22.01.1959
Neðri deild: 60. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (188)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla fyrst að byrja með því að minna á efnahagslöggjöfina, sem sett var s.l. vor.

Þessi efnahagslöggjöf var tvímælalaust mjög þýðingarmikið skref til bóta frá því fyrirkomulagi, sem áður hafði verið. Hún var, mátti kalla, eins konar skref út úr uppbótakerfinu. Uppbætur voru stórkostlega jafnaðar frá því, sem áður hafði verið og háskalegur mismunur á verðlagi, sem stafaði af uppbótakerfinu, eins og það var orðið, var leiðréttur. Í sambandi við þessa löggjöf var það ákvæði sett, að grunnkaup í landinu skyldi hækka um 5%, en á móti skyldu falla niður 9 vísitölustig. Þetta mættist svona nokkurn veginn, var lagt að jöfnu. Jafnframt var því lýst greinilega í sambandi við þessa lagasetningu, að framleiðslan mundi alls ekki þola hærra kaupgjald almennt, en þá var orðið, eftir að löggjöfin hafði verið sett, og ef kaupgjald yrði almennt hækkað, svo að nokkru verulegu næmi, mundi það kalla á nýjar ráðstafanir í efnahagsmálunum, setja efnahagsmálin á nýjan leik úr skorðum, koma framleiðslunni í vandræði, þannig að það þyrfti nýjar ráðstafanir til þess að leysa þau. Enn fremur var það gert ljóst þá í grg. frv. og í sambandi við það, að ekki mundi verða hægt að stöðva verðbólguhjólið með nokkrum ráðum, ef áfram yrði tengt við vísitöluna á sama hátt og verið hefði allt kaupgjald og verðlag í landinu.

Það kom í ljós samkvæmt skoðun sérfræðinga í þessum efnum, að hvaða leið sem reynd væri til þess að stöðva verðbólguhjólið mundi reynast ókleif, ef ekki næðust samtök um að kippa vísitölunni þannig úr sambandi, a.m.k. að nota hana ekki alveg vélrænt, eins og gert hafði verið um langan tíma.

Það varð talsverður ágreiningur, a.m.k. á yfirborðinu, um þessa efnahagsmálalöggjöf, þó að það væri nú í raun og veru svo, að flestir eða nær allir viðurkenndu inni á sér, að hún væri stórkostlegt skref til bóta. Þeir, sem þá voru í stjórnarandstöðu, Sjálfstæðisflokksmenn, gerðu talsvert að því að gagnrýna þessa löggjöf, en í þeirri gagnrýni var ákaflega lítill kraftur, því að það var augljóst, að allir þeir, sem vildu skoða málið með nokkurri stillingu, sáu, að hér var stigið skref fram á við í þessum málum og til stórfelldra bóta. Það er líka mjög athyglisvert og sérstök ástæða til að setja undir það stórt strik í sambandi við þá atburði, sem nú eru að gerast og það, sem gerzt hefur undanfarið, að allir hafa gert ráð fyrir því, að það ætti nú að byggja einmitt á þessari löggjöf, sem sett var s.1. vor, hún væri grundvöllurinn, sem hægt væri að byggja á og kemur það nú dálítið skrýtilega fyrir, miðað við þær undirtektir, sem hún fékk hjá sumum þá, eins og ég sagði áðan og kem ég að þessu atriði nánar ofur lítið bráðum.

Ekki hafði þessi löggjöf frá s.l. vori verið lengi í gildi, þegar barátta var hafin til þess að koma efnahagsmálunum úr skorðum á nýjan leik og var það framhald af þeirri baráttu, sem Sjálfstæðisfl. í stjórnarandstöðunni hafði haldið uppi, frá því að vinstri stjórnin var mynduð.

Sjálfstæðisfl. virtist ekki treysta sér til þess að vinna sér hylli þjóðarinnar með jákvæðum till. í efnahagsmálunum eða ábyrgri framkomu, en tók í þess stað þann kostinn að nota aðstöðu sína í stjórnarandstöðunni til þess að reyna að rífa niður og með slíkri starfsemi koma úr skorðum þeim ráðstöfunum, sem fyrrv,. stjórn beitti sér fyrir, jafnvel þótt flokkurinn teldi þær í sjálfu sér réttmætar, — gera þetta til þess að koma ráðstöfununum úr skorðum, koma efnahagskerfinu úr skorðum, gera þörfina brýna fyrir nýjar ráðstafanir og reyna þannig að sprengja sundur stjórnarsamstarfið, — koma í veg fyrir, að það gæti haldið áfram. Þannig var starfað að því af hendi Sjálfstfl. að grafa undan efnahagsmálaráðstöfunum fyrrv. stjórnar. Og eftir að efnahagslöggjöfin var sett á s.l. vori, var þessi barátta hert um allan helming, því að það mátti náttúrlega ekki með nokkru móti koma fyrir, að efnahagsmálalöggjöfin gæti komið að fullu gagni. Það hefði orðið eitt stórfellt áfall fyrir Sjálfstfl., ef það hefði komið í ljós, að allt þetta hefði getað staðizt, jafnvægi hefði náðzt í efnahagsmálunum og ekki þurft neinar nýjar ráðstafanir í vetur. Hvílíkt áfall, ef slíkt hefði komið fyrir. Slíkt varð að fyrirbyggja með öllum hugsanlegum ráðum og ráðin voru þá helzt þau að senda útsendara sjálfstæðismanna í stéttarfélög landsins og eggja hvarvetna til nýrrar hækkunarbaráttu til þess að koma löggjöfinni úr skorðum og til þess að koma málunum aftur í strand, í því trausti, í þeirri von, að þá mundi vera hægt að koma samstarfi vinstri flokkanna fyrir kattarnef og áhrif Sjálfstfl. gætu orðið meiri, en verið hafði um skeið.

