30.04.1959
Neðri deild: 120. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í C-deild Alþingistíðinda. (1514)

167. mál, orlof

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það var í tilefni af því, sem síðasti ræðumaður sagði um þær aths., sem ég og fleiri höfðum gert hér varðandi þetta frv. um breytingar á orlofslögunum. Uppistaðan í því, sem hv. þm. sagði hér til varnar þessu frv., var það, að hann taldi, að í ljós hefði komið, að löggjöfin um orlof verkamanna hefði komið að sáralitlum notum í framkvæmd eða aðeins einn launþegi af hverjum sex hefði raunverulega notfært sér þau atriði, sem um ræðir í sambandi við þetta frv., og hann nefndi tölur í þessu sambandi, tölur, sem ég hafði svo sem heyrt áður og komu mér ekki á óvart, sem sagt þær tölur, að allar launagreiðslur, sem orlof ætti að greiða af, næmu á einu ári í kringum 1.800 millj. kr., en hins vegar sýndi reynslan, að ekki kæmu fram nema 296 millj. kr. af þessu í sambandi við orlofsmerkjagreiðslurnar.

En það er nú alveg augljóst fyrir þá, sem til þekkja, að hér er blandað saman málum og það mjög verulega. Hér reiknar hv. þm. með því, að í þessari heildarupphæð, sem hann nefndi, ræðir hann um fjölmargar atvinnustéttir, sem aldrei hefur verið ráðgert að kæmu í framkvæmd undir orlofsmerkjagreiðslurnar og ég tók hér greinilega fram í minni ræðu, að verkalýðshreyfingin sem heild hefði ekkert við að athuga, þó að tækju sínar orlofsgreiðslur með öðrum hætti.

En við skulum halda okkur við þá tölu, sem hann nefnir hér, 296 millj. kr. í launagreiðslum, sem hann segir að hafi komið undir orlofsmerkjagreiðslur. Miðað við verkamenn, sem hafa verið í fullri atvinnu 8 stundir allt árið, miðað við þau kaupkjör, sem verið hafa fram að þessu, mun það nema fullu kaupi um það bil 7.500 verkamanna. Þetta er síður en svo, lítill fjöldi manna, sem sýnilega hefur þó tekið orlofsgreiðslur sínar einmitt í gegnum merkjakerfið, eða um 7.500 verkamenn, miðað við fulla ársatvinnu þeirra. Raunverulega er hér um að ræða miklum mun fleiri verkamenn, sem undir þetta koma, heldur en þessa 7.500. En hvernig væri nú þessu varið, ef þessi heildartala, sem hv. þm. nefndi hér, 1.800 millj., væri raunverulega rétt, — eða eins og hann sagði: hér er aðeins einn af hverjum sex, sem lögin áttu að ná til, sem hefur notfært sér þetta? Það þýðir m.ö.o., að þeir hefðu átt að vera sexfalt fleiri, en þessir 7.500, sem hér hefðu átt undir að falla, eða 45 þúsund manns í landinu á fullu kaupi. Ég hygg nú, að allir þeir, sem eru skipulagsbundnir innan Alþýðusambands Íslands, séu rétt um 30 þúsundir manna, hver einn og einasti maður þar, og margir af þeim eiga vitanlega að taka langt undir þessu kaupi, sem hér er tilgreint. Hér er vitanlega hv. þm. að tala um fjölmennar launastéttir, sem aldrei hefur verið hugsað að ættu rannverulega í framkvæmd að taka orlof sitt greitt í formi orlofsmerkjanna.

Nú er það einnig svo, að mjög margir af þeim, sem eru skipulagsbundnir innan allsherjarsamtakanna eða Alþýðusambands Íslands, taka með mjög eðlilegum hætti orlof sitt greitt eftir allt öðru fyrirkomulagi, en orlofsmerkjunum.

