23.01.1959
Neðri deild: 61. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í B-deild Alþingistíðinda. (195)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er nú komið svo með umræðurnar um þetta frv., eins og að mörgu leyti var eðlilegt, að þær fara allvítt og ég býst við, að það þyki ekki nema sjálfsagt, að maður ræði við þessa umr. allmikið fleira, en beinlínis undir frv. heyrir.

Hv. 9. landsk. (ÓB), sem hér var að ljúka síðast ræðu sinni, ræddi mikið um verðbólguna og það er mjög eðlilegt, að menn ræði um hana. Hún er búin að vera mikið vandamál hjá okkur og það lítur nú út fyrir eins og menn séu stundum að gera hverjir öðrum upp skiptar skoðanir í þeim efnum.

Ég held, að það sé ekkert spursmál um það, að menn eru sammála um, að verðbólguna þurfi að stöðva. Það, sem menn eru ekki sammála um er: Hver á að borga? Og það er bezt, að menn geri sér það ljóst frá upphafi, hverjum þeir ætla að sýna reikninginn og um það verður barizt í þessum efnum.

Hv. 9. landsk., sem hér var að ljúka máli sínu áðan, sagði, að ef það væru til aðrar leiðir en þær, sem farnar eru með þessu frv., þá væri rétt að fara þær. Það er alveg hárrétt hjá honum og það væri einmitt óskandi, að það væru flestir hv. þm. í þessari d. svo heiðarlega settir gagnvart þessum málum, að þeir væru reiðubúnir til að taka rökum í sambandi við þau og bitu sig ekki í eitthvað, sem þeir væru búnir að trúa svona og svona lengi, þegar þeir sæju, að hlutirnir væru öðruvísi.

Því fer ákaflega fjarri, að það hafi verið skoðun Alþb., eins og hv. 9. landsk. virtist gjarnan halda, að það ætti ekki að gera neitt. Þvert á móti, verkalýðnum er alveg jafnljóst og öðrum, að hann tapar á verðbólgunni, meira að segja þó að hún sé niðurgreidd. Það eru aðrir menn í landinu, sem græða á verðbólgunni, að því skal ég koma síðar. Við skulum ekki gera hver öðrum upp nein orð í þessu sambandi.

Það dettur engum í hug, að verðbólgan stöðvist af sjálfu sér. Verkalýðshreyfingin á Íslandi hefur verið reiðubúin til samninga um að stöðva verðbólguna. Hún hefur líka verið reiðubúin til þess að fórna í sambandi við það að stöðva verðbólguna. Hún hefur líka verið reiðubúin til alltaf að samþykkja niðurgreiðslu á vöruverði, jafnvel þó að hún hafi oft og tíðum tapað á því. Það hefur ekki verið nein ofstækisfull afstaða, sem verkalýðshreyfingin á Íslandi hefur tekið þannig. Hún hefur verið reiðubúin til þess að semja um þessa hluti, ræða um þessa hluti, en hún hefur bara ekki verið reiðubúin til að fórna að óþörfu, á meðan öllum glundroða, vitleysu og óréttlæti væri við haldið í þjóðfélaginu á hennar kostnað. Og það er það, sem menn þurfa að gera sér ljóst, þegar þetta verður rætt.

Við skulum þá fyrst athuga um það: Er vísitalan orsök að verðbólgu. Það er búið að þusa ósköp um það mál hér, og það eru sumir menn búnir að fá þannig vísitöluna á heilann, að þeir halda bókstaflega, að ef hægt sé að stöðva þessa vísitölu, þá sé allt saman fengið. Hvað er vísitala? Vísitalan er mælikvarði á dýrtíð í þjóðfélaginu, og ef hún er tengd við kaup, eins og hún hefur verið síðustu 17 árin meira eða minna hjá okkur og þau ákvæði hafa verið, að t. d. á 3 mánaða fresti skyldi kaup hækka sjálfkrafa í sambandi við gamla vísitölu, þá hefur vísitalan í bezta falli verið trygging fyrir því, að launin haldist þau sömu. Meira að segja hefur vísitalan ekki að öllu leyti verið trygging fyrir þessu. Ef ekki hefur verið beitt alveg fullkomnustu sanngirni í sambandi við niðurgreiðslu vísitölu, þá hefur það raunverulega kaup farið lækkandi, þrátt fyrir það að það hækkaði samkvæmt vísitölu. Hvað er það þá, sem verkalýðurinn hefur verið að tryggja sér þessi 17 ár frá því 1942, þegar þetta er fyrst gert? Hann hefur verið að tryggja sér það, að hann þyrfti ekki að slást í hverjum einasta mánuði, þyrfti ekki að fara í verkfall á hverjum einasta mánuði eða á 3 mánaða fresti til þess að halda sömu launum, ekki til að hækka launin. Þetta er allt, sem vísitalan er fyrir verkalýðinn. Hún er trygging fyrir því, að hann fái að halda sömu launum og hann hefur samið um og þeim sé ekki stolið af honum með alls konar brögðum valdhafa. Og meira að segja hefur hún ekki einu sinni verið trygging fyrir því, að hann fái að halda þessum sömu launum, heldur hafa þau raunverulegu laun jafnvel farið versnandi oft og tíðum eftir því, hvernig vísitalan hefur verið borguð niður, þegar niður hefur verið greitt. Vísitalan hefur þess vegna verið mjög praktísk fyrir þjóðfélagið. Hún hefur skapað miklu meiri vinnufrið í þjóðfélaginu en ella mundi hafa orðið og þetta er nauðsynlegt að menn geri sér ljóst. Einmitt þegar verið er að hallmæla vísitölunni hvað mest og tala jafnvel um afnám hennar og annað slíkt, þá er bezt, að menn muni þetta.

Hver er þá orsök þessarar margumtöluðu verðbólgu hér á Íslandi? Okkar hálærðu hagfræðingar tala ákaflega mikið um orsakir þessarar verðbólgu. Hv. 9. landsk., sem hér var að ljúka ræðu sinni áðan, talaði um víxlverkanirnar, sem þarna ættu sér stað. Vissulega er margt rétt í því. Hann talaði um spursmálið um útlánaaukningu bankanna og annað slíkt. Það held ég nú satt að segja að hafi hverfandi lítil áhrif í því íslenzka viðskiptakerfi. Það mundi hafa áhrif í venjulegum frjálsum viðskiptum, en ekki í eins bundnum viðskiptum og eru á Íslandi. Hann talaði um fjárfestingarstefnuna og það er alveg rétt. Það er afgerandi, það er úrslitaatriði í sambandi við verðbólgu, hvers konar fjárfestingarstefna ræður í þjóðfélaginu. Ef svo og svo mikið af fjárfestingu þjóðfélagsins er ákaflega ópraktískt, þannig að það er raunverulega tekið svona og svona mikið af almenningi og sett í hluti, sem gefa ekki neinn arð né eru til þægindaaukningar, þá gengur það náttúrlega út yfir lífskjör almennings, þegar til lengdar lætur, þannig að vitlaus fjárfestingarstefna verður þannig óbeint, ef verkalýðurinn reynir að halda í sitt, til þess að auka verðbólgu. Ég skal ekki fara mikið inn á það, ég hef rætt það áður í sambandi við þessi mál og get aðeins minnt á það.

En fyrst við ræðum á annað borð um verðbólguna, þá langar mig nú til þess að benda a. m. k. á eitt atriði, sem ákaflega lítið kemur fram í sambandi við þessar almennu fræðilegu umræður hér um verðbólgu og það er skorturinn á aðhaldi í sambandi við alla verðlagsmyndun innan þess íslenzka verðlagskerfis. Það er talað um, að það sé einhver vísitöluskrúfa, sem verkalýðurinn framkvæmi með sinni baráttu og sinni vísitölutryggingu. En ég vil nú benda á, að þessar sífelldu hækkanir liggja alveg sérstaklega í einu og það er í því, að það hefur viðgengizt nú langa lengi, að jafnóðum sem verkalýðurinn eða launþegar fá kauphækkun eða ef vísitalan hjá þeim hefur hækkað, þá skuli atvinnurekendum leyft að hækka að sama skapi allt verðlag. M. ö. o.: jafnóðum sem t. d. verkamenn með samningum eða verkföllum eða slíku knýja fram einhverja kauphækkun, er atvinnurekendum leyft að hækka allt verðlagið í landinu, fyrst í viðkomandi grein og svo að sama skapi, þegar það nær til annarra framleiðslugreina seinna meir.

Ég veit ekki, hvort menn hafa nokkurn tíma alvarlega hugsað út í, hvað þetta raunverulega þýðir og hvers konar áhrif þetta hefur fyrir þjóðfélagið í heild. Um tíma var þetta jafnvel notað af hálfu yfirvaldanna sem beint keyri gagnvart verkalýðnum. Í hvert skipti sem hann hækkaði sitt kaup, þá var farið svona að og það er alveg nauðsynlegt, að menn athugi þetta greinilega, vegna þess að ég efast um, að menn hafi gert sér alveg grein fyrir því, hverjar afleiðingarnar af þessu eru.

Þegar kaupgjald almennt í þjóðfélagi hækkar, hefur það ekki aðeins góð áhrif fyrir viðkomandi launþega, að þeir fá eitthvað betri kjör. Það hefur líka, ef allt er með eðlilegum hætti, ákveðin góð áhrif fyrir þjóðfélagið. Hvers vegna? Vegna þess, að þegar kaupgjald hækkar með eðlilegum hætti, þá þýðir það eitt af tvennu, að atvinnurekandinn verður að borga þessa kauphækkun af sínum gróða til viðkomandi launþega, eða þá hitt, ef atvinnurekandinn vill ekki sætta sig við það að láta sinn gróða minnka þess vegna, eða ef hann hefur kannske engan gróða fyrir til þess að missa þetta af, þá grípur hann til þeirra ráða að skipuleggja sinn rekstur betur, taka upp betri vélar, taka upp meiri framleiðslu, taka upp skynsamlegri rekstrarhætti. M. ö. o.: undir venjulegu þjóðfélagsskipulagi þýðir hver kauphækkun verkalýðsins, að atvinnureksturinn er á eftir rekinn með skynsamlegra móti. Það þýðir í venjulegu auðvaldsskipulagi, að atvinnurekendurnir haga sínum rekstri á skynsamlegri hátt, þeir reka jafnvel í stærri stíl, þeir jafnvel sameina sig í stærri fyrirtækjum, til þess að þetta verði ódýrara og kauphækkanir verkalýðsins eru þannig það afl, sem knýr fram framfarirnar í atvinnulífinu. Þetta er nauðsynlegt að mönnum sé ljóst, vegna þess að þetta er höfuðhreyfiaflið í sambandi við allar tæknilegar framfarir, — skýringin á því, að í þeim þjóðfélögum, t. d. auðvaldsskipulagsins, sem hæst standa, skuli tiltölulega hæst verkakaup og tæknilegt stig fylgjast að, en í þeim löndum, þar sem verkalýðurinn hefur lægst kaup, þar finnst atvinnurekendum venjulega ekki borga sig að fara að skipuleggja rekstur betur, koma með vinnusparandi vélar eða annað slíkt. M. ö. o.: kauphækkunarbarátta verkalýðsins er um leið dýrmætasta hreyfiaflið fyrir þjóðfélagið til þess að knýja framfarirnar fram.