Þessi hækkunarbarátta sjálfstæðismanna bar talsverðan árangur, líka vegna þess, að stjórnarandstæðingar í öðrum flokkum tóku saman höndum við þá um að halda henni uppi og knýja fram hækkanir. Þess vegna var það augljóst þegar í sumar, að það var að skapast í þessum efnum nýtt vandamál, sem mundi verða mjög erfitt að glíma við og voru um það margvíslegar ráðagerðir, hvernig hægt væri að mæta þessari þróun og hvaða nýjar efnahagsmálaráðstafanir væri hægt að gera út af þessu.

En því miður reyndust þau öfl, sem hér vildu standa í móti, of sterk, og niðurstaðan varð sú, að á vegum fyrrv. stjórnar náðust ekki samtök um nýjar ráðstafanir í efnahagsmálunum, og stjórnin hætti störfum, eins og kunnugt er.

Nú ætla ég ekki hér í sambandi við þetta mál að rekja þá sögu, en aðeins minna á þetta, að það náðist ekki samstaða um efnahagsmálin í þeirri stjórn og hún hætti þar af leiðandi störfum.

Þá lágu málin þannig fyrir, að það þurfti að íhuga um nýja stjórnarmyndun, og þá var auðvitað komin röðin að Sjálfstfl. sem stærsta flokknum að gera sér grein fyrir því, upp á hverju hann vildi stinga í sambandi við stjórnarmyndunarmálið og þá um leið í sambandi við efnahagsmálin.

Augljóst var, að það kom talsvert mikið fát á sjálfstæðismenn út af þessu og var það í sjálfu sér ekkert undarlegt, miðað við það, hvernig þeir voru staddir. Nú voru góð ráð dýr vegna þess, sem þeir höfðu haldið fram undanfarið og frá þeim hafði komið. En það er skemmst af að segja til þess að gera langa sögu stutta, að eftir að hafa setið yfir þessum málum um skeið, ég veit ekki, hvort þeir hafa dregið belgi á höfuð sér eða ekki, en eftir að hafa setið yfir þessum málum um skeið, kom frá þeim ákveðin till. í þessum efnum. Till. var sú, að það væri rétt lausn á þessu máli, að launþegar lækkuðu kaup sitt um 6% og framleiðendur verðlag sitt að sama skapi og það fylgdi með, að ef þetta væri gert, þá þyrfti ekki neinar frekari ráðstafanir í efnahagsmálum fyrst um sinn a.m.k., þá væri hægt við þetta að búa, þá gæti framleiðslan við þetta búið, m.ö.o., að það kemur fram, að úrræðið, sem Sjálfstfl. hefur að bjóða, þegar hann er neyddur til þess að segja eitthvað, er að bjóða þjóðinni að taka til baka þær launahækkanir, sem sjálfstæðismenn höfðu barizt fyrir að yrðu framkvæmdar s.l. sumar, sem reyndust 6–9%. Þeir höfðu sagt mönnum og sent út sína menn til að halda því fram, að það væri eðlilegt, að þessar hækkanir ættu sér stað. En þegar að því kom, að þeir urðu að segja eitthvað um þessi mál, þá var úrræðið, að þetta skyldi tekið aftur. Og í þessu fólst meira en það. Í þessu fólst líka það, að ef þeim og þeim öðrum, sem með þeim stóðu, hefði ekki tekizt að koma af stað nýrri hækkunaröldu, þá hefði efnahagsmálalöggjöfin, sem fyrrv. stjórn beitti sér fyrir, getað staðizt, allt að dómi sjálfstæðismanna, eins og hann féll fyrir jólin í vetur.

Sem sagt, þegar kom til kasta sjálfstæðismanna að segja, hvað þeir vildu í efnahagsmálunum, þá sögðu þeir eftir nokkra yfirlegu: Launastéttirnar þurfa að lækka launin um 6%. Sé það gert, þarf engar nýjar álögur, og framleiðslan getur búið við það, sem hún hefur. — Það var þeirra dómur. Og þetta jafngildir því, að þeir segðu: Ríkisstj. sagði þjóðinni satt í vor sem leið um það, hvað óhætt væri að gera. — En þeir segðu um leið: Sjálfstæðismenn sögðu hins vegar þjóðinni ósatt um efnahagsmálin s.l. sumar. — Og það þýðir meira. Þetta jafngildir því, að sjálfstæðismenn segi nú: Ef þið hefðuð ekki tekið neitt mark á okkur í sumar, þá væri nú allt í lagi og engra nýrra ráðstafana þörf.

Ég efast um, að nokkur stjórnmálaflokkur hafi nokkru sinni afhjúpað sig svo sem Sjálfstfl, hefur gert með þessari till. sinni í efnahagsmálum, miðað við það, sem á undan var gengið í þeim efnum.

Ég gat áðan um, að þegar stjórnin fór frá, þá hefði þurft að mynda nýja, og í sambandi við þær bollaleggingar var það, sem sjálfstæðismenn komu fram með þessa till., og hlýtur það raunar að hafa verið nokkurt jarðarmen fyrir þá að ganga undir að flytja hana, eins og allt er í pottinn búið. En þeir hafa þó af tvennu illu heldur viljað það, en að segja ekki neitt. Hvorugur kosturinn var góður.

