29.10.1958
Sameinað þing: 6. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í D-deild Alþingistíðinda. (1891)

14. mál, votheysverkun

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Fyrirspurnum hv. 2. þm. Eyf. verður sjálfsagt svarað af öðrum en mér, en mér komu þær dálitið undarlega fyrir sjónir. Það var skipuð nefnd til þess að rannsaka súgþurrkunina og rafmagnseyðslu í sambandi við hana. Hún hefur sent álit, það er prentað í Frey, og vafalaust hefur þingmaðurinn séð það. Það hefur verið falið verkfæranefnd og tilraunaráði búfjárræktar að rannsaka heyverkunaraðferðir, sem talað var um í þál. frá 1955. Það er búið að prenta um það tvær skýrslur, — þeim hefur verið útbýtt til þingmanna frá verkfærakaupanefnd, — þar sem gerð er grein fyrir því, hvað hafi verið gert í votheysgerðinni og hvernig sé verið að reyna að vinna að því að rannsaka, hvernig ódýrast sé að vinna vothey í samvinnu af bændum. Sums staðar hefur tilraunaráð búfjárræktar tekið upp tilraunir með að gefa vothey til að rannsaka nánar viðvíkjandi þessari veiki, sem kennd er við það af ýmsum og það nokkuð með réttu, því að þessi veiki, sem gengur undir ýmsum nöfnum, Hvanneyrarveiki og votheyseitrun o.s.frv., o.s.frv., kemur á hverjum vetri upp nokkuð viða á landinu og á ýmsum stöðum. Þegar maður telur saman í nokkur ár þá staði, sem hún hefur komið upp á, sýnir það sig, að hún er tíðari þar, sem vothey er gefið, heldur en þar, sem ekki er gefið vothey. Hún kemur fram hér um bil i sjö tilfellum af hverjum 10 á bæjum, sem vothey er gefið á, en hún kemur líka í þremur tilfellum af hverjum tíu á bæjum, sem aldrei hafa séð vothey og aldrei hafa gert vothey og ekki gefið fénu vothey. Það er því ekki út af fyrir sig votheyið, sem þar er orsökin, enda þótt það virðist svo sem votheysgjöfin skapi þær aðstæður, að veikin er tíðari þar, sem vothey er gefið, heldur en þar, sem ekki er gefið vothey.

Þetta liggur allt fyrir, og að þessu er unnið enn, tilraunum með að gefa sauðfé vothey, þar sem annar hópurinn fær tómt vothey og hinn ekkert vothey, þær standa enn yfir, eru á þriðja ári, og bráðabirgðaniðurstaða af tilraununum, sem búið er að gera, hefur verið birt árlega, svo að þetta hefur allt saman legið fyrir. En þingmaðurinn er nú ekki sérstakstaklega á landbúnaðarsviðinu. og þess vegna náttúrlega leggur hann meira til hliðar það, sem snertir landbúnaðinn sérstaklega, heldur en önnur mál, svo að ég get skilið, að þetta hafi farið fram hjá honum.

Annars skilst mér, að till., sem núna liggur fyrir, sé nú fyrst og fremst fram komin af því, að mönnum hrjósi hugur við þessu misæri, sem alltaf kemur annað slagið fram í landbúnaðinum og stafar oft jöfnum höndum af sprettuleysi og litlu grasi þar af leiðandi eða óþurrk og þá stundum litlu og lélegu fóðri þar af leiðandi, og að flm. vilji láta reyna að finna ráð til þess, að það aukist þekking á heyverkunaraðferðum meðal almennings, sem geti dregið úr þessu misæri í heyskapnum, sem alltaf kemur fram annað slagið og hefur sjálfsagt komið fyrir svo lengi sem búskapur hefur verið stundaður hér á landi.

Ég held nú, að það séu margar ástæður til þessa og þurfi að athuga margt í sambandi við það, þegar á að ræða um að reyna að fyrirbyggja, að svona öldugangur verði í heymagninu, sem fæst á sumri, eins og hefur verið, og ég vil benda nefndinni, sem fær málið til meðferðar, á nokkur atriði einmitt í því sambandi.