Hvað er gert hér á Íslandi með því að leyfa hverjum atvinnurekanda, í hvert skipti sem kauphækkun fer fram, að hækka sina vöru að sama skapi? Það er gert það að leyfa honum að veita því yfir á þjóðfélagið í heild í hækkuðu vöruverði, aukinni verðbólgu, sem hann hefur orðið að greiða til verkalýðsins. Það losar viðkomandi smátt eða stórt fyrirtæki við að þurfa að gera sparnaðarráðstafanir, að þurfa að koma inn í sínu fyrirtæki vinnusparandi vélum, betra vinnuskipulagi og finna á annan hátt út, hvernig eigi að hafa reksturinn betri. M. ö. o.: það heldur þjóðfélaginu og atvinnurekstrinum sjálfum á lægra tæknilegu stigi. Ef það er einhver skrúfa, sem hefur þannig hjálpað til þess að skapa verðbólgu í þjóðfélaginu, þá væri það ekki vísitöluskrúfa verkalýðsins og ekki kauphækkanir hans, heldur er það þetta kerfi, að leyfa hverjum einstökum atvinnurekanda og þar með atvinnurekendastéttinni í heild að velta yfir á þjóðfélagsheildina öllum slíkum kauphækkunum. Þarna hefði frá upphafi þurft að skapa aðhald og breyta þarna til. Það hefði þýtt að knýja einmitt sjálfan atvinnureksturinn til þess að taka upp miklu skynsamlegri hætti í þessum efnum. Þetta gildir alveg ótvírætt um alla íslenzka verðmyndun, alla verðmyndun innan þess lokaða íslenzka verðmyndunarkerfis.

Það kemur af öðru um þann hluta okkar verðlagsmyndunarkerfis, sem tengist við útflutninginn, sem er vissulega stór. Ef skapað væri aðhald í þessum efnum, þá mundi líka verða skapað aðhald og tekin upp endurskoðun, í hvert skipti sem verulegar breytingar yrðu viðvíkjandi okkar afstöðu til annarra verðlagssvæða í sambandi við okkar útflutning og í sambandi við okkar innflutning, ef þar yrðu verðlagsbreytingar. Ef allt í einu yrðu stórkostlegar verðhækkanir — skulum við segja — á útlendum vörum, sem fluttar væru inn í landið, þá er það náttúrlega hlutur, sem eðlilega ætti að knýja fram, að íslenzkt þjóðfélagskerfi væri tekið til nokkurrar endurskoðunar um, á hvern hátt er hægt að verða við slíkum miklum hækkunum á útlendri vöru, í staðinn fyrir að hleypa því bara inn í verðlagskerfið að sjálfsögðu með hækkuðu verði og aukinni verðbólgu þar með. Slíkar hækkanir mundu í rauninni alltaf leiða til þess, að á vissan hátt þarf að endurskoða lífskjörin í landinu og sjá, á hvern hátt þjóðin getur borið slíkar verðhækkanir útlends varnings, sem hún þarf að kaupa, að hve miklu leyti sú lífskjararýrnun, sem eðlilega fyrir þjóðarheildina mundi skapast með þess háttar verðhækkunum útlendrar vöru, — á hvern hátt getur t. d. einhver hluti þjóðarinnar, t. d. yfirstéttin í henni, tekið þetta á sig, á hvern hátt væri hægt að koma þarna á skynsamlegri rekstri og svo að lokum, þegar allar aðrar leiðir væru þrotnar, að hve miklu leyti yrði alþýðan í landinu sjálf að bera slíka breytingu.

Það er þetta aðhald viðvíkjandi atvinnurekstrinum, sem alltaf hefur vantað á Íslandi, m. a. vegna þess, að atvinnurekendastéttin, sem sjálf er önnur höfuðvaldastéttin í landinu við hliðina á verkalýðnum, hefur náttúrlega ekki kært sig um að láta þetta lenda á sér og heldur viljað lofa verðbólgunni að aukast í sífellu og losna þannig við að þurfa í sífellu að vera að endurskipuleggja sinn iðnrekstur og sinn atvinnurekstur yfirleitt og bæta hann.

Ég vil minna á það, að um leið og við útrýmum raunverulega þeirri frjálsu samkeppni og öðru slíku úr þjóðfélaginu, þá verðum við að taka upp annað aðhald, sem getur skapað þær framfarir, sem frjálsa samkeppnin með sínum tiltölulega „barbarísku“ aðferðum hefði knúið fram.

Sama og gildir um atvinnureksturinn í þessu sambandi gildir raunverulega líka um ríki og bæi. Það þyrfti alveg jafnt gagnvart ríkinu og bæjum að skapa það aðhald, sem segði raunverulega við þessa aðila: Það dugir ekki fyrir ykkur í sífellu, þegar eitthvert verðlag breytist, að hækka bara alltaf álögur, hvort heldur það heita útsvör eða eitthvað annað slíkt. Það verður, jafnóðum sem útgjöld eru hækkuð, að reyna að draga úr á öðrum sviðum.

Það er nú m. a. okkar hér í þessum sal að sjá um að skapa þetta aðhald og hvernig hefur það tekizt síðustu 10–12 árin? Fjárl. voru — held ég — 1947 214 millj., fjárlfrv., sem liggur fyrir núna, er upp á 900 millj. Það hafa bætzt við 60–70 millj. á ári hverju. Ríkið hefur allan þennan tíma ekki aldeilis gengið á undan með að reyna að skapa aðhald í þessum efnum og við sjáum nokkurn veginn, hvernig þróunin hefur verið. Ég man eftir, þegar ég kom hér fyrst á þing 1937, þá voru fjárl. undir 20 millj.; ég held, að þau hafi verið annaðhvort 18 eða 19. Þá var okkar útflutningur tæpar 60 millj. Nú eru fjárl. sjálf um 900 millj., útflutningurinn kringum 1.000 millj. Svona hafa hlutföllin breytzt þarna á milli. Ég er ekki að segja þar með, að þessi þróun sé öll til hins verra. Það er mikið af henni til hins betra. Það er mjög mikið af því, sem bætzt hefur inn í fjárl. síðan, framlög til almannatrygginga, meira öryggis í landinu og annars, sem gott og nauðsynlegt er fyrir alþýðu manna, að þjóðfélagið hafi með að gera, en mjög mikið af þessu er líka útþensla, meiri eða minni útþensla á skrifstofubákni, sem er bókstaflega stór hlutur af því bara til trafala og bölvunar fyrir þjóðfélagið.

Af hverju hefur nú ekkert aðhald verið í þessum efnum? Af hverju hefur verið hægt að láta það viðgangast, að það væri alltaf á síðustu 10–20 árum verið að lækka gengið, að rýra gjaldeyrinn hjá þjóðinni? Hver er orsökin til þess? Hver er orsökin til þess, að verðbólgan er látin viðgangast á Íslandi? Hverjar eru þær pólitísku orsakir? Mundi þetta hafa gerzt, við skulum segja í Englandi? Mundi atvinnurekendastétt í Englandi t. d. hafa kært sig um að láta svona þróun viðgangast? Nei, hún hefði áreiðanlega hindrað hana. Við lifum það hvað eftir annað hér, að meira að segja bankastjórar seðlabanka og eins voldugir menn í atvinnulífinu og þeir eru alltaf að tala um gengislækkun við þjóðina og segja henni: Ja, það þarf bara endilega að verða gengislækkun. Það er alveg óhjákvæmilegt. — Mér þætti gaman að heyra slík orð frá bankastjórum Englandsbanka eða frá stjórnarmeðlim í brezku ríkisstjórninni. Ég býst við, að þessir menn bregðist venjulega ekki reiðari við, en þegar talað er um og einhverjar flugufregnir eru uppi um það, að sterlingspundið eigi jafnvel að falla. Hvernig stendur á þessu gerólíka viðhorfi hjá valdamönnum í íslenzka þjóðfélaginu annars vegar og svo t. d. í því brezka hins vegar? Af hverju er þetta eiginlega eina auðvaldslandið, þar sem svona hlutur getur komið fyrir, að verðbólgan sé látin viðgangast á þennan hátt? Erlendis, við skulum segja í Englandi, eru eigendur þess fjármagns, sem bankarnir lána út, aðalauðmenn landsins. Það er sjálft auðvaldið brezka, sem á þá stóru banka, sem lána fjármagnið út og eigendur þessa fjármagns hafa áhuga á því, að þegar þeir fá sínar skuldir borgaðar til baka, þá sé það í jafngóðum pundum eins og þau, sem þeir lánuðu það í. Brezka auðmannastéttin skal sjá um það, að reynt sé að viðhalda gengi peninganna.

Hvernig er ástandið hér hjá okkur á Íslandi? Hverjir eru það, sem eiga peningana, sem lánaðir eru út? Ríkið á alla bankana. Ríkið leggur til höfuðstólinn í þá og almenningur á spariféð. Og hverjir eru það, sem ráða svo útlánunum? Ja, það hefur verið svo á undanförnum áratugum, að það hafa verið nokkurn veginn helmingaskipti um það á milli Framsfl. og Sjálfstfl. Þau skekkjast nú kannske öðru hvoru helmingaskiptin og þeir deila kannske stundum um það, hvor þeirra fái betri helminginn. En það eru þessir tveir stóru flokkar, sem hafa ráðið bönkum ríkisins, sparifé almennings og hafa deilt því út til sinna stóru fyrirtækja að láni og þessi stóru fyrirtæki hafa ekki haft sérstakan áhuga á því, að þegar krónurnar væru borgaðar til baka, þá væru þær jafngóðar krónur og þegar þær voru lánaðar út. Og sá aðili, sem hefði átt að passa upp á þetta og reyna að passa upp á það og sá aðili, sem frá upphafi hafði hagsmuni af því að gæta þessa, það var alþýðan sjálf. Hún hefur ekki verið það voldug hér á Alþ., að hún hafi getað gætt þessa.

Þess vegna hefur verðbólguþróunin verið látin viðgangast hérna heima. Hún hefur verið þeim til gróða, sem hafa getað gengið í bönkum ríkisins í sparifé almennings og tekið þar að láni stórfé. Það er þessi svikamylla auðvalds og afturhalds á Íslandi, sem er pólitíska orsökin til þess, að verðbólguþróunin hefur verið látin viðgangast, eins og hún hefur viðgengizt. Ef Sambandið hefði átt Landsbankann og alla peningana í honum og Kveldúlfur Útvegsbankann, þá hefði þetta ekki verið látið viðgangast svona og ef þeir hefðu verið að lána út alla þessa peninga, við skulum vera vissir um það, að þá hefðu öll þau góðu fésýslufyrirtæki, sem að þessu stæðu, séð um, að það væru jafngóðar krónur, sem væru borgaðar til baka.

Þess vegna, þegar við ræðum um verðbólguna, ef við viljum reyna að kryfja þetta til mergjar, þá skulum við rannsaka allt pólitíska fyrirkomulagið á Íslandi og öll pólitísku völdin í sambandi við þetta og ekki bara byrja á að slá því föstu, að kauphækkanir hjá verkalýð séu það, sem knúið hefur fram og sé undirrót alls ills í þjóðfélaginu, verðbólgu og annars slíks og að af því stafi allt saman. Nei, þessi verðbólga hefði aldrei viðgengizt, ef það væru ekki voldugri aðilar en verkalýðssamtökin, því miður eru, sem hefðu hagsmuni af henni.

Ég vísa algerlega þeirri ásökun frá íslenzku verkalýðshreyfingunni, að hún eigi sök á þessari verðbólgu eða að það sé vísitölukerfi hennar, og öll kenning um, að afnám vísitölunnar sé eitthvert læknisráð í þessum efnum, er álíka viturleg og það að leggja til að mölva hitamælinn í staðinn fyrir að reyna að lækna sóttina, sem hitanum veldur. Ég vil taka það fram, að verkalýður Íslands býr nú í dag, jafnvel með þeim óvenjuháu launum, sem útborguð eru 1. des. 1958, við lægra kaupmátt tímakaups, en hann bjó við hvort heldur 1944 eða 1947, þegar reiknað er með þeim venjulegu útgjaldaliðum í sambandi við framfærsluna, en húsaleigan dregin frá. Ég vil minna á þær tölur, sem áður hafa verið notaðar hérna og ekki hefur verið neitað viðvíkjandi kaupmætti tímakaupsins. Þegar reiknað var með 1. júlí 1947 sem 100 og þá án húsaleigunnar, húsaleigan dregin út úr, þá var kaupmáttur tímakaupsins 1. nóv. 1953 84.6%. Þá er það 1. febr. 1955 84.2%. Þá er það 1. nóv. 1956 89.5%. Þá var það 1. nóv. 1957 86.7%, 1. okt. 1958 86.8% og 1. des. 1958 ca. 93%. M. ö. o.: eftir 15 ár, eða ef við viljum heldur taka eftir 12 ár, ár nýsköpunarinnar, ár Marshall-gjafanna og alls þess, sem á hefur gengið þessi ár og alls þess, sem þjóðinni hefur áskotnazt, þá er kaupmáttur tímakaupsins minni hjá verkalýðnum, meira að segja þegar hann er núna í hápunkti 1. des. 1958 af orsökum, sem við allir skiljum, heldur en hann var 1947 og þá var hann sami og hann var 1944.

