23.01.1959
Neðri deild: 61. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í B-deild Alþingistíðinda. (193)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. 7. þm. Reykv. (HV) hóf hina löngu ræðu sína á því að lesa upp úr blöðum, einum tveimur eða þremur blöðum og hann hafði þau meðferðis og sýndi þau hv. þingheimi. Ég ætla nú að gera hið sama að byrja ræðu mína á því að lesa upp að vísu aðeins úr einu blaði, og ég ætla að láta þennan upplestur verða kjarnann í svari mínu við ræðu hv. 7. þm. Reykv. Ég vona, að hann verði ekki óánægður með það, að ég skuli hafa þennan hátt á því að svara honum, vegna þess að blaðið, sem ég ætla að sækja svarið í, er Vinnan, tímarit Alþýðusambands Íslands og höfundur greinarinnar, sem ég ætla að lesa alla, til þess að ég verði ekki sakaður um að bera fram glefsur, sem séu því tíndar úr samhengi, er sjálfur forseti Alþýðusambands Íslands, sá maður, sem var að ljúka máli sínu. Ég endurtek, að ég vona, að hann verði ekki óánægður með, að svar mitt skuli fyrst og fremst verða þetta. Ég hygg, að hann líti þannig á, að höfundur svarsins sé fullframbærileg persóna og þess vegna mun ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa þessa grein, sem hann skrifaði í nóv. s.l., þá enn verandi félmrh. í fyrrv. ríkisstj.

Það er einnig önnur ástæða til þess, að ég les greinina, og hún er sú, að ég ber það hlýjan hug til hv. þm., bæði eftir 2½ árs samstarf í fyrrv. ríkisstj. og sökum enn þá miklu lengra samstarfs við hann í Alþfl., að ég ekki aðeins ann honum þess, heldur beinlínis vil, að í þingskjölum geymist um hann skynsamlegri ummæli og betri málflutningur en sá, sem hann hafði frammi í hinni löngu ræðu sinni áðan. Og með leyfi hæstv. forseta hefst nú lesturinn:

Fyrirsögnin er: „Verkalýðshreyfingin og samtök bænda geta ein stöðvað dýrtíðarflóðið. Það verður að gerast nú, að öðrum kosti er það um seinan.“ Þetta er fyrirsögnin.

„Nú hefur reynslan sýnt, svo að ekki verður um villzt, að efnahagsmálaaðgerðirnar, sem gerðar voru s.l. vor, hafa reynzt ósvikin blóðgjöf fyrir framleiðsluatvinnuvegi þjóðarinnar. Aldrei höfum við haft þróttmeira atvinnulíf, en síðan þessar ráðstafanir voru gerðar. Vélbátaútgerðin fékk með þessum aðgerðum forsvaranlegan rekstrargrundvöll, togaraútgerðin er nú rekin með nokkrum ágóða, og þau hraðfrystihús, sem sæmilega aðstöðu hafa til hráefnisöflunar, eru nú gróðafyrirtæki. Auglýsingar um, að þetta eða hitt fyrirtæki vanti verkafólk, hafa nú um sinn verið algengustu auglýsingar ríkisútvarpsins, og í haust urðu skólarnir víða að veita unglingum undanþágu frá skólavist, sökum þess að atvinnufyrirtækjum lá við stöðvun, ef unga fólkið hyrfi frá framleiðslustörfunum og settist á skólabekki.

En er það nú víst, að þetta séu ávextir efnahagsmálaaðgerðanna á s.l. vori? Hefði útgerðin ekki verið í fullum gangi, þó að ekkert hefði verið að gert? Enginn, sem nokkuð þekkir til útgerðar, getur látið sér detta í hug, að nokkrum vélbát hefði verið haldið til veiða s.l. sumar, ef útflutningssjóður hefði ekki fengið auknar tekjur til þess að geta veitt vélbátaútgerðinni aukna aðstoð. Og jafnvíst er hitt, að togararnir voru orðnir svo sokknir í skuldir s.l. vor vegna hallarekstrar undanfarinna ára, að þeir voru komnir fast að stöðvun, þegar fiskverðið var hækkað og útflutningssjóði gert fært að stórauka aðstoðina til þeirra. Þar við bættist að vísu, að ný karfamið fundust, svo að afli togaranna hefur verið óvenjulegur seinustu mánuðina. En nú er líka talað um, að togari með meðalafla muni hafa nokkur hundruð þús. kr. tekjuafgang á árinu 1958. Slíkra umskipta hafði lengi verið full þörf.

Það var þessi bætta aðstaða sjávarútvegsins, sem hleypti slíku kappi í útgerðina sem hér hefur verið lýst. Hverri fleytu var ýtt úr vör, og unglingarnir létu hundruðum saman skrá sig á skipin, enda höfðu kjör sjómanna verið stórbætt. Hraðfrystihúsin gengu nú viða í fyrsta sinn fyrir fullum afköstum og þjóðartekjurnar uxu til verulegra muna.

Þetta veldur því, að framleiðsluatvinnuvegirnir hefðu nú getað risið undir því að bera þá 5% kauphækkun, sem lögboðin var, þá vísitöluhækkun kaups, sem leiddi af verðhækkunum efnahagsmálaaðgerðanna í vor og allt þetta án þess að þurfa að afla nýrra tekna framleiðsluatvinnuvegunum til styrktar.

En nú hefur verið látið undan með að hækka vöruálagningu bæði í heildsölu og smásölu, grunnkaup hefur verið hækkað um 69½%, en það þýðir, að með vísitöluhækkuninni hefur kaup verkamanna þegar hækkað um 16.2%, og hjá flestum öðrum stéttum um 12.5%. Fram undan eru svo miklar vísitöluhækkanir og verðhækkanir og víxlverkanir af þessu hvoru tveggja. Þetta þýðir, að verkamannakaup yrði fljótlega að óbreyttu vísitölukerfi rúmlega 20% hærra en það kaup, sem útflutningsbætur voru miðaðar við s.l. vor, en kaup annarra um 17% hærra.

