11.03.1959
Sameinað þing: 32. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í D-deild Alþingistíðinda. (1936)

64. mál, þörf atvinnuveganna fyrir sérmenntað fólk

Menntmrh. ( Gylfi Þ. Gíslason ):

Herra forseti. Mér finnst rétt, að það komi fram í sambandi við þessa till., að þetta mál hefur nú undanfarið verið til nokkurrar athugunar í viðskmrn. af alveg sérstöku tilefni, sem mér þykir rétt að skýra þingheimi hér frá.

Efnahagssamvinnustofnun Evrópu gerði fyrir nokkru ályktun um það að efna til líkrar rannsóknar og hér er lagt til að stofnað verði til á Íslandi, er tæki til allra aðildarríkja Efnahagssamvinnustofnunarinnar. Það stendur til að rannsaka þörf landa Efnahagssamvinnustofnunarinnar fyrir sérmenntað fólk, einkum og sér í lagi á tæknisviðinu, og því hefur verið beint til allra aðildarríkja stofnunarinnar að láta slíka athugun fram fara í hinum einstöku löndum og senda niðurstöðurnar til miðstöðva stofnunarinnar í París. Stofnunin hefur enn fremur veitt nokkurt fé í þessu skyni, eins konar tækniaðstoð til þessara rannsókna, og hefur verið gert ráð fyrir því, að Ísland njóti þar nokkurs góðs af. Enn fremur er það tilætlun stofnunarinnar, ef í ljós kemur, sem búast má við, að á einstökum sviðum sé ófullnægð þörf fyrir sérmenntað fólk, þá efni stofnunin til námskeiða eða jafnvel sérstaks skólahalds til þess að bæta úr þeim skorti. Vegna þessa ágæta tilboðs Efnahagssamvinnustofnunarinnar hefur þetta mál þegar nokkuð verið athugað, og verður því að sjálfsögðu haldið áfram enn frekar vegna þeirra tilmæla, sem í þessari ályktun felast, ef hún verður samþykkt hér á hinu háa Alþingi.

Þá þykir mér og rétt að láta það koma fram í tilefni af ummælum hv. frsm. nefndarinnar um þá tilhögun, sem verið hefur á úthlutun námsstyrkja, hinna opinberu námsstyrkja af hálfu menntamálaráðs, að ég hef persónulega lengi talið, að þar á mætti verða talsverð breyting, þ.e., að full ástæða væri til þess að taka við úthlutun hinna opinberu námsstyrkja til námsmanna erlendis meira tillit til þarfar atvinnuveganna fyrir sérmenntað fólk, en gert hefur verið, og þess vegna skipaði menntmrn. þegar á árinu 1956, eða haustið 1956, nefnd manna til þess að fjalla um þetta mál. Hún lauk störfum og gerði tillögur, sem þó voru ekki þess eðlis, að ég treysti mér til þess að bera fram ákveðna tillögu við Alþingi eða við þáverandi ríkisstj. á þeim grundvelli. Hins vegar fól menntmrn. nú ekki alls fyrir löngu tveimur mönnum að athuga málið að nýju, því að ég vildi ekki láta það niður falla, og mun nú innan skamms vera von á ábendingu frá þeim, sem ég vona að geri kleift að taka upp að einhverju leyti nýjar reglur að því er varðar úthlutun námsstyrkjanna og þá í þá átt, sem ég gat um áðan, að í auknum mæli yrði tekið tillit til þarfar atvinnuveganna fyrir sérmenntað fólk á hinum ýmsu sviðum. Í því sambandi vil ég benda á, að í því fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir Alþingi, er einmitt gert ráð fyrir því, að menntmrn. setji reglur um úthlutun þeirrar upphæðar, sem gert er ráð fyrir að gangi til námsmanna erlendis. Þessi setning var sett í fjárlagafrv. í haust samkv. till. menntmrn. einmitt með hliðsjón af því, að ég taldi þá og tel enn, að brýna nauðsyn beri til þess að endurskoða þá skipun, sem er enn og hefur verið undanfarið hvað snertir veitingu námsstyrkja. Ég tel því samþykkt þessarar till. ganga í rétta átt og að hér hafi verið hreyft við hinu þarfasta máli og skal vera ánægja að því að hrinda því það áleiðis, sem ég má, ef till. verður samþykkt hér á hinu háa Alþingi.