Hv. þm. tók hér einstakt dæmi, þar sem hann þekkti nokkuð til, af einstöku verkalýðsfélagi, og vitnaði í það, að illa gengi t.d. að fá atvinnurekendur á því félagssvæði til þess að greiða sjómönnum orlof í formi merkjanna að fullu og öllu. Þetta er alkunnugt um allt land, og það er ekki deilan um þetta, sem hefur verið hátt sett frá hálfu forustumanna verkalýðssamtakanna í þessu efni. Greiðslur til sjómanna fara fram með allt öðrum hætti, en til hinna lausráðnu verkamanna, sem þetta orlofskerfi á fyrst og fremst að ná til. Greiðslur til sjómanna fara að verulegu leyti fram sem mánaðargreiðslur, meðan á kauptryggingartímabilinu stendur, en síðan verður aflahlutur að gerast upp og er í rauninni ekki uppgeranlegur fyrr en í lok vertíðar, og þá er orlofið endanlega reiknað út. Það gildir því allt annað um þessa aðila, og er engin bein nauðsyn á því að líma orlofsmerkin inn í bók þessara aðila í öllum tilfellum.

Ég minntist á það í minni fyrri ræðu, að þegar orlofslögin voru sett og ákvæðin einmitt höfð á þessa lund, að atvinnurekendur skyldu greiða orlofsféð í formi orlofsmerkja, þá voru þessar reglur settar fyrst og fremst til þess að reyna að leysa þann vanda að tryggja verkamönnunum orlofsfé til staðar, þegar til sumarfrísins kæmi, fyrir lausráðna verkamenn, fyrir verkamenn, sem vinna jafnvel frá degi til dags eða viku til viku hjá hinum ýmsu atvinnurekendum og taka kaup sitt yfirleitt í vikugreiðslu yfir langan tíma. Það var verið að reyna að finna leið til þess að safna saman orlofi þeirra og hafa það orlofsfé til staðar, þegar þessi verkamaður tekur sér sitt sumarfrí á sumrinu á eftir. Orlofsmerkjakerfið var sett upp fyrir þessa lausráðnu verkamenn. Ef verkamaðurinn er ráðinn svo að segja árlangt eða um lengri tíma hjá sama fyrirtæki og tekur jafnvel mánaðarpeningagreiðslu eða aðra mjög fasta greiðslu eða er ráðinn sem sjómaður, þá er ekkert við því að segja, eins og ég gat hér um í minni fyrri ræðu, þó að þar sé ekki greitt nákvæmlega eftir orlofsmerkjakerfinu, því að þá er hægt að koma því við, sem í öllum aðalatriðum gildir gagnvart fastlaunuðum mönnum í landinu, að láta þessa menn, þegar þeir fara í sumarfrí, halda áfram kaupi sínu þá. Af þessum upplýsingum, sem hv. þm. gaf hér viðvíkjandi þeirri upphæð, sem raunverulega hefur fallið af launum inn undir orlofsmerkjakerfið, tel ég það einmitt vera sýnt, að verulegur fjöldi af hinum lausráðnu verkamönnum fær nú öruggar orlofsgreiðslur í gegnum þetta kerfi, fyrst talan virðist vera, miðað við full árslaun, um 7.500 manns.

En svo er hitt atriðið, sem ég hafði einmitt gert hér talsvert að umtalsefni, að öllum hefur verið það ljóst, að þetta merkjakerfi hefur sína galla. Það er enginn að óska sérstaklega eftir að halda í þetta merkjakerfi, ef hægt er að finna einhverja aðra leið til þess að tryggja, að hinir lausráðnu verkamenn gefi eins og aðrir starfsmenn raunverulega safnað saman sínu kaupi og haft það til staðar, þegar þeir eiga að fara í sumarfrí eða orlof á eftir. Ef menn geta fundið aðra leið, sem er einfaldari og ódýrari, þá er sjálfsagt og þá er engin fyrirstaða frá hálfu verkalýðssamtakanna að athuga um það og taka upp þá nýju leið. Og af því var það, sem ég skoraði hér á flutningsmenn frv. að endurkalla málið, falla frá frv. og koma þá fram með einhverjar till. um það, hvernig hér mætti breyta til, ef þeir hefðu einhverjar till. um það. En það er greinilegt, að hér er ekki á ferðinni sú hugsun að leita hér að betra formi, ódýrara kerfi. Hér er meiningin að reyna að brjóta niður það, sem í gildi hefur verið, afnema raunverulega orlofslögin í framkvæmd. Hér eru ekki á ferðinni neinar till. um það að betrumbæta það kerfi, sem var. Það eru hér till. um það að slaka til á þeim ákvæðum, sem voru í gildi, gefa atvinnurekendum aukið tækifæri til þess að knýja það fram, sem þeir lengi vel vildu, að losna við merkjakerfið alveg, þó að afleiðingin verði sú, að verkamennirnir fái orlofsfé sitt greitt út í formi kaups frá viku til viku og standa svo eftir kauplausir þær þrjár víkur, sem þeir ætla sér að fara í sumarfrí, ef þeir þá treysta sér til þess að fara í slíkt sumarfrí. Hér er því verið að brjóta það niður sem hefur þó skilað verulegum árangri í þessum efnum, en ekki verið að koma með neinar till. til þess að betrumbæta það, sem í gildi var.