Nú blasir það við, að útflutningsatvinnuvegirnir telja sig ekki geta risið undir svo stórlega auknum tilkostnaði án þess að stöðvast, nema þeim sé enn á ný séð fyrir aukinni aðstoð til að standast kostnaðinn, en sú fjáröflun mundi enn auka dýrtíð og með næsta hausti valda mikilli hækkun landbúnaðarvara. Hækkað verð landbúnaðarvara leiddi svo af sér nýjar vísitöluhækkanir 1. des. haustið 1959, og enn yrði að afla fjár, mikils fjár, til þess að tryggja rekstur framleiðsluatvinnuveganna. Þannig gengi þetta svo koll af kolli.

Nú er flestum orðið ljóst, að þetta er leiðin til glötunar. Þessa braut má ekki renna til enda. Hún liggur fram af hengiflugi og nú er Alþýðusambandsþing að hefjast. Telur það þessa verðbólguleið vera leiðina til sannra kjarabóta? Ef ekki, verður það að þora að spyrna hér við fótum. En hver þorir að beita sér fyrir því?

Og þá er komið að höfuðmeinsemd íslenzkra verkalýðsmála. Hér eru tveir verkalýðsflokkar. Þeir eru á varðbergi hvor gagnvart öðrum. Hvorugur þykist öruggur fyrir yfirboðum hins. Báðum hættir því til að víkja sér undan vandanum, biðjast undan ábyrgðinni. En einasta þjóðfélagsaflið, sem getur stöðvað þessa óheillaþróun, er verkalýðshreyfingin í samstarfi við samtök bændastéttarinnar. Og nú er tækifærið til að bægja miklum voða frá dyrum.

Á þessu Alþýðusambandsþingi eru um 300 fulltrúar núverandi stjórnarflokka og aðeins um 50 stjórnarandstæðingar. Ef stjórnarsinnar samstilla vel kraftana, geta þeir auðveldlega leyst þennan mikla vanda. Aðstaðan til að leysa málið nú, er öll hin ákjósanlegasta. Verðlag erlendra vara á heimsmarkaðinum er stöðugt, verðlag íslenzkra afurða heldur hækkandi, öll okkar framleiðsla selst eftir hendinni, framleiðsla okkar er meiri, en nokkru sinni fyrr. Nú þarf að deila byrðunum á bök allra Íslendinga. Framleiðslan getur sjálf tekið á sig nokkurn hluta byrðarinnar. Ríkissjóður á að sýna nokkra viðleitni til sparnaðar, og auk þess getur hann vel staðið undir nokkurri niðurgreiðslu nauðsynjavara: Álagningu í heildsölu og smásölu á að færa aftur í sömu prósenttölu og s.l. ár. Ríki, sveitarfélög og einstaklingar eiga að draga nokkuð úr fjárfestingu á næsta ári. Bændur eiga að lækka framleiðsluvörur sínar um nokkur vísitölustig, með því eykst sala þeirra,og því eiga verkamenn að svara með því að falla frá nokkrum vísitölustigum af kaupi sínu. Nýja vísitölu á að taka upp í stað þeirrar gömlu. Takmarkið með þessu öllu á að vera það, að kaupgjald og verðlag nemi staðar, þar sem það nú er, svo að atvinnulífið geti haldið áfram án nýrrar tekjuöflunar eftir þessa aðgerð og þjóðartekjurnar geti haldið áfram að vaxa, eins og þær gerðu á þessu ári. Það er raunar það eina, sem tryggt getur varanlegar kjarabætur.“

Með þessu lýkur þessari ágætu grein.

Ég vildi í fyrsta lagi óska þess, að forseti Alþýðusambands Íslands hefði borið gæfu til þess að sýna það þor að beita sér fyrir þessari stefnu á síðasta Alþýðusambandsþing, og það var líka þá og er enn einlæg ósk mín, að tekizt hefði að gera þessa stefnu að stefnu alþýðusamtakanna, þeirra alþýðusamtaka, sem hann þá veitti og veitir enn forustu. En því miður varð það ekki. Innan flokks hans, Alþb., urðu önnur öfl ofan á. Þau sömu öfl, sem beittu sér gegn þeim ráðstöfunum í fyrravor, sem hann hér hælir með sterkum og réttum orðum, þau sömu öfl, sem greiddu atkvæði gegn efnahagsráðstöfununum í fyrravor, sem beittu sér gegn þeim ráðstöfunum, sem hann hér hælir, þau urðu ofan á í hans flokki og þess vegna varð stefna þessarar greinar ekki ofan á sem stefna alþýðusamtakanna.

Í raun og veru þarf ekki annað, en vitna til þessarar greinar sem svars við hinni löngu ræðu hv. þm. og málflutningi flokks hans um þessar mundir, því að það, sem er tilgangurinn með þessu frv., sem hér er um að ræða, er einmitt nákvæmlega það, sem segir í niðurlagi hinnar ágætu greinar forseta Alþýðusambandsins. Það er tilgangur frv. að deila byrðunum nú á bök allra Íslendinga. Framleiðslan er látin taka á sig nokkurn hluta byrðarinnar, t.d. frystihúsin, sem eru látin bera alla kauphækkunina frá því í sumar, fá engar bætur vegna þeirrar 10.7% kauphækkunar. Ríkissjóður á að sýna viðleitni til sparnaðar með niðurfærslu gjalda á fjárlögum og hann á að standa undir nokkurri niðurgreiðslu nauðsynjavara. Álagning í heildsölu og smásölu á að lækka. Bændur eiga að lækka vöru sína sem svarar 10 vísitölustigum. Launþegar allir eiga að gefa eftir af kaupi sínu sem svarar 10 vísitölustigum. Nýja vísitölu á að taka upp í stað þeirrar gömlu.

