22.01.1959
Neðri deild: 60. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Engum, sem hlustað hefur á þessar umr., getur dulizt, að efni þessa frv. væri réttast lýst með því að kalla það frv. til l. um greiðslu íslenzku þjóðarinnar á vanskilavíxli fyrrv. hæstv. ríkisstj., V-stjórnarinnar svokölluðu. Það er að vísu leitt að þurfa að taka á sig skuldir óskilamanna. En því miður þekkja landsmenn það of vel ýmsir, að menn hafa látið flekast til þess að skrifa upp á víxil hjá óreiðumanni, sem fagurlega talaði og þóttist hafa fullar hendur fjár, lofaði gulli og grænum skógum, en hljóp svo frá öllu saman, gafst upp, þegar kom að skuldadögunum.

Alveg þetta sama hefur nú skeð í okkar þjóðarbúi. Þjóðin blekktist til þess að fela fyrrv. hæstv. ríkisstj. umboð til þess að fara með sín mál, og hún verður eftir réttum landslögum að taka því að borga óreiðuskuldirnar, sem hún hefur skilið eftir sig.

Það kann nú e.t.v. að virðast hart mælt að segja um svo göfuga menn sem setið hafa í ríkisstj., að þeir séu óskilamenn og óráðsíumenn, en því miður verður ekki hjá því komizt, þegar litið er á þær staðreyndir, sem fyrir liggja.

Fyrsta skyldan, sem hvílir á þeim, sem tekur á sig reikningshald fyrir aðra, ekki sízt, ef um mikla fjármuni er að ræða, er að hafa reikningshaldið glöggt og þannig, að fjárhaldsmennirnir sjálfir átti sig á því, hversu mikið fé þeir hafa undir höndum og hvernig því er ráðstafað. Það er ekki hægt að rekja allt, sem fram hefur komið um reikningshaldið hjá þessum herrum í umr. hér á undan í dag. Ég skal aðeins rekja 2–3 dæmi. Hæstv. forsrh. sagði frá því, að sérfræðingur í fjmrn. hefði skýrt sér frá því, að hæstv. fyrrv. fjmrh. hefði rangtalið tekjurnar á fjárlagafrv., sem hann lagði fram, um rúmar 80 millj. kr., og hann sagði, hæstv. forsrh., að fyrrv. hæstv. fjmrh. hefði vitað um þessa upphæð, áður en hann fór frá völdum, 80 millj. kr. vantaldar. Hæstv. fyrrv. fjmrh. vildi að vísu ekki viðurkenna þetta. En ef velja á milli þessara tveggja, hæstv. forsrh. og hæstv. fyrrv. fjmrh., þá hygg ég, að engum þm., jafnvel framsóknarmanni, detti frekar í hug að trúa fyrrv. hæstv. fjmrh. en hæstv. forsrh. Hæstv. fyrrv. sjútvmrh. sagði að vísu, að hann hefði verið blekktur, en hann vildi ekki trúa því, að hæstv. fyrrv. fjmrh. hefði blekkt sig svo mikið, að hann hefði lumað á 80 millj. kr.

En hvað upplýsti sjálfur hæstv. fyrrv. sjútvmrh. í sinni grg., sem við vorum að ljúka við að hlusta á? Hann sagði, að greiðsluafgangur ársins 1958 væri rétt talinn 60–70 millj. kr., og taldi, að hans flokksbræður hefðu að vísu haldið, að heldur væri rúmt áætlað, en þó vitanlega ekki komið til hugar, að skekkjan væri jafnmikil og hér kom fram. En með þessu var ekki allt talið. Hann sagði frá því, að ríkisstj. hefði fengið undir hendur auk þessa afgangs einhverjar 63 millj. kr., sem alls ekki hefði verið reiknað með og hv. Alþingi hefur aldrei verið skýrt frá, hvernig fengjust né með hverjum hætti hefur verið ráðstafað, fyrr en hæstv. fyrrv. sjútvmrh. upplýsti það nú hér áðan og þá var þeim ráðstafað, þessari smáaukagetu, 63 millj. kr., þannig, að meiri hluti atkv. var látinn ráða í ríkisstj. um úthlutun þessa smábita, sem mun vera algert einsdæmi innan ríkisstj., a.m.k. kannast ég ekki við frá minni reynslu, að þvílík aðferð hafi nokkurn tíma verið viðhöfð og hvað sem við segjum að öðru leyti um vald ríkisstj., þá er það ljóst, að ef hana greinir á um svo stórkostlega fjárhæð, þá er skylda hennar að leggja úrskurð í þeim ágreiningi undir þingheim, en taka það ekki í sínar eigin hendur, sérstaklega ef þinginu er haldið óvitandi um, að þessir peningar yfirleitt séu til.

Eftir frásögn hæstv. sjútvmrh. hefur hæstv. fyrrv. félagsbróðir hans því lumað á sýnu hærri upphæð en 80 millj. kr. og ráðstafað með fullkominni óheimild 63 millj. kr. þar af. Þetta er vitnisburður þessara manna sjálfra um það, hvernig þeirri frumskyldu, að hafa glöggt reikningshald, hefur verið framfylgt í tíð fyrrv. hæstv. ríkisstj.

Og það var þá ekki heldur fögur lýsingin hjá hæstv. fyrrv. fjmrh., hv. 1. þm. S-M., á því, hvernig hann skilur við almannasjóði, sem sumpart lúta undir hann eða a.m.k. félagsbræður hans í fyrrv. ríkisstj. Hann taldi upp nokkra sjóði og sagði, að þær stofnanir væru allar í gersamlegu fjárþroti og þær væru í slíku fjárþroti, að ekki væri annað sýnna, en fjöldi manna mundi missa íbúðir sínar, vegna þess að ekki væri hægt að standa við þau fyrirheit, sem þeim hefðu verið gefin um lán úr þessum sjóðum. Og hann bætti því við um hag þjóðarbúsins, að við blasti botnlaus verðbólguhít.

