22.10.1958
Sameinað þing: 4. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í D-deild Alþingistíðinda. (1850)

5. mál, efling landhelgisgæslunnar

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. forsrh. og dómsmrh. fyrir upplýsingar hans og undirtektir við till. okkar. Hann upplýsti, að hann hefði nú á þessu sumri hafizt handa um framkvæmd á þáltill. frá 1956 um byggingu nýs varðskips, enn fremur hefði hann freistað þess að afla sér heimildar til kaupa á nýrri flugvél til landhelgisgæzlunnar. Hvort tveggja þetta er mjög góðra gjalda vert, enda þótt ástæða sé til að harma, að ekki hefur fyrr verið snúizt að því að framkvæma viljayfirlýsingu Alþ., sem gefin var fyrir nær hálfu þriðja ári. Værum við þá snöggt um betur á vegi staddir í þessum efnum, ef strax hefði verið horfið að því ráði að leita tilboða í nýtt varðskip og láta byggja það. Enn fremur hefði ríkissjóði þá sparazt mikið fé, því að það er alkunna, að með aukinni dýrtíð og stórkostlegum nýjum gjaldeyrissköttum hefur kostnaður við skipakaup og skipabyggingar aukizt gífurlega. Engu að síður er ástæða til að fagna yfirlýsingu hæstv. ráðh.

Að vísu má gera ráð fyrir því, eins og ég minntist á í frumræðu minni, að kaup á einu skipi nægi ekki. En undirbúningur kaupa á einu skipi er stórt spor í rétta átt, og þess verður að vænta, að ríkisstj. hafi samráð við yfirstjórn landhelgisgæzlunnar um það, hvernig þarfir hennar verði leystar á hverjum tíma, þannig að sem fyrst verði að því snúizt að afla enn aukins skipakosts til þess að halda uppi réttarvörzlunni við strendur landsins.

Ég saknaði þess hjá hæstv. forsrh., að hann minntist ekkert á annan aðalþátt þeirrar till., sem hér liggur fyrir, nefnilega eflingu bátagæzlunnar. Það er hins vegar öllum landslýð ljóst og þeim bezt, sem gerst þekkja til, að stórkostleg hætta vofir yfir veiðarfærum bátaflotans og sjómönnum hans á næstu vertíð. Ef svo fer fram sem nú er á miðunum, kann svo að fara, að í heilum landshlutum verði sjór varla sækjandi fyrir ágangi togara. Þess vegna legg ég mikla áherzlu á það, að hæstv. ríkisstj. og hv. fjvn., sem fær þessa till. til meðferðar, athugi þessa hlið málsins sem allra fyrst og gerðar verði skjótar ráðstafanir til þess að fá báta eða stærri skip til þess að annast bátagæzluna.

Ég hef talað við fjölda sjómanna og útgerðarmanna úr ýmsum landshlutum um þessi mál, og þeir hafa allir verið sammála um það, að nú þegar yrði að gera ráðstafanir til þess að fá aukinn skipakost til þess að annast bátagæzluna. Það er staðreynd, að varðskipin og varðbátarnir eru öll í bili upptekin við landhelgisgæzluna við það að skrá niður nöfn hinna erlendu landhelgisbrjóta og fylgjast með lögbrotum þeirra innan fiskveiðitakmarkanna.

Þess vegna er það algerlega óhjákvæmilegt, að nú þegar verði gerðar ráðstafanir til þess að leigja skip til bátagæzlunnar. Í sumum landshlutum hefst vertíð þegar í lok þessa mánaðar og byrjun næsta mánaðar, í öðrum ekki fyrr en í janúar, og þá verður að vera búið að ráða fram úr þessu vandamáli.

Ég vil svo endurtaka áskorun mína til hv. n. og hv. Alþ. um það að afgreiða þessa till. skjótlega og með jákvæðum hætti. Til þess ber brýna nauðsyn.