30.04.1959
Neðri deild: 120. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í C-deild Alþingistíðinda. (1511)

167. mál, orlof

Eysteinn Jónason:

Það voru aðeins fáein orð um þetta mál, sem ég samt vildi segja strax við 1. umr. þess.

Þetta mál er þannig vaxið, að það er upphaflega tekið upp fyrir óskir og baráttu verkalýðshreyfingarinnar, og það hefur verið upplýst hér, að um það var á sínum tíma nánast eins konar samningur, sem atvinnurekendur áttu líka þátt i. Mér sýnist alveg augljóst, að þetta mál verði að senda til umsagnar verkalýðshreyfingarinnar og fyrst og fremst Alþýðusambandsins, og ef það kemur í ljós, sem maður sér nú þegar að er, að áherzla er lögð á það að hafa þetta áfram í gildi, þá sýnist mér alls ekki koma annað til mála, en það verði haft áfram eins og verið hefur, sem sagt, að þessari löggjöf verði ekki breytt nema í samráði við verkalýðsfélögin. Og ég fyrir mitt leyti vil alveg eindregið styðja, að þannig verði á þessu máli haldið, það verði ekkert í þessu máli gert nema það, sem heildarsamtök verkalýðsins geta fallizt á.