Slíkt er ástandið að eigin sögn þessa hæstv. ráðh., þegar hann lætur af völdum og er hann þó ekki einn um þann vitnisburð. Hann getur fengið staðfestingu á því hjá hæstv. fyrrv. forsrh., hv. þm. Str., sem það eitt hefur lagt til þessara mála á Alþingi í vetur, þegar hann kom hingað og sagðist vera hlaupinn af hólmi, hafa gefizt upp, vegna þess, eins og hann sagði, að „ný verðbólgualda er skollin yfir“. Og hann bætti því við, að í ríkisstj. hans hefði ekki orðið samstaða um nein úrræði í þessum málum, sem gætu stöðvað hina háskalegu verðbólguþróun, sem verður óviðráðanleg, ef ekki næst samkomulag um þær raunhæfu ráðstafanir, sem lýst var yfir að gera þyrfti, þegar efnahagsfrv. ríkisstj, var lagt fyrir Alþingi á s.l. vori.

Þannig tók hæstv. fyrrv. forsrh. til orða í uppgjafaræðu sinni hinn 4. des. Þar með skýrði hann frá því, að sér hefði verið ljóst, að það vantaði í bjargráðin svokölluðu hinar raunhæfu ráðstafanir. Þessir menn hafa því allan tímann verið vitandi um, hvað verða mundi, ef ekki væri að gert, en þeir hafa ekki lagt málið fyrir Alþingi. Þeir hafa leitað til annarlegra stofnana, en til Alþingis hafa þeir ekki leitað nema til þess að hafa þær gagnkvæmu ásakanir í frammi, sem við höfum heyrt hér í dag, þar sem hver reynir að gera sinn hlut mikinn með því að kenna hinum um. Það er ekki von, að vel fari, þegar þannig er unnið.

Það er mjög fróðlegt að heyra, hvernig þeir kenna hvor öðrum um, samþingismennirnir úr Suður-Múlasýslu. Hæstv. fyrrv. sjútvmrh. fór ekki dult með það, að hann taldi aðalorsök núverandi fjárhagsörðugleika íslenzku þjóðarinnar vera lélega fjármálastjórn á undanförnum árum. Það þarf ekki að ræða um, hvert hann beindi þeirri ásökun. Þingheimur og þjóðin eru í þessu tilfelli sammála hv. 2. þm. S-M. Þó að menn telji hann hafa rangt fyrir sér í mörgu, þá eru þeir honum sammála í því, að ein af höfuðorsökunum til þess, að svo illa er komið sem komið er, er frammistaða hv. 1. þm. S-M. Þar er fleira, sem kemur til, en enginn sakfellir þó sjálfan sig eða sjálfan 1. þm. S-M. harðar, en hann sjálfur. Hann vildi kenna kauphækkununum, sem orðið hafa, frá því að bjargráðin voru sett, fyrst og fremst um það, hvernig komið væri. Hv. 2. þm. S-M. játaði, að þessar kauphækkanir ættu nokkurn hlut að, en hann gerði þó tiltölulega lítið úr því. Báðir vildu þeir þó halda því fram, að sjálfstæðismenn hefðu átt aðalþátt í þessum kauphækkunum, og hv. 2. þm. S-M, bætti því við, að ásamt sjálfstæðismönnum hefðu þar verið að verki Alþýðuflokksmenn, en hv. 1. þm. S-M. sagði, að það hefðu verið sjálfstæðismenn og stjórnarandstæðingar í öðrum flokkum. Ja, ef það eru stjórnarandstæðingar, sem staðið hafa fyrir kauphækkunum að undanförnu, stjórnarandstæðingar fyrrv. hæstv. ríkisstj., þá held ég, að hv. 1. þm. S-M. staðfesti þar með þá fullyrðingu síns gamla samstarfsblaðs, Þjóðviljans, að hann sjálfur hafi allra manna helzt viljað fyrrv. hæstv. ríkisstj. feiga, því að af öllum Íslendingum er enginn einn maður, sem hér á meiri sök eða frekar ber að þakka eftir því, hvernig menn vilja líta á þær kauphækkanir, sem orðið hafa og urðu í valdatíð fyrrv. hæstv. ríkisstj.

Mönnum er ekki enn fallið úr minni, hver það var, sem fyrst hækkaði kaupið, eftir að kaupbindingarlögin voru sett í ágúst 1956. Þá var það fyrirtæki, sem þáverandi hæstv. fjmrh. er valdamesti maðurinn í og varaformaður, Samband ísl. samvinnufélaga, sem hljóp fram fyrir skjöldu og á sama tíma og almenningi var talin trú um, að kaupbinding ætti sér stað, hækkaði kaupið við sína starfsmenn um 8%.

Þannig byrjaði sú saga, og hvernig endaði hún? Hún endaði í september 1958, þegar einn nánasti samstarfsmaður og flokksbróðir hæstv. fyrrv. fjmrh., deildarstjóri hans í fjmrn., var sendur á fund í bæjarstjórn Reykjavíkur og lagði til, að umsvifalaust væri fallizt á kröfur um 12% grunnkaupshækkun Dagsbrúnar, þó að vitað væri, að Dagsbrúnarmenn sjálfir hefðu aldrei ætlað sér að krefjast svo mikillar kauphækkunar og semdu um sýnu lægri kauphækkun fáum dögum síðar. En það má spyrja: Er hv. þm. sjálfrátt, veit hann þá, hvað hann er að gera? Hv. þm. hefur sjálfur sagt í ræðu nýlega, að hann skildi ekki, sér væri óskiljanlegt, hvernig núverandi hæstv. ríkisstj. hefði verið mynduð og að Alþfl. skyldi hegða sér eins og hann gerir. Ég er hræddur um, að það sé ýmislegt fleira, sem þessum hv. þm. sé óskiljanlegt, að hann viti ákaflega lítið um, hvaða áhrif hans eigin gerðir og athafnir hafa haft í fjármálalífinu fyrr og síðar. Það er sagt, að miklu valdi sá, sem upphafinu veldur, en hér er ekki einungis, að hv. þm. hafi valdið upphafinu, hann rak líka lestina og hann kom líka við sögu inn á milli.

Fyrsta kauphækkunin, sem gerð var eftir setningu bjargráðanna í vor, var kauphækkun til nokkurra iðnaðarmannafélaga hér í Reykjavík. Það var vitað, að upphaf þess máls var loforð, sem kommúnistar og samstarfsmenn þeirra í Járnsmíðafélagi Reykjavíkur, framsóknarmenn, gáfu í vetur um, að þeir skyldu knýja fram kjarabætur. Og meðan á þessari deilu stóð, mælti Tíminn, málgagn hv. þm., beinlínis með þessari kauphækkun.

