25.02.1959
Sameinað þing: 29. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í D-deild Alþingistíðinda. (1920)

17. mál, ríkisábyrgðir

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. S-M. hefur hér rætt allmikið um þetta mál frá ýmsum hliðum og það mjög að vonum, vegna þess að hann hefur um margra ára bil haft með þessi mál að gera og séð um framkvæmd ríkisábyrgða og veitingu þeirra. Ég vil taka það strax fram, að því fer að sjálfsögðu mjög fjarri, bæði hvað snertir mína afstöðu sem flm. þessa máls og fjvn. í heild, að það sé ætlun hennar að stuðla með þessu að því að koma í veg fyrir þá atvinnulegu uppbyggingu, sem átt hefur sér stað eftir þeirri leið, sem hér hefur verið notuð, ríkisábyrgðaleiðinni. Það er áreiðanlega ekki hugsun neins þeirra, sem að þessu máli standa eða með því mæla, að tekin sé upp ný stefna að því leyti til, að leitazt sé við að hefta þessar framkvæmdir og þá aðstoð til atvinnuuppbyggingar, sem veitt hefur verið. Hitt er alveg rétt, að það hefur vakað fyrir mér með flutningi þessa máls og ég hygg einnig fyrir fjvn. með meðmælum með því, að það yrði tekið til ýtarlegrar athugunar, hvort það sé heppilegt að haga þessari aðstoð nákvæmlega á þennan hátt, t.d. hvort það sé heppilegt, þegar það er augljóst og vitað, að ríkisábyrgð hlýtur að leiða af sér það, að ábyrgðarlánið sé að öllu leyti greitt af ríkinu, að það yrði gert eða önnur leið farin til að ná sama tilgangi, því að að sjálfsögðu verður að ganga út frá því, að ríkisábyrgðarheimildir séu ekki veittar af Alþingi, nema það sé mat Alþingis hverju sinni, þegar um sérlög er að ræða, að þar sé um framkvæmdir að ræða, sem horfi til þjóðnytja. Og varðandi hin almennu lög hefur Alþingi einnig sagt sína skoðun á því efni, að það er talið, að þar sé um slíkar framkvæmdir að ræða, sem verði að koma áleiðis. Þetta er því eitt atriðið, sem mér sýnist koma til álita varðandi mat á þessum málum, hvort fara eigi þessa leið til að veita aðstoð eða ef til vill nota einhver önnur úrræði.

Ég man eftir því, að hér á þingi vakti einmitt hv. 1. þm. S-M., sem þá var fjmrh., athygli á því, að hann teldi mjög óeðlilegt að vera að veita í lánaformi ýmsa aðstoð, þegar það væri sýnilegt og ljóst, að það yrði aldrei greitt og menn þannig látnir taka á sig skuldbindingar, sem þeim aldrei væri ætlað að standa við, það hefði ekki holl áhrif. Þetta kann auðvitað oft og tíðum að verða erfitt í framkvæmd. Ég skal t.d. nefna þurrafúalánin, sem hv. þm. minntist á. Það var augljós nauðsyn þess að hlaupa þar undir bagga. En ég álít það þó mjög vafa samt, hvort það hafi verið rétt að láta viðkomandi aðila taka þar lán og semja um þau lán sjálfir og að gengið væri út frá því, þó að þeir tækju á sig þessar lánsskuldbindingar, að það væri aldrei hugsunin, að þeir ættu að borga lánin, því að lánin voru höfð það stutt, að það var vitanlegt, að það kom aldrei til mála, að þeir gætu greitt þau. Og það hefur svo verið beinlínis um samið nú við útgerðina, sem ég tel á allan hátt eðlilegt, miðað við þau atvik, sem þar stóðu til, og þarna var um einstakt óhapp að ræða, að þetta yrði eftirgefið.

Ég nefni þetta aðeins sem eitt dæmi. Ennfremur eru til dæmi þess, að ríkisábyrgðir hafa verið veittar beinlínis með það í huga, að þar væri sama sem um styrk að ræða, og það eru dæmi þess, að það hafi verið gert í fjárlögum, en hins vegar orðað sem ríkisábyrgðarheimild. Ég hygg, að í þessum tilfellum hefði verið alveg eins gott að veita viðkomandi aðila styrk sem þessu nam, úr því að það var ekki ætlunin, að lánið yrði greitt.

Hv þm. minntist á það og það að vonum, að það væru ýmis atriði í þessu efni, sem hann að fenginni reynslu teldi æskilegt að fá upplýst um, hvað hefði vakað fyrir flm. þessarar till., þar sem gert væri ráð fyrir setningu löggjafar um þetta efni, og hvað ætti í þeirri löggjöf að vera. Ég skal fúslega játa það, að ég hef ekki í einstökum efnum gert mér fulla grein fyrir því, hvernig hægt væri að byggja þessa löggjöf upp, enda ef svo væri, þá hefði mátt alveg eins flytja frv. um það, hvernig þessu yrði hagað. En mér sýndist hins vegar hér vera um svo mikið vandamál að ræða, sem hefur verið að undanförnu leyst eftir margvíslegum og mismunandi leiðum, en hefur leitt af sér þessi sívaxandi útgjöld fyrir ríkissjóð, að það væri þess virði, að málið væri tekið til heildarathugunar. Ég skal hins vegar freista að minnast á nokkur þeirra atriða, sem hv. 1. þm. S-M. minntist á.

