30.04.1959
Neðri deild: 120. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í C-deild Alþingistíðinda. (1515)

167. mál, orlof

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er tiltölulega sjaldgæft hér á hv. Alþingi, að miklar umr. verði um mál við 1. umr. En í þetta skipti hefur farið svo. Það eru hvorki meira né minna en 7 hv. þm., sem þegar hafa tekið til máls um þetta mál nú strax við 1. umr., og sýnir það, að hér er mál, sem menn vilja mótmæla þegar í stað. Og það eru ekki aðeins Alþýðubandalagsmenn, sem ganga hér fram og mótmæla þessu frv. og vara við samþykkt þess. Það er líka gert af formanni þingflokks framsóknarmanna. Hann hefur betri skilning á þessu máli, en Alþýðuflokksmennirnir. Hann segir mjög drengilega: Ég er á móti því, að nokkur breyting sé gerð á orlofslögunum nema í fyllsta samráði við verkalýðshreyfinguna í landinu, því að lögin voru sett að hennar vitund og vild og eru mikilsvert mál fyrir verkalýðinn í landinu. — Þetta sagði formaður þingflokks Framsfl. og hefur þannig hinn fyllsta skilning á málinu, og verkalýðshreyfingin er honum þakklát fyrir það.

Það eru 7 þm. búnir að kveðja sér hljóðs til þess að ræða um þetta mál við 1. umr. Svo kemur hér hv. 5. landsk. (BG) og ætlar að fara að reyna að bera í bætifláka fyrir þetta með þeirri röksemd, að framkvæmdin hafi ekki tekizt vel á orlofslögunum, eins og sú löggjöf hefur verið síðan 1943. Framkvæmdin hefur ekki verið góð. Framkvæmdin hefur reynzt gölluð, sagði hann. Á hvaða lögum er það ekki? Hvaða lög eru það í þessu landi, sem ekki eru eitthvað meira eða minna brotin? Ja, við vitum ósköp vel, að það hefur lengi verið höfuðröksemd andbanninga í landinu, meðan lög voru hér um bann í landinu, að það yrði að afnema þau lög, af því að þau væru brotin. Þegar mönnum er yfirleitt eitthvað í nöp við einhverja löggjöf, þá leggjast þeir gegn henni og vilja fá hana afnumda, og þá bera þeir jafnan þetta fyrir sig, að það verði að afnema þessi lög, því að þau séu brotin. Þetta er því mjög slitin plata, að koma með þetta á móti orlofslögunum, þegar á að fara að réttlæta árás á þau eða afnám þeirra raunverulega.

Hann kom með tölur, sem alveg er hægt augljóslega að sýna að standast ekki. Þessar 1.800 millj., sem hann vill reikna með að hefðu að óbrotnum lögunum átt að koma inn, geta ekki staðizt. Þær gefa allt of háa tölu launamanna á fullum launum í landinu, sem gætu komið undir þessi lög. Þetta er annaðhvort byggt á misskilningi eða ranglega upp gefin tala eða þá af mönnum, sem alls ekki skilja, til hverra orlofslögin gætu náð, þó að þau væru af engum brotin í landinu. En hann gaf þó upp annað, sem mér þykir merkilegt. Það eru 296 millj., það eru nærri 300 millj. kr., sem verkalýður landsins tekur til hliðar til þess að verja í sumarleyfi. En þetta skal í burt. Það skal opna leiðir til þess, að 300 millj. séu ekki teknar til hliðar hjá verkalýð landsins til þess að geta veitt sér þann munað að fara í sumarleyfi eins og aðrar stéttir þjóðarinnar. Ég segi: Það væri illt verk, þótt þetta væru nú réttar tölur, að það væru 296 eða rétt um 300 millj. kr., sem hafa verið borgaðar út í orlofsmerkjum, þá er það allt of mikil árás á verkalýð landsins að stuðla að því, að þessar 296 millj. væru nú borgaðar út sem vinnulaun í hvert skipti og þannig í raun og veru blandað alveg saman við launagreiðslurnar. En orlofsfé og vinnulaun eiga mismunandi rétt. Því verða menn að gá að. Og orlofsféð er svipt rétti með því að blanda því saman við launin.