En í sambandi við stjórnarmyndunarmálið lagði Framsfl. til, að það yrði gerð öflug tilraun til þess að koma á þjóðstjórnarsamstarfi í landinu. Þetta var m.a. út af efnahagsmálunum. Reynslan hafði sýnt á undanförnum árum, að það var mjög erfitt að fá nauðsynleg samtök um efnahagsmálin, ef öflugir kraftar voru utan við stjórnarsamstarfið. Þá voru þeir notaðir til þess að spilla þeim ráðstöfunum í framkvæmd, sem samþykktar voru á Alþingi. Við álítum, að efnahagsmálalöggjöfin, sem sett var s.l. ár, væri svo merkilegur grundvöllur, að það ætti að reyna samstarf allra flokka til þess að byggja ofan á hana og fá þannig öflug samtök bæði í þinginu og utan þings, sem gætu staðið að því, sem gert væri, þannig yrði gerð stórfelld tilraun til þess að koma á jafnvægi í efnahagsmálunum og stöðva verðbólguþróunina. Enn fremur álitum við mjög þýðingarmikið tákn út á við um einingu í viðureigninni við Breta út af landhelgismálinu, að slíkt þjóðstjórnarsamstarf yrði sett á fót. Enn fremur töldum við, að einmitt í slíkri stjórn væri réttur vettvangur til þess að reyna að komast að sameiginlegri niðurstöðu um kjördæmamálið og láta þá ganga til úrslita um það í lok kjörtímabilsins.

Á þetta var ekkert hlustað, og það var einfaldlega vegna þess, að Sjálfstfl. vildi ekki ljá máls á neinu, þegar hér var komið sögu, öðru en því, að það yrði kosið sem fyrst. Höfuðhugsunin er vitaskuld sú, að flokkurinn vill komast hjá því að þurfa að ganga undir fleiri jarðarmen, en orðið er fyrir kosningar og þess vegna sé um að gera að hraða kosningunum, til þess að ekki komi fram enn meira ósamræmi, en orðið er á milli þess, sem þeir hafa haldið fram í efnahagsmálunum og öðrum slíkum málum undanfarið og þeirra úrræða, sem þeir raunverulega hafa að bjóða. Þess vegna var ekki hlustað á neitt annað, en það yrðu að fara fram kosningar í vor og þá að ljúka kjördæmabreytingum fyrir þann tíma.

Á hinn bóginn mun Sjálfstfl. ekki hafa litizt meir en svo á, að búa sjálfur til stjórn til þess að standa fyrir þessu, kannske hugsað til þess, sem gerðist 1942, í því sambandi og fordæmið þá, og leitaði þess vegna annarra úrræða. Úrræðið var það að fá Alþfl. til þess að mynda stjórn, sem hann styddi og stæði fyrir þessari málsmeðferð, þar sem aðeins einu atriði er slegið föstu og það er, að kjósa skuli sem fyrst. Önnur atriði eru að vísu á stefnuskránni, en meir undir hælinn lagt, hversu með þau fer, bæði efnahagsmál og kjördæmamál.

Síðan er því haldið fram af þessum stjórnarflokkum tveimur, sem að þessu standa, að þessi stjórn, sem svona er til komin og sett upp með þetta markmið, ætli að beita sér fyrir sterkum og heilbrigðum ráðstöfunum í efnahagsmálum, og það sé bara mjög líklegt, að hún nái glæsilegum árangri í því efni. Stjórn, sem tilkomin er á þennan hátt, sem hefur einn fastan punkt og það er að láta kjósa eins fljótt og hægt er og svo annað áhugamál að breyta kjördæmaskipuninni og láta kjósa tvisvar í röð, hefur engan þingmeirihluta fastan að baki sér til þess að koma fram neinni löggjöf, hvorki í efnahagsmálum né öðrum málum, svona löguð stjórn er ekki líkleg til þess að koma á nýjum, nauðsynlegum ráðstöfunum í efnahagsmálum. Það er skemmst af að segja, að við í Framsfl. höfum enga trú á því, að þessi vinnubrögð geti orðið til nokkurs góðs og að það geti orðið mögulegt fyrir stjórnarflokkana að ráða við heilbrigða lausn á efnahagsmálunum.

Ég skal nú láta þessum inngangi lokið, en snúa mér þá nokkuð að því frv., sem hér liggur fyrir. En þetta var nauðsynlegur inngangur til þess að skýra, hvernig ástatt er, þegar þetta frv. kemur fram hér á hv. Alþingi.

Hér er um frv. að ræða, sem eingöngu fjallar um einn þátt efnahagsmálanna, að vísu mjög veigamikinn þátt, en við hefðum álitið, að í einu frv. hefðu átt að vera ákvæðin um kaupgjald og verðlag og nauðsynlegar breytingar á útflutningssjóðslögunum. Það hefði verið eðlilegra, að þetta hefði allt fylgzt að í einu frv. Nú upplýsir hæstv. forsrh., að það sé von á — mjög fljótlega — frv. til laga um breyt. á útflutningssjóðslögunum og geri ég þá fastlega ráð fyrir því, að þessi mál verði til meðferðar samtímis, og bætir það þá nokkuð úr þessum ágalla, þótt hitt hefði að mínum dómi verið eðlilegra, að setja þetta allt í eitt mál.

Það, sem m.a. hefur skort á undanfarið, er það, að menn hafi vitað til fulls, hvað hefur verið að gerast í þessum efnum eða að hverju hæstv. ríkisstj. stefnir. Nokkuð var bætt úr þessu með framsöguræðu hæstv. forsrh., en þó náttúrlega ekki til neinnar hlítar, eins og ég mun bráðlega koma að.

