05.05.1959
Sameinað þing: 45. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í D-deild Alþingistíðinda. (1941)

166. mál, landhelgismál

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Till. sú til þál. um landhelgismál á þskj. 446, sem ég leyfi mér nú að mæla fyrir af hálfu utanrmn., hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að mótmæla harðlega brotum þeim á íslenzkri fiskveiðilöggjöf, sem brezk stjórnarvöld hafa efnt til með stöðugum ofbeldisaðgerðum brezkra herskipa innan íslenzkrar fiskveiðilandhelgi, nú nýlega hvað eftir annað jafnvel innan 4 mílna landhelginnar frá 1952. Þar sem þvílíkar aðgerðir eru augljóslega ætlaðar til að knýja Íslendinga til undanhalds, lýsir Alþingi yfir, að það telur Ísland eiga ótvíræðan rétt til 12 mílna fiskveiðilandhelgi, að afla beri viðurkenningar á rétti þess til landgrunnsins alls, svo sem stefnt var að með lögunum um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins frá 1948, og að ekki komi til mála minni fiskveiðilandhelgi en 12 mílur frá grunnlínum umhverfis landið.“

Eins og segir í grg. á þskj. 446, var það samþykkt á fundi n. 27. apríl með samhljóða atkv. allra nm., að till. þessi skyldi flutt eins og hún nú liggur fyrir, en í n. eiga sæti, eins og kunnugt er, fulltrúar allra þingflokkanna fjögurra, þannig að flutningur till. með þeim hætti, sem ég nú hef lýst, sem og atkvgr, um málið hér í þinginu nít á eftir væntanlega einnig, verður tákn þjóðareiningar Íslendinga í landhelgismálinu.

Ég leyfi mér að minna lauslega á þá atburði, sem eru undanfari þess, að till. er fram borin, og eru þeir raunar hv. alþm. og íslenzku þjóðinni í fersku minni.

Hinn 30. júní 1958 gaf ríkisstjórn Íslands út reglugerð þess efnis, að frá 1. sept. s.á. skyldi fiskveiðilandhelgi Íslands vera 12 sjómílur frá grunnlínum umhverfis landið í stað 4 sjómílna. Þessi reglugerð var eins og hinar eldri reglugerðir frá 1950 og 1952, sett samkvæmt lögum nr. 44 5. apríl 1948, um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins. Hún var eins og þær, stjórnarráðstöfun, byggð á fyrrnefndri löggjöf frá Alþingi. Ég minni á það hér, sem margsinnis hefur verið lýst, að það var fullkunnugt öðrum þjóðum, að Ísland hafði í hyggju að stækka fiskveiðilandhelgi sína og að þeirri ráðstöfun hafði verið frestað með tilliti til viðræðna milli þjóða, að Ísland átti frumkvæði að því hjá Sameinuðu þjóðunum þegar fyrir mörgum árum, að þess yrði freistað að finna lausn mála á alþjóðavettvangi, að Ísland féllst á þátttöku í sérstakri ráðstefnu um þessi mál á öndverðu ári 1958, eftir að hafnað hafði verið óskum þess um afgreiðslu mála á þingi hinna Sameinuðu þjóða, að ákvörðun um útfærslu var ekki tekin, fyrr en nokkru eftir að þeirri ráðstefnu lauk og að fyrirkomulag útfærslunnar var miðað við till., sem fram höfðu komið frá öðrum á þeirri ráðstefnu og átt þar mikið fylgi meðal þjóðanna.

Ég leyfi mér að minna á það, að Ísland hefur við ákvörðun um útfærslu 30. júní 1958 ekki farið út fyrir þau mörk, sem nefnd voru í áliti þjóðréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, og ekki fram úr því, sem sumar aðrar þjóðir hafa ákveðið sér til handa og fengið í framkvæmd.

