23.02.1959
Neðri deild: 80. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í C-deild Alþingistíðinda. (1488)

109. mál, Listasafn Íslands

Gunnlaugur Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að ríkisstj. skuli hafa lagt fram frv. það, sem hér er á dagskrá, um Listasafn Íslands. Ég þarf ekki að vera langorður um þetta frv., því að hæstv. menntmrh. hefur gert því svo ýtarleg skil. Það er ánægjulegt að vita til þess, að nú skuli sá tími vera skammt undan, að listasafnið fái sína eigin yfirstjórn sem önnur söfn á vegum þess opinbera, en svo sem kunnugt er, hafa öll söfn íslenzka ríkisins frá fyrstu tíð lögum samkvæmt verið sjálfstæðar stofnanir nema listasafnið. Má í því sambandi vitna til laga nr. 40 1947, um verndun fornminja, sem sé um þjóðminjasafnið, laga nr. 39 1915, um þjóðskjalasafn, og laga nr. 17 1951, um náttúrugripasafn. Þegar lögin um menntamálaráð voru gerð árið 1928, var kveðið svo á í 2. gr. þeirra, að menntamálaráð skyldi hafa yfirumsjón með listaverkasafni landsins og undirbúa, eftir því sem unnt er, byggingu listasafns. Þá var safnið á tvístringi, geymt í skólum og opinberum byggingum. Á árinu 1957 voru samþykkt ný lög um menningarsjóð og menntamálaráð, sem nú eru lög nr. 50 1957, og í 7. gr. þeirra laga er kveðið svo á, að menntamálaráði er falið til bráðabirgða að hafa yfirumsjón með listasafni ríkisins, þ.e.a.s. þar til lög eru sett um safnið.

Frá því, að Alþingi fól menntamálaráði að hafa yfirumsjón með listasafninu og undirbúa byggingu listasafns, eru liðin 30 ár, og hefur menntamálaráð haft litinn áhuga á málinu og listasafnið verið hálfgerð hornreka. Er því vissulega kominn tími til þess, að komið verði nýrri skipan á stjórn listasafnsins, að ekki sé meira sagt.

Menntamálaráð hefur jafnan fyrst og fremst verið skipað þeim mönnum, sem hafa haft þekkingu og áhuga á bókmenntum umfram aðra og látið sig myndlist minna varða, og má það vera skýring á sinnuleysi menntamálaráðs að þessu leyti. Þó er rétt að geta þess, að einn og aðeins einn af þeim mönnum, sem átt hafa sæti í menntamálaráði, hefur sýnt myndlistinni verulegan áhuga, og mun e.t.v. mega rekja það að einhverju leyti til þess, að hann er kvæntur mikilhæfri myndlistarkonu, frú Kristínu Jónsdóttur, en það er Valtýr Stefánsson. Hann hefur öðrum fremur haft forgöngu um sum beztu kaup á listaverkum til safnsins, og er það víssulega þess vert, að þess sé getið hér. Hins vegar hafa listaverkakaup menntamálaráðs iðulega sætt gagnrýni og réttmætri gagnrýni, því að óhætt mun vera að fullyrða, að sum kaup á verkum til safnsins eru safninu til lítils sóma og hefðu aldrei verið gerð, ef þau mál hefðu verið í höndum þeirra manna, sem fyrst og fremst hugsa um veg og gengi listasafnsins sjálfs.

Svo sem sjá má í aths. fyrir frv. þessu, var ég einn þeirra fimm manna, sem áttu sæti í n. til undirbúnings frv. þessa. N. var sammála um öll atriði frv. þessa nema um stjórn þess, en þar höfðum við Gunnlaugur Scheving, sem var einasti myndlistarmaðurinn í n., sérstöðu og vildum, að fimmti maðurinn í stjórn listasafnsins og varamaður hans væru skipaðir af menntmrh. til nokkurra ára í senn. Félag óháðra listamanna leggur einnig til, að sama skipan verði á höfð, en þar segir í fskj. 5: „Við leggjum til, að sá hluti frvgr., er að þessu lýtur, verði hafður orðrétt eins og mgr. minni hl. hljóðar, en það er svo: Fimmta mann í safnráð skipar menntmrh. svo og varamann hans. Skipun þeirra skal fara fram í þann mund, er ráðh. skipar formann útvarpsráðs eftir hverjar alþingiskosningar:

