22.10.1958
Sameinað þing: 4. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í D-deild Alþingistíðinda. (1849)

5. mál, efling landhelgisgæslunnar

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Áður en þessi tillaga verður athuguð í nefnd, vildi ég segja aðeins örfá orð. Það er í mínum augum alltaf þakkarvert, að sýndur sé áhugi í þessu máli, og ég þarf hvorki af hálfu ríkisstj. né míns flokks að koma með neinar fullyrðingar um það, að við höfum áhuga fyrir þessu máli, það er fullkunnugt. En um það, sem gerzt hefur í málinu sjálfu, vildi ég segja það, að þegar ákvarðanir voru teknar um að færa út fiskveiðilandhelgina, sneri ég mér þegar til fjvn. til þess að fá heimild hennar vegna þess að það var of seint að fá heimild þingsins — til að kaupa flugvél til landhelgisgæzlunnar og enn fremur til þess að staðfesta, að hún liti svo á, að í gildi væri sú heimild, sem hafði verið gefin með ályktun frá 1956, sem hv. frsm. minntist á, heimild fyrir ríkisstj. til að kaupa nýtt varðskip. Þegar bréf lá fyrir frá fjvn., leitaði ég til landhelgisgæzlunnar og óskaði eftir, að forstjóri hennar leitaði fyrir sér um kaup á skipi og flugvél. Það kom svo í júlí, að mig minnir, — ég hef nú ekki þessi skjöl við höndina, en nefndin fær þau að sjálfsögðu til athugunar, þegar hún óskar, — í júli skýrir forstjóri landhelgisgæzlunnar frá því, að það væri um tvær tegundir af flugvélum að ræða og hann gæti ekki ákveðið enn þá, þannig að hann væri ánægður með þær upplýsingar, sem lægju fyrir, hvora tegundina hann mundi velja. En viðkomandi varðskipinu gaf hann bráðabirgðaskýrslu, að fyrir lægi tilboð frá skipasmiðastöðinni í Álaborg, þar sem Þór er byggður og Íslendingar hafa skipt mjög mikið við, bráðabirgðatilboð um byggingu skips, sem er svipað og Þór, en að ýmsu leyti allmiklu vandaðra, vélar taldar betri o. fl. Það varð svo niðurstaðan, að ég svaraði þessu bréfi strax og bað um að fá það lægsta tilboð, sem hugsanlegt væri, og þann stytzta tíma, sem hugsanlegt væri til þess að byggja þetta skip, og enn fremur að forstjórinn gæti ákveðið, hvað hann legði til um kaup á flugvél.

Það kom svo hér umboðsmaður frá skipasmíðastöðinni og kom með það lægsta tilboð og stytzta afhendingartíma, sem hann taldi sig geta boðið, í september í haust, og þá var leitað til Hjálmars Bárðarsonar um það, hvort tilboðið væri hentugt og skipið, og umsögn hans ýtarleg liggur fyrir um það. Hann taldi, að það kostaði mikinn drátt, ef skipið væri boðið út annars staðar, og vafasamt, að það fengist ódýrara, þó að það gæti hugsazt, en mjög vafasamt með svona sérstök skip, sem hefðu verið smíðuð hjá stöðvum, sem hægt væri að treysta, að skipta um og afhendingartíminn mundi ekki fást jafnstuttur annars staðar. Eftir að fyrir lágu eindregin meðmæli frá forstjóra landhelgisgæzlunnar um að kaupa skip þessarar tegundar, sem hann hafði kynnt sér mjög gaumgæfilega, var ráðið að kaupa skipið, og afhendingartíminn er þannig, að það er fullgert á næsta ári, seinni hluta næsta árs.

Viðkomandi flugvélinni liggur það ekki enn þá fyrir. Það hefur verið reynt að fá flugvélina þar, sem maður áleit að væri hægt að fá flugvélar ódýrt, en hefur ekki tekizt, og er að sjálfsögðu hægt að gefa skýrslu um það til fjvn., ef till. verður vísað þangað, en framkvæmdarstjóri landhelgisgæzlunnar hefur talið, að það kæmi ekki að sök, þó að það drægist, — ég hef innt hann eftir því hvað eftir annað, — því að flugfélögin hérna, sérstaklega Flugfélag Íslands, hefðu alltaf flugvélar á reiðum höndum, en það sakaði ekki, þó að það notaði þennan umhugsunartíma til þess að athuga nánar um, hvaða vél yrði valin og hvar hún yrði keypt.

Ég sé nú ekki ástæðu til þess að gefa frekari skýrslu um þetta mál á þessu stigi, en þegar málið kemur í n., verður það vitanlega rætt þar, og þar er hægt að leggja fram þær upplýsingar, sem liggja fyrir í málinu.