Þetta eru liðirnir í stefnuskrá forseta Alþýðusambandsins, þáverandi félmrh., í nóv. s.l., og þetta er nákvæmlega kjarni þess frv., sem hér er um að ræða.

Þó að með þessu sé í raun og veru ræðu þm. fullsvarað, þá voru fáein einstök atriði í ræðu hans, sem ég vildi minnast á.

Hv. þm. reyndi að gera þá staðhæfingu, að 1. marz n.k. muni kaupmáttur launa verkamanna og iðnaðarmanna verða örlítið hærri en hann var í okt. s.l., tortryggilega með því að endurtaka staðhæfingar útreikninga, sem birzt hafa í dagblaði undanfarna daga. Ég skal ekki rekja, í hverju sá hugsanagangur liggur eða hvernig reynt er að rökstyðja þá staðhæfingu, sem hv. þm. endurtók nokkrum sinnum, að þessar ráðstafanir þýddu 9.3% kjaraskerðingu verkamanna. Ég geri ráð fyrir, að flestum þm. sé orðið það kunnugt, bæði af blaðaskrifum undanfarna daga og af ræðu hv. þm. nú. En ég skal leyfa mér að benda á með örfáum orðum, í hverju sú rökvilla er fólgin, sem þessi staðhæfing byggist á. Hún gerir ráð fyrir því, að kaupgjaldið samkvæmt kaupgreiðsluvísitölu 202, eins og það varð 1. des. s.l., sé raunverulegt kaupgjald, þ.e., að hægt hefði verið að halda kaupmætti þeirra launa, sem launþegar fengu 1. des. 1958. Einmitt þessi staðhæfing er röng, þessi forsenda er röng. Það var öllum ljóst þá og hlýtur öllum, sem um málið hugsa, að vera ljóst, að það er ekki hægt áfram að halda óbreyttum kaupmætti þeirrar krónutölu kaups, sem svarar til kaupgjaldsvísitölunnar 202. Á því m.a. var það byggt, að allir fyrrv. stjórnarflokkar voru um það sammála að láta vísitöluna ekki hækka 1. des. upp í 202, heldur halda henni í 185. Rökvillan er síðan í því fólgin að gleyma að taka tillit til þess, að eftir 1. des. hljóta að koma fram í verðlaginu ótal verðhækkanir sem afleiðing þess, að kaupið hækkaði 1. des. úr 185 upp í 202, ótal verðhækkanir, sem er ómótmælanlegt að mundu í allra lengsta lagi á 12 mánuðum gera þessa krónutölu kaupsins að nákvæmlega engu, ef ekki minna en engu. Þegar á fyrstu 3 mánuðum eftir 1. des. hefði mjög verulegur hluti þessarar kauphækkunar eyðzt vegna hækkandi verðlags. Á næstu 6 mánuðum hefði enn sigið á sömu hlið og mestur hlutinn þegar horfið. Og í síðasta lagi við verðlagningu landbúnaðarafurða í sept. 1959 hefði þessi kaupmáttaraukning gersamlega horfið, þannig að það er óhætt að staðhæfa, að það hefði í allra lengsta lagi tekið 12 mánuði að brenna þessa kauphækkun upp til agna og líklega meira en það, því að ýmsar þær verðhækkanir, sem hefðu hlotizt af þessari kauphækkun 1. des., svo sem hækkun skatta og útsvara hefðu aldrei fengizt bættar í nýrri hækkun kaups. Það er því óhætt að staðhæfa, að á 5–6 mánuðum hefði í raun og veru öll kauphækkunin étizt upp og á 12 mánuðum hefði hún gert meira en étast upp. Af þessum orsökum er það alveg augljóst mál, að það er fullkomin fölsun að miða kjaraskerðingu vegna þessara ráðstafana fram til 1. marz við það, að kaupgjaldið frá 1. des. 1958 hafi verið raunverulegt kaupgjald, og miða kjaraskerðinguna við upphæð kaupsins, eins og hún varð þá. Með þessu er öllum þessum útreikningum í raun og veru fullsvarað.

Það var reynt að gera þær tölur yfir þessi efni, sem fylgja frv., tortryggilegar á þann hátt, að í okt. 1958 hafi framfærsluvísitalan þegar verið hækkuð frá því 1. sept. Það er auðvitað rétt, vísitalan hækkar alltaf á því 3 mánaða tímabili, sem líður milli þess, að kaupgjaldi er breytt. En sú staðhæfing, að kaupmátturinn 1. marz muni verða hærri en var í okt., er þó miðuð við 1. okt., þannig að aðeins einn mánuður er liðinn af verðhækkunartímabilinu. Það, að þetta er ekki ósanngjörn viðmiðun, sést einnig á því, að sé kaupmátturinn 1. marz 1959, eins og hann verður þá, borinn saman við 1. febr. 1958, þ.e. tímann fyrir efnahagsmálaaðgerðirnar, þá sést, að einnig hefur orðið aukning á kaupmættinum eins og hann verður 1. marz n.k., miðað við 11 mánaða tímabilið allt í heild. Það hefur einnig verið reynt að gera þessar tölur tortryggilegar með því að benda á, að óvarlegt sé að tala um, hver kaupmátturinn raunverulega verði 1. marz, því að hann sé ókominn enn. En þessar staðhæfingar byggjast á því, að ríkisstj. hefur lýst því yfir, bæði í framsöguræðu hæstv. forsrh. og í grg. frv., að ef ekki takist að koma framfærsluvísitölunni niður í 202 stig með þeim verðlækkunarráðstöfunum, sem frv. gerir ráð fyrir, þá muni niðurgreiðslur verða auknar sem því svarar, þannig að það er tryggt, að framfærsluvísitalan verði ekki hærri en 202 stig 1. marz n.k., en það svarar til kaupgreiðsluvísitölu 185, svo að eftirgjöfin getur aldrei orðið meiri samkvæmt yfirlýsingu ríkisstj. en margumrædd 10 stig.

