30.04.1959
Neðri deild: 120. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í C-deild Alþingistíðinda. (1512)

167. mál, orlof

Gunnar Jóhannesson:

Herra forseti. Með framkomu frv. til laga um breytingu á l. nr. 16 26. febr. 1943, um orlof, er að mínum dómi stigið mjög alvarlegt skref aftur á bak, ef þetta frv. verður að lögum. Með því er stefnt að því að eyðileggja orlofslögin og eyðileggja sjálfsagt og eðlilegt sumarfrí verkafólks, eins og það hefur haft að undanförnu. Ég tel, að með þessu frv. sé beinlínis sumarfrí verkafólks að mestu afnumið. Með því að greiða orlofið í peningum við hverja útborgun er ákveðið stefnt að því, að orlofsféð verði eyðslueyrir. Á orlofsféð, sem þannig er greitt út, verður litið sem hvert annað kaup, en ekki eins og hefur verið, að það sé dregið saman og þegar maðurinn fer í sumarfrí, þá á hann þessa peninga óeydda og getur notað þá þann tíma, sem hann tekur sér frí frá störfum. Með útgáfu orlofsmerkja átti að vera tryggt, að orlofsféð safnaðist saman yfir árið. Þegar launþegar tóku sér t.d. sumarfrí, áttu þeir orlofsfé sitt óeytt og gátu notað það sér til hvíldar og hressingar. Þetta gerði mikill fjöldi verkafólks og sjómenn og töldu þetta fyrirkomulag sér mjög hagstætt. Áður var það óþekkt fyrirbrigði, að verkafólk tæki sér sumarfrí. Aðrar stéttir voru fyrir löngu búnar að fá sitt sumarfrí viðurkennt, en verkafólkið hafði ekki neitt til að styðjast við, þannig að það gæti notað sér slíkt. En með tilkomu orlofslaganna varð breyting á þessu. Þá gat fólkið farið í sumarfrí, ef það vildi, og notað fé, sem hafði safnazt saman í sinni orlofsbók, notað það, þegar það fór í sumarfríið, ellegar ef það fór ekki í sumarfrí, var bara heima, þá gat það haft það sér til framfæris.

Það er ekkert launungarmál, að einstaka atvinnurekendur voru strax í upphafi á móti orlofslögunum og brutu lögin, hvenær sem þeir gátu því við komið. Þetta var ákaflega misjafnt, sumir skildu stefnu orlofslaganna rétt, voru þeim hlynntir, aðrir vitanlega voru á annarri skoðun. En þrátt fyrir það, að einhverjir hafi verið, sem töldu sér hag í því að brjóta orlofslögin, þá er það ekki neitt til þess að mæla með því, að gerð sé jafngagnger breyting á þessum l., eins og hér er farið fram á. Mér finnst, að með þessu frv. sé einmitt verið að mæta óskum og stefnu slíkra lögbrjóta. Ég get ekki annað séð, en það sé fyrst og fremst verið að fara eftir kröfum og óskum þessara manna, sem hafa gengið fram fyrir skjöldu að brjóta þessi lög. Og hæstv. ríkisstj. hefur séð sér fært að flytja slíkt frv. hér á Alþ.

Frá upphafi vega áttu orlofslögin og hafa átt miklum vinsældum að fagna meðal launastéttanna. Það er síður en svo, að sú breyting, sem hér liggur fyrir á þessum lögum, sé flutt að ósk og vilja þeirra. Ég vildi nú gjarnan varpa þeirri spurningu fram hér — hvaða verkalýðsfélög það eru á landinu, sem hafa óskað eftir breytingu á orlofslögunum. Ef hér væri til staðar einhver úr hæstv. ríkisstj., þá væri mér það mjög kærkomið, að hún vildi benda bara á eitt einasta félag, bara eitt, sem hafi óskað eftir breytingu. Hvað segir stjórn Alþýðusambandsins um þetta t.d.?

Nei, þvert á móti er ég þess fullviss, að hægt mundi vera að fá mótmæli á móti þessu frv. hjá langflestum, ef ekki í hverju einasta verkalýðsfélagi á Íslandi, sem er innan Alþýðusambands Íslands. En hæstv. ríkisstj. hefur ekki talið sig þurfa að leita eftir áliti stjórnar Alþýðusambands Íslands um málið eða annarra verkalýðssamtaka. Þess hefði þó mátt vænta af ríkisstj., sem skipuð er eintómum Alþýðuflokksmönnum, að hún hefði leitað eftir áliti heildarsamtaka verkalýðsfélagana um málið. Í stjórn Alþýðusambands Íslands á ríkisstj, sína fylgismenn, sem hefðu að sjálfsögðu getað túlkað hennar sjónarmið. En af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hefur hæstv. ríkisstj. algerlega gengið fram hjá stjórn Alþýðusambands Íslands í þessu máli. Þetta bendir til þess, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki talið sig örugga um, að fulltrúar hennar í stjórn A.S.Í. væru henni sammála um afgreiðslu málsins. Ef hún hefði talið sig örugga um það, þá geri ég ráð fyrir því, að hún hefði leitað álits heildarsamtaka verkalýðsins. En mér er nær að halda, að fulltrúar Alþfl. í Alþýðusambandsstjórninni séu hæstv. ríkisstj. algerlega ósammála í málinu.

