05.05.1959
Sameinað þing: 45. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í D-deild Alþingistíðinda. (1953)

120. mál, athugun á nýjum björgunartækjum

Frsm. ( Benedikt Gröndal ):

Herra forseti. Till. þessi er flutt af 4 þm., einum úr hverjum þingfl., og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta í samráði við Slysavarnafélag Íslands fara fram athugun á möguleikum til öflunar nýrra björgunartækja og fullkomnari útbúnaðar skipa til aukins öryggis ísl. sjómanna og sjófarenda.“

Allshn. hefur fjallað um þessa till. og leitað álits skipaskoðunarstjóra og Slysavarnafélags Íslands á henni.

Ég hygg, að allir geti verið sammála um það, að íslenzka þjóðin megi einskis láta ófreistað til að hagnýta fullkomnustu björgunartæki fyrir farmenn og fiskimenn. Skipaskoðun ríkisins hefur á þessu sviði unnið mjög mikið starf, sem er þakkarvert í alla staði. Þó er það álit forráðamanna þar, að betur hefði mátt gera, ef stofnunin hefði haft til þess nokkru rýmri fjárráð.

Allshn. lítur svo á, að samþykkt þessarar till. mundi enn vekja athygli á þessu mikla máli, sýna vilja Alþ., sem væntanlega gæti á ýmsan hátt komið fram í verki og orðið til þess að skapa þeim aðilum, sem að þessum störfum vinna, betri aðstöðu og verða þannig til þess að fleyta þessum málum nokkuð í rétta átt með þjóðinni.

Allshn. mælir með samþykkt till., utan hvað einn nm. hefur skrifað undir álitið með fyrirvara.