Það þriðja, sem reynt hefur verið að gera þessar staðhæfingar tortryggilegar með er, að niðurgreiðslurnar séu fölsun á vísitölunni, að vísitalan sýni ekki rétta mynd af verðlaginu og niðurgreiðslur jafnvel auki það fals. Um þetta er aðeins það að segja, að þær niðurgreiðslur, sem nú voru teknar upp um áramótin, eru engan veginn fyrstu niðurgreiðslurnar, sem ríkisvaldið hér hefur framkvæmt. Hér hefur verið greitt niður verðlag meira og minna s.1. 15 ár og það er engin nýjung í þessu sambandi. Fulltrúar Alþb. hafa setið í ríkisstj. nú í 2½ ár og búið við mjög miklar niðurgreiðslur á verðlagi, miklar niðurgreiðslur á vísitölu og aldrei allan þennan tíma hreyft því í ríkisstj., að þessar niðurgreiðslur bæri að afnema eða minnka af þeim sökum, að niðurgreiðslur séu fölsun á vísitölunni og þar af leiðandi felist í þeim kjaraskerðing launþegum til handa. Þessar niðurgreiðslur, sem nú hafa verið gerðar, eru eins og aðrar niðurgreiðslur. Það má deila um það mjög mikið, hver áhrif þær hafi, en það vil ég undirstrika, að í eðli sínu eru þær í engu frábrugðnar þeim niðurgreiðslum, sem áður voru í gildi og fulltrúar Alþb. hafa sætt sig við.

Þá sagði hv. þm., að samkvæmt frv. ætti álagning verzlunar ekki að lækka. Þetta er auðvitað misskilningur, enda er það skýrt tekið fram í 10. gr. laganna, að það skuli gert.

Hv. þm. sagði einnig, að það væri í ósamræmi við aðgerðir ríkisstj., að um svipað leyti og þetta frv. hefði verið lagt fram hefði komið í blöðum frásögn af hækkun á afnotagjöldum ríkisútvarpsins. Mér kom svolítið á óvart, að hann skyldi vekja hér máls á þessu, því að ég gerði ráð fyrir því, að honum væri kunnug forsaga þess máls. Það var í ágúst s.l. sem ríkisútvarpið fór fram á það við menntmrn. að fá að hækka afnotagjald af útvarpi úr 200 kr. í 350 kr. 1. des. s.l., eða þegar vitað varð, að kaupgreiðsluvísitala mundi hækka upp í 202 stig og þannig valda ríkisútvarpinu eins og öllum öðrum mjög miklum auknum útgjöldum, samþykkti menntmrh. að leyfa útvarpinu að hækka afnotagjöldin upp í 300 kr. Þetta var 1. des. s.l., áður en fyrrv. stjórn sagði af sér og eftir að málið hafði verið rætt í fyrrv. ríkisstj., af því að ég hafði skýrt á ráðuneytisfundi frá þessari ósk ríkisútvarpsins, svo að þetta hefði hv. þm., sem einnig var ráðh. verðlagsmála í fyrrv. ríkisstj., átt að vera kunnugt. Hitt er svo annað mál, að vegna þeirra breyttu viðhorfa, sem nú eru orðin, vegna þess að þetta frv. hefur verið lagt fram og nær vonandi fram að ganga, þá hef ég nú afráðið að láta þessa hækkun ekki koma til framkvæmda og tilkynnt ríkisútvarpinu það einmitt í dag, og mun það væntanlega koma fram í útvarpi og blöðum á morgun.

Með þessu tel ég ræðu hv. 7. þm. Reykv. vera svarað.

Þá langar mig til þess að fara fáeinum orðum um málið almennt og gera nokkra grein fyrir þeim till., sem uppi hafa verið af hálfu stjórnmálaflokkanna til lausnar þess vanda, sem allri þjóðinni er nú ljóst að steðjar að þjóðarbúskapnum. Vandinn, sem við var að etja, áður en útgerð skyldi hefjast um s.l. áramót, var fólginn í því, að þeim grundvelli, sem lagður hafði verið að hallalausum rekstri útflutningsframleiðslunnar á s.l. vori með löggjöfinni frá því í maí, var gersamlega raskað á s.l. sumri og s.l. hausti. Vandinn var fólginn í því, að það var vitað, að 1. des, mundi vísitalan hækka um 17 stig. Enn var vitað um verðhækkanir, sem voru óframkomnar 1. des., en mundu hækka vísitöluna til viðbótar um 2 stig. Ef síðan ætti að gera útveginum kleift að bera þá hækkun kaupgjalds, sem orðið hafði á s.l. sumri og hausti, með því að hækka bætur til útvegsins tilsvarandi og afla fjár til þess með hækkun yfirfærslu- og innflutningsgjalda, þá hlaut af því að leiða nýja verðhækkun, nýja hækkun á vísitölunni. Sú hækkun var áætluð 8 stig, þannig að við blasti 27 stiga hækkun á vísitölunni. Ég endurtek: 17 stiga hækkunin 1. des., a.m.k. 2 stig vegna óframkominna gamalla verðhækkana sem afleiðing af efnahagsmálaráðstöfununum og um það bil 8 stig, sem leiða mundi af því, að yfirfærslugjöld og innflutningsgjöld yrðu hækkuð, til þess að hægt væri að hækka bætur útvegsins til þess að gera útveginum kleift að standa undir þeirri kaupgjaldshækkun, sem orðið hafði á sumrinu og haustinu. Það var þessi vandi upp á 27 vísitölustig, sem við var og við er enn að glíma.

Fyrrv. stjórnarflokkar lögðu allir í fyrrv. ríkisstj. fram sínar till. um lausn þessa máls, Ég skal segja frá því í örstuttu máli, hver var kjarni þessara tillagna.