En það er rétt, að það er einn hópur manna, sem þessi hv. þm. hefur sérstaklega fjandskapazt við og þar á hann sammerkt við hv. 2. þm. S-M., og það eru íslenzku farmennirnir. Þeir hafa ætíð staðið á móti því, að þeir menn fengju leiðréttingu mála sinna, og ég segi beinlínis: fengju leiðréttingu mála sinna — vegna þess að kauphækkunin, sem gerð var við þá í sumar, var nauðsyn, af því að það var sannað með vottorði efnahagsráðunautar ríkisstj., Jónasar Haralz, að þessir menn hefðu orðið harðar úti vegna áhrifa bjargráðanna, heldur en nokkrir aðrir. Þess vegna var óhjákvæmilegt, að þeir fengju á þessu réttingu. Og hæstv. ríkisstj. féllst á, að sér hefði yfirsézt og samþykkti hækkun á farmgjöldum, til þess að eigendum skipanna yrði mögulegt að inna þessar greiðslur af hendi. Þannig viðurkenndi hún sína eigin sök. En hegðun hennar var svipuð og vant er. Hún stóð á móti því og krafðist þess, að yfirlýsingu Jónasar Haralz, sem sýndi fram á, að þarna var einungis verið að leiðrétta það, sem rangt hefði verið gert, væri haldið leyndri. Ef mönnunum var í raun og veru alvara með að standa á móti kauphækkunum, þá áttu þeir vitanlega að leggja áherzlu á, að þessi skýrsla, þetta sönnunargagn, kæmist til vitundar sem flestum, svo að það yrði ekki fordæmi fyrir kauphækkunum öðrum til handa. Hvernig stóð á því, að þeir skildu þetta ekki, það skal ég ekki segja, nema það komi til, að hæstv. þáverandi fjmrh. hafi ekki skilið þetta fyrirbrigði frekar, en flest önnur fyrirbæri þjóðlífsins á seinni árum.

Hv. 2. þm. S-M. hefur ekki orð á sér fyrir að vera öðrum mönnum opinskárri, en hann hafði þó hreinskilni til þess að viðurkenna það, sem samþingismaður hans neitar, að aðalorsök kauphækkananna í sumar var auðvitað setning bjargráðanna. Bjargráðin, eins og þau voru ákveðin, og ekki sízt þegar lögboðin var 5% grunnkaupshækkun, hlutu að verða hin mesta eggjun til kauphækkana, sem nokkurn tíma hefur heyrzt frá íslenzkum stjórnarvöldum.

Það tjáir ekki fyrir hv. fyrrv. stjórnarflokka að kenna sjálfstæðismönnum um, hvernig komið er í þessum efnum. Þeir hafa haft öll völd og áhrif hér í landi að undanförnu. Við höfum raunar heyrt af umr. í dag, að það er ekki ýkja mikið, sem þessir menn eru sammála um, og sannleikurinn er sá, að það er auðvitað vonlaust, að stjórn, sem er svo ósammála í grundvallaratriðum eins og kom fram í ræðum þeirra þm. S-M., geti nokkru góðu til vegar komið. Til þess skortir hana allar forsendur. En um eitt voru þeir þó sammála, og það var að halda sjálfstæðismönnum utan við öll völd. Til þess var stjórnin mynduð og það er eftirminnilegt og mun lengi verða til þess vitnað, þegar hæstv. þáv. forsrh., Hermann Jónasson, fór í kjördæmi sitt í ágústlok í sumar og kunni þar fyrst og helzt frægðarverk að segja af þáv. hæstv. ríkisstj., að hún hefði gert verulegar ráðstafanir til að víkja til hliðar sjálfstæðismönnum, þ.e.a.s. helmingi þjóðarinnar.

Já, það er mikið hugsjónamál og háleit verkefni, sem stjórnendur þjóðfélags taka sér fyrir hendur, þegar þeir hafa helzt að hrósa sér af því, að þeir hafi unnið að því að víkja samborgurum sínum til hliðar, hvað þá þegar samborgararnir eru ekki færri en svo, að þeir eru nánast helmingur allrar íslenzku þjóðarinnar. Þetta var það eina, sem þeir voru sammála um, og þess vegna getur engan furðað, þó að svo sé komið sem komið er.

Eins og ég sagði áðan, þá blasti það við, þegar hæstv. fyrrv. ríkisstj. sagði af sér, að ný verðbólgualda var skollin yfir og fyrrv. stjórn kom sér ekki saman um nein úrræði. Þetta var að vitnisburði hv. þm. Str. sjálfs. Slíkt var ástandið, þegar leitað var til okkar sjálfstæðismanna um að reyna að mynda ríkisstj. í stað þeirrar, sem hlaupið hafði af hólmi, þegar hún sá framan í afleiðingu eigin verka. Þá fengum við í hendur þau gögn, sem fyrir okkur hafði verið haldið ætíð þangað til, þær skýrslur og upplýsingar, sem margir sérfræðingar hafa unnið að mánuðum og árum saman að undanförnu. Við fengum þessi gögn í hendur fyrir góðvild og milligöngu herra forseta Íslands. Eftir að við höfðum haft þessar skýrslur til rannsóknar í nokkra daga, þá lögðum við fyrir hina flokkana frumdrætti að því, hvernig við teldum að leysa ætti þetta mál. Frá þeim frumdráttum hefur verið skýrt í samþykkt, sem gerð var í flokksráði sjálfstæðismanna hinn 18. des. s.l., og leyfi ég mér — með samþykki hæstv. forseta — að lesa þau atriði upp:

„Við athugun á þeim gögnum um efnahagsmálin, sem flokkurinn fékk í hendur fyrir rúmri viku fyrir milligöngu forseta Íslands, er staðfest, að ástandið í þessum efnum er svo alvarlegt, að ráðstöfunum til stöðvunar sívaxandi verðbólgu má með engu móti skjóta á frest. Það er ótvírætt, að þjóðin notar meiri fjármuni, en hún aflar og verður að taka afleiðingunum af því til þess að tryggja efnahagslegt öryggi sitt í framtíðinni.

