26.11.1958
Sameinað þing: 11. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (1842)

58. mál, uppbætur á laun starfsmanna ríkisins

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, hafa undanfarið orðið almennar kauphækkanir í landinu. Nú í lotunni hafa orðið frá 6 til 9% grunnkaupshækkanir. Nú hefur afstaða opinberra starfsmanna í launamálum verið íhuguð undanfarið í tilefni af þessu, og hefur að öllu athuguðu þótt réttmætt að leggja til, að starfsmenn ríkisins fái yfirleitt 6% uppbót á kaup, en sú undantekning verði frá þeirri reglu, að uppbætur í fjórum lægstu launaflokkunum verði 9%, og þá einnig sams konar uppbætur greiddar á eftirlaun og lífeyri. Þessar uppbætur eru ætlaðar til samræmingar við þær kauphækkanir, sem þegar hafa orðið hjá öðrum, en opinberum starfsmönnum. Það er gert ráð fyrir því í þessari þáltill., að þessar uppbætur verði greiddar frá 1. sept., og þykir það að öllu yfirveguðu sanngjarnt. Það hefur verið athugað, hvað þetta mundi auka útgjöldin, og mun það vera sem næst 10 millj. kr.

Eins og hv. þm. er kunnugt, hefur það undanfarið oft verið mikið álitamál, hvort ætti að breyta launum opinberra starfsmanna, þegar kauphækkanir eiga sér stað almennt. Og það er vitanlega mál, sem eiginlega sífellt þarf að vera að íhuga, þegar hækkanir eiga sér stað á annað borð, hvort þá sé ástæða til að breyta lögboðnum launum. Nú hefur það orðið að ráði að leggja til í þessari þáltill., um leið og gerð er till. um uppbæturnar, að sett verði á fót föst n., eins konar samvinnunefnd ríkisstj. og samtaka opinberra starfsmanna um þetta efni, og sé það verkefni n. að fylgjast með grunnlaunabreyt. almennt og gera till. um breyt. á grunnlaunum starfsmanna ríkisins, þegar n. þykir ástæða til.

Hér er stigið nýtt og mjög þýðingarmikið spor að mínu viti í þessum málum og efnt til stóraukinnar samvinnu ríkisvaldsins og þessara samtaka, sem ég tel heppilegast að sé sem nánust, þannig muni vera líklegast að finna heppilega niðurstöðu í þessum málum. Ég geri mér von um, að það geti orðið verulegt gagn að starfi þessarar n.

Það skal tekið fram, að það er samkomulag við stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja um þessar launauppbætur, sem hér er gerð till. um, og efni þessarar till. að öðru leyti.

Þá vil ég geta þess, að ríkisstj. hefur ákveðið að beita sér fyrir því, að uppbætur verði greiddar á ellilaun og örorkubætur, og er það mál í undirbúningi hjá þeim, sem það hafa með höndum sérstaklega í ríkisstj. og á hennar vegum, og mun fljótlega von á till. stjórnarinnar í því efni.

Nú væri það ákaflega æskilegt, að hægt væri að ákveða um þetta mál fyrir mánaðamótin, og mundi ég vilja fara fram á það við hæstv. Alþ., að það tæki afstöðu til málsins þannig, að það væri hægt, og tímans vegna ætti það að vera auðvelt. Ég mun gera till. um, að málinu verði vísað til hv. fjvn. Ég hef aðeins minnzt á það við formann hennar, hvort hann gæti ekki átt þátt í því, að n. afgreiddi þetta mál í dag, þannig að það gæti orðið afgreitt frá háttv. Alþ. á morgun. Þá væri hægt — með naumindum þó — að koma því svoleiðis fyrir, að þessar greiðslur gætu orðið greiddar nú strax um mánaðamótin.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta mál, því að þetta er í sjálfu sér ákaflega einfalt, þó að það sé talsvert veigamikið, og gefur ekki ástæðu til málalenginga. Ég óska eftir því, að málinu verði vísað til hv. fjvn.