30.04.1959
Neðri deild: 120. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í C-deild Alþingistíðinda. (1516)

167. mál, orlof

Forsrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég get ekki stillt mig um að segja nokkur orð eftir þau ósköp, sem hér hafa á gengið. Ég hef í gamla daga lesið í þjóðsögunum um umskiptinga, en aldrei eiginlega gert mér ljóst, hvernig þeir hafa litið út. En eftir ræðu hv. 7. þm. Reykv. (HV), sem var hér að enda sína ræðu, þá held ég, að ég verði nú að slá því föstu, að þeir hafi verið eitthvað líkir því, sem hann var hér í pontunni. Hann úthverfðist, hann úthverfðist og umhverfðist yfir hlutum, sem hann vissi að hann skýrði rangt. Hv. þm. sagði fyrst, að hér væri verið að rífa gat á orlofslögin, en svo endaði hann með því að segja, að hér væri verið að afnema orlofslöggjöfina. Allt var þetta í svipuðum tón: það væri verið að rífa niður þann rétt, sem verkafólkið eigi. Svo rakti hann sögu orlofslaganna og gerði það á þann hátt, að fyrst hefðu nokkur verkalýðsfélög komið og fengið það tekið inn í sína samninga, að þeirra meðlimir skyldu fá orlof, síðan hefðu verkalýðsflokkarnir, eins og hann orðaði það, komið og unnið að því, að þetta hefði verið tekið upp í löggjöf. Ég held, að þetta hafi nú nokkuð öðruvísi borið að, og ég er nærri viss um það, að hv. þm. man, að það bar nokkuð öðruvísi að. Það var félmrh., sem þá var formaður Alþfl., Stefán Jóh. Stefánsson, sem fyrst lét setja mþn. til þess að undirbúa lögin um orlof. Það frumkvæði kom frá Alþfl. og frá honum sem félmrh. þá. Hitt er svo rétt, að á meðan sú mþn. var að vinna, þá tókst nokkrum félögum að koma ákvæðum um orlof inn í sína samninga. En ég ætla, að þeir hafi ekki verið þar áður, en félmrh. setti n. til þess að undirbúa löggjöfina.

Löggjöfin var svo borin fram á Alþ., eins og hann sagði, fyrst með 4% orlofi, sem síðan hefur verið hækkað upp í 6%. En hann telur, að verið sé að rífa þetta allt saman niður, gera orlofslögin að engu og taka frá fólkinu þann helga rétt, sem það hefur fengið með l., með þessu frv., sem hér liggur fyrir. Af hverju lætur hv. þm. svona? Hefur hann ekki lesið frv., eða er þetta af einskærri málefnafátækt hans og hans flokks, að þeir þurfi að tala svona — að snúa hlutunum svona við til þess að láta líta út eins og þeir séu að berjast fyrir einhverju höfuðréttlætismáli? Hvað er það, sem hér er verið að gera? Það er eingöngu verið að setja mönnum í sjálfsvald, hvort þeir taki sitt orlof í merkjum eða í peningum. Þetta þýðir það, að þegar menn eru í starfi, þá geta þeir ráðið því samkv. þessum brtt., sem hér liggja fyrir, hvort þeir vilja fá orlofspeningana sína borgaða í peningum eða hvort þeir vilja fá þá borgaða í merkjum. Nú ætla ég, að flestir verkamenn séu ekki það miklar gungur, að ef merkjagreiðslan er svo þýðingarmikil eins og hv. ræðumaður og hv. ræðumenn, sem hér hafa talað, vildu gera ráð fyrir, þá hafi þeir ekki rænu á því að segja, að þeir vilji fá orlofsgreiðslur í merkjum. Þeir eiga fullan rétt á því, og þeir eiga fullan rétt á því líka, þó að þetta frv., sem hér liggur fyrir, verði samþykkt. Það eina, sem verið er að gera með þessu frv., er það, að verið er að setja mönnum í sjálfsvald, hvort þeir taki orlofsgreiðsluna í peningum eða taki hana í merkjum. Annað er það ekki. Og þetta á að vera sú höfuðsynd, að ekki einasta sé rifið gat á orlofslögin með þessu, heldur séu þau bara numin úr gildi, ekkert annað. Nú veit hv. þm. og þeir hv. þingmenn, sem um þetta hafa fjallað, að launagreiðslur hér á landi færast meir og meir yfir í það horf, að menn eru á föstum launum, vikulaunum og mánaðarlaunum, þar sem því er hægt að koma við, og ég býst við, að það launafyrirkomulag verði algengara, eftir því sem tímar líða, og menn yfirleitt verði fastari í sinni atvinnu, heldur en þeir hafa verið áður. En fastir starfsmenn taka yfirleitt ekki orlofsmerki og ekki orlofsfé. Þeir fá bara samkv. lögum greitt kaup í þær þrjár vikur, sem þeir samkv. lögum eiga orlof í, þó að þeir séu ekki í vinnu. Þetta er nú sá háttur, sem er hafður þar og hefur enginn undan kvartað.

