30.04.1959
Neðri deild: 120. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í C-deild Alþingistíðinda. (1510)

167. mál, orlof

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Þegar frv. þetta var hér til umr. í gærdag, talaði hæstv. félmrh. fyrir því og hafði um það að segja aðeins örfá orð. Ég held, að það hafi verið aðalefni þess, sem hæstv. ráðh. sagði um þetta frv., sem miðar raunverulega að því að afnema orlofsl., að hann sagði, að það hefði komið í ljós, að launamenn kærðu sig ekki um það form, sem á þessu hefði verið, þ.e. að hafa orlofsmerkin, og að kaupgreiðendur hefðu verið guðsfegnir að losna við þau. Að öðru leyti fannst mér hæstv. ráðh. ekki leggja í það að rökstyðja neitt nánar, hvað það raunverulega væri, sem hefði knúið ríkisstj. til þess að leggja fram þetta frv., sem raunverulega miðaði að því að afnema orlofslöggjöfina.

Ekki skal ég draga það í efa, að atvinnurekendur hafi gjarnan viljað losna við orlofsmerkin eða þá fyrirhöfn, sem þau leggja á alla atvinnurekendur. Það höfum við vitað alveg frá fyrstu tíð, að flestir atvinnurekendur hefðu gjarnan viljað vera lausir við þessa fyrirhöfn. En þeir hafa nú samt sem áður tekið þetta á sig nú um margra ára skeið. Og ég skil ekki í því, að þeir geti ekki algerlega eins staðið í þessum framkvæmdum nú eins og áður. En í þessu efni álit ég, að það sé ekki hægt annað, en rifja það örlítið upp, hvaða ástæður voru til þess, að orlofsmerkjakerfið var einmitt bundið í lögum. Þetta kerfi var ekki af neinum illvilja sett upp. Það var ekki sett upp bara til þess að leggja hér nokkra aukavinnu á atvinnurekendur í sambandi við þeirra launagreiðslur til verkamanna. Hér var um það að ræða, að menn fundu ekki annað einfaldara form, en þetta til þess að tryggja það í framkvæmd, að hægt væri að koma því við, að lausráðnir tímavinnuverkamenn fengju sitt orlofsfé greitt út á þeim tíma ársins, sem þeir raunverulega ætla sér að nota orlofsféð, eða þann tíma, sem þeir fara í orlof. Þessu er raunverulega komið fyrir á þennan hátt hjá öllum öðrum launastéttum, sem búa við orlof. Ef við t.d. tökum fastlaunamenn, þá er það þannig, að þeir fá hálfan mánuð eða þrjár vikur nú flestir á hverju ári í orlof. Og þeir halda fullu kaupi þennan tíma, þó að þeir hverfi frá vinnu um þriggja vikna tíma, og atvinnurekandinn sér þá um að greiða þeim þessa fjárhæð. Vitanlega hefði mátt hafa hinn háttinn á í sambandi við fastráðna starfsmenn, að taka það kaup, sem fastráðnir menn hafa fyrir hvern þriggja vikna tíma, og bæta því ofan á útgreiðslurnar allan hinn tíma ársins, sem maðurinn er raunverulega að störfum, en borga honum svo ekkert í þessar þrjár vikur, þegar hann hverfur frá störfum og fer í orlof. En sú regla hefur ekki verið notuð, heldur er orlofsféð á þennan hátt hjá fastlaunamanninum geymt, og honum er síðan goldið kaup þær vikur, sem hann hverfur frá starfi og fer í frí. Og það var verið að reyna að koma þessu svona fyrir einnig í sambandi við lausráðna verkamenn, að taka til hliðar kaupgreiðslu fyrir þann hálfan mánuð eða þrjár vikur, sem maðurinn síðar meir átti að fara í frí, og þá væri þessi kaupgreiðsla til staðar, svo að hann gæti raunverulega farið í fríið.

Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að ef nú væri tekin upp sú regla að greiða öllum fastlaunamönnum í landinu ögninni hærra kaup, á hverjum mánuði, heldur en þeir fá nú, en fella síðan með öllu niður alla kaupgreiðslu í þrjár vikur, þegar þeir fara í sumarfrí, þá mundi það mælast illa fyrir. Það mundi enginn telja þetta til bóta. Menn mundu beinlínis halda því fram, að afleiðing þess yrði sú, að menn teldu þetta eins og hverja aðra kauphækkun, sem hefði verið framkvæmd á þennan hátt allan útborgunartímann af árinu, og þetta yrði svo til þess, að viðkomandi aðili treysti sér ekki til þess að vera kauplaus í þrjár vikur og fara þannig raunverulega í sumarfrí.

En nú dettur mönnum í hug, vegna þess að þetta orlofsmerkjakerfi kostar nokkur útgjöld, að það megi nú spara þau útgjöld, þó að það kosti hina lausráðnu verkamenn það, að þeir verði í framkvæmdinni raunverulega af öllu eðlilegu orlofi, öllu eðlilegu sumarfríi.

Það þýðir því ekkert annað, en horfast í augu við það, þegar þetta frv. er athugað, að með því að stefna að því að greiða orlofsféð út jafnhliða kaupgreiðslu vikulega, verður litið á féð eins og aðeins hluta af kaupinu, og síðan vantar þá alveg raunverulegar tekjur til þess að lífa fyrir á orlofstímanum sjálfum, sumarfrístímanum.

Nú vil ég einnig benda á það, að svo stendur á, að nýlega er búið að lækka kaup hjá verkamönnum í landinu með lögum. Og síðan á, á eftir að ákveða það, að allir atvinnurekendur megi þó greiða mönnum þessi 6%, sem menn hafa í orlof, með kaupinu, og það kemur þá beint upp í kauplækkunina í sambandi við hin útborguðu laun. Þá verður þetta einfaldlega þannig í framkvæmd hjá mönnum, að það virðist svo vera við hverja almenna útborgun, að kauplækkunin hafi ekki orðið alveg eins mikil, miðað við hið útborgaða kaup vikulega, eins og kauplækkunin raunverulega er, en hins vegar vantar svo algerlega kaup þann tíma, sem menn áttu raunverulega að fara í frí. Afleiðingin verður auðvitað sú, að menn fara ekkí í fríið. Orlofið hjá þessum lausráðnu verkamönnum verður í framkvæmd afnumið.

Nei, það var sannarlega ekki ákveðið að taka upp þetta orlofsmerkjakerfi algerlega að ástæðulausu. Og vissulega væru verkamenn allir til viðtals um það að leita að einhverju nýrra og ódýrara kerfi, ef það lægi fyrir, sem þó mætti tryggja hið sama í þessum efnum. Launþegar almennt hafa ekkert við því að segja, þó að ekki sé verið að líma merki inn í orlofsbækur hjá þeim verkamönnum eða þeim launþegum, sem raunverulega í framkvæmd eru sem fastráðnir menn, því að þá fá þeir með eðlilegum hætti kaupið greitt fyrir þann tíma líka, sem þeir raunverulega eru í fríi. En orlofsmerkjakerfið virðist vera alveg óhjákvæmilegt gagnvart lausráðnum verkamönnum, sem vinna ýmist hjá þessum eða hinum atvinnurekandanum og hafa mjög óreglulega atvinnu, því að með því er verið að tína saman orlofsfé þeirra, sem þeir eiga síðan að hafa handbært, þegar þeir eiga að fara í það frí, sem viðurkennt hefur verið að sé eðlilegt á alla lund, að þeir taki sér raunverulegt sumarfrí eins og aðrar vinnustéttir.