Framsfl. varð fyrstur með sína tillögugerð, lagði sínar till. fram 17. nóv. Í aðalatriðum voru þær þessar: Kaupgreiðsluvísitalan skyldi áfram vera 185 stig. Launþegar skyldu gefa eftir 15 stig af þeim 17 stigum, sem vitað var að vísitalan átti að hækka um eftir hálfan mánuð. Hins vegar skyldi engin breyting verða á verðlagi innlendra landbúnaðarafurða, en hækka skyldi útflutningsbætur svo mikið sem nauðsynlegt væri, til þess að rekstrargrundvöllur útvegsins væri jafngóður og hann var á s.l. ári. Þá hækkun vísitölu, sem af þessu hlytist, skyldi greiða niður og mátti því búast við, að niðurgreiðslan samkvæmt till. Framsfl. yrði allt að 12 stigum. Flokkurinn gerði ekki ráð fyrir niðurskurði á fjárlögum á framlögum til verklegra framkvæmda, og það var forsenda þessara tillagna hans, að kaupmáttur launa rýrnaði ekki frá því, sem hann var í okt. s.l., og sýnt fram á, að þetta væri kleift með þessum ráðstöfunum.

Alþb. og Alþfl. lögðu fram sínar till. í aðalatriðum nokkru fyrir mánaðamótin nóvember-desember. Till. Alþb. voru í aðalatriðum þessar:

Kaupgreiðsluvísitalan skyldi áfram vera 185 stig. Skyldi greiða niður 15 vísitölustig og leita annarra ráða, að því er sagði í till., í samráði við stéttasamtökin um leiðir til lækkunar á verðlaginu. Lækka skyldi álagningu, framkvæma niðurskurð á fjárlögum og var talan 40 millj. nefnd í því sambandi. Var tekið fram, að ekki skyldi skerða kjör samkvæmt samningum stéttarfélaga.

Till. Alþfl. voru í aðalatriðum þær að áfram skyldi greiða kaup samkvæmt vísitölu 185. Halda skyldi kaupmætti launa óbreyttum frá því, sem var í október s.l. Launþegar skyldu gefa eftir allt að 10 stigum af kaupgjaldi sínu og framkvæmd skyldi verða nokkur lækkun á afurðaverði bænda. Hækka skyldi útflutningsbætur og greiða afleiðinguna af þeirri hækkun niður og framkvæma skyldi verulega lækkun á útgjöldum á fjárlögum til fjárfestingarframkvæmda aðallega og nefndar allt að 40 millj. kr. í því sambandi.

Ef reynt er að bera saman í örstuttu máli, hvað er sameiginlegt í einstökum atriðum í till. þessara þriggja þáv. stjórnarflokka og hvað ber á milli, held ég, að um það megi segja eftirfarandi: Allir þrír flokkarnir voru sammála um, að kaupgreiðsluvísitala mætti ekki hækka úr 185 upp í 202, ekki hækka sem svarar 17 stigum, eða 9.2%.

Í aðalatriðum var aðferð Framsfl. og Alþfl. til að ráða bót á vandanum hin sama, þ.e. úrræðin skyldu grundvallast á nokkurri eftirgjöf á vísitölustigum og nokkurri niðurgreiðslu. Í till. Framsfl. var gert ráð fyrir 15 stiga eftirgjöf, en afleiðing af till. Alþfl, hefði orðið um 10 stiga eftirgjöf, en svipuð niðurgreiðsla samkv. till. beggja flokkanna. Munurinn á eftirgjöfinni er hins vegar skýranlegur með því, að Framsfl. gerði ekki ráð fyrir neinni lækkun á verði landbúnaðarafurða og hann gerði ekki ráð fyrir neinum niðurskurði á fjárfestingarútgjöldum í fjárl. Ástæðan til þess, að Alþfl. gat gert ráð fyrir nokkru minni eftirgjöf, var þetta tvennt, að hann gerði ráð fyrir nokkurri lækkun á landbúnaðarafurðunum og ráð fyrir allt að 40 millj. kr. niðurskurði á útgjöldum fjárl.

Um till. Alþb. var það hins vegar að segja, að þar var gert ráð fyrir 15 stiga niðurgreiðslu, sem hefði kostað 97 millj, kr., eða allt að 100 millj. kr., án þess að bent væri skýrum stöfum á, hvar hægt væri að afla fjár til þess. Fjáröflunartillögurnar, sem á var bent, niðurskurður á fjárl. um 40 millj. og tekjuöflunarráðstafanir nokkrar, dugðu ekki einu sinni til þess að mæta kostnaðinum við þessar niðurgreiðslur. Auk þess var augljóst mál, að vandinn var ekki 15 stig, heldur 27 stig. Þarna var um að ræða augljóst bil, sem aldrei fékkst augljóst eða skýrt svar um, hvernig Alþb. hygðist brúa. Á það var að vísu bent, að sá liður í þeirra till., sem orðaður var, að leita yrði annarra ráða í samráði við stéttasamtökin um leiðir til lækkunar á verðlagi, þýddi það, að vel mætti ræða það við verkalýðssamtökin, að þau gæfu eftir nokkur vísitölustig, ef bændur gerðu það sama. Á úrslitastundu, þegar verið var að ræða möguleika á endurreisn fyrra stjórnarsamstarfs, var látið í það skína, að ég ekki segi meira, að Alþb. væri reiðubúið til þess að sætta sig við 6 stiga eftirgjöf á vísitölu, ef bændur gæfu hliðstætt eftir, og jafnvel höfðu menn á tilfinningu, að með þessu væri lokaorðið ekki sagt. Ef þetta hefði legið fyrir þegar í nóvember, þá var munurinn á milli sjónarmiða Alþýðu- og Framsfl. annars vegar og Alþb. hins vegar ekki eins mikill og virtist þá.