Ég minni á það síðast, en ekki sízt, að útfærslan var Íslendingum lífsnauðsyn og aðrar þjóðir skiptir það tiltölulega mjög litlu máli, samanborið við Íslendinga, að geta stundað fiskveiðar við Ísland, að Íslendingar eiga miklu meira í hættu, en nokkrir aðrir, að það eru í raun og veru þeir einir, sem stendur af því beinn voði, ef Íslandsmið eru eyðilögð með ört stækkandi fiskiflotum og vaxandi veiðitækni nútímans, og þeir eru því í rauninni eina þjóðin, sem hlýtur að leggja sig alla fram til að koma í veg fyrir, að svo verði.

Ýmsar ríkisstjórnir mótmæltu útfærslu fiskveiðilandhelginnar við Ísland sumarið 1958. Það þurfti út af fyrir sig ekki að koma Íslendingum á óvart, og þessum ríkisstjórnum voru látnar í té skýringar á ákvörðun Íslands. Sumar þjóðir viðurkenndu útfærsluna. Reglugerðin gekk í gildi, eins og til stóð, 1. sept. 1958. Þær þjóðir, sem mótmælt höfðu, viðurkenndu þó í verki útfærsluna með því að láta skip sín hætta veiðum í hinni nýju fiskveiðilandhelgi allar nema ein. Þegar varðskip Íslendinga komu til gæzlustarfa í hinni nýju fiskveiðilandhelgi, fundu þau þar fyrir brezka togara að ólöglegum veiðum. Þar voru fleiri fyrir. Þar voru herskip úr flota Bretlands. Þessi herskip beittu vopnavaldi og komu með því í veg fyrir, að íslenzk varðskip gætu fylgt fram íslenzkum lögum. Og ekki nóg með það, brezk stjórnarvöld eða sjóher þeirra gáfu brezkum togurum fyrirmæli um að stunda ólöglegar veiðar á tilteknum svæðum undir hervernd. Það er því á glöggum rökum byggt, sem í till. stendur, að þau hafi efnt til brota á íslenzkri fiskveiðilöggjöf.

Brezka þjóðin hefur fyrr og síðar átt marga vini á Íslandi. Má vera, að sú vinátta sé nú til fárra fiskvirða metin suður þar, og er þá að taka því. En öll stöndum við undrandi yfir því, sem gerzt hefur. Ofbeldisaðgerðir brezkra herskipa hafa, eins og í till. segir, verið stöðugar síðan 1. sept. 1958. Í seinni tíð hafa þær jafnvel hvað eftir annað átt sér stað innan 4 sjómílna landhelginnar frá 1952, sem álitið var að Bretar hefðu að vissu leyti unað við.

Ríkisstj. Íslands hefur margsinnis mótmælt þessu atferli eftir venjulegum leiðum. Nú þykir hlýða, að Alþingi Íslendinga mótmæli á þann hátt, sem hér er lagt til, og gefi þá jafnframt skýrt til kynna, að á þennan hátt verði Íslendingar ekki knúðir til undanhalds í þessu máli, að Íslendingar séu nú eins staðráðnir í því og nokkru sinni fyrr, að halda fram ótvíræðum rétti sínum til 12 mílna fiskveiðilandhelgi, að þeir telji sér bera að vinna að því að afla viðurkenningar á rétti sínum til landgrunnsins, svo sem að var stefnt með lögunum frá 1948, og að ekki komi til mála minni fiskveiðilandhelgi við Ísland, en 12 mílur frá grunnlínum umhverfis landið.

Ef það er ætlun brezkra stjórnarvalda eða annarra, að hægt sé að knýja Íslendinga til undanhalds með ofbeldi eða að Íslendingar hafi gengið að því hikandi eða að lítt athuguðu máli að færa út fiskveiðilandhelgina, þá er það Alþingis að fullvissa þessa aðila um á þann hátt, sem það eitt getur gert, að þeir hafi misskilið íslenzku þjóðina í þessu máli, fullvissa þá um það með einróma samþykki þessarar till.

Við deilum oft hér á Alþingi og ekki sízt nú þessa dagana. En þeir, sem nú beita Íslendinga ofbeldi, eiga að fá að vita það og raunar allar þjóðir, að í þessu máli stöndum við saman um rétt vorn og lífsnauðsyn þjóðarinnar og komandi kynslóða í þessu landi.