Ég vil fyrst benda henni á það, að t.d. í sumar er það ákaflega greinilegt, að einn þátturinn í því, að illa spratt og lítil hey urðu í sumum héruðum landsins, var það, að áburðurinn kom allt of seint og var of seint borinn á. Það eru til sveitir hér á landi, sem ekki voru búnar að fá neinn áburð heim til sín 7. júní í sumar, — og að ætla að fara að bera á áburð eftir þann tíma til þess að fá sprettu sæmilega snemma til að slá, nær ekki átt. Áburðinum er að mestu fleygt. Vafalaust má gera margt til þess að fyrirbyggja, að þetta komi fyrir. Bændurnir hafa kannske vanrækt að panta, þó er það nú ekki alls staðar, sem það hefur verið, það hafa verið flutningserfiðleikar o.s.frv. Ég skal ekki segja, hvað um hefur verið að ræða á hverjum stað, ég hef ekki rannsakað það í einstökum tilfellum, en mönnum þarf að vera það ljóst, öllum, sem hlut eiga að máli, að þeir þurfa að bera fyrr á, en hér átti sér stað í vor sem leið, ef snemma á að slá.

Annað, sem hér kemur ákaflega mikið við sögu, er sprettuleysi á túnum vegna kala. Það er hægt að rekja ákaflega lítið heyfall til kals í túnum, eins og á árunum 1948, 1949, 1950 og 1951, og eins var víða í sumar og mörg og mörg ár önnur. Hér er áreiðanlega hægt að gera ákaflega mikið til bóta, og hér getur bæði einstaklingurinn og það opinbera stutt að, að breyting verði á.

Mjög víða sér maður kalið af því, að það hefur verið vanrækt að hafa nógan vatnshalla á nýræktarlandinu. Meiri hluti kalsins, sem maður sá í sumar, var þannig til kominn. Stundum er hann líka til kominn af því, að það hafa legið skaflar lengi fram eftir og runnið kalt vatn úr þeim yfir grasið, sem hefur verið í byrjun gróanda, og svo komið frost á nóttunni og þá komið þar svokallað vatnskal. Hvort tveggja þetta má fyrirbyggja með því að koma halla á hallalausa landið og eins með því að grafa smárásir neðan við skaflinn, sem taki við vatninu og leiði það burt, án þess að það renni yfir brekkurnar fyrir neðan. Svo bar líka allvíða á bruna í túnum vegna vatnsleysis. Ef við förum aftur í tímann til áranna á milli 1880 og 1890 og allt fram undir aldamótin, þá var það algengt, að menn veittu vatni á tún, þar sem svo hagar til, að það var hægt, þegar langvarandi þurrkar voru. Að þessu var þá gert of mikið, og túnin útvötnuðust fyrir það og hættu að spretta. Þess vegna hættu menn því. En þegar þetta var gert í hófi, bætti það, og enn þá er hægt að gera það, þar sem hægt er að koma því við, til að fyrirbyggja bruna í túnum og sprettuleysi þess vegna.

Loks er svo að viðhafa aðferðir, sem gera það að verkum, að hægara veitist að verka grasið af jörðinni og geyma það í því ástandi, að það geti verið tiltækt í fóður að vetrinum handa skepnunum. Þar kom súgþurrkunin til greina og kemur, og þar kemur votheysgerðin til greina. Nú hefur verið reynt á margan hátt hér á landi bæði að útbreiða þekkingu manna á þessu tvennu og á þann hátt styðja að því, að menn gerðu meira að því að koma þeim tækjum upp hjá sér, sem til þess þarf að geta verkað grasið sem vothey eða þá þurrkað það í hlöðu með súgþurrkun. Það er þess vegna, held ég, ekki hægt fyrir nefndina að finna frekari leiðir til þess út af fyrir sig, en að ná til bændanna og segja þeim: Það er gott að gera vothey, — benda þeim á menn, sem hafa gert vothey árum saman, að í fyrrasumar ekki sumarið sem leið, heldur í fyrrasumar eru yfir 60% af öllum heyjum í Kirkjubólshreppnum verkuð sem vothey og fénu á mörgum bæjum ekki gefið annað en tómt vothey, og dettur engum manni í hug að tala um annað en gera það, — benda þeim á, að sama hefur átt sér stað á Ingjaldssandinum og víðar og víðar, svo að það er ekki neitt nýtt við það. Það þarf að segja þeim þetta aftur og aftur, og það getur vel verið, að það verði enn að segja þetta frá nefndinni og það verki eitthvað, fleiri bætist í hópinn, sem geri vothey. Þetta er það, sem alltaf er verið að segja og prédika.