Flokkurinn hefur lagt áherzlu á að finna þau úrræði, er þrautaminnst væru fyrir almenning, en væru þó um leið líklegust til þess að stöðva vöxt verðbólgunnar. Er það mat flokksins, að eftirgreindar ráðstafanir samrýmist bezt þessu tvíþætta markmiði: Launþegar afsali sér 6% af grunnkaupi sínu, og verð landbúnaðarvara breytist vegna hliðstæðrar lækkunar á kaupi bóndans og öðrum vinnutilkostnaði við landbúnaðarframleiðsluna. Þó verði grunnlaun engrar stéttar lægri en þau voru, þegar efnahagsráðstafanir ríkisstj. tóku gildi á s.l. sumri. Yrði sú leið farin að lækka vísitöluuppbótina sem þessu nemur, mundi sú ráðstöfun ekki hafa áhrif á verð landbúnaðarvara fyrr en næsta haust, en lækkun grunnkaups leiðir þegar í stað af sér lækkun landbúnaðarvara. Er því lækkun grunnkaupsins, mun líklegri til árangurs, en skerðing vísitöluuppbóta. Við þetta mundi vísitala lækka um 6–7 stig. Gera mætti þá ráð fyrir óbreyttum uppbótum til sjávarútvegsins, og sú hækkun á vöruverði vegna kauphækkana í október, sem enn er ekki fram komin, mundi falla niður eða varla nema meiru en 1 stigi. Til þess að halda vísitölunni í 185 stigum, yrði að auka niðurgreiðslur á vöruverði sem næmi 10–12 stigum. Séu niðurgreiðslur ekki auknar umfram þetta, ætti ekki að þurfa að hækka beina skatta og almenna tolla. Jafnhliða þessum aðgerðum verður þegar í stað að gera ýmsar aðrar ráðstafanir, svo sem í bankamálum og fjárfestingarmálum, til þess að forðast verðbólgumyndun úr þeim áttum.

Ráðstafanir þessar til stöðvunar verðbólgunnar eru aðeins fyrsta skrefið til jafnvægisbúskapar og heilbrigðrar þróunar í atvinnulífi þjóðarinnar.“

Þetta er sá kafli samþykktar okkar, sem fjallaði um efnahagsmálin og við lýstum því yfir, að ef þetta fengist ekki, því skilyrði yrði ekki fullnægt, að tafarlaust yrðu gerðar ráðstafanir til þess að stöðva verðbólguna, þá gætum við ekki tekið þátt í stjórnarmyndun, ásamt öðrum skilyrðum um breytingu á kjördæmaskipun og kosningum þegar í stað.

Svo reyndist, að það var ómögulegt að ná þingmeirihluta öruggum fyrir samþykktum okkar lágmarksskilyrða. Við gáfumst því upp við okkar stjórnarmyndun. En ég vil benda á það í þessu sambandi, að þau atriði, sem ég hef lesið upp, afsanna gersamlega þá fjarstæðu, sem hv. 1. þm. S-M. hélt hér fram, að við hefðum talið, að það eitt mundi nægja til að lækka kaupið sem svaraði 6%. Það var aðeins einn liður af mörgum, sem við bentum á, og því miður skildi hann og hans félagsbræður við ástand þjóðmálanna í miklu lakara ástandi en svo, að það eitt nægi að lækka grunnkaupið um 6%. Það er að vísu nauðsynlegur þáttur í því, sem gera þarf, en aðeins einn þáttur af mörgum. Og ef til vill er margt enn þá erfiðara, sem þjóðarinnar bíður af völdum þessara manna, heldur en það, þó að hún horfist í augu við þá staðreynd, að kaupið verður í einu eða öðru formi að lækka sem þessu nemur.

Í sambandi við þessar umr., sem áttu sér stað á milli flokkanna, bar margt á góma. M.a. ræddum við, við Framsfl. alveg eins og hina flokkana. En það er öruggt, að í þeim viðræðum, sem þá áttu sér stað, minntust framsóknarmenn alls ekki á myndun þjóðstjórnar. Það var ekki fyrr en þeir sáu, að þeir voru úr leik, sem þjóðstjórnarhugmyndin kom upp í kollinum á þeim háu og valdagírugu herrum. Ef hv. framsóknarmenn meintu það í raun og veru, að það væri rétt leið og óumflýjanleg fyrir velfarnað íslenzku þjóðarinnar, svo sem þeir tala nú, að þjóðstjórn væri mynduð, hefði þá ekki hæstv. fyrrv. forsrh., Hermann Jónasson, reynt að beita sér fyrir slíku, á meðan hann var við völd, og hefðu hv. framsóknarmenn ekki nefnt slíkt við okkur í umr., sem við áttum við þá, ef þeim þá hefði komið það til hugar? Það er rétt, að myndun þjóðstjórnar var þá aðeins nefnd. En hún var nefnd af okkur sjálfstæðismönnum, hvort mögulegt mundi vera að ná þjóðstjórn um okkar lágmarksskilyrði, sem öll horfa til þjóðarheilla.

Það vita allir, að núverandi kjördæmaskipun er svo úr sér gengin og ranglát, að hún fær ekki staðizt til lengdar. Það viðurkenna jafnvel framsóknarmenn. Þeir vita einnig, að þeir eru í mjög miklum minni hluta með sínar sérkreddur í því máli. Ef þeim hefði verið og væri nokkur hugur á raunverulegu þjóðarsamstarfi, þá hefðu þeir að sjálfsögðu fallizt á það að setja þessa sérkreddu sína til hliðar og ganga til samstarfs við aðra flokka um það, sem vitað er að yfirgnæfandi meiri hluti þings og þjóðar er sammála um. En þjóðstjórnarhugmyndin kemur fram fyrst og fremst í tvennum tilgangi. Annars vegar til þess að reyna þannig að koma kjördæmamálinu fyrir kattarnef og hins vegar til þess að reyna að fá kosningum skotið á frest sem allra lengst, því að margt eru þessir herrar hræddir við, eins og sást, þegar þeir hlupu af hólmi hinn 4. des. s.l., en við enga eru þeir hræddari, en sína eigin kjósendur. Það er líka von. Það er kjósendahræðslan, sem gerir það að verkum, að þeir vilja umfram allt reyna að fresta kosningunum fram á síðasta dag, sem heimilt er eftir íslenzkum stjórnskipunarlögum. En ekki á ég að gæta samvizku þessara manna.