Þetta sýnir tvennt, að till. Alþb. um málið voru ekki skýrar, meðan á skýrum og ljósum till. þurfti að halda, og þetta sýnir einnig hitt, að Alþb. á úrslitastund var reiðubúið til þess að ræða í meginatriðum nákvæmlega sams konar lausn og þetta frv. grundvallast á, þ.e. gagnkvæma eftirgjöf á vísitölustigum hjá launþegum og bændum. Hér er gert ráð fyrir 10 vísitölustigum. Það var ekki talin fjarstæða að ræða 6 stig, það jafnvel ekki talið síðasta orðið, svo að með hliðsjón af þessu verður að telja hina miklu andstöðu Alþb. gegn þeim grundvallaratriðum, sem þetta frv. byggist á fyrst og fremst, eiga rót sína að rekja til þess, að Alþb. er nú í stjórnarandstöðu, en hinar hugmyndirnar, sem ég gat um áðan, voru fram settar, meðan Alþb. var í stjórn eða var að ræða um að verða aðili að stjórn. Þetta kemur og algerlega heim við þá stefnu, sem kom fram í hinni ágætu grein forseta Alþýðusambandsins, sem ég las í upphafi máls míns, þar sem beinlínis er gert ráð fyrir því, að verkamenn ásamt bændum eigi að falla frá nokkrum vísitölustigum af kaupi sínu.

Þegar þessar staðreyndir eru hafðar í huga, er ekki ástæða til að taka hina hörðu gagnrýni fulltrúa Alþb. á meginstefnu þessa frv. eins alvarlega og ella væri. Þetta voru till. þeirra þriggja þingflokka, sem voru aðilar að fyrrv. ríkisstj., en þær komu allar fram fyrir s.l. áramót. Till. fjórða þingflokksins, Sjálfstfl., komu hins vegar ekki fram fyrr en eftir að stjórnarkreppan var skollin á, en þær voru í aðalatriðum þær, að lækka skyldi grunnkaup og þar af leiðandi einnig verð landbúnaðarafurða um 6%, og í framhaldi af því skyldi síðan einnig lækka annað verðlag í landinu sem svaraði til kaupgjaldslækkunarinnar, þ.e. iðnaðarvörur og þjónustu. Með þessu móti væri hægt, eins og sýnt var fram á réttilega, að halda kaupmætti launa eins og var í okt. s.l. óbreyttum, þrátt fyrir kauplækkunina.

Það má því með sanni segja, að ýmis kjarnaatriði séu sameiginleg í till. eða afstöðu allra þingflokkanna, a.m.k. á einhverju stiginu í þeirra málflutningi, svo sem líka við er að búast, þar sem eðli þessara mála er þannig, að þegar þau eru skoðuð ofan í kjölinn, þá er ekki með sanngirni eða viti hægt að deila um það, hver vandinn sé og hvaða leið sé nauðsynleg til þess að leysa hann.

1. des. s.l. breyttust viðhorfin hins vegar mjög verulega við það, að ekki hafði tekizt að fá fram frestun á kauphækkuninni, sem þá átti að verða og kaupið hækkaði um rúm 9% eða 17 vísitölustig 1. desember. Þar með var í raun og veru burt fallin forsendan fyrir einum meginhlutanum í tillögugerð Alþfl. og Framsfl. frá því í nóv. Þær till. höfðu byggzt á því, að kaupgjaldið, eins og það var þá og hafði verið þá í 3 mánuði, skyldi haldast óbreytt, þ.e. launþegasamtökin falla frá einhverjum hluta af þeim vísitölustigum, sem vitað var að í vændum voru. Með hliðsjón af möguleikanum á því að halda kaupgjaldinu óbreyttu var stungið upp á því að hækka útflutningsbæturnar, þó að það kostaði nýja hækkun verðlags, en greiða þá hækkun verðlags niður. Þegar nú kaupið var hækkað 1. des. og því var augljóst, að færa þyrfti kaupið eitthvað til baka, vegna þess að það var augljóst eftir 1. des., að ekki varð komizt hjá því að færa kaupgjaldið eitthvað til baka, þá var í raun og veru orðið ástæðulaust að fara líka hina leiðina, þá leið að hækka prósentubæturnar og afla nýrra tekna til að standa undir því. Það var ástæðulaust og óskynsamlegt að gera hvort tveggja, bæði að færa kaupgjaldið niður og fara hækkunarleiðina. Það er þess vegna, sem þetta frv. er byggt á þeirri meginhugsun að færa kaupgjaldið og verðlagið eingöngu niður. Það er byggt á þeirri hugsun að fara eingöngu þá leið að færa kaupgjaldið og verðlagið niður, en reyna að komast hjá því að hækka bætur til útvegsins og láta verðhækkun hljótast af því.

Hitt var gersamlega óframkvæmanlegt, að nema staðar við kaupgjald með vísitölu 202, því að þá hefði hækkun bótanna og verðhækkunin af því orðið að vera svo gífurleg, að það hefði velt af stað hreinni verðhækkunar- og verðbólguöldu. Það er nú komið í ljós, að miðað við kaupgjaldsvísitölu 185 hefðu auknar bætur til útvegsins til þess að halda hans hlut óbreyttum þurft að nema um 160 millj. kr. Það er því alveg augljóst, að miðað við vísitöluna 202 hefðu bæturnar þurft að nema upp undir 400 millj. kr. eða hátt á 4. hundruð millj. kr., og að afla svo mikilla tekna og hleypa svo mikilli verðhækkunaröldu af stað hefði verið í hæsta máta óskynsamlegt. Þess vegna var í raun og veru ekki um aðra leið að gera, ef menn vildu ekki stöðvast við 202, en fara með kaupgreiðsluvísitöluna og verðlagið svo langt niður, að það dygði til þess að tryggja rekstrargrundvöll útvegsins. Því segi ég það enn: Hitt hefði verið óskynsamlegt, að taka sinn helminginn upp á hvorn mátann, færa kaupgjaldið dálítið niður og láta verðlagið líka hækka dálítið. Á þessari meginhugsun er þetta frv. byggt, þ.e. að fara eingöngu verðlags- og kauplækkunarleiðina.