Hann vildi halda því fram, að það, sem spillti lögunum, væri það, að menn gleymdu orlofsbókunum sínum, — ja, það eru til þeir bölvaðir trassar vafalaust, sem gleyma bæði orlofsbókum, sjúkrasamlagsbókum og kannske sparisjóðsbókum, og hafa þær ekki við höndina, og að þeir týni merkjum. Jú, það eru líka til menn, sem eru þeir dómadags trassar, að þeir týni peningaseðlum, og það er ekki hægt að ráðast á löggjöf til þess að miða allt við svona dómadags svívirðilegar undantekningar í þjóðfélaginu. Allt er þetta þess vegna fáránlegt, að það ætti að afnema löggjöf, ef það fyndist einhver trassi, sem týndi orlofsbókinni sinni, týndi merkjunum, týndi peningum og gæti alveg eins týnt peningaseðlum. Hann gæti alveg eins týnt 6% af launum sinum, hafandi fengið þau út með vinnulaunum sínum vikulega í peningum. Og slíkir menn mundu gera það auðvitað. Nei, það er satt, að sumir hafa ekki hirt um það að taka orlofsféð sitt í merkjum, hafa t.d. látið undan þeirri ásókn atvinnurekenda, sem hafa viljað losna við fyrirhöfnina af að afgreiða merkin, og sagt: Taktu nú við orlofinu þínu bara í peningum eða leyfðu mér að skrifa þetta inn í reikninginn þinn ásamt vinnulaununum þínum, sem þú átt hérna, eða hlutnum þínum, það má standa hérna inni. — Og þeir eru fleiri en einn, og þeir eru fleiri en tveir, sem hafa komið til mín í Alþýðusambandinu og sagt: Ja, ég á nú ógreidd vinnulaun hjá þessum og þessum atvinnurekanda. En 6% af þeirri upphæð, sem ég á hjá honum og er búinn að eiga núna í langan tíma, er orlofið mitt. Ég hafði ekki hirðu á því að taka það í merkjum, svo að það er þarna með í upphæðinni. — Svo kom annar, sem átti hjá þessum manni, og hann gerði fjárnám í öllu saman, hann gerði fjárnám í orlofinu hans, af því að hann hafði ekki haft hirðu á því að láta borga sér það í merkjum, en þá var ekki aðfararhæft sem vinnulaunaskuld, sem peningar, sem væri hægt að taka af honum, hann gat haft það öruggt fyrir öllum slíkum kröfum, ef hann hefði látið greiða sér það í merkjum. Svona getur þetta bitnað á trössunum og hefur gert það, þeir hafa ekki haldið á sínum rétti. En það er verið að stefna þessu öllu í þennan voða, ef merkin yrðu afnumin. Þá félli þetta saman við ógreidd vinnulaun og væri hægt að gera í það kröfur af öðrum skuldheimtumönnum, sem er alveg útilokað með merkjakerfinu. Það getur enginn farið niður á pósthús, þó að hann eigi inni hjá manni, og sagt: Nú bendi ég lögfræðingi mínum á að taka orlofsbók þessa manns eða merkin, sem hann á að fá greidd í peningum, þegar hann ætlar í sumarfrí. — Það er hans helga fé, tekið sérstaklega til hliðar, til þess að hann geti farið í sumarfrí, til þess tryggt með lögum.

Þá sagði hv. 5. landsk.: Það er fullur vilji Alþýðuflokksmanna, alveg eins og Alþýðubandalagsmanna, — og hann hefði mátt bæta við: eins og vilji hv. formanns þingflokks framsóknarmanna, — að menn geti farið í orlof og haft rétt til sumarleyfis, eins og öðrum stéttum er tryggt þetta. — Í hverju birtist sá vilji Alþýðuflokksmanna? Það þýðir ekkert að koma hér og segja: Alþýðuflokksmenn hafa þennan vilja, þegar þeir sýna sig svo í því að bera fram lagafrv. á Alþingi, sem rifur niður þann rétt, sem verkafólkið á. Þessi vilji er farinn að slappast. Hann er ekki fyrir hendi lengur, að því er virðist, því miður. Það er alveg ægilegt, að forsrh. skuli hlæja að því, þegar Alþfl. er að bera út eitt af börnunum sinum, eitt af efnilegri börnunum sínum, — svo hlær hann yfir þessu. (Forsrh.: Ég hlæ að hv. þm.) Það er ekkert hægt að hlæja að hv. þm., hann er að verja það barn, sem Alþfl. er að bera út. (EmJ: Nei, hann er að gera allt annað.) Nei. (BG: Hlæja að umskiptingnum. — Forsrh.: Hlæja að umskiptingnum.) Ja, ef þið kallið orlofsrétt verkafólksins nú orðið umskipting, þá þið um það. (Forsrh.: Það er þingmaðurinn.) Þá þið um það. Það má vel vera, að þið standið í þeirri meiningu, að orlofsréttur verkafólksins sé bara umskiptingur, óefnilegt barn, misheppnað, þótt við tækjum þetta barn inn í heiminn. Þeir hafa gumað af því, að orlofslögin hafi verið þeirra ástfóstur. Þeir áttu verulegan hlut í því. En nú bera þeir það út á hjarnið, þetta barn, og segja: Það hefur farið fé betra, það er umskiptingur. — Nei, ef það væri sannfæring Alþfl.manna, að orlofslögin frá 1943 væru ómöguleg