Aðrir hafa látið þetta atriði liggja á milli hluta, og satt bezt að segja töldu hinir þrír, sem voru í undirbúningsnefndinni, að eins vel mætti fara á því að hafa stjórn safnsins svo sem við Gunnlaugur Scheving lögðum til. Segja mætti, að nú væri eðlilegast, að ég flytti brtt. við frv. í þessa átt, en ég hef ekki hugsað mér að gera það, heldur leggja það á vald hv. menntmn. d., hvorn háttinn hún telur æskilegri.

Frumvarpi þessu fylgja fimm fylgiskjöl, og get ég ekki látið hjá líða að víkja að tveimur þeirra.

Fskj. 3, bréf menntamálaráðs, er byggt á verulegum misskilningi, að ekki sé fastara að orði kveðið. Í því segir, að sú stefna hafi verið mörkuð á árinu 1957 að sameina sem flesta þætti menningarmála undir yfirstjórn menntamálaráðs og að með frv. þessu sé brotið í bága við þá stefnu. Hér er um misskilning að ræða. Það var rétt, að sú stefna var mörkuð á árinu 1957 að gera starf menntamálaráðs fjölþættara, en hins vegar mun ekki hafa hvarflað að þeim ráðh., sem markaði þá stefnu, að láta listasafnið verða áfram undir stjórn menntamálaráðs, ella hefði sá hinn sami ráðh. ekki átt forgöngu um, að ríkisstj. leggur nú þetta frv. fram.

Þá kemur fram í bréfi menntamálaráðs, að það sér ofsjónum yfir því, að nú skuli loks eiga að gera allvel til myndlistarinnar og verja fastri lágmarksfjárhæð til listaverkakaupa. En sá andi, sem liggur á bak við þau orð, ætti að verða nægur til þess, að Alþingi láti það ekki viðgangast lengur, en orðið er, að menntamálaráð hafi yfirumsjón þessara mála. Loks eftir 30 ára svefn rumskar menntamálaráð og minnist þess, að listasafninu er nauðsyn á að fá eigin byggingu og þá fyrst sé tímabært að taka ákvarðanir um framtíðarskipan listasafnsins.

Í fskj. 5, bréfi þjóðminjavarðar, sem annars er greinagott, kemur fram sama hugsunin. En þessi hugsun er á engan hátt rökstudd og er við nánari aðgæzlu nokkuð fjarstæðukennd. Löggjöf um listasafnið mun ekki tefja það, að unnið verði að því að koma upp listasafnsbyggingu, nema síður sé, því að telja má víst, að þegar myndlistarmennirnir sjálfir fá tækifæri til þess að leggja hönd á plóginn, verði þess ekki langt að biða, að listasafnsbygging verði reist. Þá er hitt fjarstæða, að listasafnið geti ekki starfað né sé rétt að koma fastri skipan á stjórn þess og rekstur, þó að það hafi ekki eigið húsnæði. Hvernig var það með Alþingi, þegar það var endurreist? Ekki átti það eigið húsnæði. Og hvernig var það með háskólann, svo að dæmi séu nefnd? Ekki átti hann eigið húsnæði, en var hér til húsa í alþingishúsinu, — en þó var strax sett löggjöf um háskólann. Sama má segja um ríkisútvarpið, og svona mætti lengi telja.

Flestar íslenzkar stofnanir, ekki sízt menningarstofnanir, hafa verið stofnaðar og bundnar með lögum, án þess að þær ættu eigið húsnæði, og því fremur er nauðsyn að skapa þeim stofnunum, sem ekki eiga eigið húsnæði, þá aðstöðu, að þeim séu með löggjöf tryggð framtíðarstarfsskilyrði. Hugmynd hæstv. menntmrh. um leið til að afla fjár til þess að reisa listasafnsbyggingu er hin athyglisverðasta, og er vonandi, að hæstv. Alþ. takist að leysa það mál og að frv. það, sem hér er á dagskrá, fái skjóta og góða afgreiðslu hjá deildinni.