Ég vil þá fyrst varðandi heildarstefnuna í þessum málum benda á ummæli í grg. frv. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Til úrbóta er um tvær meginleiðir að velja. Hin fyrri er sú að hækka bætur til útflutningsframleiðslunnar sem því svarar, er tilkostnaður hennar hefur aukizt, síðan útflutningsbæturnar voru ákveðnar síðast, og leggja ný gjöld á landsmenn til þess að afla tekna til að greiða hækkun bótanna. Þetta er önnur leiðin. Hin leiðin er sú að lækka tilkostnað útflutningsframleiðslunnar með almennri lækkun kaupgjalds og verðlags, þannig að ekki þurfi að hækka þær bætur, sem hún fær nú greiddar.“

Og síðan er sagt í grg. og kom raunar fram líka hjá hæstv. forsrh., að það væri þessi síðari kostur, sem valinn væri. Ég vil benda mönnum á, að þetta er ekki rétt, eins og raunar líka kom fram í ræðu hæstv. forsrh. Hér er blátt áfram um villandi ummæli að ræða í grg., máske af misgáningi, því að það er augljóst mál, að þó að það verði samþ. að lækka um þessi 10 vísitölustig, nema auknar bætur til framleiðslunnar samt sem áður um 78 millj. kr. Því fer þess vegna alls fjarri, að þessi lækkunarleið, sem hér er stungið upp á, nægi, eins og gefið er í skyn í grg., til þess að ekki þurfi eða ekki verði um auknar bætur til framleiðslunnar að ræða. Það er samt sem áður um auknar bætur til framleiðslunnar að ræða um 78 millj. a.m.k.

Í sambandi við heildarmyndina af þessum málum vil ég svo benda á, að samkvæmt því, sem hæstv. forsrh. hefur nú upplýst, hefur stjórnin gert samninga við ýmis samtök framleiðenda um verulegar hækkanir á framleiðslubótum eða útflutningsbótum til framleiðslugreinanna og samkvæmt því, sem hann greindi frá og ég hef líka fengið staðfest annars staðar frá, nemur hækkunin, sem hér hefur verið samþ. af ríkisstj., — og er þá miðað við vísitölu 185, — nemur hækkunin 159 millj. kr., þ.e. frá því, sem áður var. En þegar fyrrv. stjórn hætti störfum, þá lá fyrir álit frá hagfræðingi ríkisstj. um, að það mundi þurfa 105 millj. til þess að bæta framleiðslunni þær kauphækkanir, sem þá höfðu orðið, miðað við vísitölu 185. Þannig eru þær bætur, sem nú er upplýst að samþykktar hafi verið, um 54 millj. kr. hærri en þá var talið að þyrfti til þess að jafna þessi met. En verulegur hluti af þeirri fjárhæð er vitaskuld vegna þess, að fiskimenn hafa fengið miklar kjarabætur í þessu sambandi.

Ég vil í þessu sambandi benda á, að þessir samningar eru gerðir án þess að ræða um þá við hv. Alþingi, og þessir samningar hafa verið gerðir án þess, að nokkuð sé um það vitað, svo að mér sé kunnugt a.m.k., að það sé meirihlutafylgi á Alþingi fyrir því að samþykkja þá. Það má vel vera, að svo reynist, en mér er ekki kunnugt um, að þess hafi verið leitað fyrir fram. M.ö.o. það, sem hér gerist, er það, að ríkisstj. og það minnihlutaríkisstj. gerir slíka samninga um 159 millj. kr. auknar framleiðslubætur, miðað við vísitölu 185, án þess að það sé borið undir þingið eða aðra þingflokka, en stjórnarflokkana, sem ég að sjálfsögðu geri ráð fyrir að þetta hafi verið borið undir. Þetta finnst mér ekki vera í góðu samræmi við það, sem undanfarið hefur stundum verið gert að umræðuefni, að hinar og aðrar ráðstafanir væru gerðar án þess að bera þær undir þingið og þetta er mjög umhugsunarvert fyrir okkur, að þessi háttur skuli vera á hafður. Það er auðvitað ekki einsdæmi, að gerðir hafi verið slíkir samningar án þess að bera þá undir þingið formlega. Það hefur verið gert á undanförnum árum. En ég held, að ég muni það rétt, að þá hafi ætíð verið um að ræða ríkisstjórnir, sem hafi haft hreinan meiri hluta að baki sér og hafi getað fengið samþykkta löggjöf. En sé þetta ekki rétt hjá mér, þá verður það leiðrétt. En þetta tel ég mjög varhugaverð vinnubrögð af hendi minnihlutastjórnar, að ekki sé meira sagt.

Ef við svo lítum á þessi mál í heild, þá horfir þetta þannig við samkv. því, sem fyrir liggur, að þó að það yrði samþ. að færa vísitöluna niður um 10 stig, þá er samt eftir að mæta 78 millj. kr. af hinum auknu framleiðslubótum, og niðurgreiðslur hafa þegar verið ákveðnar, sem kosta a.m.k. 75 millj. Þar til viðbótar þarf svo að bæta inn á fjárl. vegna grunnlaunahækkananna, eins og hæstv. forsrh. upplýsti, að frádregnu því, sem sparast vegna 10 stiga lækkunar, 22 millj. a.m.k., og samkv. útreikningi þess hagfræðings, sem mest starfaði fyrir fyrrv. ríkisstj., var gert ráð fyrir 55 millj. kr. halla á útflutningssjóði á yfirstandandi ári samkv. þeirri tekjuáætlun, sem þá lá fyrir frá honum. Þetta nemur samtals um 230 millj.: aukningin á framleiðslubótunum, niðurgreiðslurnar, sem þegar hafa verið ákvarðaðar, óhjákvæmileg hækkun á fjárl. vegna grunnlaunanna og hallinn á útflutningssjóðnum, eins og hann var áætlaður af sérfræðingi fyrrv. ríkisstj. að öllu óbreyttu fyrir þetta ár. Hér við bætast svo væntanlegar, hugsanlegar enn meiri niðurgreiðslur, sem stjórnin boðar í sínum úrræðum, að geti vel komið til greina.