Það eru ekki kauphækkanir verkalýðsins, sem eru undirrótin að því, sem hérna er um að ræða. Hinu skal ég svo ekki draga úr, um leið og ég legg áherzlu á þetta með kaupmátt tímakaupsins, að hann sé minni, að afkoman, tekjurnar sjálfar, þær eru með bezta móti. En af hverju? Af því að verkalýðurinn á Íslandi vinnur meira, en nokkur verkalýður í nokkru nágrannalandi okkar. Hann hefur meiri tekjur og hefur sérstaklega haft núna á þessu nýliðna ári, en það er af því, að hann vinnur miklu meira, en almennt þykir í flestum menningarþjóðfélögum rétt að menn vinni.

Hæstv. menntmrh. sagði hér í sinni ræðu áðan, að forsendan fyrir því, að hægt sé að halda því kaupgjaldi, sem var 1. des. 1958, sé röng og þess vegna falli allt það, sem haldið hefur verið fram hér. Hvernig dirfist hæstv. menntmrh. að halda þessu fram? Á hverju byggir hann það, að ekki sé hægt að halda kaupgjaldi eins og það var 1. des. 1958, að það sé ekki hægt að halda kaupgjaldi, sem er hvað kaupmátt tímakaups snertir 7% fyrir neðan það, sem var fyrir 12 árum? Vill hæstv. menntmrh. halda því fram, að það sé allt annað í þjóðfélaginu í slíku lagi, öll stjórn á okkar mannfélagi, að verkalýðurinn geti ekki búið við tímakaup, sem sé eins og 1. des. 1958? Vill hann halda því fram, að það sé búið að taka til endurskoðunar allt kerfi ríkisins og þjóðfélagsins og laga það þannig, að út úr öllum skúmaskotum sé búið að hreinsa, allan glundroða sé búið að bæta, þannig að verkalýðurinn geti ekki búið við það tímakaup, sem hann hafði 1. des. 1958? Ég veit, að hæstv. menntmrh. dettur ekki í hug að halda því fram, en hann hugsar þetta aðeins út frá einu og það er út frá því, að ef ekkert sé gert á neinu sviði, hvergi hreyft við neinu, þá sé ósköp erfitt fyrir aumingja atvinnurekendurna að standa undir þessu, að þeir séu ekki einu sinni kúskaðir til þess að reyna að bæta eitthvað hjá sér atvinnureksturinn, skipuleggja hann betur, ef þeir vilja heldur hafa 7 eða 8 súkkulaði- og karamelluverksmiðjur í staðinn fyrir eina og annað slíkt og græða jafnt á öllum, í staðinn fyrir að þeir yrðu einhvern tíma neyddir til þess að skipuleggja reksturinn eitthvað betur hjá sér. Nei, það er ekki til neins að koma og halda slíku fram. Þegar menn ræða þessi mál, þá verða menn að gera svo vel að ræða þjóðfélagskerfið í heild og taka það fyrir og sýna fram á, að það sé í slíku lagi á öllum sviðum, að það sé hvergi hægt að gera betur.

Hæstv. menntmrh. sagði, að það hefði verið nauðsynlegt að halda hlut útvegsmannanna óbreyttum. Ég er nú hræddur um, að honum hafi verið samt breytt til hins betra. En hver segir, að það hafi meira að segja verið nauðsynlegt að halda honum eins og hann var í vor? Það var farið eftir gengislækkunar-„prinsipinu“ að nokkru leyti við þetta í vor. Er nokkur nauðsyn að halda því? Er nokkur nauðsyn að veita útvegsmönnum meiri uppbætur, en þeir nauðsynlega þurfa, heldur en þeir komast af með, fleygja í þá jafnvel 60–70 millj. fram yfir það?

Nei, ég held, að þegar við förum að ræða þessi mál, þá verðum við að taka fyrir og athuga okkar þjóðfélag í heild, áður en við ætlum að slá því föstu, að kaup verkalýðsins sé of hátt og þess vegna verði að skera það niður.

Hæstv. forsrh. sagði í sinni framsöguræðu hér, að það væri einungis um tvær leiðir að ræða: önnur væri nýjar skattaálögur, hin væri launalækkun samkv. þessu frv.

Þetta er ekki rétt. Það er til þriðja leiðin. Það er til leið slíks niðurskurðar á útgjöldum ríkisins og þjóðfélagsins, leið slíks sparnaðar, slíkrar umskipulagningar, slíkrar framleiðsluaukningar hjá þjóðarbúinu, að þá losa þeir verkalýðinn við fórnir eða a. m. k. kæmust eins langt í því að losa við fórnir og nokkur möguleiki væri á.

Verkalýðurinn hefur verið reiðubúinn til þess að vinna að því að stöðva verðbólguna, líka verið reiðubúinn til þess að athuga um þá hluti að fella niður vísitölustig, en að fella niður vísitölustig gegn því, að hann fái þau upp bætt. Það er reikningsatriði fyrir verkalýðinn að fallast á það, hvort það borgi sig fyrir hann að fella niður vísitölustig. 1956 reiknaði hann það út, í september, hvort borgaði sig að sleppa þessum 6 stigum og hann komst að þeirri niðurstöðu, að það borgaði sig, og það var gert. Og það getur borgað sig fyrir verkalýðinn að sleppa svo og svo mörgum stigum og fá í staðinn svo og svo miklar við skulum segja — fjölskylduuppbætur, sleppa við sjúkrasamlags- og tryggingaiðgjöld og allt mögulegt annað slíkt. Þetta er allt reikningsatriði. Verkalýðssamtökin hafa alltaf verið reiðubúin til þess að ræða þessa hluti til þess að stöðva verðbólguhjólið. Það er ekki það, sem staðið hefur á. En þau gera það að kröfu að, að svo miklu leyti sem þau vilja sleppa einhverju af þeim vísitölum, sem þau eiga rétt á samkv. sínum samningum, þá fái þau það að fullu upp bætt og þá fyrst vilja þau fallast á að fara kannske að sleppa einhverju þar niður, að þau væru búin að sjá, að slíkar ráðstafanir væri búið að gera í þjóðfélaginu til sparnaðar og skynsamlegri rekstrar á öllum sviðum, að það væri ekki um annað að ræða en þetta.

Þegar vinstri stjórnin var mynduð sumarið 1956, var þetta orðað þannig, að það ætti að fara fram úttekt á þjóðarbúinu, til þess að verkalýðurinn gæti gengið úr skugga um, að allt væri gert, sem hugsanlegt væri, til þess að spara. Slík úttekt hefur aldrei fengið að fara fram og enn stöndum við — alveg sérstaklega Framsfl. — þess vegna enn þá frammi fyrir því í dag, að verkalýðurinn krefst þess, að slík úttekt fari fram og verkalýðurinn fellst ekki á fórnir, fyrr en hann sér, að slík úttekt hefur verið gerð. Og ég vil vona, að nú, þegar meira að segja Sjálfstfl. fer kannske að hafa nokkur áhrif á ríkisstj., þá hjálpi það frekar til þess, að þessi úttekt, sem verkalýðurinn er búinn að bíða svona lengi eftir, fái nú loksins að fara fram.

Það er sagt núna, að allir eigi að fórna. Þið verðið að fyrirgefa, að ég er ákaflega efagjarn, alltaf þegar ég heyri þetta orð. Mér dettur alltaf í hug það, sem prédikað var 1939. Þá voru stórar fyrirsagnir: Allir eiga að fórna. — Og svo, þegar öllu var á botninn hvolft, var það alltaf þetta, að það var alþýðan, sem átti að fórna fyrir auðvaldið og ríkisbáknið. Við skulum þess vegna reyna að gera okkur ofur litla hugmynd um, hvað um er að ræða í peningum, sem við erum að tala hérna um. En þar komumst við því miður að því, eins og vill venjulega verða hjá okkur, að þegar við förum að ræða hagfræði á Íslandi, þá stöndum við verr að vígi en nokkur önnur þjóð í nokkru af okkar nágrannalöndum. Ef ég væri staddur í Bandaríkjunum í dag, gæti ég flett upp í bók hér fyrir framan mig, og þar stæði skýrt skrifað, hve mikinn gróða öll auðmagnsfyrirtæki í Bandaríkjunum hafa og hve mikil vinnulaun eru greidd út til allra verkamanna í Bandaríkjunum. Við þyrftum ekki neitt að rífast um, hvað þetta væri. Við hefðum þetta svart á hvítu viðurkennt af öllum yfirvöldum og við gætum bara deilt um, hvernig er skynsamlegt að skipta þessum gróða. En hér stöndum við á Íslandi ár eftir ár og rífumst um þessa hluti og getum aldrei fengið svo mikið vit í þjóðarbúskapinn og hans rekstur, að við getum einu sinni haft þetta frammi fyrir okkur.

Þess vegna, þegar við komum með einhverjar tölur í þessu sambandi, þá er allt á huldu, og við getum rifizt endalaust um, hvað sé rétt, og enginn okkar þorir að fullyrða, að það sé áreiðanlega rétt, sem hann segir. Ef ég segi nú, að heildartekjur þjóðarinnar séu 5 milljarðar, — ég býst við, að það sé meira, en ég býst við, að ég taki frekar ekki of djúpt í árinni, þegar ég segi það, — það þýðir a. m. k. yfir 30 þús. á hvert mannsbarn og eftir því, hvort er reiknað með 4 eða 5 manna fjölskyldu, þá 120–150 þús. á hverja fjölskyldu 4–5 manna í landinu að meðaltali. Það eru meðaltekjurnar, ef þessum heildartekjum er jafnt skipt. Megnið af alþýðu manna býr líklega við heildartekjur einhvers staðar í kringum 60 þús. Við vitum, að af öllum þessum tekjum fer nú um þriðjungur í fjárfestingu, a. m. k. um 1.500 millj.; þ. e. þriðjungurinn af því, sem hver maður fær útborgað sem launþegi, svona gróft reiknað, fer í fjárfestingu. Ríki og bær taka aftur í útsvörum og öllu mögulegu, ríkið í sínum sköttum og tollum og annað slíkt og atvinnurekendur sumpart í sínum gróða þannig, að einum þriðjungi af öllu þessu er varið í fjárfestingu. Og fyrir hvern einasta mann í landinu er það náttúrlega strax eitt stóra spursmálið: Er þessu varið rétt? Peningarnir, sem eru teknir af mér, er virkilega nauðsynlegt að taka þá, er þeim varið rétt? Heildartekjur allra launþega í landinu, — þar rennum við jafnt blint í sjóinn, það hefur verið gizkað á 2.900 millj. kr., ég býst við, að það sé ekki fjarri lagi t. d. að gizka á, að af þessum 5 milljörðum fari til þeirra 30 þús. verkamanna og verkakvenna, sem eru í Alþýðusambandi Íslands, um 1.500 millj. Það þýðir, svo að ég reikni með tölum hæstv. ríkisstj., að 5.4% lækkunin hjá þeim mundi þýða þar um 81 millj., að þær mundu vera rúmlega helmingurinn af því, sem öllum launþegum í landinu væri gert að fórna, sem færi þá upp í einar 150 millj., sem væri um að ræða að færa þarna á milli. Ég vil taka það fram, að það er ákaflega erfitt að slá einhverju föstu um þetta, en ef hér hefðu verið einhverjar stofnanir til, sem eitthvað vissu yfirleitt um okkar þjóðarbúskap, þá hefðu þær e. t. v. átt að geta haft tölur til þess að byggja á, sem við gætum verið allir sammála um. En við skulum segja, að það sé um það að ræða, að í kringum 150 millj. sé það, sem eigi að færa til milli launþeganna í landinu og annarra aðila með því frv., sem hérna liggur fyrir, að verkalýðurinn í Alþýðusambandi Íslands eigi að borga þarna úr sínum vasa með þessu rúmar 80 millj. kr.