löggjöf, en hefði verið ætlað að tryggja mikilsverðan rétt vinnandi fólks, hvað hefðu þeir þá gert? Aðeins eitt, að koma hér fram á Alþingi með frv. til l., sem bætti úr ágöllum laga um orlof, gerði það ómögulegt helzt að brjóta þau, án þess að viðurlög kæmu þá til. Hafa þeir gert það? Hafa þeir komið fram með frv. til l. um að gera orlofslögin ótvíræðari, gera erfiðara fyrir atvinnurekendur að brjóta þau, gera þau haldbetri vörn fyrir þau réttindi, sem þau áttu að tryggja verkafólki? Nei, ekkert af þessu hafa þeir gert. Ef þeir voru ekki búnir að hugsa út nein úrræði til þess að tryggja betur orlofsrétt verkalýðsins, eins og hann var þó tryggður með lögum, höfðu þeir engar hugmyndir um það, hvernig hægt væri að tryggja þennan rétt betur, þá áttu þeir auðvitað að breiða feld yfir höfuð sér og hugsa, en ekki að kasta út frv. um að eyðileggja löggjöfina, sem var til og felur í sér mikilsverð réttindi. Það er eins og hafi gripið þá eitthvert æði, úr því að brotin eru lögin um orlof verkafólks, þá skulum við bara spæna þeim í burt, kasta þeim í burt og seinna skulum við svo einhvern tíma koma með betri löggjöf um þetta.

Meðan mönnum dettur ekki í, hug nein betri leið til þess að tryggja orlofsrétt hins vinnandi fólks, þá eiga menn alveg áreiðanlega að láta núgildandi löggjöf vera, rífa hana ekki niður fyrst og bíða þeirrar stundar, að þeim detti eitthvað í hug, sem betur tryggi orlofsrétt verkafólksins, en gert sé með núgildandi löggjöf. Þetta sjá allir að er hið eina rétta, ef Alþfl. er ekki horfinn frá sinni fyrri afstöðu um að reyna að tryggja verkafólki orlofsrétt með lögum. Þetta, sem hér liggur fyrir, er ekki frv. um aðrar leiðir til þess að vernda orlofsrétt verkafólksins. Þetta er frv. til laga um það að rífa það gat á orlofslögin, sem nú gilda, að þau væru einskis virði, rekald og ræksni á eftir og ekkert annað. Þau hjálpa atvinnurekendum til að ganga á hlut verkamannsins og segja, þegar þeir eru að borga honum út vinnulaunin: Ja, nú er ég ekki skyldugur lengur, þú ert ekki heldur skyldugur til þess að heimta, að ég greiði þér orlofið þitt í merkjum, blessaður losaðu mig nú við fyrirhöfnina af því að vera að ganga frá þessu í merkjum. Ég skal borga þér þetta núna strax í peningum. Og það mundu fleiri og fleiri verkamenn auðvitað láta undan þessu, því að þeir mundu telja sem svo, að atvinnurekandi vildi heldur hafa það fólk hjá honum, sem ekki heimtaði af honum þessa fyrirhöfn. Þannig er búið að búa þannig um, að verkamaðurinn, sem vildi halda orlofsréttindum sínum til streitu, stæði hallari fæti fyrir og yrði kannske í sumum tilfellum að gefa upp sinn rétt til að heimta þetta samt áfram í merkjum. Það er ekki rétt stefna, það fullyrði ég, af neinum þeim manni, sem hefur á vörunum, að hann vilji varðveita orlofsrétt hins vinnandi fólks, að rífa gat á gildandi löggjöf um þetta og gera aðstöðu verkafólksins veikari til að krefjast síns orlofsfjár í merkjum, — það er ekki rétt stefna, segi ég, af neinum þeim, sem þykist vera vinur þess, að verkafólkið hafi sín orlofsréttindi óskert.