Hv. 2. þm. S-M, sagði í ræðu sinni í gær, að hlutur útvegsins hafi í þeim samningum, sem nú er nýlokið, verið bættur mjög verulega frá því, sem var í fyrra, þ.e. hlutdeild sjávarútvegsins í þjóðartekjunum hefði enn verið aukin og hefðu þó ýmsir sagt, held ég, að hann hafi sagt, að nóg hafi verið af slíku gert í fyrra. Hann lét jafnvel liggja orð að því, að sú kauplækkun, sem nú ætti að framkvæma, væri eingöngu hjá almenningi í landinu, væri eingöngu til þess að mæta þeirri aukningu, sem gerð hefði verið á raunverulegri hlutdeild sjávarútvegsins í þjóðartekjunum. Þessi staðhæfing er alröng. Ég skal nú reyna að sýna fram á, að hún er röng. Ég skal reyna að sýna fram á, að sjávarútvegurinn hefur í þessum samningum ekki fengið neitt í sinn hlut nema það, sem klippt og skorið var nauðsynlegt til þess að gera honum kleift að standa undir því hækkaða kaupgjaldi, sem hann samkv. gildandi kjarasamningum verður að greiða á þessari vertíð umfram það, sem hann greiddi á síðustu vertíð.

Ég segi það aftur: Útvegurinn hefur ekkert fengið nú umfram það, sem hann þarf til þess að greiða þá kauphækkun samkv. gildandi kjarasamningum, sem hann verður að bera nú á þessari vertíð og þessu ári umfram það, sem hann bar í fyrra. Meira að segja hafa þýðingarmiklir þættir útvegsins ekki fengið neinar bætur, þó að þeir verði að bera á árinu kauphækkun, og á ég hér við frystihúsin. Þau verða að bera 10.7% kauphækkun á þessu ári umfram það, sem þau urðu að bera í fyrra. Rökin, sem ég get fært fyrir þessari staðhæfingu minni, eru þessi:

Kaupgjald bátasjómanna og að verulegu leyti togarasjómanna líka er nú á þessu ári um 10% hærra, en var í fyrra, miðað við ástandið, eftir að útflutningslögin voru sett. Kaup bátasjómanna hækkaði í samningum um 16%. Það lækkaði aftur um 5.4%, svo að eftir verður um það bil 10% kauphækkun. Svipað eða nokkru lægra á við um togarasjómenn. Kauphækkun verkamanna í krónum reiknað er um 5%. Miðað við lauslega áætlun um tölu bátasjómanna og togarasjómanna annars vegar og verkamanna hins vegar, má gera ráð fyrir; að meðalkauphækkunin nú í ár, miðað við það, sem hún var í fyrra, sé um 6½ %.

Þá er spurningin: Hvað þýðir þessi 6½% kauphækkun mikla útgjaldaaukningu fyrir útveginn í heild? Meðalvinnulaunakostnaður útvegsins er um 70% af hans heildarútgjöldum, þ.e. kaupgjald er um 70% af heildarútgjöldum útvegsins. Þetta þýðir því, að vegna kauphækkunarinnar hækkar rekstrarkostnaður útvegsins um um það bil 4½%.

Útflutningsverðmæti útvegsins í heild er talið vera, miðað við s.l. ár, um 1.850 millj. kr., og 4½% kostnaðaraukning af 1.850 millj. gerir 84 millj. kr.

Frá þessu verður að draga það, að frystihúsin fá ekki að halda þeim sparnaði, sem hlýzt af 5.4% kauplækkuninni, en það er um 18 millj. kr., svo að kostnaðarauki útgerðarinnar í heild verður 84 millj. mínus 18 millj., eða 66 millj. kr., allt saman lauslega reiknað.

Uppbæturnar, sem útvegurinn fær, nema 77 millj. kr. Þar frá verður að draga það, sem greitt er vegna bráðafúatrygginganna og tilheyrir raunverulega árinu 1958, 4 millj., og 7 millj., sem eru vegna þess, að vísitalan í jan. reyndist 202 stig, og bætt er sérstaklega. Þá verður nettó það, sem útvegurinn fær vegna útgjaldaaukningarinnar á árinu 1959, 66 millj. kr. eða einmitt svipuð upphæð og kostnaðaraukning útvegsins er vegna launagreiðslnanna einna saman.

Hver er því niðurstaðan af þessu? Það er sýnt fram á, að launaútgjöld útvegsins í heild verða, miðað við gildandi kjarasamninga, um 66 millj. kr. hærri en þau voru í fyrra og nettóbótaaukningin, sem útvegurinn fær til að standa undir auknum kostnaði árið 1959, er einmitt sama talan. Það má geta þess enn fremur, að nokkrir kostnaðarliðir hafa hækkað, sérstaklega tryggingaiðgjöld, þó ekki verulegir liðir, en í stórum dráttum sýnir þetta, að það, sem útvegurinn fær, er einungis það, sem hann þarf á að halda til að standa undir þeim auknu kaupgreiðslum, sem nýir kjarasamningar hafa á hann lagt.

Það er rétt, að hlutarsjómenn hafa fengið verulegar kjarabætur frá því í fyrra og þetta veldur auknum útgjöldum útvegsins í heild og aukinni bótaþörf úr útflutningssjóði, en um það hélt ég að allir hefðu verið sammála, að sú stétt, sem helzt átti skilið raunverulegar kjarabætur, voru einmitt bátasjómenn. Hjá hinu er ekki hægt að komast, að útvegurinn verður eins og aðrir atvinnuvegir að greiða þá kauphækkun, sem orðið hefur á kaupi verkamanna.