Það er svo, að þegar talað er um fórnir í þessu sambandi, þá er eins og ákveðnir hlutir í þjóðfélaginu séu alveg „tabú“, séu alveg bann, það megi aldrei koma að því, það megi ekki tala um það. En eitt er það, sem aldrei er „tabú“, eitt er það, sem aldrei er bannhelgi á, held ég. Það eru lífskjör verkalýðsins. Það þykir alltaf sjálfsagt að byrja að tala um, að þar megi vissulega skera niður. Jú, þar sé fjöldinn, það muni um það, þegar hver einstaklingur verði að fórna, þessir einstaklingar í alþýðunni eru svo margir. En ég vil nú segja: Það er ekkert óeðlilegt, að hver einstaklingur út af fyrir sig í þeirri alþýðu spyrji fyrst: Er það nauðsynlegt, að ég sé látinn spara? Er það nauðsynlegt, að alþýðufjöldinn sé látinn spara þessa upphæð fyrir þjóðarbúið? — Þorri launþeganna er með svona 5 þús. kr. mánaðarlaun. Hver er framfærsla, sem ætlað er í dag að sé nauðsynleg samkv. hagtíðindum, sú framfærsla, sem allir viðurkenna að sé miðuð við allt of lágan lífsstandard? Framfærslukostnaðurinn í dag af rúmlega 4 manna fjölskyldu, þegar húsaleiguliðurinn, sem er falskur, er dreginn frá, er 33 þús. Hvað vilja menn úthluta 4 manna fjölskyldu af húsnæði hérna í Reykjavík, að hún borgi á mánuði? Vilja menn úthluta henni 1500 kr., vilja menn úthluta henni 2000 kr.? Sé reiknað með því, að menn þyrftu ekki að borga nema 1500 kr. á mánuði, er framfærslukostnaður slíkrar fjölskyldu kominn upp í 51 þús. á ári. Menn lifa ekki of góðu lífi af 5 þús. kr. mánaðarlaunum. Einn Dagsbrúnarmaður, sem þó vinnur 9 klukkutíma árið um kring, 1 tíma í eftirvinnu, gæti farið upp í 68 þús. Með sínu venjulega kaupi, 5 þús. kr. á mánuði, mundi hann komast upp í 60 þús. Hjá honum breytist það svona frá 5500 upp í 6300, það sem hann kæmi til með að tapa, 9.3%, og er þá lagt saman það, sem hann mundi tapa á 10 stigunum eða því, sem kynni að vera fram yfir þau, og það, sem hann mundi tapa á niðurgreiðslum.

Ég held, að einu eigi menn að geta slegið föstu og það er, að maður eða fjölskylda með 5000 kr. mánaðarlaun eigi ekki að fara að fórna, fyrr en búið sé að þrautkanna allar aðrar leiðir. Og það getur enginn búizt við því, að þorri verkafólks fallist á að sætta sig við þær ráðstafanir, sem mundu skerða þannig laun hans, hvort sem það yrðu 5% eða 10%, hvernig sem við viljum reikna það út, fyrr en búið væri að skera niður annars staðar, þar sem hægt væri og fyrr en verkalýðurinn hefði sannfært sig um, að það hefði verið gert. Og ég vil spyrja ykkur, sem mál mitt heyrið: Eruð þið vissir um, að þið hafið gert allt, sem hægt er, áður en þið grípið til þess óyndisúrræðis að fara að skera niður hjá þessum mönnum með 5 þús. kr. mánaðarlaun? Eruð þið vissir í að hafa stjórnað þjóðfélaginu þannig, að það sé ekki hægt að stjórna því betur, áður en þið skerið niður? Eruð þið vissir um, að þið hafið fengið þessum verkalýð, sem vinnur allt það, sem stendur undir okkar þjóðarbúi, öll þau tæki í hendur, þau beztu og drýgstu og afkastamestu, sem hægt væri, til þess að þjóðarbúið væri sem auðugast? Eruð þið vissir um, að þið hafið skipulagt vinnuna og alla yfirbyggingu þjóðfélagsins það vel og skynsamlega, að hvergi sé hægt að spara þar neitt? Og eruð þið vissir um, að með þessum ráðstöfunum séuð þið að tryggja, að undirstaðan að okkar þjóðlífi, sjávarútvegurinn, gangi, sem sé að sjómennirnir fáist á skipin, með því að skera þannig launin við þá eins og ætlazt er til með þessu frv.?

Eru ekki til neinar 150 millj. kr. í íslenzku þjóðfélagi, sem sé hægt að ráðstafa, áður en byrjað er á þessum mönnum? Ég vil í fyrsta lagi spyrja: Hvernig er með gróða auðfélaganna í þessu þjóðfélagi? Er búið að spara þar á rekstri? Er búið að taka af þeim allt, sem hægt er? Við skulum taka olíufélögin fyrst af öllu. Við erum búnir að sitja tvö ár í ríkisstjórn á Íslandi nú. Við höfum frá hálfu Alþb. látið liggja þar fyrir lengst af þessum tíma till. um að þjóðnýta olíuverzlunina, taka upp ríkisverzlun á olíu, gamlar till. Alþfl. fyrir þessari hv. d. Það hefur ekki verið við það komandi. Það hefur ekki verið við það komandi, að olían, sem er oft upp undir sjötti hlutinn af öllum innflutningi Íslands og þrjú félög hafa núna með að gera, að ríkið sjálft fengi að reka þessa olíuverzlun, að það fengist gengið úr skugga um það, hvort þarna leynist svo og svo mikill gróði eins og almenningur heldur. Og almenningur hefur vissulega ástæðu til þess að halda það. Það er ekki það lítið, sem olíufélögin berast á. Það eru ekki það fáir tankarnir, sem þau setja upp úti um allt land. Það er ekki það lítið fé, sem þeir setja í fjárfestingu. Og það er ekki svo lítið, sem gengur á við aðrar hverjar kosningar um afhjúpanirnar á milli olíufélaganna á gróða þeirra hvort hjá öðru. Það er ekki óeðlilegt, þó að almenningur segi: Áður en byrjað er á mér með 5.000 kr. á mánuði, takið þið olíufélögin fyrir og sýnið, að það sé enginn gróði til. — Það er jafnvel ekki undarlegt, þó að mönnum dytti í hug, að það kynni að vera einhver gróði einhvers staðar á einhverjum verksmiðjum hérna, Coca cola-verksmiðjum og einhverju slíku. Svo að maður komi að jafnvel nytsamari fyrirtækjum eins og hraðfrystihúsunum, það er vitanlegt, að það er tugmillj. kr. gróði á stóru hraðfrystihúsunum hér og í Vestmannaeyjum. Þetta eru að verða ein ríkustu fyrirtæki landsins. Þau eru reyndar byrjuð að kaupa upp útgerðina. Við skulum gera okkur ljóst, að það á sér stað gífurleg gróðamyndun í okkar þjóðfélagi. Og áður en verkalýðurinn getur verið reiðubúinn til þess að fara að fórna, þá þarf hann að sjá það svart á hvítu, að þarna sé búið að sauma að.

Við skulum í öðru lagi hverfa frá sjálfu einkaauðvaldinu og athuga ríkið sjálft. Hvernig er með ríkið? Ríkið ætlar að segja með þessu frv., sem hér liggur fyrir, ef það verður að lögum, við þann almenna verkamann: Þú skalt skera niður 5.4% af þínum fjárlögum, góði minn. — Og við höldum því jafnvel fram sumir, að þetta geti jafnvel farið út í, að það sé sagt við verkamanninn: Þú skalt skera niður allt upp í 10%. — Hvað segir ríkið við sjálft sig? Ætli það væri ekki bezt, að ríkið gengi á undan með góðu fordæmi og byrjaði á því sjálft að skera niður? Væri ekki eðlilegt, að ríkið sýndi það sjálft, hvernig hægt væri að spara 5.4%, þótt ekki væri meira, af 900 millj., en það er einhvers staðar í kringum 50–60 millj., 54 millj. eða þar í kring.

Skyldi ekki ríkið geta byrjað með því sjálft að skera niður hjá sér, ef það ætlast til þess, að hver einstök fjölskylda, sem á að lifa á 5 þús. kr. á mánuði, skeri niður hjá sér frá 5 upp í 10%? Og ég veit, ég heyrði það á hæstv. forsrh., að hann mundi ekki vanta viljann til þess, að þannig væri skorið niður. En það, sem mig grunar, er, að Alþfl. vanti valdið til þess. Mig grunar, að Sjálfstfl. og Framsfl. muni hvorugur reiðubúinn til þess að hjálpa þeim við það. Framsókn var ekki reiðubúin til að gera það við okkur, skera slíkt niður og ég er hræddur um, að Sjálfstfl. reynist líka tregur í taumi þar. Má ég svo bara rétt minna á, þegar ég er að tala um þessar 150 millj., sem á að taka frá verkalýðnum, eða við skulum segja 80 millj., sem á að taka frá meðlimum Alþýðusambands Íslands, má ég þá rétt minna á, hvers konar upphæðir það eru, sem menn eru að fleygja á milli sín hér eins og snjóbolta og vita ekki almennilega, hvar þær eiga að lenda og eiga kannske á hættu, að þær bráðni, meðan menn eru að kasta þeim á milli sín? Það er talað um allt upp í 85 millj kr., sem sé nú hægt að hækka tekjuáætlunina um. Jafnvel hæstv. forsrh. talar um það. Það er vitanlegt, að það er 60–70 millj. kr. greiðsluafgangur á ríkissjóðnum. Því er haldið hér fram og það af mönnum, sem þekkja þar mjög vel til, að það sé borgað 60–70 millj. kr. meira, en þörf væri til útgerðarinnar. Og það er upplýst hér, að af meiri hl. fyrrv. hæstv. ríkisstj. var ákveðið að setja 63 millj. kr. í fjögur fyrirtæki á móti atkvæðum ráðh. Alþb. og án heimildar frá Alþingi. Það eru engar smáræðissummur, 60–70–80 millj., þessu er bara eins og hent á víxl. Hver upphæðin um sig er það sama og öllum meðlimum Alþýðusambands Íslands, 30 þús. að tölu, er gert að fórna með þessu frv. hérna. Það þarf ekki að segja mér, að það sé ekki hægt að taka þessa upphæð annars staðar, ef það er vilji fyrir því.

Og ég get farið í fleiri skúmaskot, en hjá einkaauðvaldinu í landinu og ríkinu til þess að finna margfaldar þessar upphæðir, 60–70–80 millj. Hvernig er með bankana? Hver er gróði bankanna í ár? Máske hæstv. bankamálaráðherra vilji upplýsa okkur um það? Ætli hann hafi ekki verið síðasta ár í kringum 70 millj., gróði bankanna? Skyldi hann vera minni í ár? Kannske, ef seðlabankinn skyldi græða upp undir 20 millj., að meiningin sé að festa allt það fé með því að fara að kaupa eina fasteign enn þá í miðbænum, kaupa upp miðbæinn smátt og smátt? Það væri fyrirmyndar fjárfestingarpólitík. Skyldu ekki vera til einar 70 millj., í skúmaskotum ríkisbankanna sjálfra í hreinum gróða, sem máske mætti taka, ef það ætti að stöðva verðbólguna á Íslandi? Sízt af öllu væri þó ástæða til þess, að bankarnir færu að stórgræða, þegar loksins kæmi að því, að verðbólgan yrði stöðvuð. Maður gat skilið það máske, á meðan hún rúllaði áfram.