Ég freistast til þess að halda, að tilgangurinn með þessu frv. sé sá að reyna að fela það fyrir verkafólki, að kaupið þess var lækkað, með því, að nú komi í umslagið þess í hvert skipti 6% orlof í staðinn í peningum. Það er svolítið upp í eyðuna, sem löggjöfin eftir áramótin skapaði. En þá hefur verkamaðurinn ekkert til uppihalds, þegar hann ætlar sér í sumarleyfið, það er búið að koma smátt og smátt í launaumslagið hans; hefur kannske blindað hann, að hann varð fyrir kauplækkun, í einstöku tilfellum, — það má vel vera, að það takist, en fé til þess að fara í orlof hefur hann þá ekki.

Norðmenn hafa atvinnulíf, sem ekki er óáþekkt atvinnulífi okkar Íslendinga. Þeir höfðu orlofsmerkjakerfið, þegar við settum okkar orlofslög gjöf. Þeir höfðu það frá 1939, ef ég man rétt. Við settum okkar 1943 með þá sérstaklega sem fyrirmynd. Þeir höfðu ekki fundið aðrar leiðir til þess að taka fé til hliðar til þess að geyma til þeirrar stundar, sem hið vinnandi fólkið ætlaði í orlof, heldur en einmitt að skylda atvinnurekendurna til að greiða þennan hluta, þessa peninga út í orlofsmerkjum, og þeir halda fast við það enn. Þeir fullyrða, að þetta kerfi, að verkalýðurinn hafi tekið til hliðar upphæð til þess að standast kostnaðinn af sumardvöl, hafi gert þeim mögulegt að byggja upp hið merkilega orlofsdvalarkerfi og sumarferðakerfi, sem verkalýðshreyfingin norska hefur byggt upp einmitt á grundvelli orlofslaganna. Og þar eru þeir búnir að vinna afrek. Þeir eru búnir að koma upp, eins og ég sagði hér í gær eða fyrradag, verkalýðsfélög og þessi samtök, Norsk folkeferie, um 300 smærri og stærri gistiheimilum, orlofsheimilum, sem verkalýðshreyfingin á og einmitt gerir fólkinu með peningana sina í orlofsmerkjunum, sem hefur tekið þá þannig til hliðar, mögulegt að tryggja sér sumardvöl á þessum ódýru stöðum. Þeir hafa í framhaldi í orlofsmerkjakerfinu sínu byggt upp stórkostlega merkilegt orlofsdvalarkerfi fyrir hið vinnandi fólk í landinu. Ég hygg því, að það þýddi lítið að bera fram frv. í norska stórþinginu um það að afnema orlofslöggjöfina, sem er fyrirmyndin að okkar orlofslöggjöf, sem menn svo segja um: Hún er allt of ófullkomlega gerð hér og illa, og hún er brotin. — Það þyrfti auðvitað að skerpa viðurlögin við því, að hún væri brotin, en ekki rífa meiri göt á hana. Og mér er sem ég sæi upplitið á Alþýðuflokksfólki í Noregi, ef norska verkamannastjórnin bæri fram frv. til laga um að heimila, að orlofsféð væri ekki greitt með merkjum, heimila, að það mætti renna saman við vinnulaun. Ég hygg, að það væri erfitt að finna annað mál, sem kæmi norskri alþýðu í meiri blossa, skapaði þar meiri óánægju, heldur en ef norska verkamannastjórnin færi af stað með slíkt mál.