Það er í fyrsta lagi það, hvort sömu reglur ættu að gilda í öllum tilfellum um það hlutfall kostnaðar, stofnkostnaðar, sem ríkisábyrgð yrði veitt á. Það er beinlínis tekið hér fram í nál. fjvn., að það sé ekki hugsun n., að það verði svo. Hins vegar er að sjálfsögðu eðlilegt, að það gildi sömu reglur t.d. skulum við segja varðandi ábyrgðir í sambandi við kaup fiskiskipa, þ.e.a.s. að sömu reglur gildi um sambærilegar ábyrgðir, en vitanlega fer það svo eftir atvikum og verður að metast af þeim aðilum, sem koma til með að rannsaka þetta mál, hvað sé eðlilegt um hverja tegund ábyrgða að hlutfallið sé hátt. Þá kemur það vitanlega einnig mjög til athugunar, hvort á ekki að setja einhverjar reglur um það, hversu löng lán eigi að vera. Það er vitanlega alveg rétt, að það getur í ýmsum tilfellum, eins og alltaf vill verða, þegar reglur eru settar, skapað viss vandræði og sé þess vegna heppilegra að hafa þetta allt í sem lausustu formi. En ég held nú samt, að það sé nauðsynlegt að reyna að fóta sig á einhverjum reglum, og eftir því sem ég bezt veit, þá hefur fjmrn. raunar reynt að mynda sér einhverjar reglur um veitingu ríkisábyrgða, t.d. varðandi lengd lána, þó að ekki muni hafa verið eftir því farið í öllum tilfellum. En þetta tel ég mjög koma til athugunar í sambandi við slíka löggjöf.

Þá eru vitanlega — eins og ég áðan gat um — margvísleg formsatriði í sambandi við veitingu ríkisábyrgða, sem geta verið almenns eðlis og eðlilegt er að séu í slíkri löggjöf, hvaða kröfur eru gerðar í því efni formlega séð.

Varðandi vextina, þá getur vafalaust verið allmiklum erfiðleikum bundið að setja í löggjöf, að það megi ekki ábyrgjast lán nema með tilteknum vöxtum, vegna þess að það eru svo mjög mismunandi staðhættir um það efni og breyting frá ári til árs, eins og hv. 1. þm. S-M. minntist á, þannig að ég efast um, að það sé möguleiki til þess að setja um það ákvæði, nema þá einhver almenn ákvæði, að þeir megi ekki vera hærri, en eru þá almennir vextir af lánsfé þeirrar tegundar, sem þar er um að ræða, eða eitthvert slíkt almennt ákvæði.

Þá er t.d. eitt, sem er mjög mikilvægt atriði að taka til athugunar og er vitanlega mjög erfitt fyrir rn. sjálft án allra reglna um það efni að vita, hvað á að gera í sambandi við, og það eru viðurlög, ef ekki er greitt. Það mun vera allt saman mjög í lausu lofti um það. Þessum vanskilaskuldum er náttúrlega haldið til haga, þannig að yfir það er haft eitthvert bókhald, en að öðru leyti held ég, að það sé mjög á huldu og óljóst og sennilega erfitt í framkvæmd, hvenær á að grípa til einhverra ákveðinna viðurlaga í þessu sambandi. Er t.d. eðlilegt, að ríkið eignist einhvern eignarhlut í fyrirtækjum, sem borgað er fyrir, meðan ekki er staðið í skilum með það fé, sem ríkið hefur orðið að leggja út? Þetta spursmál kemur upp og ýmis önnur í því sambandi.

Ég geri ráð fyrir því, hins vegar er það auðvitað algerlega á valdi rn. hverju sinni, að það sé haft eitthvert samræmi i því, hversu hart er gengið eftir greiðslu á vanskilaskuldum. En það er þó, meðan allt er án þess, að um það séu nokkrar reglur settar, algerlega á valdi fjmrh. hverju sinni, hvenær hann t.d. lætur selja viðkomandi eignir eða ekki. Og ég efast um, að það sé heppilegt, að það sé á valdi ráðh. að ákveða um það, að það sé raunar ekki heppilegt fyrir hann sjálfan að hafa slíkt vald. Þetta er atriði, sem kemur einnig til álita, og er auðvitað mjög gott, að viðkomandi aðilar, sem ríkisábyrgð fá, viti um öll slík atriði, við hverju er að búast, ef slíkt skyldi henda. Ég skal alveg fúslega láta í ljós þá skoðun mína, að ég álít, að það sé auðvitað sjálfsagt að veita ríkisábyrgðir við uppbyggingu í landinu og greiða fyrir því á þann hátt, eftir því sem föng eru á, að efla allsherjarframfarir í þjóðfélaginu. En það breytir ekki þeirri staðreynd, að menn verða að kunna fótum sínum forráð og gera sér grein fyrir, hvaða skuldbindingar er verið að taka á sig, til þess að átta sig á því, hvaða möguleikar eru til að standa undir slíkum skuldbindingum, þegar til kemur. Og þess vegna tel ég, að það sé mjög mikið íhugunarefni í þessu sambandi, eins og við nú erum langt komnir með þessi mál og hvað er orðið um þungan bagga að ræða, hvort það þurfi ekki að hugsa sér einhver önnur úrræði til aðstoðar, þegar sýnilegt er, að ekki getur orðið um annað, en vanskil, að ræða af hálfu þeirra aðila, sem ríkisábyrgðir fá.