Hæstv. forsrh. fór nokkrum orðum um það, hvernig stjórnin ætlaði sér að mæta þessum vanda og ég geri ráð fyrir því, að það, sem hann sagði um þetta, þó að hann tæki heldur varlega til orða, séu áætlanir eða fyrirætlanir stjórnarflokkanna um það, hvernig skuli afgreiða efnahagsmálin í heild. Ég geri fastlega ráð fyrir því, að það hljóti að vera svo. Hann reiknaði ekki þennan halla eða þennan mismun nema 176 millj., en ég taldi hann 230 að viðbættum hugsanlegum niðurgreiðslum enn til viðbótar síðar. Mismunurinn liggur í því, að hæstv. forsrh. reiknaði ekki með hallann á útflutningssjóði, sem sérfræðingar fyrrv. ríkisstj. töldu að mundi verða 55 millj. að öllu óbreyttu. Það munar því. Ég veit ekki, hvernig stendur á því, að hæstv. forsrh. reiknar ekki þennan halla með, en mér dettur í hug, að það geti verið vegna þess, að stjórnin reikni með hærri tekjuáætlun, en sérfræðingurinn gerði. Og þá getur mér varla dottið annað í hug, en þar liggi það á bak við, að stjórnin geri ráð fyrir verulegri notkun erlends lánsfjár á þessu ári, sennilega a.m.k. 6 millj. dollara nýju láni og hafi þess vegna hækkað tekjuáætlun útflutningssjóðs og látið það mæta þessum halla.

Ég skal ekki segja, hvort þetta er svo fjarri lagi, ef úr þessari lántöku verður. En mér skilst á öllum bollaleggingum hæstv. forsrh. og þessum tölum, að það sé gert ráð fyrir því, að úr þessari lántöku hljóti að verða.

En þá vil ég í því sambandi segja, að mér kemur það dálítið á óvart, því að ég hélt, að það hlyti að verða eitt af skilyrðum Sjálfstfl. fyrir stuðningi hans við stjórn Alþfl., að hætt yrði öllum hneykslanlegum lántökum. En eins og vitað er, þá er þessi lántaka, sem hér er um að ræða, fyrirhuguð í Bandaríkjunum á nákvæmlega sama hátt og þar hafa verið tekin lán undanfarið og hefur verið gagnrýnt með sterkustu orðum tungunnar af Sjálfstfl. hendi og talið ganga landráðum næst að taka slík lán. En nú get ég ekki annað merkt af því, sem kemur fram hjá hæstv. forsrh., en stjórnarflokkarnir reikni með því, að þessi lántaka hljóti að eiga sér stað, eins og áætlað var, og allar tekjuáætlanir, sem hér að lúta, séu beinlínis byggðar á því. Annars hefði áreiðanlega ekki verið sleppt að telja fram þennan halla á útflutningssjóðnum, og hæstv. forsrh. hefði heldur alls ekki leyft sér að nefna þær tölur, sem hann nefndi í sambandi við hugsanlegar tekjur ríkissjóðs á næsta ári, ef ekki væri hiklaust gert ráð fyrir þessu.

Það er vitanlega hægt að ræða þetta nánar í öðru sambandi og verður sjálfsagt gert. En óneitanlega kemur manni þetta undarlega fyrir sjónir, að eftir það, sem Sjálfstfl. hefur sagt um lántökur í Bandaríkjunum á þann hátt, sem þarna er fyrirhugað, skuli það vera eitt höfuðúrræði þeirrar stjórnar, sem hann hefur sett á fót í raun og veru og styður og eitt höfuðúrræði hans sem stjórnarflokks að beita sér fyrir slíkri lántöku og gera hiklaust ráð fyrir því í þeim fjármálaáætlunum, sem hér liggja fyrir.

Hæstv. forsrh. reiknaði ekki með þessum 230 millj., sem ég nefndi, sem raunar getur orðið talsvert meira en 230 millj., því að þar geta komið til viðbótar verulegar fjárhæðir í nýjar niðurgreiðslur og fleira í sambandi við fjárl., eins og t.d. rekstrarhalli á raforkuveitum ríkisins, sem er mjög mikill og ekki er í fjárlagafrv. Hæstv. ráðh. hélt sig við 176 millj. í staðinn og hefur vafalaust haft fyrir því þær ástæður, að hann hefur reiknað með miklu lánsfé á árinu og þar af leiðandi háum tekjum fyrir útflutningssjóð. En hann hélt sig við 176 millj. og var svo með bollaleggingar um það, hvernig þeirri gífurlegu fjárhæð skyldi mætt, sem voru satt að segja meira, en lítið losaralegar, en verður þó að líta á sem stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar og stjórnarflokkanna.