En hafa þeir nú ekki svikið nóg, meðan þeir voru við völd, þó að þeir taki ekki upp á því að svíkja það líka að fara að vinna með sjálfstæðismönnum á kjörtímabilinu? Þjóðin veit ósköp vel, að þeir lofuðu að vinna hvorki með kommúnistum né sjálfstæðismönnum á kjörtímabilinu, sem hófst í júní 1956. Haraldur Guðmundsson var gerður útlagi úr íslenzkum stjórnmálum vegna þess, að hann var sendur í útvarpið fyrir hönd beggja Hræðslubandalagsflokkanna til þess að lýsa þessu yfir og hv. 1. þm. S-M. fór um allt land, m.a. í hvern hrepp í sínu eigin kjördæmi og sagði, að ekki kæmi til mála að vinna með kommúnistum. Hv. 2. þm. S-M. leiðréttir mig, ef ég fer rangt með. Hann hlustaði á hann nefnilega. (Gripið fram í: Þingmanninum hefur nú ekki þótt þetta góð heimild fram að þessu, en það hefur lagazt.) Jæja, illa trúi ég honum, en verr hv. 1. þm., sem nú kallaði fram í. En við heyrum það sem sagt, að hv. 1. þm. S-M, reynir að afsaka sig með því, að ekki sé að marka, hvað 2. þm. muni segja, og þá veit hann, hvað hann muni segja. Á sjálfan kosningadaginn birtist Tíminn með stóra yfirlýsingu um það, að ekki yrði unnið með hinu svokallaða Alþýðubandalagi, vegna þess að kommúnistar væru alveg sömu kommúnistarnir, þó að þeir kölluðu sig nýjum nöfnum. Þetta er nokkurn veginn það sama sem við hinir höfum alltaf vitað. En Tíminn gefur á þessu nýstárlega skýringu í dag. Að efni til segir þar, að þegar kommúnistar vinna með framsóknarmönnum, þá eru þeir Alþýðubandalag, en þegar þeir vilja ekki vinna með þeim, þá eru þeir kommúnistar. Það er eins og erlendur maður, sem hefur fylgzt hér vel með málum, sagði við mig í desember. Hann sagði: Hefurðu tekið eftir merkustu fréttinni, sem hefur staðið í blöðunum nú langa hríð. Það er það, að í fyrsta skipti kallar Tíminn Alþýðubandalagið kommúnista, eftir að stjórnin var mynduð í júlí 1956.

Svikasaga hv. 1. þm. S-M. verður seint rakin til hlítar og ætla ég mér ekki þá dul að gera það hér í kvöld. Til þess mundi ekki endast fundartími. En þegar það lá fyrir, að ekki var hægt að mynda meirihlutastjórn um þau lágmarksskilyrði, sem við sjálfstæðismenn settum og töldum að þjóðinni væru nauðsynleg, þá varð vitanlega að kanna aðra möguleika. Þá var, eins og ég segi, þjóðstjórnarhugmyndin enn ekki hlaupin út úr kollunum á Framsfl. Það var ekki fyrr en þeir sáu, að þeir réðu ekki lengur við Alþfl.

Hv. 1. þm. S-M. tók svo til orða áðan, að sjálfstæðismenn hefðu fengið Alþfl. til að mynda stjórn. Við sjáum af þessu litla orði hugsunarháttinn, sem þarna er á bak við. Alþfl.-menn eru ekki metnir sem aðilar, er geti tekið sjálfstæða ákvörðun eða hafi eiginlegar skoðanir, heldur verði að fá þá til þess að gera hlutina. Það er eins og um börn eða um aðra slíka, sem ekki eru sjálfum sér ráðandi, væri að ræða. En það er einmitt þetta, sem hefur einkennt samband hv. 1. þm. S-M. og hans félagsbræðra við samstarfsflokk sinn, Alþfl. Ég drap á það áðan, að hv. 1. þm. S-M. hefði sagt í ræðu og látið hafa það eftir sér ekki alls fyrir löngu, að sér væri óskiljanleg hegðun Alþfl., að hann skyldi ekki halda áfram að vera í bandi hjá Framsókn. En ætli þetta sé ekki ein höfuðskýringin, að Íslendingar una því ekki, að neinn taki yfir sér húsbóndarétt. Þó að Alþfl. hafi gert bandalag við Framsfl., bandalag, sem að vísu var ekki til góðs gert og hefur líka endað núna í samræmi við sinn uppruna, þá ætluðu þeir sér aldrei að seljast mansali, eins og framsóknarherrarnir auðsjáanlega bjuggust við. Það var alveg eins og haft var eftir hæstv. forsrh. ekki alls fyrir löngu á fundi í hans flokksfélagi, að Framsókn fékk alveg nóg fyrir sinn snúð. Það hefur verið upplýst og er játað, að Framsfl. hafi fengið út á þetta bandalag 4–5 þm., sem þeir hefðu ekki fengið kosna, ef réttar reglur hefðu verið viðhafðar, Alþfl. þó ekki nema 1 eða 2. En Framsókn vill nú alltaf fá meira í sinn hlut en aðrir, eins og við þekkjum og eins og við sáum á ráðstöfuninni á 63 milljónunum, sem hv. 2. þm. S-M. var að fræða okkur um hér áðan. (Gripið fram í.) Við sjálfstæðismenn fengum Alþfl. ekki til þess að mynda sína ríkisstj. Alþfl. leitaði til okkar, eins og a.m.k. Framsfl. og e. t. v. kommúnista, um það, hvort við vildum styðja minnihlutastjórn hans. Að athuguðu máli sannfærðumst við um, að það væri eina ráðið, sem tiltækilegt væri til þess að forða Alþingi og þjóðinni frá utanþingsstjórn. Ég játa að vísu, að núv. hæstv. ríkisstj. er eftir eðli sínu ekki sterk stjórn. Eins og hæstv. forsrh. hefur sagt, þá er hún einungis bráðabirgðastjórn, sem starfar vegna þess, að meiri hluti Alþingis hefur ekki komið sér saman um myndun ríkisstj. Og það er algerlega rangt, sem hv. 1. þm. S-M. gerir, þegar hann kallar Sjálfstfl. stjórnarflokk. Við erum ekki stjórnarflokkur, nei, við erum það ekki. ( Gripið fram í: Er nokkur ástæða til þess að afsaka sig?) Það er engin ástæða til þess að afsaka sig, en það er mjög eftirtektarverð þessi spurning og þessi undrun hv. þm. Hann er nefnilega vanur því að taka ætíð nokkuð fyrir snúð sinn. Hann telur útilokað, að við viljum styðja aðra í því að gera gott verk án þess að njóta þeirra hlunninda, sem eru að hans dómi fólgin í því að vera stjórnarflokkur. Það er vitað mál, að hv. 1. þm. S-M. hefur sagt á mörgum flokkssamkundum hér í Reykjavík og úti um land, að eitt mætti aldrei fyrir Framsókn koma og það er að vera utan stjórnar. Og það er skelfingin yfir því, sem gerir honum nú margt svo torskilið ofan á það, sem áður var í þeim efnum.