Það er með öllu þýðingarlaust fyrir hv. 5. landsk. þm. (BG), sem hér talaði næst á undan mér, að reyna að halda því fram, að hér sé nú ekki verið að afnema merkjakerfið, hér sé aðeins verið að skapa heimild, og ætla síðan að afsaka flutninginn á þessu frv. með þessu og að þetta verði í framkvæmdinni sáralítil breyting. Hann hefur ekki getað fært að því nein rök, að afleiðingin verði ekki sú, að með því að skapa þessa heimild muni kerfið detta um koll og raunverulega fari þannig fljótlega, að nálega engir verkamenn geti fengið að haga orlofsgreiðslunni á þennan hátt.

Hv. þm. sagðist mótmæla því, að hér væri verið að gera árás á sumarfríarétt verkafólks. Það er alveg tilgangslaust að mótmæla neinu um það. Það er alveg augljóst, að afleiðingin af samþykkt þessa frv. hlyti að verða sú, að sú trygging, sem lausráðnir verkamenn hafa þó haft í sambandi við orlof eftir gildandi orlofslögum, fellur niður við það, að þetta frv. yrði að lögum, og það jafngildir því beinni árás á þennan rétt.

Og svo er það þessi einkennilegi málflutningur. Ég tók eftir því, að hv. þm. sagði, að hér væri fyrst og fremst verið að draga fram mjög mikilvægt mál verkalýðsins, draga það fram á sýningarsviðið, vekja athygli á þýðingarmiklu máli verkalýðssamtakanna og hér væri því verið að hreyfa miklu nauðsynjamáli. Já, mig minnir, að hinn sami hv. þm. og hans flokksmenn segðu það líka, þegar verið var að lögfesta hér mjög verulega kauplækkun upp úr áramótunum, að hvað sem liði nú því, að það væri verið að lækka kaupið, þá væri þetta mjög mikil kjarabót eigi að síður fyrir alla launþega í landinu, samt væri það til bóta. Þannig má endastinga staðreyndunum alveg, segja það hvítt, sem er svart, og lemja hausnum við steininn. Þegar um það er að ræða, að það eigi að setja ákvæði, sem raunverulega afnema orlofslögin í framkvæmd, þá er sagt: Ja, orlofslögin eða orlofið, það er mikilvægt. Það er mjög þýðingarmikið fyrir verkamenn. Þetta er réttindamál. Og ég get tekið undir öll þau orð, sem hér hafa fallið, sagði hv. þm., um það, hvað þetta er þýðingarmikið mál fyrir verkalýðinn, og orlofslögin, — en sem sagt, að fella þau niður, það á að vera verkalýðssamtökunum og verkalýðnum til hagsbóta. — Þetta er vitanlega algerlega að hafa endaskipti á staðreyndum, og það er alveg furðulegt, að nokkur hv. þm. skuli reyna að túlka mál sitt á þessa lund.

