsla fyrir flutninginn, svo og á samkomum félaga og skóla, enda sé ekki greitt fyrir flutninginn og aðgöngueyrir ekki hærri, en svarar beinum tilkostnaði. Danslag má leika kvaðalaust á slíkum samkomum, þó að hljóðfæraleikari taki venjulega þóknun, nema félagsbundin eða föst hljómsveit leiki. Söngfélög og aðrir, er hafa með höndum tónlistarstarfsemi, án þess að þeir taki sérstaka greiðslu fyrir, skulu og njóta undanþágu skv. ákvæðum síðustu málsgr.

Skv. þessari lagagrein er sýnilegt, að hugsunin hefur verið sú, að gjaldskyldan væri við það miðuð, að tónverk væru flutt eða hugverk almennt væru flutt opinberlega í ábataskyni. Notkun segulbandstækja á heimilum er að sjálfsögðu ýmiss konar. En í fyrsta lagi er þess að gæta, að það er vitanlega engin vissa fyrir því, að segulbandstæki séu notuð til þess að flytja vernduð verk, og þegar fyrir þá sök fráleitt með öllu að innheimta af þeim gjald til STEFS. Í annan stað er notkun slíkra tækja á heimilum almennt við það miðuð, að annaðhvort er um að ræða upptöku eftir útvarpi, sem oft stafar af því, að fólk er ekki heima, þegar einhverjir ákveðnir útvarpsþættir eru fluttir, vill gjarnan hlýða á þá seinna, og þá er þetta oft tekið upp á segulband, eða þá ýmis persónulegur flutningur á ýmsu efni er tekinn inn á þessi segulbandstæki, sem auðvitað er fjarri öllu lagi að gjaldskylt geti verið til STEFS.

Við höfum í frv. miðað undanþáguheimildina af segulbandstækjum við það, að segulbandsupptakan væri eingöngu til heimilisnota, því að það er vitanlega sjálfsagt, ef tekið er upp efni á segulband eða á annan vélrænan hátt til opinbers flutnings eða til notkunar í ábataskyni, að þá eigi höfundar tvímælalausa kröfu á gjaldi fyrir þá notkun verka sinna. En ég held, að ef á að fara inn á þá braut að viðurkenna rétt til innheimtu höfundalauna af slíkri upptöku ýmissa verka á segulbandstæki innan heimila, þá sé, eins og ég áðan sagði, of langt gengið í þessu efni og það hafi aldrei verið hugmyndin með lögvernd hugverka, að það gengi svo langt, því að þá má raunar á svipaðan hátt verja það, að menn eigi að gjalda þá gjald til STEFS, ef þeir syngja eitthvert lögverndað tónverk, en auðvitað sjá allir, að það er útfært í hinar fyllstu öfgar. En það er ekki nema aðeins stigmunur milli þeirrar kröfu og þessarar kröfugerðar, sem höfð hefur verið uppi í sambandi við segulbandstækin.

Það er sjálfsagt, enda viðurkennt af íslenzkum rétti, að eigendur hugverka njóti verndar fyrir verk sín og aðrir geti ekki endurgjaldslaust notað verk höfundanna sér til ábata, heldur beri þeim að greiða eðlilega þóknun, ef verkin eru þannig flutt. En út fyrir þennan ramma held ég að ekki sé auðið að fara. Með hliðsjón af þeirri hugsun höfum við leyft okkur að flytja þetta frv. Það má að vísu, eins og í grg. þess segir, um það deila, hvort jafnvel sé ekki óheimil þessi innheimta eftir orðalagi núgildandi höfundaréttarlaga, en um það má deila: Til þess að taka af öll tvímæli höfum við leyft okkur að flytja þetta frv. og teljum, að það byggist á einmitt þeirri hugsun, sem höfundaréttarlögin sjálf eru byggð á, og væntum því, að hv. þm. geti fallizt á, að hér sé um eðlilega ákvörðun að ræða.

Að lokinni umr. vil ég leyfa mér að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.