Ég geri alls ekki ráð fyrir því, að það sé hægt að gera þá kröfu, að það liggi ætíð fyrir fullnaðaráætlun um allar þær framkvæmdir, sem ríkisábyrgð yrði veitt fyrir. Það er vafalaust ekki framkvæmanlegt. En hins vegar er auðvitað nauðsynlegt að reyna að gera sér grein fyrir því efni, svo sem kostur er á. Og ég vil í því sambandi vitna til þess, að á síðasta þingi var þál. samþykkt þess efnis að taka sérstaklega til meðferðar hafnargerðirnar, að það yrði reynt að gera áætlanir um nauðsynlegar hafnarframkvæmdir í landinu á næstu árum og það yrði jafnframt tekið til athugunar, hvaða möguleikar væru fyrir því eða hvaða líkur væru fyrir því, að hafnargerðirnar fengju undir risið þeim kostnaði, sem af þessum framkvæmdum leiddi. Nú er í lögum ákvæði um það, að ríkið tekur á sig eða greiðir mismunandi stóran hlut og ábyrgist svo það, sem á vantar, eftir vissum reglum. En ég tel það mjög koma til álita í þessu sambandi, ef það er sýnilegt, að hafnargerðir geti alls ekki borið þann hluta kostnaðar, sem þeim er ætlað að greiða, en hins vegar talið óumflýjanlegt til að halda við atvinnurekstri og byggð á viðkomandi stöðum og það þjóðhagslega skynsamlegt að gera þar höfn, þá beri að endurskoða það, hvort ekki sé eðlilegt, að ríkissjóður greiði þá þegar að sínum hluta stærri hluta hafnarmannvirkisins, ef það liggur ljóst fyrir, að þetta hvort sem er hlýtur að falla á ríkissjóðinn.

Með þeim hætti að taka á sig allt of miklar ábyrgðir, sem raunverulega má ganga út frá að lendi að verulegu leyti á ríkinu, er verið að taka á sig bagga gagnvart framtíðinni, sem kann að verða mjög erfitt að rísa undir. Og því kynni það að vera eðlilegra, að það væri þá veitt meira fé skulum við segja t.d. til atvinnujöfnunar eða í einhverju slíku skyni til þess að hlaupa undir bagga með sveitarfélögum, sem ættu við sérstaka erfiðleika að stríða vegna erfiðra atvinnuhátta eða óvæntra áfalla af einhverjum sökum, til þess að reyna að koma þessum málum í það horf, að hægt væri að reikna með, að ríkisábyrgðalán lentu ekki í vanskilum. Þetta er hins vegar allt saman mjög yfirgripsmikið og flókið mál, eins og hv. 1. þm. S-M, benti réttilega á, en mér finnst þó menn megi ekki mikla fyrir sér erfiðleikana á því svo mjög, að mönnum fallist hendur við að reyna að gera sér grein fyrir því, hvernig þessi mál raunverulega standa, og íhuga a.m.k., hvort ekki er hugsanlegt að finna þessu einhverjar heppilegri leiðir, án þess að með því sé verið að taka fyrir þá mikilvægu aðstoð til atvinnulegrar uppbyggingar, sem ætlunin hefur verið að ríkisábyrgðirnar styddu að.

Ég held, að það séu ekki fleiri atriði, sem var ástæða til þess að minnast á í sambandi við ræðu hv. 1. þm. S-M. Ég geri ekki ráð fyrir, að okkur greini efnislega á um nauðsyn þess, að þessi mál séu tekin sem föstustum tök- um og reynt að finna skynsamlega lausn, því að það er vitanlega orðið mikið íhugunarefni, ef ríkisábyrgðir eru farnar að hækka um milljónatug eða útgjöld vegna þeirra á einu einasta ári. Ef svo horfir um aukningu í því sambandi, þá veit maður ekki á næstu árum, hverju menn kunna að standa andspænis í því efni, og því eðlilegt og ekki nema almenn skynsemi að reyna að gera sér til hlítar rækilega grein fyrir öllum atvikum málsins.