Það er þá fyrst, sem hann nefnir, að það hafi komið álit frá sérfræðingum í fjmrn. um, að tekjur þessa árs kynnu að geta farið upp í 980 millj. kr., og mér skildist jafnvel hann gefa í skyn, að sérfræðingarnir álitu óhætt að áætla þær það. Mér er alls ókunnugt um þetta og skal ekkert um það segja á þessu stigi, hvort þessi tala kemur til mála eða ekki. En ef þessi tala kemur til mála, þá er hún alveg tvímælalaust miðuð við það, sem þessir menn telja að tekjurnar geti orðið mestar, og þá líka miðuð við þá miklu notkun lánsfjár, sem ég áðan var að ræða um. Og það segi ég alveg hiklaust, að ef hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkar hafa það í sinni að áætla ríkistekjurnar á fjárlagafrv. núna eins og þær geta orðið mestar, miðað við mestan hugsanlegan innflutning lánsfjár, þá eru þeir með opin augu að afgreiða fjárlög með halla, eins og raunar kom fram hjá hæstv. forsrh., þar sem hann sagði, að þá væri ekki gert ráð fyrir því, að umframgreiðslur yrðu neinar, og yrði ef til vill að taka tillit til þess. En þá bara stenzt alls ekki þetta dæmi á nokkra lund. Ég vil ekki taka neina afstöðu til neinna talna í þessu sambandi, því að til þess skortir mig upplýsingar á þessari stundu. Ég hafði álitið, þegar ég sleppti þessum málum, að það mundi vera hægt að hækka tekjuáætlun fjárlagafrv. eitthvað, ef gera mætti ráð fyrir lántöku í Bandaríkjunum til framkvæmda hér og þar með ykist innflutningurinn. En mér hefur aldrei dottið í hug, að það væri hugsanlegt að afgreiða fjárlög þannig að áætla tekjurnar eins og þær geta orðið hæstar, nema því aðeins að stjórnin ætli að fara inn á þá leið að setja stóran póst inn á fjárl. gjaldamegin fyrir hugsanlegum umframgreiðslum, sem er þá alveg nýr siður. En þá er ekki heldur hægt að reikna 83 millj. upp í þennan halla. Ef ætlun ríkisstj. er að áætla tekjurnar á þessa lund, þá er það áætlun um að afgreiða fjárl. með halla.

Þá var hæstv. forsrh, að tala um, að það væri sjálfsagt hægt að lækka fjárl. um 40 millj. kr. og hann hefði heyrt þá tölu fyrir stjórnarskiptin. Mér var nú ekki ljóst, hvaðan hann hafði heyrt hana, en mér finnst, að það hefði nú verið eðlilegra, að hann hefði miðað við einhverja niðurstöðu, sem hann hefði komizt að sjálfur eftir stjórnarskiptin, heldur en að miða þessar bollaleggingar við einhverjar tölur, sem hann heyrði einhvers staðar á ótilteknum stað fyrir stjórnarskiptin. Mér hefði fundizt það eðlilegra eftir þá athugun, sem hlýtur að hafa farið fram á þessum málum. Það er þess vegna tæpast hægt að taka svona tal mjög alvarlega. Það sýnir þó bollaleggingar stjórnarflokkanna um að skera 40 millj. niður á fjárl., og það fullyrði ég alveg hiklaust, að ef það á ekki að gera það með því að falsa útgjaldaliði, sem eru áætlaðir og þar með stofna til hallarekstrar, þá er ekki hægt að lækka um 40 millj. nema með því að skera mjög verulega niður framlög til framkvæmda á fjárl. Og það vitum við að hefur verið fyrirætlun stjórnarflokkanna að gera, en um einstök atriði í þeirri fyrirætlun getum við ekki dæmt, fyrr en við sjáum tillögurnar.

Ef það á að draga ályktanir út frá því, sem hæstv. forsrh. sagði um þetta, og taka það bókstaflega, þá eru fyrirætlanirnar í raun og veru það að áætla tekjurnar á fjárl. þannig, að það hlýtur að leiða til greiðsluhalla og þess að skera niður verklegar framkvæmdir. En um þetta verður ekki dæmt til neinnar hlítar, fyrr en þetta liggur fyrir.

Loks minntist svo hæstv. forsrh. á það atriði að nota eitthvað af greiðsluafganginum í fyrra, t.d. 20 millj., til þess að jafna halla á þessu ári. Um þetta vil ég segja, að einhver greiðsluafgangur varð á s.l. ári. Nokkuð af honum hlaut að fara til þess að jafna hallann frá árinu áður, en eitthvað hefur hann orðið meiri. Framsóknarmenn hafa lagt fram tillögu hér á hv. Alþ. um að taka 25 millj. kr. af þessum greiðsluafgangi handa íbúðalánasjóði, byggingarsjóði Búnaðarbankans og veðdeild Búnaðarbankans, en allar þessar stofnanir eru nú gersamlega í fjárþroti, og það kveður svo rammt að þessu, að fjöldi fólks í bæjum og kaupstöðum er í þann veginn að missa íbúðir sínar, sem það er að byggja, vegna þess að það hefur ekki getað fengið lán. Og ég segi alveg hiklaust og mun hvar sem er verja þá stefnu, að það sé nauðsynlegra og skynsamlegra að verja þessu fé til þess að greiða úr fyrir þessu fólki, en að kasta því í verðbólguhítina, eins og hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkar virðast nú fyrirhuga, — kasta því í þá botnlausu verðbólguhít, sem fram undan blasir.

Það verður tækifæri til þess síðar að ræða um þessi atriði öll miklu nánar. En það, sem er þegar komið fram af upplýsingum um heildarúrræði ríkisstj., gefur sannarlega ekki glæsilega mynd af því, hvert stefnir í þessum efnum.

Hæstv. forsrh. minntist nokkuð hér áðan á afstöðu stéttasamtakanna ýmissa til þessara tillagna hæstv. ríkisstj. Ég skal ekki fara langt út í það atriði, en ég get ekki stillt mig um að benda á eitt í því efni.

