12.11.1958
Sameinað þing: 9. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í D-deild Alþingistíðinda. (1916)

17. mál, ríkisábyrgðir

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Á ári hverju eru veittar ríkisábyrgðir fyrir mjög háum upphæðum af ýmiss konar lántökum, bæði opinberra aðila og einnig einstaklinga, og hafa þessar ríkisábyrgðir færzt nokkuð í vöxt fremur en hitt. Ábyrgðir þessar eru með ýmsum hætti, og það má raunar skipta þeim í tvo meginflokka. Annars vegar eru ríkisábyrgðir, sem veittar eru samkvæmt almennum lögum, og eru þær ábyrgðir einkum veittar sveitarfélögum, t.d. í sambandi við hafnargerðir, vatnsveitur og ýmsar aðrar framkvæmdir, og eru þessar ábyrgðir að verulegu leyti þess eðlis, að ríkisstj. getur á hverjum tíma lítil ráð haft um það, hvort þær eru háar eða lágar. Það veltur á því, hvað framkvæmdir og lántökur þeirra aðila, sem rétt eiga á ábyrgðinni, eru miklar. Í hinum flokkinum má segja að séu ríkisábyrgðir, sem veittar eru hverju sinni með sérstökum lögum frá Alþingi, og nema þær ábyrgðir einnig mjög háum upphæðum.

Samkvæmt síðasta ríkisreikningi, sem liggur fyrir, fyrir árið 1956, námu ríkisábyrgðir í árslok það ár 870 millj. kr., og það er engum efa bundið, að nú eru ábyrgðir þessar komnar allmikið yfir 900 millj. kr., ef þær ná þá ekki einum milljarð. Það er ljóst mál, að með þessum ríkisábyrgðum er ríkissjóði bundin töluverð áhætta, enda hefur reyndin orðið sú, að á ríkissjóðinn sjálfan hafa árlega fallið háar upphæðir, og það mjög hækkandi upphæðir, sem orðið hefur að leggja út vegna greiðslu á vanskilalánum, sem ríkisábyrgð hefur verið veitt á. Nemur þessi upphæð nú samkv. áætlun í fjárlagafrv. fyrir árið 1959 30 millj. kr., og er um 10 millj. kr. hækkun að ræða frá fjárlögum ársins í ár.

Það er augljóst mál öllum, að hér er um mjög alvarlega þróun að ræða. Það er hins vegar engum efa bundið, að meginþorri þeirra ríkisábyrgða, sem veittar hafa verið, hefur verið til margvíslegra nytjamála, sem hefur tvímælalaust verið rétt að styðja. En þegar hér er orðið um að ræða jafngáleysilegt fjárhagsatriði og raun ber vitni um, þá hygg ég, að tímabært sé að staldra nokkuð við og íhuga sinn gang og gera sér grein fyrir því, hvort þessum málum er komið fyrir á þann hátt, sem heppilegastur er frá sjónarmiði ríkisins.

Eins og ég áðan gat um, eru ríkisábyrgðir veittar samkvæmt ýmsum sérlögum, og sé ekki til almenn heimild í lögum, þá verður að veita með sérstakri lagaheimild frá Alþingi ríkisstj. heimild til ríkisábyrgðar. En því er ekki að leyna, að þessar ábyrgðir eru með mjög mismunandi hætti, bæði upphæð ábyrgðanna, einnig þær reglur, sem settar eru varðandi tryggingar og ýmis önnur atriði, sem máli skipta.

Það, sem hefur vakað fyrir mér með flutningi þessarar till. hér, er tvennt: Annars vegar það, að íhugað verði rækilega, hversu ástatt er með þessar ríkisábyrgðir allar, rannsakað, hvaða löggjöf um þær gildir og hvaða reglur um það gilda eftir bæði almennum lögum og sérlögum, og á grundvelli þeirrar athugunar verði íhugað, hvort ekki sé tiltækilegt að mynda sér einhverjar almennar reglur, sem farið verði eftir við veitingu ríkisábyrgða, og setja þá almenna löggjöf um það efni. Með almennri löggjöf á ég hins vegar ekki við, að það sé tekið úr hendi Alþingis að ákveða um það, hvort ríkisábyrgð skuli veitt til tiltekinna framkvæmda eða ekki, það álít ég að áfram verði að vera í höndum Alþingis, en hins vegar að reynt verði með almennum lögum að setja reglur um það, hvaða skilyrði uppfylla beri, til þess að ríkisábyrgðir verði veittar, þannig að nokkur festa verði í þessu efni og það tryggt, að eftir því sem föng eru á, verði hér fylgt hliðstæðum reglum við veitingu ábyrgða. Ég geri mér fulla grein fyrir því að á þessu eru ýmis vandkvæði, vegna þess að það getur verið, að ekki sé rétt að veita jafnháa prósentuábyrgð sem ríkisábyrgð í einu tilfellinu sem öðru. En allt þetta þarf auðvitað íhugunar við, og mér er nær að halda, þótt hér séu ýmis ljón á vegi, að það sé þó hægt að mynda almennar reglur, sem gætu verið til leiðbeiningar í þessu efni og komið meiri festu á þessi mál, en nú er. Og hvað sem öllu þessu líður, þá er það tvímælalaus nauðsyn að gera sér til hlítar grein fyrir því, hversu ástatt er með þessar ríkisábyrgðir, sem munu nú nálgast, eins og ég áðan sagði, einn milljarð kr., hvort ekki kann að vera þörf á því að taka þessi mál til athugunar og reyna hér jafnvel eitthvað að spyrna við fótum, eftir því sem tök eru á, eða a.m.k. að reyna að tryggja það, að ríkið verði ekki fyrir áföllum af þessum sökum, sem valdi því stórkostlegum fjárútlátum á hverju ári.