En aðstæðurnar eru nú þannig, að það eru ekki til víða geymslur til að búa til votheyið, og það má vera, að nefndin gæti lagt til málanna eitthvað, sem gagn yrði að. Alþ. hefur gert það áður með því að styrkja votheysgeymslur með jarðræktarstyrk, sem er tiltölulega hærri, en á aðrar jarðræktarframkvæmdir, sem styrktar eru, nema bara opnu, vélgröfnu skurðirnir. Með því vildi Alþ. reyna að ýta undir, að það yrði byggt sem mest af votheysgryfjum, til þess að menn gætu verkað vothey og síður yrði hætta á þessu misæri, sem kemur annað slagið í heyskapinn vegna óþurrka.

En það gæti stigið sporið lengra. Að hækka þennan styrk enn, væri hægt, en það er mjög vafasamt, hvort það verkar. Það hafa verið gerðar áður á Alþ. tilraunir á þann hátt að ýta undir ákveðnar framkvæmdir með því að hafa styrki til þeirra tiltölulega hærri, miðað við stofnkostnað, heldur en á öðrum framkvæmdum, og það hefur verkað litið. En það væri hugsanlegt, eins og málum er nú komið, að stöðva heilt ár — með fyrirvara þó, — öll lán úr ræktunarsjóði til annarra framkvæmda, en súgþurrkunarhlaðna og votheysgryfja. Það væri ekki hægt að gera það, nema gera það þannig lagað, að bændurnir vissu fyrir sig fram, að þetta ár þýddi ekki fyrir þá að leggja í framkvæmdir, byggja t.d. ný fjárhús eða ný fjós eða annað þess háttar, það þýddi ekki, því að þeir gætu ekki fengið neitt lán.

Ég held, að það væri kannske það eina, sem hægt væri að gera til þess að ýta verulega undir framkvæmdir, að beina lánastarfseminni til framkvæmda í búnaðinum eingöngu að þessu eitt ár. Þá væri hvort tveggja, að bændurnir ættu víst að fá lán til þessara framkvæmda, og þá væri líka hægt að skipuleggja framkvæmdirnar á vissum svæðum, svo að þær gætu orðið ódýrari og hagkvæmari, en þær ella yrðu. Ég sé ekkert annað ráð til þess að koma fljótt upp á mörgum stöðum votheysgryfjum og súgþurrkunartækjum, sem þurfa bæði að verða miklu almennari, en þau eru núna, heldur en að beina lánastarfseminni að þessu ákveðna efni, til dæmis í eitt ár. En sem sagt, það verður að gerast með fyrirvara, svo að menn ráðist ekki að ófyrirsynju í að byrja á verkum í þeirri von, að þeir geti fengið lán og fái það svo ekki, þegar til kemur. Það er ekki hægt; það verður að gera það með fyrirvara, svo að þeir fái að vita það fyrir sig fram, að árið 1959 eða 1960 verður lán, sem veitt verður úr ræktunarsjóði, ekki veitt til annars, en að auka heygeymslur og súgþurrkunartæki, svo að menn geti betur verkað sín hey, hvernig sem viðrar, og komizt meira yfir það misæri, sem núna er í heyskapnum, heldur en hefur verið undanfarandi ár.