28.11.1958
Efri deild: 28. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

46. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Í þessu frv. er um að ræða þrjár minni háttar breyt. á l. um atvinnuleysistryggingar og þessar breyt. eru gerðar í samráði við stjórn tryggingasjóðsins og með samþykki hennar.

Fyrsta breyt. varðar iðgjaldagreiðslur atvinnurekenda til sjóðsins og miðar að því að gera þær reikningslega einfaldari. Samkvæmt l. skulu þessi iðgjöld breytast í samræmi við breyt. á grunnkaupi verkamanna hverju sinni. En í frv. er lagt til, að iðgjaldaupphæðin verði miðuð við meðaltalsgrunnkaup næsta árs á undan og sparast með því móti skýrslugerðir og útreikningar að miklum mun, ef grundvöllur breytist einu sinni eða oftar á sama ári.

Önnur breytingin snertir upphæð atvinnuleysisbóta og er um heimild handa ráðh. til að breyta þeirri upphæð til hækkunar eða lækkunar í samræmi við áorðnar grunnkaupsbreytingar.

Loks er í frv. breyt. á frestinum til endurskoðunar l., en sú endurskoðun átti að fara fram á þessu ári. Þykir ekki nægileg reynsla enn fengin, og því er lagt til, að fresturinn verði framlengdur um tvö ár.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um frv. þetta, enda hefur hæstv. félmrh. gert grein fyrir því hér í hv. deild í ýtarlegri framsöguræðu. En hv. heilbr.- og félmn. hefur farið yfir frv. og mælir einróma með, að það verði samþ. óbreytt.