Þegar orlofslögin voru sett á sínum tíma og einnig í sambandi við aðrar breytingar, sem hafa verið gerðar á orlofslögunum eða samningum um orlofsgreiðslu, var það upphaflega tekið fram og hefur jafnan verið tekið fram síðan, að það var alls ekki meiningin með orlofsgreiðslunni að knýja á þann hátt fram neina beina launahækkun. Verkamenn hafa ekki viljað líta á orlofsgreiðsluna sem venjulega launagreiðslu. Hér var ekki um beina kauphækkun að ræða, heldur var aðeins hér um það form að ræða að reyna að tryggja verkamönnum hliðstæð hlunnindi eða hliðstæð frí og aðrar vinnustéttir höfðu mjög almennt fengið sér til handa. Ég álít því, að frv. eins og það, sem hér liggur fyrir, miði raunverulega að því að afnema orlofslögin, því að þau eru með öllu þýðingarlaus, ef þeim yrði breytt á þá lund, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Ef á raunverulega að afnema reglurnar um orlofsmerkin og það eftirlit, sem þeim átti að fylgja, þá er orlofslöggjöfin algerlega úr sögunni og hefur ekkert gildi. Þá er ekkert annað eftir raunverulega heldur en það, sem stéttarfélögin hafa raunverulega í sinum kjarasamningum við vinnuveitendur, og þá býst ég við því, að næsta skrefið sé það að vera ekkert að tiltaka lengur, að tímakaupið skuli vera svona margar krónur og margir aurar og auk þess skuli greiða þeim 6% í orlof, heldur verði bara einfaldlega þetta allt í einni setningu og sagt, að það skuli greiða þeim svona hátt kaup og leggja þá orlofsféð við tímakaupið, svona hátt kaup fyrir hvern tíma. Það hlýtur vitanlega að verða næsta skrefið til þess að gera þetta enn þá einfaldara, enda mundi jafngilda þessu í framkvæmd það, sem hér er stefnt að.

Það er því í mesta máta óeðlilegt að reyna að skjóta sér eitthvað undan því í sambandi við þetta frv. að viðurkenna það hreinlega, að hér er verið að stefna að því að afnema orlofslöggjöfina og afnema í framkvæmd hið raunverulega orlof verkamanna. Að því er stefnt og engu öðru. Mér kemur heldur ekki til hugar að trúa því, að þetta frv. sé raunverulega flutt af einhverjum sparnaðarhvötum. Það er alveg fráleitt að reyna að halda því fram. Það er verið að reyna að halda því fram, að ef þetta frv. yrði samþykkt, gæti ríkið sparað á þessu ári við framkvæmd orlofslaganna um 500 þús. kr., og þó er nærri helmingur ársins liðinn og búið að leggja í mestallan þann kostnað við framkvæmd þessara laga, sem mundi verða gert á þessu ári. Það er vitanlega alveg fráleitt að tala um nokkurn sparnað á þessu ári. Svo þegar þess er gætt líka, sem hér hefur verið minnzt á í þessum umr., að frv. er þannig upp byggt, að það gerir þó ráð fyrir því, að einstaka verkamenn eða einstaka launþegar geti krafizt þess áfram að fá orlof sitt með orlofsmerkjum límt inn í bækur, og vitanlega krefjast einhverjir þess, þó að atvinnurekandinn reyni að nudda við verkamanninn að falla frá þessu og segi honum, að ef hann sé með svona óþægð, þá muni hann ekki ráða hann í vinnu aftur og reyna að smáhrekja hann út af þessu, þá mun það nú samt verða þannig í framkvæmd, að allmargir munu krefjast þess að fá þetta í merkjum inn í sínar bækur til þess m.a. að tryggja það, að þeir hafi fé til sumarfrístímans, og þá þarf ríkið hvort sem er að prenta merki, hafa þau til staðar og hafa kerfið til í sambandi við þessa framkvæmd. Allt er sem sagt jafnvitlaust í þessu frá hálfu þeirra manna, sem eru að tala um það, að þeir geti sparað eitthvað í sambandi við það að breyta lögunum á þessa lund. Nei, hér er vitanlega um það að ræða, að það er stefnt að því að reyna að eyðileggja orlofslöggjöfina og reyna að afnema í framkvæmd orlof verkamanna.