Það er eitt höfuðskilyrði, að orlofsféð sé aðgreint frá launagreiðslunum, það sé tekið til hliðar sem öruggt geymslufé til þeirrar stundar, að hið tekjulága fólk hefur ákveðið að fara í sitt sumarleyfi. Maður getur skilið, að láglaunafólk, sem lifir í fátækt, geri sér ekki grein fyrir, hversu dýrmætur réttur þetta er, og þegar það skortir peninga, þá slái það ekki hendinni á móti því, þegar atvinnurekandinn ýtir þeim að því: Taktu það heldur í peningum, taktu það heldur í peningum. — Og þannig stendur að verulegu leyti á um þau brot, sem orðið hafa á orlofslöggjöfinni. Það er ekki alveg að öllu leyti atvinnurekendunum að kenna. Þeir hafa alltaf ýtt á að geta sloppið við fyrirhöfnina, en fátæka fólkið hefur sumt sagt: Ja, mér veitir nú ekki af að fá þetta orlofsfé mitt í aurum eftir hendinni og litlar líkur til þess, að ég geti farið í sumarfrí, — og þannig hefur það fólk líka tekið á móti þessu af nokkrum misskilningi, en mikilli þörf, og þannig eru sum brotin á vinnulöggjöfinni sannarlega afsakanleg. Og úr þessu verður ekki bætt með öðru, en að það tækist að auka betur tekjur þessa láglaunafólks, sem við tekjuskortinn og örbirgðina býr.

Ég undraðist það, þegar hv. 5. landsk. (BG) fullyrti það í lok ræðu sinnar: Við erum ekki að afnema orlofslöggjöfina með þessu. — Það er svo augljóst mál, að það er verið að rífa gat á hana með þessu, það er verið að eyðileggja hana í framkvæmd, það er verið að afnema orlofslögin. Ef menn eru á þeirri skoðun, að það sé illt verk, þá eiga þeir að hætta við það. Þetta má setja til nefndar, þar fengi það hægt andlát, eins og vera bæri, og Alþýðuflokksmenn og aðrir, sem vilja leggja sig í líma um að bæta úr ágöllum kerfisins, sem gilt hefur, legðu sig í líma um það til næsta þinghalds að finna umbætur á því. En það er engin umbót, það er þvert á móti skaði að því, það er tjón að því, það er vansi að því að spilla orlofslöggjöfinni, sem nú er, og ég get ekki séð, hvað reki á eftir mönnum með það. Það er búið að sýna það og sanna, að sparnaður á þessu ári getur enginn orðið af því, að þetta frv. nái fram að ganga og orlofslöggjöfinni sé spillt.

Ég vil nú í lok ræðu minnar gefa yfirlit um það, hvernig sagan er af orlofsréttindum verkafólks fram á þennan dag. Hún er þessi:

Verkalýðsfélögin um allt land hófu baráttu fyrir því, að vinnandi fólk við framleiðsluatvinnuvegina, eyrarvinnumenn, verkakonur sem aðrir, fengju orlof. Og þetta var knúið fram eftir verulega harða baráttu í samningum einstakra verkalýðsfélaga. Verkalýðsflokkarnir tóku undir þetta, fundu, að þetta voru réttmætar jafnréttiskröfur, sem þurfti að tryggja, ekki aðeins með samningum, þar sem félög voru nógu sterk til þess að knýja það fram, heldur einnig með löggjöf. Og þetta gerðu þeir vel og drengilega, verkalýðsflokkarnir á Alþingi. Eitt af því fáa, sem þeir ekki rifust um, var að setja slíka löggjöf og reyna að búa eins vel um hnútana um það, að ekki væri hægt að brjóta hana og ganga á svig við hana, eins og hægt væri. Og þeir leituðu beztu fyrirmynda hjá Dönum, Norðmönnum og Svíum, sem allir höfðu tekið upp þetta merkjakerfi, og þar hefur það líka gefizt vel. Þannig var þetta fyrsti áfanginn, að það tókst að tryggja þetta í samningum stéttarfélaga, og víða var fyrsti sigurinn þessi, að það fengust ákvæði inn í samningana um 4% orlofsfé auk vinnulaunanna. Svo kom löggjöfin. Hún tryggði verkafólki á landi 4% orlof, sem átti að greiðast út, ekki í peningum, heldur í orlofsmerkjum. Þó var ein undantekning frá þessu. Hlutarsjómenn fengu ekki 4% orlof í lögin, þegar þau voru sett. Nei, þeir áttu að vera með hálfan orlofsrétt. Þeir skyldu fá 2% í orlof. Og þannig var þetta til skamms tíma. Það var aldrei hægt að knýja það fram, að hlutarsjómennirnir fengju orlofsréttinn sinn nema sem hálfdrættingar. Röksemdin var þessi: Hlutarsjómaður er að hálfu leyti útgerðarmaður. Hann fær raunverulega 4% orlof, en af því að hann er að hálfu leyti hlutarmaður og að hálfu leyti útgerðarmaður, þá fær hann ekki nema hálfan orlofsrétt. Og við þetta urðu hlutarsjómenn að búa, eins og ég sagði, til skamms tíma. Þeirra orlofsréttur í lögunum var árum saman 2%, annarra launamanna 4%.