Ég sé það hins vegar á þessu frv., að vissulega mun eiga að lækka laun allra starfsmannanna í bönkunum með því, en ég sé ekki, að það séu neinar ráðstafanir neins staðar til þess að lækka verðið og þjónustu bankanna, vextina eða neitt annað slíkt. Það hefur kannske láðst.

Nú er í fjórða lagi, svo að við leitum einhvers staðar að þessum 80–150 millj. víðar en í þessum þrem skúmaskotum, sem ég hef verið að fara í: Hvernig er með fjárfestinguna og alla skipulagningu hennar? Þar er ráðstafað 1.500 millj., þriðjungnum af öllum heildartekjum þjóðarinnar. Er einhver sá þm. í þessari hv. d., sem vill standa upp og segja: Þessum 1.500 millj. er svo vísdómslega ráðstafað að vel yfirlögðu ráði og grandskoðuðu, að þarna er hvergi hægt að spara, hvorki 80 né 150 millj.?

Ég vil leyfa mér að halda því fram, að þessum 1.500 millj. kr. í fjárfestinguna sé ráðstafað yfirleitt í hreinu stjórnleysi, megninu af því meira eða minna óhugsað og mjög miklu af því þannig sjálfkrafa, að mönnum leyfist að leggja í hinar og þessar framkvæmdir, sem menn geta gert reikning á ríkissjóð fyrir á eftir og fá það borgað, þótt þjóðfélagið hafi ekkert við þessar framkvæmdir að gera í svipinn, þó að þær gætu verið kannske góðar seinna meir.

Það þarf enginn að halda því fram, að af þeim 1.500 millj. kr., sem fara í fjárfestingu á Íslandi, sé ekki hægt að spara 80 eða 150 millj., án þess að það komi nokkuð við þjóðarbúið, og jafnvel ef stjórn væri tekin á þessu með áætlunarbúskap, að það yrði þjóðarbúinu miklu betra að ráðstafa 1.300 millj. kr. af viti með fyrirhyggju á þá staði og í þann atvinnurekstur, sem ber þjóðarbúið uppi, í staðinn fyrir að láta það ganga til með því stjórnleysi, sem núna er.

Það er einn þátturinn eftir enn, ef við viljum fara út í þessa sálma. Það er sagt við okkur, þegar verið er að halda siðferðisprédikanir yfir verkalýðnum, að nú verði hann að fórna, því að þjóðin eyði meiru en hún aflar og það er ómögulegt að láta það halda áfram. Og það er náttúrlega alveg hárrétt, það er ómögulegt að láta það halda áfram, að þjóðin eyði meiru, en hún aflar. En hvað um að auka þá öflunina? Það eru tvö ráð til, ef menn eyða of miklu. Annað er máske að skera svo og svo mikið niður, hitt er að reyna að skapa eitthvað dálítið meir. Það hefur ekki staðið á verkalýðnum á Íslandi að vera reiðubúinn til þess bæði að vinna við þau framleiðslutæki, sem kæmu og hafa áhrif um það, að framleiðslutækjanna væri aflað. Verkalýðnum á Íslandi verður ekki kennt um, að það séu ekki fleiri og meiri framleiðslutæki í okkar þjóðarbúi, en nú er. Hann hefur lagt sitt fram til þess, bæði með nýsköpuninni hér á árunum og með þeim áhrifum, sem hann hefur getað haft í þeirri vinstri ríkisstj., sem hann hefur tekið þátt í.

En það er verið að segja við okkur, að það sé verkalýðnum að kenna, hvernig hann hefur gert kröfur hér á árunum, hvernig komið sé. Hvað voru miklar ráðstafanir gerðar til þess á árunum frá 1948–1956 að auka sjávarútveginn íslenzka? Hvar eru fiskarnir, sem veiddir eru af Marshalltogurunum? Hvar er aukningin í sjávarútveginum af þeim togurum og bátum, sem keyptir hafa verið fyrir Marshallfé? Eða var það svo, að Bandaríkjamenn gerðu það að skilyrði í sambandi við öll lán, sem þeir hafa veitt, að ekkert mætti fara til þess að kaupa togara, af því að það yrði til þess að auka grundvöllinn að efnahagslegu sjálfstæði Íslands? Ég skal viðurkenna, að við búum enn þá að þeirri kyrrstöðu hvað snertir öflun lífsgæðanna, sem átti sér stað á árunum frá 1948 til 1956. Verkalýðurinn var á þeim árum áhrifalaus á þjóðarbúskap Íslendinga. Við höfum reynt að gera það, sem við höfum getað, til þess að það væri unnið upp, fengið það þó ekki allt í gegn, ekki nema nokkuð af því. Það hefði verið hægt, ef verkalýðurinn hefði fengið að ráða, að vinna betur á þessum sviðum, fá fleiri togara og verið búnir að fá þá fyrr. Öflunin hefur orðið aftur úr í þessum efnum og það er engin ráðstöfun og engin tillaga og engin tilkynning enn þá, um að auka þessa öflun framleiðslunnar, um að tryggja það að kaupa nýja togara og það eru því síður tillögur um að tryggja not þessara tækja, að þau séu virkilega rekin. Þvert á móti, ég er hræddur um, að með því frv., sem hérna liggur fyrir, væri frekar gerð ráðstöfun til þess að reka sjómennina af flotanum heldur en laða menn að því að fara á flotann.

Nei, þegar við höfum sett fram þá spurningu, hvort það sé réttlátt að heimta fórnir af íslenzka verkalýðnum, þá er ég hræddur um, þegar við erum búnir að rannsaka, hvernig skipulagið á okkar þjóðarbúi er og skiptingin á þjóðartekjunum, að þá verði svarið, að það sé ekki réttlátt að byrja á því að heimta fórnir af verkalýðnum. Og það er ekki nóg með það. Ég er hræddur um, að ef það fengist fram, að byrjað yrði á því að láta verkalýðinn og launþegana fórna, þá yrði ekkert úr hinum sparnaðinum.

Hæstv. forsrh. sagði í sinni framsöguræðu, að hann hefði vonir um, að 40 millj. yrðu þó alltaf skornar niður á fjárl. Já, ég veit, að hæstv. forsrh. mun hafa haft þessa von og ég efast heldur ekki um, að hann mundi hafa vilja. En hverjar eru undirtektirnar nú þegar hjá þeim flokkum, sem eru í meiri hl. hér á Alþingi? Framsfl. var búinn að svara alveg skýrt og skorinort. Hann var ekki reiðubúinn til þess að tala um að skera niður 40 millj., og þess vegna m. a. sprakk vinstri ríkisstj. Og Sjálfstfl. svaraði hér í gær: Nei, hann var ekki heldur reiðubúinn til þess, og það hlakkaði í hv. 1. þm. S-M., þegar hann heyrði það. Hann langaði til að vita, hvort Sjálfstfl. væri til í einhvern niðurskurð á fjárl. og það var svo sem alveg auðséð af hverju. Jú, við vitum, að þessir tveir flokkar eru nú þegar komnir í uppboð hér á Alþ. um, hvor þeirra geti eytt meiru. Þessir tveir flokkar ætla sér núna undir kosningarnar að keppa um það, hvor geti boðið kjördæmunum sínum upp á meira. Það er það, sem þeir eru að slást um.

Ég sá hérna í gær eða í fyrradag þáltill., sem Framsfl. var að útbýta hérna. Þar var lagt til að setja 15 millj. kr. í byggingarsjóð ríkisins. Framsfl. hefur ekki mátt heyra minnzt á það allan tímann, sem við höfum verið í ríkisstj., að gera neitt fyrir þennan sjóð, taka lán handa honum, hvað þá að fara að setja stórfé í hann. En núna, jú, jú, hv. 1. þm. S-M. bara réttir fram höndina og segir: Má ég bjóða ykkur hérna, þið aumingja fólk, sem eigið í vandræðum með að halda húsunum ykkar, má ég bjóða ykkur hérna litlar 15 millj.? — Og verkalýðurinn á að borga með niðurskurði frá 6% upp í 10% af hans launum. Svo kemur Sjálfstfl. Tveir þm. Sjálfstfl. leggja hér fram þáltill. um að borga niður áburðinn. Megum við allra náðugast fá að borga, niður fyrir ykkur áburðinn, bændur góðir? Með hverju, náttúrlega peningum ríkissjóðs, sem á að taka af verkalýðnum með þessum 150 millj., sem við erum að tala um, með þessum 5.4% niðurskurði á laununum eða allt að 10% niðurskurði. — Það er svo sem auðséð, hvað komið er af stað. Það er komið af stað uppboð hér á Alþingi á kjördæmunum og það er verið að reyna að kaupa kjördæmin með því að fleygja peningum ríkisins í þetta, og svo á að prédika yfir verkalýðnum á sama tíma: Blessaðir, fórnið þið nú, skerið þið nú niður. Þjóðfélagið þarf endilega á þessu að halda, til þess að það sé svo hægt að eyða þessum sömu peningum í þessa uppboðssamkeppnisvitleysu.

Sem sé, þegar væri nýbúið að hnupla kannske 80 millj. úr vösum þeirra, sem í Alþýðusambandinu eru, þá á að koma með þetta inn í þingsalinn og segja: Nú skulum við útbýta þessu. — Þetta er skollaleikurinn, sem verið er að leika. Þennan leik þekkir maður. Ég vil segja það, þegar verkalýðnum er boðið að ganga inn í niðurskurðarstofuna, þá mun íslenzkur verkalýður hneigja sig af fullri kurteisi fyrir þeim herrum, sem bjóða honum upp á það, og segja: Mínir herrar, viljið þið ekki gera svo vel að ganga fyrst? Er ekki bezt, að meiri hl. hér á Alþingi byrji á því að skera niður fjárlögin og svo skulum við talast við á eftir. Þið skuluð taka 50–90 millj. kr. af fjárl., og þá skulum við ræða við ykkur.

Verkalýðurinn er hvekktur á þessu sífellda fórnartali við hann. Hann veit, hvað það þýðir. Ég hef rætt þetta mál, það sem af er, fyrst og fremst frá því sjónarmiði, hvað réttlátt sé í þessum efnum. Ég veit ekki, hvort það máske út af fyrir sig eru sterkustu rökin og þau, sem hrífa mest. En það eru a. m. k. rökin, sem verða að vera grundvöllurinn að breytni manns, ef menn ætla að geta varið þá breytni frammi fyrir alþýðu manna, sem kemur til með að leggja í fyrsta lagi siðferðilegan mælikvarða á þessa hluti. Það er svo hægt að taka hina mælikvarðana, hagsmunina og valdaaðstöðuna, sérstaklega fyrir. En um leið legg ég höfuðáherzlu á, að það er ekki réttlátt, sem hér er farið fram á, vegna þess að það er hægt að gera þessa hluti, hægt að skera þetta niður, án þess að gera það á kostnað þess fólks, sem er lagt til að beri byrðarnar með þessu frumvarpi.

Auk þess vil ég leggja áherzlu á og undirstrika það, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði: Með því, sem gert er með þessu frv., er verið að brjóta höfuðreglur, sem gilt hafa og menn hafa aldrei brotið, nema illa hafi farið. Það er verið að brjóta þær reglur, að sá maður í þjóðfélaginu, sem lifir á því einu að selja sitt vinnuafl, fái frjáls og óháður að selja sitt vinnuafl með þeim samningum, sem hans stéttarfélag gerir og að það sé ekki af hálfu ríkisvaldsins fyrirskipað, á hvaða verði hann skuli selja það.

