29.10.1958
Sameinað þing: 6. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í D-deild Alþingistíðinda. (1895)

14. mál, votheysverkun

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð út af ummælum 2. þm. Skagf. (JS). — Sjónarmið bændanna til votheysgerðar eru ákaflega misjöfn. Og kannske verður þeim bezt lýst með því að nefna dæmi. Um þetta leyti haustið 1955, þegar óþurrkarnir voru hér sunnanlands, kom ég á stað, þar sem bjuggu tveir aldraðir menn, um fimmtugt, kvenmannslausir með lítið bú. Það var til á bænum gömul votheystóft, steypt niður í hól, langt frá húsum. Þeir áttu þá úti yfir helming af töðunni sinni. Og þegar ég spurði þá, hví í ósköpunum þeir notuðu ekki tóftina, sem var sæmileg, þó að hún væri gömul, var svar þeirra þetta: Það er svo erfitt að ná heyinu upp úr henni að vetrinum, að þeir létu töðuna heldur hrekjast. — Þetta var þeirra sjónarmið. Og þetta sjónarmið er til víða. Votheysgeymslurnar þurfa að vera hagkvæmari, bæði hvað snertir að láta í þær og taka úr þeim.

Þegar drapst yfir helmingurinn af fénu á einum bæ í Kelduhverfinu fyrir einum fimm, sex árum úr votheyseitrun, en ekkert vothey var gefið og ekkert gefið annað en þurrhey, þá datt engum manni í hug að fara að hætta að verka þurrhey, þó að þessi veikindi hefðu komið þarna upp og drepið svona margt. Það minntist enginn maður á það. Það er um allt land verkað þurrhey á hverjum einasta bæ, þó að kæmi þarna upp veiki og dræpi helminginn af fénu og væri nákvæmlega sama bakterían að verki eins og er við votheyseitrunina og þó að bóndinn, sem ég hafði minnzt á í viðtali við hv. þm., missti um 10% af sínu fé og segði, að það væri mjög tilfinnanlegt, þá sagði hann í sama bréfinu og hann lýsti því fyrir mér: Mér dettur ekki í hug annað, en að gera vothey áfram. — Og í hreppnum, sem hann býr í, hefur vothey verið gert í mörg ár og gefið mikið til eingöngu á mörgum bæjum. Ég kom t.d. á einn bæ í þeirri sveit núna í haust, þar sem ekki var gefið neitt þurrhey neinni kind í fyrravetur nema hrútunum, þeim var gefið þurrhey, hinum öllum gefið vothey, og í þeirri sveit hafa frá 2.3 upp í 2.5% af fénu drepizt að vetrinum úr veiki, sem þeir kenna votheyinu. Það er ekki meira í allri sveitinni. Og svoleiðis er það víðar, þar sem menn eru komnir upp á að gera vothey sæmilega. Meginið af því fé drepst nú annan veturinn hjá þessum bónda, sem 2. þm. Skagf. vitnaði í. Það er alveg rétt, að það er hræðslan við þetta hjá mörgum, sem gerir, að þeir gera ekki vothey. Það hefur verið ýtt á hana af ýmsum að ástæðulausu. Ef votheysverkun er vönduð, þarf ekki að koma verulegur skaði af þessari veiki. Það sýna þær sveitirnar, sem lengst eru komnar með að gefa það sauðfé. Það væri náttúrlega ákaflega mikils virði, eins og þm. tók fram, ef leið fyndist til þess að fyrirbyggja, að það ástand skapaðist í vömb kindarinnar, að þessi baktería, sem er í hverri einustu kindarvömb, fái yfirráð og myndi það eiturefni, sem lami kindina og geri hana veika. En á meðan maður ekki þekkir, hvaða ástand það er, er náttúrlega ekki hægt við því að gera, en það er náttúrlega ákaflega mikils virði, ef það fyndist og hægt væri að fyrirbyggja það.