Nú miðaði það í áttina, að í stað þess að l. höfðu tryggt fólki 4% orlof, fékkst í gegn fyrir fáum árum, að orlofsrétturinn yrði 6% af launum, þ.e.a.s. jafngilti þriggja vikna orlofi, í staðinn fyrir að hitt var 12 daga orlof, 18 dagar virkir í staðinn fyrir 12 daga áður. Þá breyttist orlofsréttur hlutarsjómannanna úr 2% í 3%. Það var þó í áttina. Fyrst hafði þetta fengizt inn í samninga einstakra félaga, svo lögfest 4%, 2% handa hlutarsjómönnum. Lagabreyting fæst svo eftir margra ára baráttu, að orlofið verði 6%; þá verður orlofsréttur sjómannanna 3%. Ég held, að það séu bara tvö eða þrjú ár síðan við höfðum það í gegn, að allur orlofsréttur launþega, hlutarsjómanna sem annarra, yrði 6%. Sóknin hefur þannig haldið áfram alltaf stöðugt, frá því að þetta komst fyrst inn í stéttarsamninga um 4% og 2%, í 3% og 6%, og það er stutt síðan þessir sigrar náðust. Þá var það svo, að orlofsféð hafði að einu leyti tæpari rétt en vinnulaun. Vinnulaun fyrntust samkv. fyrningalöggjöfinni ekki á skemmri tíma, en fjórum árum, en orlofsféð fyrntist á einu ári. Ef verkamaður eða sjómaður hirti ekki um að taka orlofið sitt á sama ári, þá var það fyrnt, fallið, réttlaust. En nú er búið að vinna það. Það var seinasti sigurinn í orlofsbaráttunni, að orlofsfé fyrntist ekki á skemmri tíma en vinnulaun, á fjórum árum.

Fram að þessum tíma hefur því verið í raun og veru stöðug sókn í orlofsmálum verkafólksins, og nú erum við komin á það stig, að við ætlum að hefja það sama og frændur okkar á Norðurlöndum eru búnir að sigra í, þ.e.a.s. byggja upp orlofsdvalarkerfi fyrir verkafólkið. En þá kemur Alþýðuflokksstjórnin og afnemur orlofslögin eftir alla þessa baráttu. Og það er þá ekki hikað við að segja: Ja, þetta var misheppnað barn, þetta var umskiptingur, og það er sjálfsagt að bera hann út. — Það er alveg áreiðanlegt, að verkafólk á Íslandi, er á annarri skoðun. Orlofslögin hafa verið í sinni mótun, allt frá því að baráttan endaði með þeim sigri í hörkusamningum við atvinnurekendur að fá orlofsrétt viðurkenndan í samningana og fá orlofsréttinn aukinn samkv. löggjöf, þangað til fyrir tveimur árum, að þetta var orðið 6% eða 3 vikur, jafnt fyrir hlutarsjómenn sem aðra, og að orlofsrétturinn skyldi ekki fyrnast á einu ári, heldur á fjórum árum. Og svo erum við í þann veginn að fara af stað með að byggja okkar fyrsta orlofsheimili nú og ætlum að gefa verkalýðsfélögunum kost á því að byggja einmitt smáhýsi í kringum það fyrsta stóra orlofsheimili, sem við byggjum, sumardvalarstaði, þar sem dvölin verði enn ódýrari, en á orlofsheimilinu. En þá fáum við þessar rýtingsstungur í bakið, að það á að fara að afnema orlofslöggjöfina. Ég fullvissa flutningsmenn þessa frv. um það, að þetta verður baráttumál innan verkalýðshreyfingarinnar. Því verður ekki tekið með þögn og þolinmæði, að þessi löggjöf sé rifin í tætlur og eyðilögð. Ef þeir halda því fram, sem hv. 5. landsk. hélt hér fram áðan: Ja, við erum búnir að sjá ýmsa galla á gildandi orlofslöggjöf, — þá mundi verkafólkið segja: Ja, leggið ykkur þá í bleyti, farið þið að hugsa um það, hvernig þið getið bætt úr göllum þeirrar löggjafar, en látið okkur vera í friði með núverandi orlofslöggjöf, þangað til andinn hefur komið yfir ykkur og þið hafið fundið betri úrræði.