Það liggur alveg ljóst fyrir, að við og Alþfl. höfum gert samning um framgang tiltekinna mála. Við höfum fengið loforð fyrir því, að nýjar kosningar skuli fara fram svo fljótt sem við verður komið. Og þær nýjar kosningar eru þingræðisleg og lýðræðisleg nauðsyn af ýmsum ástæðum, m.a. þeim, að fyrrv. stjórnarflokkar hafa komið þjóðmálunum í það öngþveiti, að sjálfsagt er, að kjósendum gefist kostur á að kveða upp sinn dóm og segja til um, hvernig héðan frá skuli stefnt, en einnig vegna þess, að með yfirlýsingum sínum um það, að þeir vildu ekki vinna með öðrum flokkum, sem þeir gáfu, Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur, fyrir síðustu kosningar, þá gerðu þeir í raun og veru allt eðlilegt þingstarf nánast ómögulegt. Samstarf við þá af hálfu annarra flokka er ómögulegt, nema því aðeins að það sé byggt á svikum. Það má að vísu segja, að ekki komi okkur það við, þó að gagnaðilinn svíki. En það samstarf, sem á slíku er byggt, kann ekki góðri lukku að stýra. Flokkur hæstv. forseta hér í d. reyndi að vinna með flokkunum þrátt fyrir þessa yfirlýsingu. Ég geri ráð fyrir því, að hann sjái nú, að það var hans flokki og þjóðinni til lítilla heilla, að í það svikafen var lagt. En þeir um það að gæta sinnar æru. Sjálfstæðismenn vilja ekki taka upp samvinnu við menn, sem hafa heitið því frammi fyrir kjósendum, að með þeim skuli ekki unnið. Þeir verða sjálfir að koma fram fyrir kjósendurna og afturkalla loforð sín um að vinna ekki með öðrum flokkum, áður en hægt er að taka upp frambúðarsamstarf við þá. Þess vegna er samstarf okkar og Alþfl. fyrst og fremst byggt á þeirri forsendu, að kosið verði eins fljótt og unnt er og það er meginforsenda af okkar hálfu. En til viðbótar kemur það, að hin óhjákvæmilega breyting stjórnarskrárinnar gerir að verkum, að kjósa verður svo fljótt sem það mál og önnur nauðsynleg þingmál eru afgreidd og vetrarríki er lokið.

Varðandi efnahagsmálin, þá hygg ég, að hæstv. forsrh. hafi lýst því á fyrsta starfsdegi ríkisstj. sinnar, að við höfum heitið að verja þá vantrausti, meðan þeir leituðust eftir því að leysa þann vanda, sem efnahagsmálin voru komin í. Þetta er það, sem við erum nú að gera og í skilningi þessa metum við það frv., sem hér liggur, liggur fyrir. Við játum það, að þetta frv. er á ýmsan veg annað, en við hefðum sjálfir lagt til, ef við hefðum ráðið því. Það er ekki óeðlilegt. Hér er um tvo ólíka flokka að ræða. En þó er aðalatriðið það, að þetta frv. er aðeins byrjun á miklu meira, sem gera þarf og það verður að meta algerlega eftir því og það er vegna þess, að svo langt sem það nær, er það rétt byrjun, sem við sjálfstæðismenn munum veita því okkar stuðning. Í því, sem ég las upp áðan úr flokksráðssamþykkt sjálfstæðismanna frá 18. des. s.l., gat ég þess, að við hefðum talið réttara beinlínis að lækka grunnkaupið en að skerða vísitölu, eins og þó var lagt til í þessu frv. En ég viðurkenni, að hæstv. ríkisstj. hefur náð því, sem við töldum mestu máli skipta í því sambandi og í upphafi var talið miklu erfiðara eftir þeirri leið, sem stjórnin lagði, heldur en eftir okkar og það er að tryggja samhliða skerðingu vísitölunnar allsherjarlækkun á framleiðsluvörum innanlands og öllum tilkostnaði. Þessu hefur hæstv. ríkisstj. náð, þó að hún færi að þessu leyti aðra leið, en við lögðum til og þess vegna tel ég, að það komi að þessu leyti í einn stað niður.

Hins vegar játa ég, að ég hefði talið eðlilegra, að allt það vandamál, sem hér er við að glíma, væri afgreitt í einu, að einstök atriði þess væru ekki afgreidd eitt og eitt sér, eins og hæstv. ríkisstj. hefur talið sig neydda til að gera. Ég viðurkenni, að þeirri aðferð hefði sennilega fylgt það, að eitthvað kynni að hafa dregizt, að bátaflotinn léti úr höfn eftir áramót, og það er mjög mikilsverður ágalli og ég skil mjög vel viðleitni hæstv. ríkisstj. til þess að koma flotanum sem fyrst á veiðar. En ég er mjög hræddur um og sé þegar af umræðunum í dag, að málið verður gert flóknara og erfiðara til skilnings fyrir allan almenning með því að setja menn ekki hreinlega frammi fyrir þeirri staðreynd, sem við blasir og er óhjákvæmileg, að ef ekki verður samþykkt eitthvað svipað sem lágmark og hér er gert, þá er ómögulegt að halda við atvinnurekstri á Íslandi nema með því, eins og sagt hefur verið, að til botnlausrar verðbólgu sé stofnað og hættan, sem því er samfara, er svo mikil, að þótt menn séu ósammála um flest, vill þó enginn gerast talsmaður þess.