Nei, það á ekki að mæta þeim vandkvæðum, sem í ljós hafa komið í sambandi við orlofsmerkjakerfið, með því að ætla að afnema löggjöfina. Það er röng leið. Það er hins vegar ekkert við það að athuga, þó að haft yrði samráð við verkalýðssamtökin í landinu um það, hvort hægt er að koma þessu fyrir á enn öruggari og betri hátt, bæði þannig, að það nái betur tilgangi sínum, en núgildandi lög, og eins líka, að framkvæmd slíkra ákvæða verði eitthvað ódýrari, en nú er. Það er ekkert við því að segja. En þá á vitanlega að setja þetta mál til athugunar, en láta það gilda, sem í lögum er, þar til ný og betri ákvæði hafa fundizt. Þannig mundu allir þeir vinna að málinu, sem telja raunverulega réttmætt öryggi lausráðinna verkamanna til þess að geta tekið sér sumarfrí og farið í orlof. Þannig mundu þeir allir standa að afgreiðslu málsins. En hinir, sem jafnvel frá upphafi hafa verið andvígir orlofslögunum og móti orlofsgreiðslunum, miða vitanlega sínar till. við að brjóta strax niður það, sem í gildi er, og reyna að benda þar á einhverja agnúa, sem fram hafa komið í sambandi við framkvæmd málsins, gera aðalatriði úr því, af því að þeir eru að berjast fyrir því að losna við tiltekna löggjöf, og segja í leiðinni, um leið og þeir eru að brjóta þetta niður: Ja, við ætlum nú að athuga málið, hvort við getum ekki fundið einhverja aðra betri leið. — Nei, ég held, að ef það er raunverulega svo, eins og ég hafði látið hér falla orð um, að þm. Alþfl. væru ekki algerlega búnir að gera sér ljóst, að rétt væri að fella úr gildi orlofslögin og gera að engu þann rétt, sem lausráðnir verkamenn hafa haft í þessum efnum, — mér fannst örla á því í talsmáta hv. 5. landsk. þm., að hann væri þessa sinnis, og sé svo, þá álit ég það enn eins og áður, að réttast væri fyrir Alþýðuflokksmenn að halda þessu máli ekki lengur til streitu, hugsa sig betur um og gæta að því, hvað þeir eru að gera, og láta ekki sér verri menn í þessum efnum knýja sig til þessara óþurftarverka, sem þarna er um að ræða. Þeir hafa þarna látið villa um fyrir sér. Þeir hafa látið leiða sig inn á braut, sem er til bölvunar fyrir verkalýðssamtökin í landinu og verður þeim, eins og ég sagði áður í þessum umræðum, verður Alþýðuflokksmönnum til ævarandi skammar í sambandi við mál þetta sem heild.

Á sínum tíma hafði Alþfl. gumað allmikið af því, að hann hefði átt drjúgan þátt í að koma þessari löggjöf á. Hann hafði þetta í sínum gamla upptalningarlista. Þegar hann var að telja upp, hverju hann hefði fengið áorkað af góðum málum á Alþingi, þá voru það togaravökulög, setning orlofslaga o.s.frv., þetta var alltaf nokkuð löng buna, sem a.m.k. allir frambjóðendur flokksins lærðu, áður en þeir fóru í kjör. Nú verða menn að fella þetta niður, ef þeir ekki eiga að verða sér til skammar, úr þessari þulu, vegna þess að sú staðreynd, að Alþfl. stendur hér að því að flytja frv. um það að afnema orlofslöggjöfina, hlýtur að verða honum til skammar. Hann sleppur aldrei út úr þessu, hvorki með því að afsaka sína gerð í þessum efnum á þann hátt, að hann hafi ekki vitað, hvað hann var að gera, því að það er búið að benda honum nægilega greinilega á það, hver afleiðingin muni verða, og hann sleppur ekki heldur út úr þessu með því að segja, að hann sé raunverulega ekki að afnema lögin, heldur sé hann aðeins að veita þarna heimild, því að það má öllum vera ljóst, að þessi heimild leiðir til þess, að lögin brotni um þvert. Ég ítreka því mína fyrri áskorun til þeirra að falla frá því að reyna að keyra þetta frv. í gegnum þingið.