24.02.1959
Efri deild: 74. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í C-deild Alþingistíðinda. (1471)

111. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er mál, sem hefur ákaflega mikla þýðingu og þarf mikillar athugunar við. Aðalefni þess er að mynda nýjan banka, sem geti tekið á móti sjóðum og ávaxtað þá og lánað fé til sveitarfélaga. Áður hefur sjóðurinn verið sjóður, sem hefur átt að afstýra hallæri og þess vegna líka lána fé til sveitarfélaga með sýsluábyrgð og einstakra manna með ábyrgð sveitarfélaga. Og það hefur sýnt sig, að af þeim lánum, sem sveitarfélögin hafa átt að greiða, hefur orðið að gefa mikið eftir, og árgjöld sín borga þau seint og illa. Það sýnir sig, að þau hugsa ekki um, hvorki að standa í skilum með það, sem þau eiga að borga, og að borga það á réttum tíma, og ekki heldur að standa við þær ábyrgðir, sem þau taka á sig. Nú á að auka sjóðinn með framlagi frá almenningi og ríkissjóði til þess að lána sveitarfélögunum meira, — ekki til þess að borga upp gamlar skuldir, heldur líklega til þess að geta myndað nýjar og gefið eftir aftur, eins og áður hefur verið gert. Þetta finnst mér ekki ná nokkurri átt, fljótsagt, ekki nokkurri átt, og ég er alveg á móti því að búa til einn banka enn þá, sem ekki á annað að gera, en að lána til sveitarfélaga. Sérstaklega þegar maður lítur á reynsluna, sem þessi sami sjóður, meðan hann að vísu hefur heitið öðru nafni, hefur fengið af því að lána þeim, þá finnst mér það vera fyrir neðan allar hellur. Ég er þess vegna á móti þessu atriði í frv. almennt séð, þó að það séu ýmis önnur atriði í því, sem eru til bóta og ég get verið með. En í sambandi við þau vil ég þó benda á einstök atriði og biðja þá n., sem fær málið til meðferðar, að athuga.

Það hefur verið svo og er svo, ef ég man rétt, í þeim lögum, sem nú gilda um sjóðinn, að þá á að borga gjaldið frá sveitarfélögum úr sveitarsjóði. Það er miðað við, hvað það er mikið á mann, sem sveitarsjóðurinn á að borga af þessu. Það er þó laust og óbundið, hvernig sveitarsjóðurinn aftur rukkar það inn, hvort hann rukkar það inn sem persónugjald eða jafnar því niður með útsvörum og borgar það svo allt frá sér þannig. Eins og frv. er orðað núna, er þetta fellt niður. Það er persónugjald, sem sýslumaðurinn á að rukka inn hjá oddvita, en ekkert er sagt um, að sveitarsjóðurinn eigi að borga það. Það getur vel verið, að það sé ætlazt til, að það sé rukkað inn, eins og nú er, en næst liggur fyrir að skoða það sem persónugjald á einstaklingana. Ef það er meiningin, þá er ég líka algerlega á móti því ákvæði. Það á að borgast úr sveitarsjóðunum, það á að jafna því niður með útsvörum. Og það þarf að koma skýrt fram, svo að þar sem þeir menn ráða, sem eru ríkir og hafa getuna og borga mikið af útsvörum, eigi þeir ekki að geta létt þessu af sér og sett það yfir á fátæku barnamennina, sem þurfa þá að borga margar 5 kr., — það þarf að koma skýrt fram, eins og er núna í gömlu lögunum, en er fellt niður í þessu frv. Þetta vildi ég biðja n. að athuga.

Mig langar til að fá nánari upplýsingar um það, hvernig það hefur átt sér stað, að bjargráðasjóður, sem áður var rekinn fyrir sama sem ekki neitt af skrifstofustjóra í atvmrn., þá sem formanni og reikningshaldara og allt saman var það þar, og endurskoðaður af endurskoðendum ríkissjóðs, — hvernig hann nú allt í einu er kominn upp á það að hafa 126 þús. kr. útgjöld í stjórn og rekstri, eins og frsm. upplýsti. Það er engin heimild til þess í gömlu bjargráðasjóðslögunum að hafa framkvæmdastjóra. Hún er ekki til í lögunum. Hvernig hefur hann orðið til og fleiri skrifstofumenn í kringum hann til að sjá um að þessar lánveitingar, sem ekki eru miklar, samanborið við það, sem nú er umsetning í peningum milli manna og ekki heldur krefjast þær mikillar vinnu? Ég tel það algeran óþarfa og hefði vel getað verið eins og það var, og lögin ætlast ekki til annars. En nú á að lögfesta eyðsluna. Og það er náttúrlega kannske eðlilegt, að það eigi að lögfesta það, þegar á að gera þetta að bankastofnun, sem taki á móti og ávaxti sjóði, sem til eru í landinu, og láni þá aftur út til hreppsfélaganna. Það er kannske eðlilegt. En ég lít þannig á, að þetta eigi bara að vera undir stjórnarráðinu, eins og það var og á að vera, eins og lögin eru, sem gilda núna, og endurskoðast með ríkisreikningunum án sérstakrar greiðslu af þeim, sem það gera.