Ég tel, að það sé meiningin að afgr. þetta frv. án þess að leita eftir umsögn A.S.Í. Það er móðgun við heildarsamtök verkalýðsins í landinu, jafnvel meiri móðgun, en maður gat búizt við af hæstv. ríkisstj.

Ég leyfi mér að mótmæla og það harðlega slíkri meðferð á þessu máli. Það væri hin freklegasta móðgun við verkalýðshreyfinguna, sem getur haft mjög alvarlegar afleiðingar. Ég held, að hv. alþm. ætti að vera það fullljóst og minnisstætt, að það hefur oft verið sett löggjöf á Alþingi, og það hafa oft verið gerðar hatrammar árásir á verkalýðshreyfinguna, en fyrr eða siðar hefur hún svarað fyrir sig, og svo mun einnig fara í þessu máli.

Hæstv. ríkisstj. hóf starfsferil sinn með því að lækka allverulega kaupgjald í landinu, eða um hvorki meira né minna en 13.4%. Það var sú nýársgjöf, sem hæstv. ríkisstj. færði launastéttum landsins. Hæstv. ríkisstj. hefur eytt geysiháum upphæðum til niðurgreiðslu landbúnaðarvara og fleiri vara. Þessar niðurgreiðslur kosta of fjár, og er engan veginn séð fyrir endann á því, hvað slíkar niðurgreiðslur koma til með að kosta ríkissjóð og hvernig þeim verður mætt. Með þessu hefur verið hægt að halda vísitölunni niðri. En það er hinn herfilegasti misskilningur, ef menn halda því fram, að í þessum ráðstöfunum felist nokkur endanleg lausn á dýrtíðarvandamálunum. Hér er aðeins tjaldað til einnar nætur, en engin raunveruleg lausn á vandamálinu, enda við ramman reip að draga, það skal alveg fyllilega viðurkennt.

Eitt er þó staðreynd, að þeir einu, sem eru látnir færa fórnir á altari verðbólgunnar, eru launastéttirnar. Til annarra aðila eru greiddir stórauknir styrkir. En þetta kalla ráðh. Alþfl. Og þeirra stuðningsmenn stórkostlegar hagsbætur fyrir launastéttir landsins. Ég held, að verkafólkið, sem harðast hefur orðið fyrir barðinu á þessum ráðstöfunum, sé á allt öðru máli.

Og nú er haldið áfram á sömu braut. Nú skal breyta orlofslögunum og þar með eyðileggja hinn upprunalega tilgang þeirra. Sumarfrí verkafólks skal eyðilagt. Það er tilgangur frv. og enginn annar.

Áður fyrr töldu Alþýðuflokksmenn og fulltrúar Alþfl. hér á Alþingi orlofslögin mikið hagsmuna- og menningarmál verkalýðshreyfingarinnar, og ég minnist alveg sérstaklega geysistórrar fyrirsagnar í Alþýðublaðinu um þetta mál: Stórsigur Alþfl. Frv. til laga um orlof orðið að lögum. Hérna er stórt menningarmál fyrir vinnandi fólk á Íslandi. Þetta er verk Alþfl., stóð í Alþýðublaðinu. En hér hefur orðið á allmikil breyting til hins verra, enda er tæplega hægt að tala um Alþfl. sem sjálfstæðan stjórnmálaflokk. Þetta frv. ber greinilega með sér handbragð andstæðinga orlofslaganna. Það er þeirra vilji og þeirra kröfur, sem hér á að lögfesta, og ekkert annað. Ég vil fyrir hönd þess verkafólks, sem ég tel mig vera fulltrúa fyrir, harðlega mótmæla frv. og tel það hina mestu ósvífni, að slíkt frv. skuli vera flutt hér á Alþingi og það án þess að áður hafi verið leitað eftir áliti verkalýðssamtakanna.

Um sparnað fyrir ríkissjóð í sambandi við þetta mál er hrein fjarstæða að tala, eins og hv. 2. þm. S-M. (LJós) benti hér á áðan. Til viðbótar því, sem þar kom fram, má benda á, að tæplega verður hjá því komizt að prenta bæði orlofsbækur og orlofsmerki, svo að mesti kúfurinn af þeim sparnaði er þar með búinn, og þarf ekki fleiri orðum um það að fara.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum frekar um þetta, vil þó undirstrika enn, að þessi sparnaður svokallaði, þessi 500 þús. kr. sparnaður, er að mínum dómi algerlega út í bláinn eins og svo margir aðrir liðir í fjárlfrv., sem við vorum að samþ. í gær. Þannig er það frv. hin argasta blekking og um leið ósvífin árás á eitt mesta réttindamál alþýðunnar.

Ég vil taka undir þau ummæli hv. 2. þm. S-M., að hv. þm. Alþfl. ættu að endurskoða afstöðu sína til málsins. Þeir geta látið málið daga hér uppi í Alþingi, það er ósköp einfalt mál. En ég teldi þá vera miklu meiri menn, og ég tel þá, að þeir sýndu þá í einu máli örlitla sómatilfinningu fyrir þeirri stefnu, sem þeir telja sig vera að berjast fyrir, en á það hefur mér virzt — og sjálfsagt mörgum fleirum — hafa vantað allmikið undanfarið stjórnartímabil.