Sú staðhæfing, að með þessum ráðstöfunum sé í raun og veru verið að láta útvegsmenn, sjávarútveginn sem heild, burt séð frá hlutarsjómönnunum, fá aukna hlutdeild í þjóðartekjunum, bæta hag þeirra á kostnað annarra atvinnustétta, hún er röng. Ef útvegurinn hefði ekki fengið þessar 77 millj., þá hefði hagur hans verið skertur frá því, sem var í fyrra, miðað við aðrar atvinnugreinar, landbúnað, iðnað, siglingar og aðrar atvinnugreinar.

Því til frekari áréttingar, að vel hafi verið á málum haldið í þessum samningum, vil ég láta þess getið hér, að formaður stjórnar útflutningssjóðs, Haraldur Jóhannsson hagfræðingur, tók þátt í þessum samningum, og hefur leyft að hafa það eftir sér opinberlega, að hann teldi, að með engu móti hefði verið hægt að semja hagstæðar fyrir útflutningssjóð við útveginn heldur en gert var. M.ö.o.: hann hefur leyft að hafa það eftir sér opinberlega, að hann telji útveginum í engum lið, hvorki smáum né stórum, hafa verið ívilnað miðað við það, sem gert var í fyrra. Haraldur Jóhannsson er maður mjög grandvar og varkár til orðs og æðis, og ég tel bæði aðild hans að samningunum og svo þessi ummæli hans hafa verið og vera tryggingu fyrir því, að þarna hafi verið vel á haldið og af ráðdeild.

Að endingu vil ég svo alveg sérstaklega undirstrika, að vissar greinar sjávarútvegsins fengu ekki aðeins engar bætur, heldur þurftu beinlínis að bera þá kostnaðaraukningu, sem varð á s.l. ári og var það kleift vegna sparnaðar, sem orðið hafði í rekstrinum af ýmsum tækniástæðum, sérstaklega vegna notkunar hinna nýju flökunarvéla, þannig að jafnvel það náðist, að sá sparnaður, sem varð vegna tækniframfara í frystihúsunum á s.l. ári, kom útflutningssjóði og þar með þjóðarheildinni til góða á þann hátt, að frystihúsin bera kauphækkunina alla og fá ekki auknar bætur vegna hennar eða meginhluti frystihúsanna.

Hitt er svo annað mál, að tækniframfarirnar hafa ekki komið þeim öllum jafnmikið til góða og þess vegna var nauðsynlegt að gera sérstakar ráðstafanir til þess að gera hinum verr stæðu frystihúsum, þeim frystihúsum, sem verri hafa aðstöðuna, kleift að bera hina auknu kaupgjaldshækkun, og sú leið var til þess farin að hækka sérbæturnar, svo sem hæstv. forsrh. gerði grein fyrir í sinni framsöguræðu og er því ástæðulaust fyrir mig að víkja nánar að.

Hv. 2. þm. S-M. vék einnig að því í ræðu sinni í gær, að hæstv. forsrh. hafi annaðhvort ekki farið alveg rétt með eða ekki sagt allan sannleikann að því er snertir áhrif niðurfærslunnar á vísitöluna, svo að ég held, að það sé rétt, að það komi hér alveg skýrt fram samkvæmt gögnum frá hagstofunni, hver sannleikurinn er í því máli.

1. des. s.1. var framfærsluvísitalan 220.45 stig. Í desembermánuði hækkaði hún af ýmsum ástæðum og að langmestu leyti vegna þeirra kauphækkana, sem urðu í desember, um 3.72 stig. Hins vegar lækkaði hún í des. vegna niðurgreiðslunnar fyrir áramótin um 12.60 stig, þannig að 1. jan. 1959 var vísitalan 211.57 stig, eða 212 stig. Ef nú hins vegar er reiknað út samkvæmt vísitölugrundvellinum, hve mikið hún á að lækka vegna niðurfærslu kaupgjaldsvísitölu í 175 stig, þá verða það 5.33 stig samkvæmt skýrslum hagstofunnar, sundurliðunina hirði ég ekki um að lesa, svo að gera má ráð fyrir, að eftir 1. jan. verði vísitalan svo sem hér segir: Hún er 211.57 stig 1. jan. Síðan lækkar hún í jan., vegna þess að kippt er til baka verðhækkunum, sem urðu í des. vegna hækkunar kaupsins úr 185 í 202, um 2.32 stig, og fer við það niður í 209.25 stig. Síðan má gera, eins og ég sagði áðan, ráð fyrir 5.33 stiga lækkun á vísitölunni vegna 5.4% kauplækkunar, þ.e.a.s. eftirgjafar 10 stiganna og þá lækkar hún enn ofan í 203.92 stig. Síðan má gera ráð fyrir einhverjum breytingum enn í febr., og þær ættu frekar að verða til lækkunar, til þess að fylla upp í þau 1.92 stig, sem þá vantar á, að hún komist ofan í 202. Ríkisstj. hefur lýst því yfir, að verði þróunin í febr. ekki þannig, að þessi 1.92 stig eyðist vegna verðlækkunarráðstafananna, muni niðurgreiðslur verða auknar sem því svarar, þannig að tryggt verður, að vísitalan verði 1. marz n. k. 202 stig, og það, eins og ég gat um áðan, er meginforsenda allra þeirra áætlana, sem gerðar hafa verið um það, að kaupmátturinn 1. marz mun verða eilítið meiri, en hann var í okt. s.l. og talsvert meiri, en hann var í febr. s.l. Hvað sem menn koma til með um þetta að segja, er sú staðreynd óhagganleg, að verði vísitalan 1. marz n.k. 202 stig, eins og raunar hefur verið tryggt að hún muni verða, verður kaupmátturinn þá eilítið meiri, en hann var í okt. s.l. og febr. s.l.

Með þessu held ég að ég hafi svarað því helzta, sem fram hefur komið í þeim tveim ræðum, sem fyrst og fremst hafa gagnrýnt þetta frv., sem hér liggur fyrir.