Fyrir utan réttlætismálið í þessu, þá er hér um mál að ræða fyrir verkalýðshreyfinguna, sem er „prinsip“-mál, sem er hugsjónamál, sem er þess eðlis, að hvað sem verkalýðurinn kynni að vera til í að fórna, þegar samið væri við hann og hann búinn að ganga úr skugga um allar mögulegar aðstæður í þjóðfélaginu, þá léti hann ekki bjóða sér upp á það sama, ef á að beita hann ofbeldi, beita hann valdi til þess, vegna þess að þá er verið að traðka hans rétt undir fótum.

Þess vegna er hér um að ræða mál, þar sem verkalýðurinn er um leið að berjast fyrir sínum rétti, þeim sama rétti, sem hann varð að berjast fyrir í bernsku verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi og heyja marga hörðustu hildina út af, réttinum til samninga, réttinum til að vera viðurkenndur sem samningsaðili. Þess vegna er með þessu frv. verið að brjóta í bága við þennan helga rétt verkalýðssamtakanna, og það er það hættulegasta við þetta frv. [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég hafði athugað nokkuð út frá tekjuskiptingu íslenzka þjóðfélagsins, hvort það væri réttlátt að gera þá kröfu til íslenzks verkalýðs, að hann tæki á sig þær byrðar, sem í þessu frv. felast, og komizt að þeirri niðurstöðu, að það er ekki rétt að gera þær kröfur til hans. Það væri svo margt annað, sem þyrfti að gera fyrr, en til þess væri gripið að skera niður, hvort sem maður vill nú meina að það séu 5.4% eða 10% eða einhvers staðar þar á milli af kaupi þess manns, sem hefur 5 þús. kr. á mánuði til þess að lifa af. Það væru svo margir aðrir staðir, þar sem hægt væri að taka þetta og það yrði að byrja þar og ekki koma að þessu, fyrr en allt annað væri þrotið og alls staðar væri búið að spara og skapa betra og réttara og skynsamlegra skipulag, áður en til þeirra óyndisúrræða væri gripið, sem hér eru fólgin í.

En það er rétt að athuga þetta nú líka frá öðru sjónarmiði. Það er ekki aðeins, að þetta sé óréttlátt, það kemur líka önnur spurning undireins upp: Er það framkvæmanlegt? Eru það pólitísk hyggindi að reyna þetta? Ég held, að ég muni það rétt, að Sjálfstfl. hefur stundum letrað sem eins konar kjörorð sitt eitt gott gamalt orðatiltæki íslenzkt: Ger ekki órétt. En seinni parturinn af því er: Þol ekki órétt, og það er það, sem hver, sem finnst hann vera beittur órétti, hlýtur að leggja niður fyrir sér, hvort hann vill þola þetta, og ef íslenzkum verkalýð er boðið upp á það, sem hann álítur sjálfur vera órétt, þá er hætta á, að hann geri þetta kjörorð, sem Sjálfstfl. hefur allmikið letrað á sinn skjöld, að sínu og vilji ekki þola þann órétt. Og þá kemur að þeirri spurningu, hvort verkalýðurinn og verkalýðssamtökin séu þá sá máttur í landinu, að þau geti hindrað, að þeim sé boðið það, sem þau álíta órétt. Og það er þá stjórnmálamannanna, sem taka ákvarðanir um svona hluti eins og þetta frv., að gera það upp við sig. Hvort það sé rétt að fara út í svona hluti? Hvort það sé praktískt? hvort það sé framkvæmanlegt? Og hver er nú reynslan? Framsfl. hefur fengið nokkra reynslu af þessu. Hann hefur reynt að pína fram mál, sem verkalýðurinn áleit órétt. Framsfl. lagði fyrir okkur í ríkisstj., sem nú er farin frá, í vetur þá till., að það skyldi tekin upp gengislækkun og það var reiknað út, hvað það mundi þá kosta og það mundi þýða, ef ætti að afnema styrkina, að gengi á útlendri mynt yrði að hækka um 114%. Það þýddi, að vísitalan hefði hækkað um 38 stig og það átti að stöðva þá kaupið á því, sem áður hafði verið, og það hefði þýtt um 17% lækkun á kaupinu raunverulega.

Alþb. knúði það fram í vinstri ríkisstj., að horfið var frá þessu. Og það var hins vegar þrátt fyrir viðvaranir Alþb. reynt við mál, sem gekk einu sinni ekki eins langt og helmingurinn af þessum till. hafði verið. Það féll í minn hlut þá að vara Framsfl. við því, að það hefði illar afleiðingar að taka ekki tillit til verkalýðshreyfingarinnar, sem hann ynni með, að fylgja eftir með of miklu offorsi því, sem hann áleit máske rétt, en því, sem hinir álitu órétt. Framsfl. tók ekki tillit til þeirra aðvarana, og afleiðingarnar blasa við.

Ég vil aðvara Sjálfstfl., sem er það afl eitt saman, sem getur nú knúið fram þetta frv., sem hér liggur fyrir, um að læra af reynslu Framsóknar og fara ekki í sporin hennar. Og ég vil, jafnvel þó að báðir þessir flokkar stæðu saman, eins og mér virðist nú satt að segja á umr. að þeir hafi ofur litla tilhneigingu til um þetta mál, þá vil ég minna þá á, að þeir hafa báðir saman reynt að fara svona leið fyrr. Þeir hafa báðir saman reynt að skipa málum verkalýðsins með lögum 1942, í janúar, fyrir réttum 17 árum, þegar þeir settu gerðardómslögin þá. Og það má mikið vera, ef báðir flokkarnir eru ekki á þeirri skoðun, að þeir hafi stigið óheillaspor þá. Ég held þeir hafi báðir fengið nóg af því. Það urðu líka tvennar kosningar á því ári, og ég held, að það væri ekki viturlegt af þeim að endurtaka sama leikinn nú.

Alþfl. er að hugsa um að vera með í að gera til reynslu, hvort takast mætti að skerða kaup verkalýðsins með lögum. 1942 hafði hann sig út úr því, þegar það stóð til. Hann segir, að hann vilji lækka hér um 10 vísitölustig, þó að það kunni nú að vera nokkru meira og þá er strax tekið undir það, bæði af Framsfl. og Sjálfstfl., þannig að það er sagt: Jú, það er velkomið að lækka um þessi 10 vísitölustig og þótt meira væri, skilst mér. En þegar Alþfl. minnist, eins og hæstv. forsrh. gerði, á 40 millj., hvort það mætti skera þær niður á fjárlögunum, þá kemur frá báðum flokkunum: Nei takk, láta það vera. — Til þess á verkalýðurinn að borga, að sé hægt að útbýta meiru í sambandi við fjárlögin á Alþ. og keppast svo um að sýna, hvor sé duglegri fyrir hin einstöku kjördæmi, þar sem mjótt er á mununum á milli þeirra. Þá á ekki að spara. Það er verkalýðurinn, sem á að spara.

Ég vil minna Alþfl. á, hvað gerðist 1949 í þessu sambandi. Alþfl. féllst þá fyrir kosningar á nokkrar ráðstafanir, sem voru ekki heppilegar. Hvað gerðist eftir kosningarnar 1949?

Alþfl. var settur út úr ríkisstj. og gengislækkunin var framkvæmd. Hann var búinn að vinna verkið, sem afturhaldið í landinu hafði ætlað honum, það var ekki brúk fyrir hann lengur og hann fékk sparkið. Það er rétt fyrir Alþfl., um leið og hann nú ætlar sér að fara að upplifa það að skerða kaupið með lögum, að minnast þeirrar reynslu, sem hann hefur haft áður. Ég efast ekki um góðan vilja, eins og fram kom hjá hæstv. forsrh., og það kom líka greinilega fram í samþykkt Alþýðuflokksþings. Alþfl. lýsti því þar yfir, að hann vildi gjarnan hafa samráð við verkalýðshreyfinguna. Hann vildi gjarnan framkvæma fjölskyldubætur, koma á jafnvel lækkun eða afnámi á tryggingagjöldunum og sjúkrasamlagsgjöldunum og létta þannig á einstaklingunum, og það kom greinilega líka fram hjá hæstv. forsrh., að hann vildi gjarnan skera niður 40 millj. á fjárlögunum. En engu af þessu fær Alþfl. framgengt með þeirri stjórnarandstöðu, sem nú er. Sjálfstfl. vill ráða þessu og það virðist helzt vera meiningin, að það eigi að fara að afgreiða þetta mál hér, áður en sjáist og áður en nokkur prófsteinn sé kominn á, hvað verði gert í hinu. Ég er hræddur um, að Alþfl. sé að verða fyrir sömu reynslunni í samstarfinu við Sjálfstfl. hvað þetta snertir og við urðum báðir fyrir í samstarfinu við Framsfl. Þessir flokkar, þó að þeir séu það ekki að öllu leyti hjá þjóðinni, a. m. k. Framsfl., eru sterkir hér í þinginu, þeir vilja fá að ráða og ráða anzi miklu og ráða fyrir verkalýðnum og verkalýðsflokkunum líka og það er það, sem við þurfum að venja þessa herra af. Ef menn vilja hafa samstarf við íslenzkan verkalýð, þá verða menn að hafa samstarf við hann sem jafnoka sinn, sem jafningja og taka tillit til hans. Verkalýðurinn mun ekki una því að vera hornreka í neinni hjáleigu. Vilji menn hafa samstarf við hann, þá er það samstarf á jafnréttisgrundvelli, ekki að það sé fyrirskipað og settir neinir úrslitakostir. Slíkt kostar baráttu og þeir, sem byrja hana, verða að taka afleiðingunum. Framsókn hefur fengið að vita þetta og þetta fær hver sá að vita, sem þannig hagar sér í slíkum samskiptum. Íslenzkur verkalýður er svo sterkur, að hann getur leyft sér það að þola ekki órétt. Það má vera, að það þýði, að það gangi þannig, að það verði hver öldugangurinn á fætur öðrum í þjóðfélaginu hvað dýrtíðar- og verðbólguöldu snertir. Það er ekki verkalýðnum að kenna, svo lengi sem ekki er tekið tillit til réttlátra og sanngjarnra krafna hans og aðrar gerir hann ekki. Og þegar litið er til baka og sést, að eftir 15 ár er kaupmáttur tímakaupsins minni, en hann var þá, þá er ekkert undarlegt, þó að verkalýðurinn sé fullur gagnrýni á þær till., sem fram koma og eiga enn að skerða hans kaupmátt.

Ég hef ekki gert að umtalsefni hér, hvort þessi launalækkun, sem hér er um að ræða, sé 5.4%, 9% eða jafnvel 13%. Það er hægt að færa mismunandi rök fyrir því öllu saman og við getum verið ósammála um það, það fer eftir því, hvernig við stillum upp þeim málum.