Þess vegna hygg ég, að það hefði verið eðlilegra að setja alla útgerðarmenn, sjómenn, verkamenn, alþm. og allan landslýð frammi fyrir þeirri staðreynd: Vilja menn það til vinna til að firra vandræðum, sem að beztu manna yfirsýn, er óhjákvæmilegt lágmarksskilyrði? Þá var engrar undankomu auðið, þá urðu menn að svara já eða nei. Hæstv. ríkisstj. hefur talið e.t.v., að slíkt væri of áhættusamt, hafi verið of seinvirkt. Hún kann að hafa nokkuð til síns máls í þessu. En þá lendir hún einnig í þeirri hættu, að ábyrgðarlausir menn efni til vandræða og skemmdarverka, sem þeir hefðu ekki þorað að fremja, ef þeir hefðu ótvírætt verið settir frammi fyrir afleiðingum sinna eigin verka. Nú spretta þeir upp, nógu mikilmannlegir í tali og stórir í orðum, þm. S-M., og kenna hvor öðrum um, hvernig komið er og láta okkur hina fá dálítinn bita af kökunni, sem þeir rétta hvor til hins. En ef þeir hefðu þurft að standa frammi fyrir því, sem var orðin afleiðing af þeirra stjórnarháttum undanfarin ár, að hér var allt komið í stöðvun, þá hefði mælgin e.t.v. ekki orðið alveg eins mikil.

Og við eigum nú eftir að sjá, hvernig atkvæðin falla um þessi þjóðnytjamál, sem ákvörðun þarf að taka um. Eins og ég sagði, þá er þetta frv., sem nú liggur fyrir, í meginatriðum í samræmi við þau lágmarksskilyrði, sem við sjálfstæðismenn settum um stöðvun verðbólgunnar. Ég skal þó játa, að ástandið er nokkru lakara, en við höfðum ætlað eftir þeim skýrslum, sem fyrir okkur voru lagðar. Þá gerðum við ráð fyrir, að hægt væri að koma útgerðinni af stað, án þess að hún þyrfti að fá nokkrar verulegar hækkanir. Nú er það sýnt, að hæstv. forsrh. upplýsti í sinni skýrslu, að til útflutningsatvinnuveganna þyrfti 77 millj. kr. í viðbót þess, sem ráðgert hafði verið um miðjan desember.

Hæstv. ríkisstj, hefur unnið að þeim samningum, sem hér eru að baki og ber ábyrgð á þeim. Ég gruna hana alls ekki um að hafa gengið lengra í þeim, en efni standa til og óhjákvæmilegt er, og mig furðar í raun og veru ekki, þó að skeikað hafi um 77 millj. kr. í þessu, þegar það er komið upp t.d., að það dæmi, sem er þó miklu einfaldara, um útreikninga á fjárlögum, að þar skeikar um 80 millj. kr., og um tekjuafganginn á árinu 1958 er, að hann er eftir upplýsingum hv. 2. þm. S-M. (LJós) samtals eitthvað 130–140 millj. kr. í stað þess, að hann væntanlega hefur í fyrstu aðeins verið áætlaðar örfáar milljónir. Hér er um að ræða svo miklar og háar og óvissar tölur vegna þess ólags, sem verið hefur á allri reikningsfærslu og meðferð þessara mála, að valdhöfunum sýnist skjótast yfir smáupphæðir eins og nokkra tugi milljóna. Það er því ekki nema afleiðing þeirrar óreiðu, sem fyrir var, að þarna hefur dæmið orðið nokkru þyngra úrlausnar, en menn ætluðu.

Það verður að horfast í augu við þetta. En það kemur á móti, eins og hæstv. forsrh. upplýsti, að fjárlögin eru stórlega miklu ranglegar áætluð, en menn höfðu gert ráð fyrir, svo að e.t.v. verður heildarmunurinn, þegar allt er skoðað til botns, ekki öllu meiri en menn í fyrstu höfðu ætlað. Þetta er atriði, sem auðvitað verður að skoða nánar, alveg eins og það er eftir að skoða nánar, hvernig afgr. eigi fjárlög. Um það hefur enn þá ekki neitt samkomulag tekizt né viðræðum svo langt komið milli okkar og hæstv. ríkisstj., að von sé á slíku samkomulagi og það er óhætt að segja það hér alveg skýlaust, að sú ímyndun hæstv. fyrrv. fjmrh., að við höfum fallizt á niðurskurð 40 millj. kr. í verklegum framkvæmdum, er hans eigið heilafóstur, en á ekkert skylt við raunveruleikann.

Hitt er okkur öllum ljóst, að það er þörf mikils sparnaðar frá því, sem verið hefur og ég veit, að eftir að þeim tökum, sem Framsfl. hefur haft á ríkissjóðnum, er lokið, þá verður það mál mun auðveldara viðureignar, en verið hefur. Það eru vafalaust margir bitlingarnir, sem þar má skera af, án þess að þjóðin finni til þess, þó að ég efist ekki um, að það komi illa við marga framsóknarherra, það er allt annað mál. (Gripið fram í.) Ja, ég sé, að hæstv. fyrrv. fjmrh. er orðinn allórór, enda undrar mig það ekki, og miklu órórri mun hann þó verða, þegar nálgast kosningar.

En eins og ég segi: það, sem hér er verið að gera, verður einungis að skoðast sem bráðabirgðaráðstöfun. Enn er það þrotabú engan veginn uppgert, sem fyrrv. hæstv. ríkisstj. lét eftir sig. Eins og ég sagði, þá er hér aðeins um að ræða fyrstu afborgun vanskilavíxilsins. Hv. 2. þm. S-M. spurði sérstaklega um það t.d., hvort sjálfstæðismenn væru búnir að samþykkja það að taka lán, sem áætlað hefði verið að taka í Bandaríkjunum. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki borið þetta mál undir okkur, en hitt veit ég, að fyrrv. ríkisstj. var búin að senda a.m.k. einn, ef ekki fleiri, erindreka vestur um haf til þess að reyna að taka þetta lán. Og allir útreikningar allra fyrrv. stjórnarflokka, kommúnista jafnt sem Framsóknar- og Alþýðuflokks, um lausn efnahagsmálanna og tekjumöguleika á næsta ári hvíldu á því, að þetta lán fengist.