Alþýðuflokksmennirnir, er eiga sæti í Alþýðusambandsstjórn og nú mæla með þessari ráðstöfun af hendi hæstv. ríkisstj. að fella niður 10 vísitölustig, hafa áður komið mikið við þessi mál og á mörgum stöðum og það er ekki langt síðan þessir menn gengu svo langt, að þeir synjuðu gersamlega um að vera með því að fresta í einn mánuð að greiða út 17 vísitölustig, á meðan fyrrv. ríkisstj. athugaði efnahagsmálin. Þeir sögðust ekki hafa umboð til þess að gera slíkt. En það eru þessir sömu menn, sem þannig neituðu þá, sem nú mæla með því, að niður séu felld þessi 10 vísitölustig. Ég get ekki stillt mig um að benda á þetta til þess að sýna ósamræmið í vinnubrögðum þessara manna. Og því miður er þetta ósamræmi ekki einsdæmi. Það á við um fleiri, þó að það í þetta skipti komi fram af þeirra hendi. Þetta er að tíðkast hér í stéttasamtökunum, að menn taka afstöðu til málanna alveg án tillits til málavaxta, eingöngu eftir því, hvernig kringumstæðurnar eru að öðru leyti, hver í hlut á, snúa þannig snældunni sinni, allt eftir því t.d., hverjir fara með stjórnina, en ekkert eftir því, hvað raunverulega hentar fyrir það fólk í samtökunum, sem þeir hafa umboð fyrir. Því miður á þetta ekki eingöngu við um þessa menn, því fer fjarri.

Þá vil ég minnast á eitt nýmæli, sem kemur fram í sambandi við þessi mál og er ákaflega þýðingarmikið. Ég gat um það í upphafi, að menn hefðu mjög sannfærzt um það, að nauðsynlegt væri að slíta vísitöluna úr því nána sambandi, sem hún hefur verið í við kaupgjald og verðlag. Um þetta hafa nú engin samtök fengizt og þótt hér sé frv. um að fella niður 10 vísitölustig, þá er það nú ekki þannig, að með því sé þetta samband slitið til nokkurrar frambúðar.

En í sambandi við þessi mál, bæði þetta frv. og samningana, sem gerðir hafa verið við framleiðendurna við sjávarsíðuna, kemur það nú fram, að fiskverð til sjómanna er í fyrsta skipti tengt vísitölunni. Og enn fremur mun það vera nú í fyrsta skipti í þeim samningum, sem gerðir hafa verið við framleiðendasamtökin, að gert er ráð fyrir því að endurskoða rekstrargrundvöll framleiðslunnar og bæturnar, sem framleiðendur fá, ef grunnlaunahækkanir verði eða vísitöluhækkanir á því tímabili, sem samið er fyrir. Ég held, að ég fari með rétt mál, að þannig sé frá þessu gengið. Hér er sem sagt verið að tengja nýja liði í þjóðarbúskapnum við vísitöluna, sem áður hafa ekki verið tengdir við hana. Nú skal ég út af fyrir sig ekki fella neinn dóm um það, hvort þetta sé rétt eða rangt, því að það má margt um það segja. Það má t.d. segja, að sé kannske eina leiðin til þess, að augu manna opnist fyrir því, að vísitalan er ómögulegur mælikvarði, þegar til lengdar lætur, að tengja einmitt fleiri og fleiri liði við hana, til þess að þetta komi skýrt í ljós. Sumir líta svo á. En hvað sem um þetta er að segja, þá er nú stefnt að því að tengja þarna nýja liði, fiskverðið til sjómannanna og uppbæturnar til framleiðslunnar, við vísitöluna og enn fremur ákvæði um að endurskoða uppbæturnar til framleiðslunnar, ef almennar grunnkaupshækkanir verði. Þegar nú lagt er út á þessa braut, sýnist mér, að það verði að vinna að því, að í þessu verði fullt samræmi, en á það sýnist mér skorta mjög í sambandi við þetta mál. Við vitum, að bændur hafa á undanförnum árum gjarnan viljað geta hreyft afurðaverð sitt oftar en einu sinni á ári, en verðið hefur verið bundið við kaupgjald í landinu og vísitöluþróun, en þeir hafa ekki fengið þessari ósk sinni framgengt. Nú sýnist það alveg sjálfsagt, að þegar nýjar stéttir fá sínar tekjur bundnar við vísitöluna og ákvæði um að endurskoða oftar en einu sinni á ári, þá gildi alveg sama um bændur eins og fiskimenn og framleiðendurna við sjóinn.

Mér sýnist alls ekki samræmi í þessum ákvæðum, eins og þau eru í frv., og sýnist rík nauðsyn að endurskoða þann þátt í frv., sem fjallar um afurðaverð landbúnaðarins og færa þann þátt algerlega til samræmis við það, sem gert er ráð fyrir varðandi tekjur fiskimanna. Í því sambandi virðist mér líka þurfa að skoða gaumgæfilega samningsákvæðin við framleiðendurna við sjóinn og leita líka samræmis við þá samninga, að í þessu verði að vera fullt samræmi.

