12.11.1958
Sameinað þing: 9. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í D-deild Alþingistíðinda. (1858)

20. mál, fiskileitartækjanámskeið

Flm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja ásamt hv. 2. landsk. þm. og hv. 6. landsk. þm. þáltill. um námskeið í meðferð fiskileitartækja.

Efni till. er á þá lund, að skorað er á ríkisstj. að koma upp eigi síðar, en fyrir næstu síldarvertíð námskeiðum fyrir skipstjórnarmenn á fiskiskipum, þar sem kennd verði meðferð fiskileitartækja og fræðsla veitt um gerð þeirra. Jafnframt sé ríkisstj. heimilað að greiða úr ríkissjóði þann kostnað, sem af þessu leiðir. Við flm. teljum, að hér sé hreyft nauðsynjamáli, sem geti haft nokkra þýðingu í þá átt, að betri árangur náist við veiðar og meiri afli verði dreginn að landi.

Eins og vera ber, erum við Íslendingar að jafnaði fljótir að bregða við, þegar um tæknilegar nýjungar er að ræða, og svo hefur einnig orðið að því er varðar tæki þau, sem fjallað er um í þessari þáltill. Svo er nú komið, að nær allir togarar landsmanna eru búnir fisksjá, sem oftast munu vera tvær á hverjum togara. Og langflestir bátanna eru einnig búnir tilsvarandi tækjum, oftast með svonefndri asdic-útfærslu, sem gerir fært að leita fisks, sem liggur nálægt yfirborði sjávar, og hentar því sérstaklega við síldveiðar. Árangur af þessum nýja búnaði fiskibátaflotans hefur þegar reynzt mjög mikill, jafnvel svo, að hann ásamt með tilkomu veiðarfæra úr hentugri efnum, en áður þekktust, hefur valdið straumhvörfum í fiskveiðum okkar. Má fullyrða, að síldarvertíð nú í ár hefði t.d. nær því algerlega brugðizt; ef flotinn hefði ekki verið stórlega betur búinn að veiðarfærum og hjálpartækjum, en nokkru sinni áður. Á þorskveiðum með línu og net hafa einnig hin nýju tæki komið að ómetanlegu gagni.

Þrátt fyrir þetta mun það almennt álit sjómanna, að gagnsemi hinna nýju fiskileitartækja sé enn alls ekki orðin slík sem hún gæti orðið, og veldur vafalaust miklu um, að fiskimönnum hefur ekki verið veitt sú aðstaða, sem þeim er nauðsynleg, til þess að geta almennt náð hinni nýju tækni fyllilega á vald sitt. Nokkur fræðsla mun nú orðið veitt í sjómannaskólanum um notkun og gerð fiskileitartækja, en hún kemur að sjálfsögðu ekki að haldi fyrir skipstjórnarmenn almennt, sem lokið hafa sínu tilskilda námi.

Fiskiskipstjórum hefur verið nauðugur sá kostur að þreifa sig áfram því nær einir og óstuddir um notkun tækjanna, sem vitað er að er mikið vandaverk og engan veginn auðlært. Slíkar aðferðir verða að sjálfsögðu seinvirkar og geta orðið næsta kostnaðarsamar, bæði fyrir áhafnir bátanna og útvegsmenn, þar sem öll mistök og vanþekking leiða til þess, að minni afli fæst.

Þetta kemur glöggt fram í þeim ummælum, sem vísað er til í grg. till., þar sem einn mesti og reyndasti aflamaður bátaflotans, Bjarni Jóhannesson, skipstjóri á m/s Snæfelli, kveður upp úr með þá skoðun varðandi höfuðorsakirnar til hins mikla aflamismunar síldveiðiskipanna, að þar ráði mestu um, að aflahæstu skipstjórarnir, kunni betur en aðrir að fara með hin nýju fiskileitartæki, og einnig að niðursetningu tækjanna sé í sumum tilfellum ábótavant. Þetta er áreiðanlega engin einkaskoðun, sem þarna kemur fram hjá hinum mikilsvirta fiskimanni, heldur er þetta almenn skoðun meðal sjómannastéttarinnar.

Við flm. þessarar till. teljum nauðsynlegt, að fiskiskipstjórar eigi þess kost að njóta beztu fáanlegrar fræðslu um meðferð þessara hjálpartækja og að annað samræmist naumast almennum hagsmunum. Við höfum þá sérstaklega í huga, að einhverjir þeirra manna, sem mestum árangri hafa náð í meðferð tækjanna, yrðu fengnir til að annast þau námskeið, sem till. fjallar um, ásamt með sérfróðum mönnum um gerð tækjanna og viðhald þeirra.

Ég sé ekki ástæðu að svo komnu til að fjölyrða frekar um till., en vænti greiðrar afgreiðslu hennar í þeirri n., sem hana fær til athugunar. Ég legg til, að það verði fjvn.