En eitt er eftirtektarvert í sambandi við þetta. Það er um það talað, sérstaklega af hálfu Sjálfstfl., að þessi launalækkun sé fyrsta skrefi, og það er jafnvel lögð áherzla á, að það sé margt annað þyngra, sem okkar bíður. Mér virtist nokkur mótsetning á milli þeirra höfuðmanna, sem fylgja eða styðja eða hjálpa að afstýra vantrausti á núverandi ríkisstj., hæstv. forsrh. og hv. 1. þm. Reykv., í þeirra ræðum hér í gær. Hæstv. forsrh. sagði, að hver önnur leið væri þungbærari. Það virtist liggja á bak við þetta hjá hæstv, forsrh., að væri þessi leið farin, sem hann leggur til, þá væri hluturinn þar með búinn, það væri bara þessi eina „óperasjón“, það væri bara þessi eina aðgerð, 5.4%, eða hvernig sem við vildum nú reikna það, svo væri sársaukinn búinn. Hv. 1. þm. Reykv. sagði hins vegar, að margt annað þyngra biði þjóðarinnar. Og hann er vanur að vera mjög hreinskilinn í þessum málum og þess vegna þurfum við að athuga, hvað þarna er um að ræða. Ég er hræddur um, að hæstv. forsrh. og Alþfl. í heild geri sér ekki grein fyrir, hvert hann er að fara með þetta. Hann ætti þess vegna, Alþfl., að athuga mjög gaumgæfilega einmitt það, sem 1. þm. Reykv. segir. Hann er raunsær stjórnmálamaður og hugsar alllangt fram í tímann. Og fyrst hv. 1. þm. Reykv. segir: Þetta er aðeins fyrsta skrefið, — m. ö. o.: það er núna verið að fá Alþfl. út í lögbindingu á kaupgjaldi og kauplækkun með lögum. Alþfl. hlýtur að vera það ljóst, að um leið og farið er út á þá leið, þá þýðir það baráttu innan verkalýðssamtakanna, áframhaldandi bræðravíg innan verkalýðssamtakanna, sem við vorum að vonast eftir að við værum að binda endi á, það þýðir að veikja áfram íslenzkan verkalýð, nema hann fylki sér svo kröftuglega öðru hvorum megin út af þessari baráttu, að hann standi þar sameinaður. En hvað sem öðru líður, skapar það hættuna á að veikja hann, og það skapar svo hættuna á hinu fyrir Alþfl., að þegar hann sé búinn að gera þetta, að lögbinda kaupið, þá fái hann sparkið á eftir, nema hann fari að stíga annað skrefið með líka, gengislækkunarskrefið. Hvað er það, sem bíður okkar, ef þetta skref er stigið nú? Við þurfum ekkert að fara í neinar grafgötur með það. Reykjavíkurauðvaldið hefur verið svo elskulegt við okkur að leggja pappírana á borðið og Sjálfstfl. má eiga það, að það er ekki aðeins hreinskilnislega gert, heldur líka rétt af honum að segja eins hreint út og hann gerði, um það leyti sem hann tók að sér að reyna að mynda ríkisstj., hvað það væri, sem hann ætlaði sér. Í þeirri viðreisnarstefnuskrá, eins og hann kallar það, sem Sjálfstfl. birti í Mbl. 19. des., segir svo, með leyfi hæstv. forseta; það er eftir að hann hefur lýst, að þetta, sem nú sé, sé aðeins fyrsta skrefið, þá segir nr. 2: „Stefnt verði að því að afnema uppbótakerfið, svo fljótt sem unnt er, með því að skrá eitt gengi á erlendum gjaldeyri og gera útflutningsatvinnuvegunum kleift að standa á eigin fótum án styrkja.“

Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir, að þegar búið sé að skerða kaupið núna með lögum og festa það nokkurn veginn þangað til í september í haust, og við skulum segja, að síðari kosningar, ef tvennar verða, sem er búizt við á þessu ári, fari í síðasta lagi fram í september, þá eigi að lækka gengið í októbermánuði. Þetta er að vísu ekki frumlegt ráð, gengislækkunin, við könnumst við þetta. Við erum nefnilega alveg nýbúnir að heyra þetta, þegar við vorum í vinstri stjórninni í vetur. Framsfl. kom þá með þetta sama bjargráð: Gengislækkun, afnám styrkjanna, afnám uppbótakerfisins. Og við létum reikna út, hvað þetta þýddi, þetta ráð, sem Sjálfstfl. nú leggur til að sé nr. 2, afnám á uppbótakerfinu. Það þýddi þá, að útlent gengi átti að hækka um 114% og ef kaupgjald átti ekki að hækka, þá þýddi það raunverulega launalækkun upp á 17%. Ég efast ekki um, að Sjálfstfl. mundi hafa aðstöðu til þess eftir tvennar kosningar í sumar að knýja slíkt fram. Ég veit alveg, hvar hann fengi bandamanninn til þess. Það er Framsfl. Það hefur aldrei staðið á Framsfl. að vera reiðubúinn til þess að framkvæma slíka gengislækkun. Ég man meira að segja eftir því, að einu sinni myndaði Sjálfstfl, einn stjórn í landinu, 1950 og ætlaði að framkvæma gengislækkun. Framsfl. gat ekki einu sinni unnað honum þess að fá að framkvæma gengislækkunina einn og fá skömmina af því, heldur vildi Framsfl. endilega fá að vera með, bar fram vantraust á Sjálfstfl. og kom honum frá og fékk svo að vera með í því að framkvæma gengislækkunina, þannig að ég veit, að Framsfl. yrði óður og uppvægur að mynda stjórn með honum í haust til þess að framkvæma gengislækkunina. En ég hef ekki trú á, að meira að segja Alþfl. yrði til í það og við skulum þess vegna alveg gera okkur ljóst, hvert verið er að stefna með þeim yfirlýsingum, sem núna liggja fyrir.

Í þessu er talað um, að það eigi að afnema uppbótakerfið og afnema styrkina og það er í sífellu verið að klifa á því af öllum mögulegum aðilum, að þetta uppbóta- og styrkjafargan sé svo gersamlega óþolandi, að það verði að afnema það. Og vil ég segja það, og ég hef sagt það oftar, að ég er satt að segja orðinn leiður á þessari þvælu. Það er alltaf talað um, að það sé eitthvert hrun hér fram undan, vegna þess að við þurfum að styrkja okkar atvinnuvegi. Allt þetta hruntal er hreinasta holtaþokuvæl, það er ekkert hrun fram undan á Íslandi, Íslendingar hafa lifað með bezta móti, sem þeir hafa lengi lifað, og gætu samt lifað betur, ef þeir stjórnuðu sínum þjóðarbúskap betur. Atvinnuvegirnir eru alltaf styrktir á einn eða annan hátt, svo að maður taki þá bókstaflega, hver einasti atvinnuvegur að heita má í löndunum í kringum okkur eða a. m. k. fjöldinn af þeim er styrktur, þó að það eigi að heita meira og minna frjáls viðskipti, hvort það er í Englandi eða annars staðar.

En ef maður vill fara þjóðhagslega út í það, þá stendur spurningin um það, með hverju á að styrkja atvinnuvegina. Við höfðum hér einu sinni tíma, þegar atvinnuvegirnir voru ekki styrktir, þannig að það var ekki fært á milli svo og svo mikið til togaranna eða bátanna. Jú, vissulega, það er hægt að hafa annan hátt á því með styrkina. Það er hægt að halda togaraútgerðinni uppi með sultarlaunum hjá almenningi á kostnað atvinnuleysis hjá hinum, en það er líka styrkur og hann ekki skemmtilegur. Er það, það ástand, sem á að skapa á Íslandi? Það voru frjáls viðskipti, það var enginn styrkur, engar millifærslur, nóg atvinnuleysi og sultarlaun. Það hélt atvinnuvegunum uppi, hélt togurunum úti þá 100 daga á ári, sem þeir voru reknir. Er það þess háttar ástand, sem menn vilja skapa? Er það þannig, sem menn vilja að það gangi til í hinu svokallaða frjálsa viðskiptafyrirkomulagi um slíkt? En það að láta verkalýðinn búa við lág laun og atvinnuleysi til þess að geta styrkt atvinnuvegina, eins og kallað er, á þann hátt, það eru blóðugustu styrkirnir, sem hægt er að taka til þess að styrkja atvinnuvegina. Það, sem nú er gert og væri hægt að gera skynsamlegar og betur, er skipuleg millifærsla hjá þjóðinni, þannig að þeir atvinnuvegir, sem nauðsynlegastir eru þjóðarbúinu, eru styrktir á þann hátt, að það er tryggt að þeir gangi og atvinnutækjunum sé haldið úti allan ársins hring. En þetta, að þjóðarbúinu sé stjórnað á þennan hátt, stjórnað án atvinnuleysis, stjórnað með fullri vinnu fyrir alla, það krefst hins vegar þess, að alþm. hugsi um þjóðarbúskapinn, að þeir brjóti hans vandamál til mergjar, að þeir skilji, hvernig eigi að fara að því að stjórna þjóðarbúskap í einu landi, að þeir viti, hvaða atvinnuvegir það eru, sem þarf að halda uppi, hvaða atvinnuvegir það eru, sem þjóðarbúinu sé nauðsynlegt að séu auknir, hvaða atvinnuvegum má draga úr eða láta fara hægt fram og hvaða atvinnuvegir það eru, sem þarf að láta taka skjótum framförum og kunni að stjórna í samræmi við þessar þarfir þjóðarinnar. Það krefst þess, að alþm. og ráðh. hugsi út frá heildarhagsmunum þjóðarbúsins, en ekki út frá neinum sérhagsmunum í slíku sambandi. Og það, sem afvega hefur farið í sambandi við styrkja og uppbótaleiðina, er, að þennan hugsunarhátt hefur vantað. Það hefur vantað, að það væri skipulagt og úthugsað fyrir fram, af fyrirhyggju, þekkingu og viti, hvernig ætti að stjórna þjóðarbúskapnum, þannig að lögð væri áherzla á að reka þá atvinnuvegi, sem þjóðinni reið mest á að væru reknir og séð væri um t. d. hvað sjávarútveginn snertir, að aukin væri framleiðslan þar, sem alltaf var hægt að selja allt, sem framleitt var, en dregið úr á ýmsum sviðum, eins og t. d. í landbúnaðinum, þar sem offramleiðsla var fyrir, en þjóðarbúskapnum og þjóðaratvinnuvegunum væri ekki stjórnað út frá augnablikshagsmunum eða hreppapólitík. Það er þetta, sem hefur vantað. Það er þetta, sem hefur brostið á. Má vera, að það lagist eitthvað, ef kjördæmunum verður breytt. En það væri þó hugrekki og vit að sýna, að það væri hægt fyrr. Það gæti verið, að menn færu þá að hugsa dálítið stærra, hugsa um þjóðina sem heild.