Ég gæti gjarnan spurt um það: Hefur ekki verið látið svo lítið, áður en svona frv. er kastað inn í þingið, að spyrja t.d. öldung í verkalýðshreyfingunni eins og frú Jóhönnu Egilsdóttur, formann verkakvennafélagsins Framsóknar, hvort það sé með hennar vitund og vild og að hennar óskum, að orlofslöggjöfinni sé spillt? Ég á bágt með að trúa því, að Jóhönnu Egilsdóttur standi á sama um þá orlofsmöguleika, sem verkakonum eru tryggðir með löggjöfinni, eins og hún er nú, þrátt fyrir sína galla. Ég á bágt með að trúa því, að varaforseti Alþýðusambands Íslands, Eggert Þorsteinsson, hafi verið að spurður og að hann hafi til þessarar stundar gefið samþykki sitt og jáyrði við því, að þetta frv. yrði samþ. hér með hans atkv. og þannig spillt orlofslöggjöfinni og traðkað á rétti verkafólks, sem það hefur notið nú í nokkur ár. Ég á bágt með að trúa því. Ég á bágt með að trúa því, að ágætismaður eins og Magnús Ástmarsson leggi blessun sína yfir það, sem til skamms tíma hefur verið formaður Hins íslenzka prentarafélags, ég á bágt með að trúa því, að það sé með hans ráðum gert að ráðast á þessa löggjöf. Og þannig gæti ég talið hvern ágætismanninn á fætur öðrum í forustuliði Alþfl. í verkalýðsmálum. Ég trúi því ekkí, að þetta fólk mæli með samþykkt þessa frv., og það kæmi þá a.m.k. í ljós í miðstjórn Alþýðusambandsins. Ég trúi því ekki, að það hafi verið gengið fram hjá miðstjórn Alþýðusambandsins með að spyrja um álit á þessu frv., og þar eru Alþýðuflokksmenn, þar er fólk eins og Magnús Ástmarsson, þar er Jóhanna Egilsdóttir sem varamaður og mætir hjá okkur oft á miðstjórnarfundum, þar er Eggert Þorsteinsson, hv. alþm., og þar er Óskar Hallgrímsson, og þarna mæta stundum fulltrúar frá Sjómannafélaginu, eins og Sigfús Bjarnason. Ég á erfitt með að trúa því, að það komi nokkurt atkvæði frá þessu fólki, sem mæli með því, að rifið sé gat á orlofslöggjöfina eða hún raunar eyðilögð. Ég bið því mína gömlu vini í Alþýðuflokknum að fara sér hægt um að knýja þetta mál í gegn. Það væri gert áreiðanlega á móti vilja verkalýðssamtakanna í landinu. Þetta er eitt af réttindamálunum, sem hafa áunnizt í gegnum faglega baráttu stéttarfélaganna og með aðstoð löggjafans á Alþingi, verkalýðsflokkanna þar, og fólkinu er sárt um hvert það mál, sem þannig hefur unnizt, í gegnum baráttu og með atfylgi löggjafans að lokum, ef þau eru eyðilögð aftur með löggjöf.

Ég held, að næst á eftir l. um verkamannabústaði þyki verkafólkinu einna vænst um lögin um orlof og geri sér einna mestar vonir um það, að þegar við í framhaldi af orlofslöggjöfinni erum komin af stað með að byggja upp okkar orlofsdvalar- og sumarleyfaferðir, þ.e.a.s. með því að byggja upp sams konar stofnun og Norsk folkeferie og þá dönsku, sænsku og finnsku, þá fyrst sjáum við möguleikana á því í framhaldi af hinu geymda orlofsfé að nota það til ódýrrar sumardvalar. Og það er áreiðanlegt, að það eru fá mál næst á eftir húsnæðismálunum sjálfum, — þess vegna segi ég, að því þyki kannske vænna um lögin um verkamannabústaði, — fá mál, sem eru þýðingarmeiri fyrir hið stritandi fólk heldur en þetta, að njóta jafnréttis við aðra þegna þjóðfélagsins um að geta tekið sér hvíld frá störfum, þegar þeir allan ársins hring að öðru leyti eru búnir að þræla sér fyrir þjóðfélagið. Og þann rétt á ekki að taka af þeim.