Ég veit, að það eru til ýmsir atvinnurekendur, sem hafa frá upphafi haft horn í síðu þessarar löggjafar og verið á móti henni og eru kannske að vinna að því eins og þeir geta að reyna að fá hana úr gildi. Ég trúi því nú ekki, að Alþfl.-þingmenn almennt hafi raunverulega haft það í huga að eyðileggja orlofslöggjöfina. Ég tók að vísu eftir því, að sá þm. úr liði Alþfl. hér á Alþ., sem er beint starfandi í verkalýðshreyfingunni, greiddi hiklaust atkvæði á móti þessari till. í sambandi við sparnaðinn fyrir ríkið. En ég trúi því ekki heldur á hina þm. Alþfl., að þeir hafi haft það beinlínis í huga að eyðileggja þessa löggjöf. En þeir hafa bara látið blekkja sig í þessum efnum. Þeir hafa látið aðra menn villa um fyrir sér og reka sig inn á þessa braut, sem raunverulega þýðir þetta. Og ég trúi því illa, að svo aumlega sé komið fyrir Alþfl. í slagtoginu við Sjálfstfl., að hann þurfi að láta reka sig nauðugan til þess að leggja fram frv. eins og þetta og afnema þessa löggjöf á þennan hátt. Ef þinglið Alþfl. hefði raunverulega áttað sig á því, hvað hér er um að vera, þá held ég, að það hefði átt að geta stöðvað þennan ófögnuð og staðið þetta af sér.

Ég vil nú sérstaklega beina því til Alþfl.-þingmanna, að þeir endurskoði þessa afstöðu sína. Ég trúi því varla, að þeir óski eftir því, sjáandi það, að hér getur ekki verið um neinn sparnað að ræða og það eru til margir aðrir liðir, sem auðveldara er að spara og þá á raunverulegan hátt hjá ríkinu heldur en þennan, — ég skora á þá, að þeir endurskoði afstöðu sína til þessa máls og reyni ekki að fara út í þá fjarstæðu að ætla að knýja þetta hér í gegn á Alþ. gegn vilja verkalýðshreyfingarinnar í landinu og sjálfum sér til ævarandi háðungar á eftir. Það ætti að vera nóg frá þeirra hálfu, að þeir eru nú búnir að taka að sér fyrir Sjálfstfl. að lækka hér á Alþ. með lögum umsamið kaupgjald og brjóta þannig alveg gegn hefðbundnum reglum í sambandi við samningsrétt verkalýðsfélaganna. Það ætti að vera ærið nóg, þó að flokkurinn bæti nú ekki þessu skammarstriki við líka.

Ég man vel eftir því, að um það leyti sem var verið að setja orlofslöggjöfina, þá voru þar einmitt menn úr röðum Alþfl., sem hældu sér feiknin öll fyrir það, að þeir væru í rauninni upphafsmenn þessarar löggjafar, að þeir hefðu fyrst og fremst komið henni fram á Alþ. og þeir ættu allar þakkir skyldar í sambandi við þessa löggjöf. Auðvitað var það nú ekki rétt, þó að þeir ættu sinn þátt í því, að lögin voru sett hér á Alþ. Hið rétta var, að það var sjálf verkalýðshreyfingin í landinu, sem knúði þetta hagsmunamál sitt fram og það í beinum samningum. Og það var búið að semja um það hjá stærstu verkalýðsfélögunum í landinu, að atvinnurekendur skyldu greiða þeim í orlofsfé tiltekna fjárhæð, áður en lögin voru sett um orlof hér á Alþ. En allt um það, þá voru orlofslögin mjög þýðingarmikil staðfesting á því, sem um hafði verið samið á nokkrum stöðum, og hún miðaði að því að reyna að tryggja það betur í framkvæmd, að verkamenn raunverulega hefðu aðstöðu til þess að taka orlof, að verkamenn raunverulega tækju sitt sumarfrí. Það er óréttmætt í þessum efnum að ætla að gera aðalatriði úr þeirri lítils háttar aukavinnu, sem atvinnurekendur verða að taka á sig í sambandi við orlofsmerkin, og þeirri aukagreiðslu, sem ríkið verður að taka á sig, til þess að hægt sé að tryggja verkamönnum orlof í framkvæmd. Slíkt er vitanlega algert aukaatriði, og það er, eins og ég hef sagt áður, sjálfsagt að kanna það, hvort það eru til einhverjar aðrar leiðir, sem mega tryggja hið sama og orlofsmerki gera og kynnu að kosta minna. En það er vitanlega algerlega röng leið og ekki afsakanleg á neinn hátt að grípa til þess að ætla að afnema löggjöfina vegna tiltölulega lítils kostnaðar, sem af þessu er.