Ég játa, að lántökur á borð við það, sem verið hefur að undanförnu, eru ekki heillavænlegar. En gjaldþrotabúi þarf oft að fleyta áfram um sinn með lántökum meira og frekar, en menn kjósa og því miður hefur hæstv. fyrrv. ríkisstj. skilið þannig við, að það er ósköp hætt við því, að eyðslan verði ekki svo skjótlega niður skorin, að hægt sé að komast hjá þessu láni. Ég veit ekki, hvort það verður undir okkur borið. En hæstv. ríkisstj. hefur heimild til þess að taka lánið, og ég bendi hv. 1. þm. S-M. á það, ef hann er ósköp hræddur um það, nú eftir að hann er farinn úr ríkisstj., að hæstv. núverandi ríkisstj. kunni að taka lánið, vill hann þá ekki flytja frv. um það að fella lántökuheimildirnar niður? Það er ósköp einfalt ráð fyrir hann. Hann veit sjálfur mætavel, hv. þm., að sú ríkisstj., sem hann sat í nú um 2½ árs bil, hefði ekki getað lifað fram yfir áramótin 1956–57, ef henni hefði ekki verið haldið við af lánum frá Bandaríkjamönnum. Hann veit þetta ósköp vel. Og það er auðheyrt nú, að hann heldur: Ja, ef ég get komið í veg fyrir, að mínir eftirmenn fái lán, þá get ég þar með slegið þessa stjórn út allt í einu. — Við skiljum ósköp vel, hvert hv. þm. er að fara, hann leynir því ekki, blessaður maðurinn. En munurinn á afstöðu okkar sjálfstæðismanna og hv. 1. þm. S-M. og hans félagsbræðra er sá, að í fyrsta lagi hafa þeir tekið lán, fyrst og fremst til eyðslu, en ekki til þarflegra framkvæmda, og því næst má vel vera, að þeir hafi skilið við þjóðarbúið þannig, að það sé ekki hægt enn um sinn annað, en halda áfram einhverjum eyðslulántökum. Munurinn á starfsháttum sést á því, að meðan þessi hv. þm. var undir handleiðslu minni og minna félagsbræðra, þá var ekki á þriggja ára bili tekið nema 130 millj. kr. lán erlendis móts við það, að nú hefur verið á tæpum 2½ ári tekið nokkuð á sjöunda hundrað millj., þ.e.a.s. fimm sinnum meira á mun styttri tíma. Það er von, að hæstv. þm. fagni ekki þessum samanburði, enda sé ég, að brosið er nú farið að minnka á hans fögru ásjónu. En þó er versti hluti sögunnar eftir, og hann er sá, að þessir hv. þm. tóku lánið undir þeirri forsendu og vitandi það, að það var innt af höndum til þess, að þeir gerðu ekki verknað, sem þeir höfðu skuldbundið sjálfa sig til þess að gera.

Í marz, fyrir tæpum þrem árum, gerðu þessir menn samþykkt um það, að varnarliðið skyldi rekið héðan af landinu. Í árslok 1956 voru þessir menn búnir að fá fyrsta lánið, ef ekki tvö lán, byggð á þeirri forsendu, að frá þessu loforði skyldi horfið. Það er þessi hegðun, sem er, sem betur fer, einsdæmi í íslenzkri sögu, og það hefur aldrei neinn stjórnmálamaður íslenzkur orðið að fara aðra eins göngu og hæstv. þáverandi forsrh., Hermann Jónasson, þegar hann fór í des. 1957 suður til Parísar til þess að lýsa þar yfir á fundi í Atlantshafsráðinu hollustu sinni við það bandalag og vilja til þess að halda því herliði áfram í landinu, sem hann þá einu og hálfu ári áður hafði sagt um, að betra væri að vanta brauð heldur, en láta vera hér kyrrt. En viku eftir að hann hafði gefið yfirlýsinguna fékk hann afhentan hluta Bandaríkjanna af samskotaláninu svokallaða. Það eru því líkar lántökur, sem eru Íslandi til skammar.

Ég játa, að það er leitt að þurfa að taka lán til þess að fleyta sér yfir þann ófarnað, sem hæstv. ríkisstj. hefur komið þjóðlífinu í. En það er þó vitað, að Sjálfstfl. hefur aldrei sett lánamálin í samband við stefnu sína eða skoðun í utanríkismálum. Hann einn hafði kjark til þess 1956 að segja þjóðinni satt og rétt frá um ástand í utanríkismálum og nauðsyn þess að hafa erlent varnarlið í landinu. Sú stefna hefur síðan reynzt rétt, og nú er allur meginhluti landslýðsins sannfærður um, að þetta sé satt. Sem betur fer, hefur ekki þurft að kaupa fólkið til þess að sjá þetta. En hæstv. fjmrh. er einn af þeim, sem létu kaupa sig með erlendum lánum á þennan veg.

Nei, ástandið er því miður þannig, að það er margt ógert til þess að koma málefnum íslenzku þjóðarinnar í það horf, sem þau þurfa að komast. Það, sem nú er verið að gera, er einungis sambærilegt við það, að maður, sem er staddur í skriðu, reyni að ná sér í fótfestu. Það, sem við vonumst eftir að fáist með samþykkt þessa frv., er það, að svigrúm öðlist til þess, að þjóðin fái sjálf færi til þess að kveða á við kosningar, hvað gera skuli og með hverjum hætti og þess vegna höfum við sjálfstæðismenn þegar lýst þeim meginatriðum, sem við teljum að gera þurfi til þess að koma jafnvægi í okkar þjóðarbúskap. Þetta frv. er aðeins upphaf þess, sem gera þarf, til þess að við getum komizt úr því öngþveiti til frambúðar, sem við nú erum í, ekki sízt fyrir tilverknað fyrrv. hæstv. ríkisstj. Um þetta höfum við þegar gert þjóðinni grein fyrir okkar höfuðtill. og óskum þess eins að mega sem allra fyrst fá að mæta frammi fyrir hennar dómstól, til þess að hún kveði á um okkar verk og okkar fyrirætlanir.