Ef nú farið verður inn á þá leið, sem Framsfl. hefur stungið upp á og Sjálfstfl. í sinni viðreisnarstefnuskrá tekið undir, að láta það verða skref nr. 2 að afnema styrki og uppbætur og lækka gengið, þannig að hægt sé að afnema styrki og uppbætur, hver verður þá afleiðingin? Það væri bezt, að menn reiknuðu það með jafnmikilli nákvæmni og menn hafa verið að reikna aðra hluti hér núna. Í upphafi skal endinn skoða, og það væri þá rétt að athuga það í dag, hvað næsta skrefið mundi kosta. Þegar Framsókn lagði þetta skref til, þá kostaði það 17% lækkun, 17% niðurskurð á lífskjörum verkalýðsins. Og ég býst við, að Framsókn og Sjálfstfl. mundu segja, að ef gengislækkun yrði framkvæmd og verkalýðurinn hins vegar léti ekki skera niður sín laun, ja, hvað mundi þá taka við? Jú, þá mundum við líklega fá álíka lýsingu og hjá hv. 9. landsk. hér áðan, verðbólguflóðið mundi dynja yfir. Þetta kemur alltaf til með að verða viðkvæðið, svo lengi sem menn ekki þora að brjóta þessi vandamál til mergjar. Ef þetta yrði gert, hvernig fer þá ástandið að líta út á Íslandi? Það var gengislækkun 1950. Það yrði þá gengislækkun, við skulum segja 1960. Og ef sömu pólitíkinni verður haldið áfram eins og verið hefur þennan áratug á næsta áratugnum, þá yrði í síðasta lagi líklega 1970 gengislækkun. Er það svona, sem þetta á að ganga? Og hvað gerist í sambandi við hverja af þessum gengislækkunum? Við, sem vorum hér við gengislækkunina 1950, munum eftir, hvernig það var þá. Jú, við hverja einustu af þessum aðgerðum eru sendir út hálærðir hagfræðingar, sem eiga að sanna, að þetta sé alveg óhjákvæmilegt. Þeir koma hér með alls konar háfleyga speki, lesa yfir sauðsvörtum almúganum, koma hér með ákaflega lærð orð og miklar tölur og niðurstaðan af öllu saman er, að fólkið eigi að fórna, það sé engin önnur leið. Og mér sýnist það ganga ósköp vel hjá þessum hagfræðingum ríkisstj., hvort það var fyrir 10 árum eða núna, að sanna með sínum tölum og sinni hagspeki allt það, sem yfirstéttinni í landinu kemur vel, rétt eins og skólaspekingarnir á miðöldum sönnuðu allar firrur gömlu guðfræðinnar þá. Þeir svörtu klerkar miðaldanna prédikuðu þá yfir almenningi, að hann væri svo syndum spilltur, að hann hefði notað sér svo allt of mikið af gæðum þessa heims, að hans biði ekkert annað en kvalir helvítis hinum megin, það væri guðs refsidómur yfir honum, og það eina, sem sauðsvarti almúginn gæti gert, væri að fórna upp til guðanna til þess að biðja um náð. Maður lifir það núna hvað eftir annað, áratug eftir áratug, að sótsvartir hagfræðingar ríkisstj. komi hér hver á fætur öðrum og prédiki nú í fjórtán ár yfir fólkinu, að því líði allt of vel, það lifi allt of vel í þessu landi. Það bíði þess ekkert annað en hrunið, það hafi dirfzt að lifa svo vel, að nú sé ekkert annað ráð en að fórna og fórna. Ég held, að þessir kredduklerkar hagfræðinnar skilji álíka lítið kjarnann í hagfræðinni og kredduklerkar miðaldanna skildu kjarnann í guðfræðinni og bróðurkærleikskenningu kristindómsins þá. Engum þessara hagfræðinga, allt frá því að Benjamín byrjaði, hefur nokkurn tíma dottið í hug, að það væri hægt að auka framleiðslu þjóðfélagsins þannig, að mannfélaginu gæti liðið betur hérna. Aldrei hafa í einni einustu af þeirra tillögum komið fram tillögur um það, að þjóðfélagið ætti að kaupa sér eitthvað dálítið af framleiðslutækjum og framleiða meira.

Nei, 1950, þegar gengið var fellt samkv. öllum þeim forsendum, sem þá lágu fyrir, og þeim hagfræðingum var trúað eins og nýju neti, þó að enginn, sem trúði þeim þá, dirfist að minnast á þær núna, — allar forsendurnar, sem þeir lögðu fyrir þá, sýndu og sönnuðu, að Ísland hafði aðeins gert eina stóra vitleysu á árunum áður og það var að fara í að kaupa nýsköpunartogarana. Svona gersneyddir hafa hagfræðingarnir, sem mest hafa prédikað um þessi mál og mest tillit hefur verið tekið til, verið lífinu sjálfu í öllu þessu, því, sem hver einasti maður úti á landi í smáþorpi veit og skilur, að til þess að lífskjör hans geti batnað, þá þurfi hann að fá fleiri fleytur og geta dregið meira af fiski og veitt sér fulla atvinnu allan ársins hring.

Hagfræðingar þeirrar ríkisstj., sem stóðu að gengislækkuninni 1950 og undirbúa gengislækkun nú, hafa ekki skilið þetta enn þá og raunar var erfitt að koma sjálfum ráðherrum Framsfl. í skilning um, að þetta væri undirstaða, og hefur þó verið reynt að kenna þeim það í síðustu 15 ár, en ekki búnir að læra það enn þá til fulls nema í hæsta lagi fyrir kosningar, þá sjá þeir helzt, að það sé eitthvað dálítið gagn t. d. af togurum fyrir kjördæmin.

Ég held þess vegna, að það væri tími til kominn, áður en Sjálfstfl. og Framsfl. fara nú aftur að taka höndum saman eftir 10 ár um gengislækkun, að þeir athugi afleiðingarnar af hlutunum, sem þeir eru að framkvæma.

Gengislækkunin var skref nr. 2. Sjálfstfl. letraði í sinni viðreisnarstefnuskrá sem skref nr. 3, með leyfi hæstv. forseta: „Jafnframt verði lagður grundvöllur að frelsi í atvinnurekstri og viðskiptum, svo að hægt sé að afnema þau höft, sem nú eru á viðskiptum og framkvæmdum.“

Þá kemur að því, hvers konar viðreisn það yrði og ég veit, að það eru fleiri, sem eru nokkuð næmir fyrir þessu frelsi. Það hefur ekki farið fram hjá mér, að hæstv. menntmrh. hefur verið allra manna hrifnastur af því, að það mundi boða íslenzku þjóðinni nokkuð gott, ef t. d. fríverzlunarsvæðið yrði til og Ísland gæti orðið þátttakandi í fríverzlun og það eru ýmsir, sem gera sér tálvonir um það, að af slíku mundi einhverja viðreisn leiða.

Við skulum gera okkur alveg ljóst, hvað þessir hlutir mundu þýða, því að það virðist vera von þeirra manna, sem eru orðnir þreyttir á styrkja- og uppbótafarganinu, eins og þeir kalla það, að viðskiptafrelsið mundi færa Íslandi mikið gott í bú, jafnvel viðreisn, eins og Sjálfstfl. talar um.

Hv. 2. þm. Reykv. mun eiga að tala hér eftir mér, ef hann er ekki veikur, eða kannske annars seinna. Hann var atvmrh., ef ég man rétt, eftir 1950, þegar viðreisnin, sem ég held að leiðari Morgunblaðsins í dag sé um, komst á eftir gengislækkunina 1950. Hvers konar viðreisn var það fyrir alþýðuheimilin í Reykjavík? Sú viðreisn þýddi niðurrif á því atvinnuöryggi, sem einmitt Sjálfstfl., Sósfl. og Alþfl. á árunum 1944–1947 höfðu tekið saman höndum um að leggja grundvöll að.

Í fyrsta skipti eftir stríð varð atvinnuleysi í Reykjavík 1951. Það var viðreisnin. M. ö. o.: þessi viðreisn og þetta frelsi, sem þá var verið að innleiða, þýddi versta niðurrifið, sem hægt var að hugsa sér fyrir alþýðuheimilin. Það var að svipta menn því öryggi að geta verið vissir um vinnu hvern dag og geta jafnvel, ef menn vildu leggja eins mikið að sér og okkar þjóð og okkar verkalýður gerir nú, fengið að vinna meira en 8 tíma á dag og vinna eins og nú er unnið, ekki kannske aðeins 9 og 10 tíma, heldur jafnvel oft og tíðum helgar og fríin líka. Hv. núv. 2. þm. Reykv. fékk sem atvmrh. þá heimsókn frá verkamönnunum hér í Reykjavík, sem voru atvinnulausir niðri við höfn, þegar hann hélt því fram hér í þingsölunum, að það væri ekkert atvinnuleysi til í Reykjavík. Er það þetta ástand, sem á að skapa aftur?

Ég vil vekja athygli manna á því, að það er atvinnuleysi í hverju einasta landi hér í kringum okkur, í Noregi, í Svíþjóð, í Danmörku og í Englandi, og vaxandi atvinnuleysi í mörgum þeirra. Það er ekkert atvinnuleysi á Íslandi og það stafar af því, að þótt ófullkomið sé og þótt margt hafi farið úr reipunum, þá hefur þó verið sýnd sú viðleitni að reyna að viðhalda þjóðarbúskap án atvinnuleysis á Íslandi, og slíkt er aðeins hægt með því, að þjóðfélagið hafi sjálft meira eða minna stjórn á því, hvernig atvinnulífinu er háttað. Það, sem hefur verið okkar ógæfa var, að það var aldrei hægt að fá að skapa neina heildarstjórn á þessu, svo að þess vegna hefur það svo mikið farið úr reipunum, þó að stærsta atriðið í því að tryggja fulla atvinnu hafi tekizt. Það, sem þurfti að gera, var að stiga eitt spor áfram til þess að skapa áætlunarbúskap, heildarstjórn á þjóðarbúskapnum á Íslandi, en ekki að láta sig dreyma um að stíga eitt spor aftur á bak og rífa niður það atvinnuöryggi, sem skapað hefur verið.

Það féll í minn hlut í vor að vara Framsfl. við því tillitsleysi, sem hann sýndi verkalýðshreyfingunni þá. Framsfl. skeytti því engu. Ég veit ekki, hve lengi hann mun verða að læra, það getur a. m. k. tekið áratugi með þessu áframhaldi.

Ég vil vara Sjálfstfl. við því núna, sem mér sýnist hann vera að gera. Mér sýnist Sjálfstfl. með því að ætla að fara inn á þá braut, sem mörkuð er með þessu frv., vera að fara inn á gamla lagið, gömlu línuna sína frá 1939, frá 1942, frá 1950, þegar hann í öll skiptin ásamt Framsókn tók höndum saman við hana, um meiri eða minni gengislækkanir, gerðar dómslög eða lögbundna kjaraskerðingu hjá íslenzkum verkalýð. Mér sýnist þetta um Sjálfstfl., og hélt ég þó, að hann hefði, á meðan hann var í stjórnarandstöðu, vanizt við það róttæka tóna, að hann hefði nú kannske haldið því lagi nokkru eftir að hann fór að hjálpa ríkisstj. á ný og þess vegna kannske átt að bera gæfu til þess að rifja upp það, sem hann gerði, þegar hann tók höndum saman við Alþfl. og Sósfl. á nýsköpunartímunum um að hækka kaup almennings og tryggja batnandi lífskjör almennings með því að leggja grundvöll að voldugu og stórvirku framleiðslubákni íslenzku þjóðarinnar.

Sú pólitík, sem farið er inn á með þessu frv., lögbundin gengislækkun, lögbundin launalækkun með eftirfylgjandi gengislækkun og þar á eftir atvinnuleysi, er stríðsyfirlýsing auðvaldsins á hendur íslenzka verkalýðnum. Það er hótun til okkar um að knýja þá framsóknarpólitík fram, sem við höfum verið að hindra í vetur og stjórnin var sprengd út af. Ég vil vara Sjálfstfl. við að fara inn á þessa leið. Tækifæri til þess að stöðvast á þessari leið er nú. Ég vil vara auðmenn og atvinnurekendur Reykjavíkur við að leggja út í þessa árás á lífskjör verkalýðsins, út í þennan slag.

Það, sem íslenzka þjóðin þarf í dag, er ekki stríð á milli stéttanna. Það, sem íslenzka þjóðin þarf í dag, það er friður, það er sætt, það er að taka höndum saman um að lyfta því grettistaki að stórauka framleiðslutæki þjóðarinnar, stórauka hagnýt afköst hennar með skynsamlegri stjórn á þjóðarbúskapnum, að gera Ísland að fyrirmyndarlandi í félagslegum efnum, að lífskjörum og réttlæti í viðskiptum mannanna. En það verður enginn friður saminn af hálfu íslenzkrar alþýðu á grundvelli ófrelsis og kúgunarlaga, á grundvelli lífskjaraskerðingar hjá verkalýðnum, meðan öll óreiða þjóðarbúskaparins, allur glundroðinn í ríkisbúskapnum og eyðslan og allur gróði yfirstéttarinnar er óskertur.

Verkalýðurinn er reiðubúinn til samstarfs um að stöðva verðbólguna. En komið ekki til mannsins með 5.000 kr. mánaðarlaun og segið honum að fórna, fyrr en þið eruð búnir að gera allt, sem ykkar samvizka býður ykkur, allt, sem hægt er að sýna ykkur fram á að hægt sé að bæta í þjóðfélaginu. Gerið það fyrst, og ef það ekki dugir, komið þá og talið við þá alþýðu, en fyrr ekki.