Það eru vitanlega allmörg dæmi þess, að ríkisábyrgðir hafi verið veittar á lánum og beinlínis gengið út frá því, að ríkið yrði að greiða ábyrgðirnar. Þetta held ég að sé röng stefna. Ef það er mat manna, að það verði að veita viðkomandi aðilum aðstoð, þá á hún að veitast í öðru formi, en því að ganga út frá, að mennirnir verði vanskilamenn. Það getur aldrei haft holl né heppileg áhrif. Þessar miklu vanskilaskuldir, sem orðnar eru og eins og menn sjá eru orðið allverulegt alvörumál, þegar útgjöld ríkisins vegna þeirra hækka jafnvel um 10 millj. kr. á einu ári, þær munu, eftir því sem ég bezt veit, í langflestum tilfellum stafa af fjárhagsörðugleikum viðkomandi sveitarfélaga. En einmitt þessar ástæður þarf að kanna, og það þarf að rannsakast, hvaða orsakir í hverju tilfelli liggja fyrir því, að viðkomandi aðilar standa ekki í skilum, og mín skoðun er sú, að fjárhagsvandræði þessara aðila verði að leysa með öðru móti, þannig að þeir geti þá staðið í skilum. Ég efast ekkert um það, að allir þeir aðilar, sem taka lán með ríkisábyrgð, vilja mjög gjarnan geta greitt sínar skuldbindingar, en það eru einhverjir sérstakir erfiðleikar, sem valda því, að þeim er þess ekki kostur. Þessa erfiðleika tel ég að þurfi að rannsaka niður í kjölinn og reyna þá að veita viðkomandi aðilum aðstoð með einhverjum öðrum hætti, þannig að þeir geti áfram staðið í skilum. Með áframhaldandi stöðugum vanskilum er einnig hætt við því, að nauðsynlegt aðhald hverfi, það hefur auk þess ill áhrif á aðra aðila, sem reyna að standa í skilum, og allt leiðir þetta til þess, að hér verður um óheillavænlega þróun að ræða, eins og sú staðreynd enda sýnir, sem ég gat um, að þessi vanskil fara vaxandi ár frá ári. Og það er vitanlega einnig eitt atriði í þessu, sem er mjög erfitt fyrir ríkið, og það er að vita raunverulega aldrei fyrir fram fyrir fjárhagsárið, hvaða skuldbindingar hér kunna að falla á ríkissjóðinn. Það getur munað nokkrum millj. kr. til eða frá, og er þar um mjög alvarlegan hlut að ræða, þegar ekki er hægt að hafa fyrir fram nokkra hugmynd um það, hvað hár tiltekinn útgjaldaliður kann að verða, þannig að það nemi jafnvel á þessum eina lið mörgum millj. kr.

Þetta eru meginsjónarmiðin til þess, að ég hef leyft mér að leggja fram till. á þskj. 31 um undirbúning löggjafar um ríkisábyrgðir, þar sem gert er ráð fyrir, að þetta tvennt verði athugað: Í fyrsta lagi, hvort ekki sé kostur á að setja almennar reglur um veitingu ríkisábyrgða, og þá í því sambandi verður að sjálfsögðu að athuga öll þau lög, sem gilda um ríkisábyrgðir, og í annan stað, að kannaðar verði orsakir vanskila á ríkisábyrgðarlánum og þá leitazt við að benda á úrræði til þess að koma í veg fyrir það, að þau vanskil þurfi að vera.

Ég er þess fullviss, að fyrir öll þau sveitarfélög, sem af fjárhagsörðugleikum hafa neyðzt til þess að láta ábyrgðir falla á ríkissjóðinn, þá er þeim það öllum áreiðanlega miklu ljúfari lausn, ef hægt er að greiða úr þeirra fjárhagsvandræðum með öðru móti en því, að þau þurfi að grípa til þess að standa ekki í skilum með þau lán, sem þessir aðilar hafa tekið.

Ég tel ekki þörf á að orðlengja frekar um málið, en leyfi mér að lokinni þessari umr. að leggja til, að till. verði vísað til fjvn.