12.11.1958
Sameinað þing: 9. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í D-deild Alþingistíðinda. (1878)

39. mál, Atómvísindastofnun Norðurlanda

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Vorið 1957 gerðist Ísland aðili að stofnun Atómvísindastofnunar Norðurlanda til samvinnu á sviði fræðilegra atómvísinda. En upphaf þessa máls var það, að hinn 27. jan. 1957 samþykkti 5. þing Norðurlandaráðs í Helsingfors ályktun um, að Norðurlandaþjóðirnar skyldu koma á fót sameiginlegri norrænni rannsóknarstöð fyrir fræðileg atómvísindi.

Fulltrúi Íslands í bráðabirgðastjórn þessarar stofnunar er Þorbjörn Sigurgeirsson prófessor, og hefur hann setið fundi í Kaupmannahöfn til undirbúnings þessu máli. Kostnaður af þátttöku Íslands í þessari sameiginlegu atómrannsóknarstofnun Norðurlanda mun verða um 5 þús. kr. sænskar á ári, og er gert ráð fyrir greiðslu þeirrar fjárhæðar í fjárlagafrv. fyrir 1959, sem nú liggur fyrir hinu háa Alþingi.

Stofnunin tekur ekki lögformlega til starfa, fyrr en þjóðþing landanna hafa fullgilt sáttmála hennar. Á síðasta fundi bráðabirgðastjórnarinnar varð samkomulag um það, að tillögur um sáttmála í því formi, sem hann liggur hér fyrir í þessu þskj., skyldu lagðar fyrir þjóðþing Norðurlandanna öll. Og í samræmi við það er þessi till. flutt.

Ég vil leyfa mér að óska þess að, að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. allshn. Ég hygg, að málið eigi þar frekar heima, en hjá fjvn., þó að svo hátti að vísu, að hér sé um að ræða nokkur útgjöld, en fjvn. fjallar einmitt um þann þátt málsins, útgjaldaþáttinn, í fjárlagafrv. sjálfu.