07.01.1959
Sameinað þing: 19. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (1853)

5. mál, efling landhelgisgæslunnar

Frsm. (Pétur Ottesen):

Herra forseti. Í nál. fjvn. um þessa till., þ.e. um eflingu landhelgisgæzlunnar og einnig verndun íslenzkra fiskiskipa, er gerð grein fyrir því, af hverju það stafar, að nokkur dráttur hefur orðið á afgreiðslu till. hjá n. Um þær mundir, sem var á öndverðu þessu þingi, að till. var lögð fram og vísað til fjvn., var forstjóri landhelgisgæzlunnar staddur erlendis við samninga um byggingu nýs landhelgisgæzluskips, og tók það nokkurn tíma, að hann kæmi heim úr því ferðalagi. En mál þetta var þannig vaxið, að n. hlaut að hafa samráð og samræður við forstöðumann landhelgisgæzlunnar um afgreiðslu þess. Strax eftir heimkomu forstjórans ræddi fjvn, mjög ýtarlega við hann um þetta mál, og þær ráðstafanir, sem nauðsynlegt væri að gera fyrir vertíðina með því viðhorfi, sem við blasti þá um það, hvað skeð gæti, þegar allur fiskiflotinn væri kominn út á veiðar. Forstjóri landhelgisgæzlunnar gerði fjvn. mjög skýra grein fyrir því, hvernig hann hugsaði sér hagnýtingu landhelgisgæzluflotans, og taldi, að með tilliti til þess, hve mörg af landhelgisgæzluskipunum eru lítil og hafa mjög takmarkaðan ganghraða, þá mundi gæzla þeirra vera mjög miklum takmörkunum háð á hafi úti einmitt á þessum tíma og það mundi því verða nauðsynlegt, að gerðar væru í tæka tíð ráðstafanir til þess, að hægt yrði að auka landhelgisgæzluna, ef í harðbakka slær. Fjvn. var forstjóra landhelgisgæzlunnar alveg sammála um það, að hér yrði að gera ráðstafanir, eftir því sem frekast væru föng á, af okkar hálfu í þessu efni, með tilliti til þess, hve mikið Íslendingar eiga undir því að geta óáreittir stundað fiskveiðar einmitt á þessum tíma, og í öðru lagi með tilliti til þess að gera allar hugsanlegar ráðstafanir til þess að vernda líf sjómannanna, sem að fenginni reynslu gæti orðið í allmikilli hættu, þegar allur bátaflotinn væri kominn á veiðar. Forstjórinn leit þess vegna svo á, að nauðsynlegt væri, að tiltækt væri eitt eða fleiri gæzluskip, sem væru bæði stærri og ganghraðari, en þau minni skip, sem í flotanum eru, og geri ég ráð fyrir, að þegar hafi verið gerðar ráðstafanir til þess að hafa tiltæka slíka aukningu á flotanum, ef til þess kæmi, að til hennar þyrfti að grípa.

Fjvn. leggur því á það mikla áherzlu, að hæstv. ríkisstj. í samráði við forstjóra landhelgisgæzlunnar geri allt, sem unnt er af okkar hálfu, til þess að tryggja veiðarnar á komandi vertíð.

Orðalagi tillgr. hefur verið breytt í samræmi við það, að bygging varðskips er nú hafin, en svo var ekki, þegar till. var flutt hér á öndverðu þessu þingi. Það er niðurstaða fjvn. af athugun þessa máls að vænta þess, að ríkisstj. geri allar hugsanlegar ráðstafanir til þess að vernda aðstöðu vora við fiskveiðarnar og vernda líf sjómannanna, ef svo verður að farið sem reynslan hefur sýnt að stundum hefur átt sér stað af hálfu þess herskipaflota, sem hér er við land, og þeirra togara, sem í vernd og gæzlu flotans eru hér að ólöglegum veiðum innan fiskveiðilandhelginnar.