Þá vil ég einnig minna á það, að önnur lög eru í gildi, sem einnig eru byggð á þessu sama kerfi með merkjagreiðslu, en það eru lögin um skyldusparnað. Þar er um nýja löggjöf að ræða, og sami aðili hefur með hvort tveggja að gera, þau merki, sem þar um ræðir, og þessi svonefndu orlofsmerki. Kostnaðurinn af sparimerkjaframkvæmdinni er þó miklum mun meiri, en framkvæmd orlofslaga. Nú er það alveg gefið mál, að þó að maður vildi fella niður orlofsmerkin, þá verður það bara svo, að þá verður tiltölulega meiri kostnaður við sparimerkin hjá þessari sömu stofnun, af því að hún getur ekki fækkað eða breytt sínu starfsliði eða sínum kostnaði að öllu leyti í samræmi við það, þó að orlofsmerkin væru nú afnumin.

Við því er ekkert að segja, þó að framkvæmdin verði sú með orlofið, að þeir atvinnurekendur, sem hafa menn nánast fastráðna í þjónustu sinni um nokkurra mánaða skeið, greiði ekki með beinum orlofsmerkjum, en greiði þá alveg örugglega fullt kaup fyrir þann tíma, sem á raunverulega að gilda sem sumarfrístími, svo að slíkir verkamenn falli undir hina sömu framkvæmd og fastráðnir menn falla. Það er ekkert við því að segja. Það er ekki neitt annað, sem vakir fyrir forustumönnum verkalýðssamtakanna í þessum efnum, en það að reyna að halda því, sem miðar að því að tryggja, að raunverulega verði hægt fyrir alla launþega í landinu að hafa kaup greitt einnig fyrir þann tíma, sem þeir fara í sumarfrí, og það geti gilt jafnt fyrir lausráðna verkamenn sem yfirleitt aðra launþega í landinu. Og meðan þeir ekki finna annað einfaldara ráð til þess að tryggja þetta en orlofsmerkin, þá verða þær reglur líka að gilda.

Það hefur verið minnzt á það, að nokkuð hafi borið á því, að orlofslögin hafi verið brotin í framkvæmd, og ég efast ekki um, að það er rétt. Það hefur verið frá hálfu hins opinbera heldur slælega eftir því lítið, hvernig væri háttað framkvæmdinni á þessum lögum, og stafar það vitanlega af því, að atvinnurekendur vilja losna við þetta ómak, sem þeir væru að taka á sig. En ég held þó, að þau undanbrögð, sem þarna hafa verið höfð í frammi, séu ekki meiri en svo, að enn þá stendur eftir höfuðtryggingin í málinu, sú trygging, að flestir verkamenn, sem annars búa við sæmilegar tekjur, geta tekið sér sumarfrí og hafa þá tekjur fyrir að lífa á því tímabili einmitt í gegnum orlofsmerkjagreiðslurnar. Sem sagt, þó að lögin hafi ekki verið haldin í öllum greinum, þá hefur að mínum dómi eigi að síður náðst fram það, sem lögin áttu að tryggja, í öllum aðalatriðum.

Ég veit, að því er haldið fram af þeim, sem flytja þetta frv., að það sé ekki beinlínis lagt til með frv. að afnema orlofslögin og ekki heldur beinlínis lagt til í frv. að fella algerlega niður orlofsmerkjagreiðslur, heldur sé hér um heimild að ræða, þannig að það sé heimilt fyrir vinnuveitendur að greiða þetta með útborguðu kaupi, enda sé þarna um samkomulag að ræða. En eins og ég hef að nokkru leyti minnzt á, þá er það alveg augljóst mál, að vegna þess að atvinnurekendur hafa stefnt að því lengi að losna við þetta ómak, þá munu þeir nota þessa heimild til þess að brjótast þarna í gegn og brjóta löggjöfina niður. Það er enginn vafi á því, að þeir munu einmitt sækja á þetta lagið og reyna að knýja verkamenn til þess að falla frá kröfunni um orlofsmerki nú, og hitt er líka vitað, að hætt er við því, að ýmsir verkamenn vilji gjarnan fá sem mesta útborgun vikulega og afskrifi þar með orlofstímann, þegar að honum kemur, af því að þá vitanlega eiga þeir ekkert fé til þess að lífa fyrir.

