22.10.1958
Sameinað þing: 4. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í D-deild Alþingistíðinda. (1851)

5. mál, efling landhelgisgæslunnar

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það er viðkomandi kostnaðinum, vegna þess að skip hafa ekki verið keypt fyrr, en þetta. Skipið er ekkert dýrara nú en það var, heldur ódýrara, því að kostnaður við byggingu skipa hefur lækkað, þó að íslenzku krónunum hafi fjölgað vegna yfirfærslugjalds, sem við tökum til annars.

Hitt atriðið, viðkomandi verndun flotans, það minntist ég nú ekki á vegna þess, að það er meira vandamál en svo, að það verði rætt um það í skyndi. Það er mál, sem þarf mikillar athugunar og ég hef nokkuð rætt við landhelgisgæzluna. Það hefði ég álitið að væri atriði, sem þyrfti að ræðast ýtarlega við landhelgisgæzluna og í n. Það er vitanlega mikið vandamál viðvíkjandi gæzlu bátanna. Við sjáum, að það er ekki lítill vandi, þegar það er þannig, að mikið af okkar varðskipum er ekki stærra en það, að þau verða að gæta sín fyllilega fyrir togurunum, sem leitast við að sigla á þau, og herskipunum. Það er náttúrlega ekki auðvelt fyrir þau skip, ekki stærri, að veita öðrum vernd, og við sjáum, að þetta er mál, sem er vandamál víðar, en hér. Það hefur hvað eftir annað hér á Íslandsmiðum og miðum Norðmanna verið kvartað undan yfirgangi enskra og rússneskra togara við norsk skip, og rísa óánægjuöldur mjög hátt út af því máli nú í Noregi. Ég er reiðubúinn til þess að koma og ræða það mál ásamt forstjóra landhelgisgæzlunnar við n., sem tekur þetta mál til meðferðar, fjvn., en álít ekki til neinna bóta að ræða það frekar á þessu stigi.