Hitt hefur aftur fyrir lausavinnumennina veit ég með vissu — mjög orkað tvímælis, hvort menn vildu heldur taka orlofsmerki eða taka greiðsluna í peningum, vegna þess að þeim hefur þótt óþarfa umstang að vera að eiga við þessi merki, líma þau, sækja þau, passa þau og afhenda þau svo til greiðslu, þegar þar að kemur. þetta er umstang, sem ýmsir menn vilja komast hjá. En mér og hv. þm. er vel kunnugt, hvers vegna ákvæðið um merkin er komið inn. Það er komið inn vegna þess, að á þeim tíma, þegar lögin voru sett, voru ráð verkafólks miklu minni, en þau eru í dag. Og það var talið líklegt þess vegna, að hefðu þessi ákvæði um skyldusölu merkjanna ekki verið tekin inn í l. og fólk átt kost á því að fá greiðsluna í peningum, þá hefði það orðið eyðslueyrir hjá þeim, vegna þess að launin voru þá eða tekjurnar það litlar, að þeir urðu fegnir að nota þær til síns heimilishalds.

Á þessu hefur orðið, sem betur fer, mikil breyting. Kjör verkalýðsins hafa batnað, og ýmsir verkamenn, meira að segja fjöldi verkamanna, sem betur fer, hefur haft tækifæri til þess að leggja nokkurt fé til hliðar. Og hvaða munur er á því að leggja orlofsfé til hliðar eða annað fé? Ekki nokkur. Og því má ekki sá verkamaður, sem vill hafa þennan hátt á, fá orlofsgreiðsluna sína í peningum og leggja hana í sparisjóðsbók, ef hann vill það heldur? Af hverju á að neyða hann til þess að hafa þessi orlofsmerki? Af hverju á að neyða hann til þess, og af hverju vill formaður Alþýðusambandsins endilega neyða verkamanninn sem vill fá greiðsluna í peningum, til þess að vera að taka þessi merki? Ég skil ekki þetta. Sá, sem vill fá merki, á rétt á að fá merki samkv. lögum.

Samkv. þeim upplýsingum, sem hér voru gefnar áðan af hv. 5. landsk. þm., kom í ljós, að þessi lög eru mjög brotin. Og af hverju eru þau brotin? Það er af því, að þeir menn, sem ekki vilja taka merkin, taka við peningunum og vilja alveg eins peningagreiðsluna og hafa kannske möguleika til að leggja hana inn í sína sparisjóðsbók og geyma hana á þann hátt. En af hverju, segi ég enn og aftur enn, — af hverju á að pína manninn, sem vill haga sinni málsmeðferð á þennan hátt, til þess að vera að taka merkin? Hinn, sem er í vafa um það, hvort honum tekst að geyma féð á annan hátt, getur fengið merkin.

Auk þess kemur svo það, að þetta fyrirkomulag kostar ríkissjóðinn góðan skilding. Þetta merkjafyrirkomulag kostar ríkissjóðinn hvorki meira né minna en 650 þús. kr. á ári, sem vel væri hægt að losna við, ef annar háttur væri þar tekinn upp. Hv. þm. kemur kannske og segir: Ja, 650 þús. kr. eru ekki mikið fé. En þó er það nokkuð. Og meira að segja í hinum stóra reikningi ríkisins er ekki sama, hvorum megin hver hálf milljón liggur. Og það er líka ástæðan til þess, að þetta frv. hefur verið borið fram í því formi, sem gert hefur verið, að það sparar.

Ég vil rétt að lokum rekja ástæðuna fyrir því, að það er komið fram. Það sparar ríkissjóði á ári um 1/2 millj. kr. Það gefur þeim mönnum kost á því, sem vilja fá sínar orlofsgreiðslur í peningum, að fá þær í peningum. Og það heldur enn rétti þeirra, sem vilja fá orlofsgreiðslurnar í merkjum, til þess að fá þær í merkjum. Hver einasti maður getur heimtað sína orlofsgreiðslu í merkjum, ef hann vill það. Hvað er þá, sem hefur verið rofið, og hvað er það, sem hefur verið brotið? Heldur hv. forseti Alþýðusambandsins, að verkamenn séu svo miklar gungur, að þeir þori ekki að heimta merkin sín, ef þeir eiga rétt á þeim samkv. lögum? Ég bara spyr. Ég held, að það sé alveg augljóst mál, að þegar heill flokkur, eins og nú hér Alþýðubandalagsflokkurinn svokallaði, er svo málefnafátækur, að hann verður að taka upp mál eins og þetta og gera það að höfuðmáli, þá sé eitthvað bogið við málefnafátækt þess flokks.