Einnig vil ég benda á alveg sérstaklega, að afurðaverð til bænda er ekki núna í dag í samræmi við grunnlaun í landinu og vísitölu, eins og hún er í dag, og ekki heldur í samræmi við þá samninga, sem nú hafa verið gerðir við framleiðendur við sjávarsíðuna. Þetta liggur í því, að almennar grunnkaupshækkanir hafa átt sér stað, eftir að landbúnaðarverðið var ákveðið s.l. haust. Mér sýnist alveg óhjákvæmilegt að leiðrétta þessa skekkju í sambandi við þetta mál og færa hér alla á sama grundvöll, einmitt núna, ekki sízt þegar það er tilgangur löggjafans að brjóta blað í þessum málum og byrja nú á nýrri vísitölu og nýju kerfi, þar sem ástandið í dag sé kallað hundrað og svo reiknað út frá því. Er náttúrlega alveg óhjákvæmilegt, að bændur séu þá jafnt settir og launastéttirnar og framleiðendurnir við sjóinn, þegar byrjað er. Þannig er það ekki í dag, og þannig mundi það ekki verða, ef frv. yrði samþykkt eins og það liggur fyrir núna.

Hér er um þýðingarmikið réttlætismál að ræða og sanngirnismál, því að það er ekki um annað talað, en að allir sitji við sama borð. En á hinn bóginn geri ég ekki ráð fyrir, að hér sé um stórar fjárhæðir að ræða í heild, samanborið við þær miklu fjárhæðir, sem um er fjallað í sambandi við samninga við aðra framleiðendur og aðrar stéttir yfirleitt. Í þessu sambandi vil ég einnig vekja athygli á nauðsyn þess að hafa ýtarlega samráð við Stéttarsamband bænda í sambandi við endurskoðun á þessum lagaákvæðum og treysti ég fjhn. d., sem væntanlega fær þetta mál, til þess að ganga ýtarlega í þetta.

Í frv., eins og það liggur fyrir, er gert ráð fyrir að lækka kaupgjald sem svarar 10 vísitölustigum og afurðaverð sem svarar 10 vísitölustigum og enn fremur marga aðra liði tilsvarandi. Ég saknaði þess, að hæstv. forsrh. gaf ekki yfirlit um, hverju þessar lækkanir mundu nema í ýmsum dæmum, sem væri þó ákaflega nauðsynlegt að fá upplýsingar um. Ég saknaði þess t.d., að hann gaf ekki upplýsingar um það, hversu mikið húsaleigan mundi lækka samkvæmt þessum ákvæðum eða hvernig ætti að koma þeirri lækkun í framkvæmd, heldur ekki hvað verðlag yfir höfuð mundi lækka mikið vegna breytinga á erlendum vörum, t.d. hversu mikið bifreiðataxtar mundu lækka o.s.frv. En mér sýnist höfuðnauðsyn, að þetta liggi fyrir og einmitt líka uppgjör á því dæmi, hversu mikið þessar lækkanir samantaldar mundu þá hafa áhrif á vísitöluna, því að eftir því fer að sjálfsögðu, hvort stjórnin þyrfti að koma að þeim áætlunarlið að auka niðurgreiðslur enn eða ekki.

Ef þessar lækkanir komast ekki í framkvæmd og nægja ekki til þess að brúa bilið eða til þess að mæta þeim vísitölustigum, sem þarna ber á milli, þá hefur stjórnin áætlað, að því er hún segir, að auka enn niðurgreiðslurnar. Þá mundi það að sjálfsögðu enn auka útgjöldin í kerfinu í heild og auka hallann, sem við er að glíma.

Þá er það að segja um þessar niðurgreiðslur, að þær eru mjög tvíeggjað vopn. Stjórnin hefur nú lagt í að greiða niður 13 vísitölustig, og það er stórkostleg framkvæmd út af fyrir sig og orkar að sjálfsögðu mjög tvímælis. En ég ætla ekki að gagnrýna það atriði út af fyrir sig. En ef verður haldið lengra á þeirri braut að greiða niður, þá eykst enn ósamræmið í verðlaginu, sem af niðurgreiðslunum stafar og það er mjög vafasöm braut að ganga á lengra, en stjórnin hefur þegar gert og það veit ég að hæstv. ríkisstj. hlýtur að vera vel ljóst.

Og þá mun það koma fram enn greinilegar en áður, að niðurgreiðslurnar mismuna stéttunum. T.d. er bændum það mjög óhagstætt, að niðurgreiðslur séu auknar mjög gífurlega, því að þeir fá lækkun á tekjum sínum við niðurgreiðslurnar, en í raun og veru enga lækkun á kostnaðarliðum á móti.

Ég álít, að það sé alveg hiklaust komið á fremstu nöf, sem hægt sé að bjóða mönnum varðandi niðurgreiðslur, með þeim 13 stigum, sem stjórnin hefur nú þegar lagt út í að greiða niður og það sé því meira en neyðarbrauð, ef það ætti að fara að auka enn niðurgreiðslurnar, hvernig sem á það mál er litið.

Ég hef nú farið nokkrum orðum almennt um efnahagsmálin og stjórnmálaviðhorfið, eins og það er í dag, og drepið nokkuð á þetta frv., sem fyrir liggur, og skal nú láta máli mínu lokið.

En ég vil aðeins að lokum segja það, að framsóknarmenn hafa ekki trú á því, að þessi ríkisstj. eða öllu heldur stjórnarflokkarnir, sem að henni standa, nái þeim heildartökum á efnahagsmálum, sem þörf er á. Til þess sýnist okkur of ógiftusamlega stofnað til þessarar stjórnarmyndunar yfirleitt. Afstöðu sína til einstakra atriða í tillögum ríkisstj. mun Framsfl. móta eftir því, hvort hann telur þau ganga í rétta átt og geta að gagni komið, þegar á allar ástæður er litið.

Meginefni þessa frv., að fella niður 10 vísitölustig, tel ég ganga í rétta átt, ef það reynist liður í áætlun gegn verðbólgunni, sem í heild getur staðizt og er framkvæmanleg.