Ég held líka, að þetta mál, eins og það er lagt hér fyrir, sé raunverulega búið að gera sitt gagn. Það, sem hæstv. ríkisstj. vantaði í þessum efnum, var eingöngu að skrökva einni viðbótarupphæð inn á fjárlögin til þess að halda því fram, að fjárlögin hafi ekki verið afgreidd með greiðsluhalla. Nú er búið að skrökva þessari upphæð inn á fjárlögin, þó að allir viti, að það verður enginn sparnaður að þessu, hvort sem frv. verður samþ. eða ekki. Því held ég, að tilganginum sé raunverulega þegar náð og það þurfi ekki lengra að fara, því væri miklu einlægara að hætta nú við að samþ. þetta frv., fallast hreinlega á það, að hér geti enginn sparnaður orðið. Hins vegar standa þó alltaf fjárlögin þannig, að þau eru víst með 50 þús. kr. hagnaði eða 50 þús. kr. greiðsluafgangi, og það hefur náðst með því að halda því fram, að hægt sé að spara á þessum lið um 500 þús. kr., þó að allir viti, að það verður ekki hægt, hvort sem frv. er samþ. eða ekki. [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég hafði nær því lokið ræðu minni, þegar þingfundi var frestað, og þarf því ekki að hafa hér langt mál um þetta frv. við þessa umr. Ég legg áherzlu á það, að mér sýnist, að sú hætta felist í þessu frv., sem hér liggur fyrir um breytingu á orlofslöggjöfinni, að hún verði raunverulega í framkvæmd afnumin, því þó að breytingarnar á löggjöfinni séu sniðnar í því formi, að hér sé aðeins um heimild að ræða, þá er hætt við því, að þessi heimild leiði til þess, að þeim, sem gjarnan hafa verið andvígir þessari löggjöf frá upphafi, takist einmitt í krafti þessarar nýju heimildar að koma lögunum raunverulega úr gildi. Ég held því, að allir þeir, sem viðurkenna það, að orlofslögin eigi rétt á sér og það sé sanngjarnt og eðlilegt, að verkamenn, einnig lausráðnir verkamenn, eigi rétt til orlofs og það eigi að tryggja þeim eðlilegt sumarfrí, að allir þeir eigi raunverulega að vera á móti þessu frv. í þeim búningi, sem það er, og þá ekki siður þegar þess er gætt, eins og hér hefur einnig verið vikið að áður, að það er alveg greinilegt, að þessi breyting á l. getur ekki haft í för með sér neinn sparnað fyrir ríkið og alls ekki a.m.k. á þessu ári. Það er líka svo; að það er verulega hættulegur hlutur fyrir ríkisvaldið að blanda sér á þann hátt, sem gert er með þessu frv., inn í bein kjaramál verkalýðssamtakanna í landinu. Það hefur jafnan leitt af sér erfiðleika, þegar til slíks hefur verið gripið, og ég held, að það, sem hér er um að ræða; sé alls ekki þess virði fyrir þá, sem að þessu frv. standa, að efna til ófriðar við verkalýðssamtökin út af þessu. Ég vil því beina því til ríkisstj., sem stendur að flutningi þessa máls, að hún endurskoði afstöðu sína og falli frá því að reyna að knýja þetta frv. í gegn á þessu þingi. Ég álít, að það mætti þá nota þann tíma, sem nú gefst til næsta þinghalds, til þess að kanna, hvort hægt er að finna einhverjar aðrar leiðir til þess að tryggja verkamönnum orlof, sem kynnu að kosta ríkið í framkvæmd minni fjárhæð, en þetta fyrirkomulag gerir, og mætti þá leita slíkt uppi, þótt ég efist satt að segja um, að það finnist öllu hentugra fyrirkomulag, en þetta er.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð að þessu sinni. Ég hef þegar lýst minni afstöðu til málsins, en ég er algerlega andvígur þessu frv. og tel. að það jafngildi raunverulega því, að orlofslöggjöfin sé afnumin.