Ég lít yfirleitt þannig á, að það sé nauðsynjamál að fá þennan sjóð sem sterkastan til þess að standa undir þeim misfellum, sem honum er ætlað að standa undir, þeim að afstýra hallæri á mönnum eða skepnum til sjós og lands, en ekki að hafa hann sterkan til þess að verða nýr banki í landinu, sem sérstaklega hafi sín viðskipti við sveitarfélögin, sem reynast í meðallagi með þau gjöld, sem þau eiga að borga í sjóðinn, svo að ekki sé meira sagt.

Þá vildi ég líka benda á það, að ég tel mjög hæpið, hvort á að fara að veita heimild í lögum til þess að mæta hallæri, sem er af völdum hluta eða atvika eða náttúrufyrirbæra, sem hægt er að vátryggja gegn, — mjög hæpið. Þegar hægt er að vátryggja sig t.d. gegn skaða af jarðskjálftum með svo lifandi skelfing hverfandi lítilli upphæð á ári og ýmsum öðrum náttúrufyrirbrigðum, sem geta valdið mönnum stórsköðum, þá álít ég ekki koma til mála að fara að mynda sjóð og ætlast til, að hann grípi þar inn í og láni eða bæti úr, þegar skakkaföll verða, — mjög hæpið. Ég vil nú ekki slá neinu föstu um þetta samt, en ég vil biðja n. að athuga þetta. Þegar einstaklingarnir hafa möguleika til að tryggja sig gegn þessu eða hinu hagkvæmt og ódýrt, þá er spurningin, hvort almenningur á að skjóta saman fé til þess að lána þeim, ef þessi óhöpp koma fyrir, sem þeir gátu sjálfir tryggt sig gegn án þess að finna nokkuð verulega til þess, ef þeir hefðu haft hugsun á því, — mjög hæpið.

Þá vil ég enn benda á það, að í einni gr. er svo fyrir mælt, að það má lána úr sjóðnum til þess að afstýra því, að hallæri eða vandræði komi fyrir á einn eða annan hátt, sem geti komið til hans kasta að lána síðar til að minnka afleiðingarnar. Þetta hefur verið áður, þegar voru lánuð bústofnslánin gömlu til hreppsfélaganna, svo að bændur gætu fjölgað búfénu og gert búin arðvænlegri. Þau voru lánuð í þessu skyni.

Nú skal ég taka dæmi til að útskýra, hvað ég á við. Ég skal taka dæmi af því, að í sumar eða í haust reyndar, þegar ég var að flækjast um og athuga heyforða manna og þarfir hreppanna til þess að fá lán, til þess að bændur þyrftu ekki að skerða bústofninn allt of mikið, þá hygg ég, að það hafi verið einn lélegasti hreppurinn, sem ég kom í, þar höfðu þeir ekki nema hér um bil 2/3 af venjulegum heyskap í hreppnum sem heild, enda bjó hann við óvenjuleg harðindi fram eftir sumri og óþurrka úr því, eins og reyndar var víðar, — en einn maður í hreppnum hafði meiri hey en hann var vanur, meðan hinir voru sumir með helmingi minna og svo meira og minna brot af venjulegum heyjum. Hvernig stóð nú á því, að þessi eini maður hafði þetta mikil hey? Það stóð þannig á því, að hann hafði votheysgryfjur og hann hafði súgþurrkunarhlöðu fyrir allan sinn heyskap og ótíðin snerti hann ekki, af því að hann gat bjargað heyinu öllu ýmist þurru eða votu í hlöðu. Ég vissi þetta nú í sumar, þegar ég kom þar, en núna fyrir nokkrum dögum kom til mín bóndi úr sömu sveitinni, sem ég var að láta segja mér nákvæmlega, hvernig þetta væri hjá þessum bónda, og hann upplýsti þetta, sem ég reyndar vissi nú áður. Nú er mér spurn: Það er enginn vafi á því, að með þessum kostnaði, þessari aðstöðu til sinnar heyverkunar, sem hann var búinn að skapa sér, afstýrir hann því, að það yrði nokkurt hallæri hjá honum, þó að það yrði hjá hinum hreppsbúunum öllum. Er meiningin, að sjóðurinn láni til þessa? Hann á að lána til að afstýra því, að hallæri og svona lagað komi fyrir. Þetta er eins núna, og það er í raun og veru í samræmi við það, sem áður var, til dæmis með þessi bústofnslán, sem alls staðar var varið til að kaupa ær og fjölga bústofninum, þar sem þau voru tekin, og gerðu mikið gagn á sinum tíma. Ætlast flutningsmennirnir til þess, að þetta komi þarna undir? Eftir orðanna hljóðan virðist mér það geta komið þar undir, en ég er anzi hræddur um, að það sé nú ekki hugsað þannig og þá þurfi greinin helzt að vera orðuð öðruvísi, en hún er, og vildi ég, að það væri athugað.

Það er ekki fleira, sem ég vildi nú athuga. En ég er sem sagt alveg á móti því, að það sé búinn til nýr banki, sem eigi að taka þá viðskiptamennina, sveitarfélögin, sem áður hafa sýnt síg í mestum vanskilum við sjóðinn.